23.03.1948
Efri deild: 85. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta mál, sem komið hefur frá Nd., og hefur orðið sammála um að mæla með því, að það verði samþ., þó að undanskildum einum nm., sem ekki var þá tilbúinn til þess að taka afstöðu til málsins, hvorki með né móti.

Hér er um að ræða frv., sem flutt er samkvæmt tilmælum bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar. Málið er tiltölulega einfalt. Það er heimild fyrir ríkisstj. til þess að leyfa að koma upp og reka hitaaflstöð og hitaveitu á Ísafirði og svo að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. tekur gildar, lán til þessara framkvæmda. Hér er einungis um heimildarlög að ræða, heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast þetta lán, ef hún telur fyrirtækið þannig vaxið, að það sé rétt að veita þetta lán og að hér sé um rétta stefnu að ræða.

— Ísafjarðarkaupstaður hefur nú alveg ófullnægjandi raforku. Samkvæmt þeirri athugun, sem verkfræðingar hafa gert, er þetta, sem hér er um að ræða, talin skynsamlegasta leiðin til þess að bæta úr því, þ.e.a.s. að koma upp eimtúrbínustöð, sem hvort tveggja í senn sjái bænum fyrir nægilegu rafmagni og heitu vatni til húsahitunar.

Þar sem þetta verður að teljast mjög aðkallandi og mikið nauðsynjamál fyrir þetta bæjarfélag, þá leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. þetta verði samþ., enda er hér, eins og ég sagði í upphafi, aðeins um heimild að ræða.