23.03.1948
Efri deild: 85. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mig undrar ákaflega mikið afgreiðsla þessa máls. Þetta mál kemur hér frá Nd. í gær og er í raun og veru ekki svo einfalt eins og hv. frsm. vill vera láta. Hv. fjhn. tekur það svo til athugunar á næturfundi og samþykkir þar einróma, að það sé mælt með því, ég held svona án þess, að leitað sé fullra upplýsinga um málið, eða a.m.k. verður ekki annað séð af nál. fjhn. Hins vegar kemur það greinilega fram í fskj. með nál., sem fram kom í hv. Nd. um málið, að raforkumálastjóri mælir á móti því, að frv. verði samþ. nú, og telur hann, að meiri athugun þurfi að fara fram um málið. Auk þess hefur þetta ekki verið rætt við hæstv. fjmrh. Ég veit um það af því, að ég ræddi við hann áðan, og taldi hann, að ekki hefði verið rætt við sig um málið.

Hér í þessu frv. er farið inn á nýja braut viðkomandi helmild til ríkisábyrgðar á láni til stofnkostnaðar slíks fyrirtækis, því að hér er gert ráð fyrir, að ábyrgðarheimildin miðist við 90% stofnkostnaðar. Það hefur áður þótt bjartsýni að fara inn á að miða ríkisábyrgðina við 85% stofnkostnaðar, en hér er farið fram á, að miðað verði við 90%. Ef þetta ákvæði frv. væri samþykkt, þá mundi það óhjákvæmilega hafa það í för með sér, að krafizt yrði hækkunar um 5% á ábyrgðum ríkisins fyrir lánum vegna stofnkostnaðar annarra raforkuframkvæmda í landinu.

En svo er hér farið einnig í öðru atriði inn á nýjar brautir í þessu frv. með ákvæðum 2. gr., því að þar er svo til tekið, að undireins og búið er að koma upp þessari hitaaflstöð, þá geti bæjarstjórnin í viðkomandi kaupstað bannað, að hús, sem ná til hitaveitunnar, verði hituð með öðrum bætti en með vatni frá þessari hitaveitu. — Ég veit ekki til þess, að mönnum sé yfirleitt bannað að hafa kertaljós. Ég veit ekki, hvort menn, sem í Ísafjarðarkaupstað eru, eiga heldur að mega nota sólarhitann í sínum húsum, eftir að búið væri að koma upp þessari hitaaflstöð. En hér er lagt til að banna að hita hús þar upp með öðrum hætti en með hita frá þessari hitaaflstöð, eftir að hún er komin upp. — Málið er því ekki svo einfalt eins og hv. frsm. vill vera láta. Enn er hér farið inn á nýja braut hér á landi með því að gera ráð fyrir olíukyntri rafmagnsstöð.

Eitt af aðalatriðum í þessu máli er það, að hér er brotin sú meginregla, sem gilt hefur hér á landi, þegar um raforkuveitur hefur verið að ræða fyrir héruð, að 85% ábyrgð hefur verið veitt, en hér er gert ráð fyrir heimild til að ábyrgjast 90% stofnkostnaðar. Auk þess á hér að banna mönnum á Ísafirði að hita upp hús sín á nokkurn annan hátt heldur en með hita frá þessari stöð. Ég veit ekki til þess, að Reykjavíkurbúum sé bannað að hita upp hús sín með öðrum hætti heldur en með hitaveituvatni, svo að þótt ekkí sé annað en þetta tvennt, þá hygg ég, að þessi ákvæði frv. þyrftu sannarlega athugunar við.

Í þriðja lagi vil ég benda á það, sem kemur hér fram í grg. fjhn. hv. Nd., að þar stendur í bréfi frá raforkumálastjóra, að enda þótt athuganir hafi verið gerðar um þetta mál, þá sé ástæða til að athuga nokkru nánar ýmis atriði í sambandi við málið. Þetta virðist hv. fjhn. alveg hafa sézt yfir. Og það er farið miklu nánar inn á þetta atriði í Bréfi raforkumálastjóra frá 26. febr., sem prentað er sem fskj. með nál. á þskj. 516. Þar stendur einnig: „Í umsögn minni og í grg. frv. er þess getið, að ýmis atriði í sambandi við tillögu þessa og áætlanir þurfi að taka til nánari athugunar en gert hefur verið, og hef ég einnig síðar hvatt bæjarstjórn Ísafjarðar til að láta hraða slíkum fullnaðarathugunum.“ Raforkumálastjóri segir einnig hér í öðru bréfi: „Þessa hitaveiturafstöð verður því ekki hægt að líta á sem framtíðarvarastöð“ — ekki einu sinni sem framtíðarvarastöð fyrir Ísafjarðarkaupstað — „heldur verður að reikna með því, að hún gangi ávallt, meðan upphitunar er þörf.“ Svo segir hann: „Áætlun verkfræðinganna þriggja um hitaveiturafstöð á Ísafirði nær aðeins til þeirra mannvirkja, en ekki til athugana á öðrum leiðum til raforkuöflunar.“ Sannleikurinn er, að málið er enn þá ekki fullkomlega rannsakað, síður en svo. Og þegar svona er, að þessir ágallar eru á, þá þykir mér ákaflega viðurhlutamikið af Alþ. að samþykkja þetta frv. og heimila þannig þá ábyrgð, sem hér er gert ráð fyrir í frv. Ég mun því leyfa mér að bera fram rökst. dagskrártill. um málið, svo hljóðandi:

„Með því að ljóst er, að málið hefur ekki enn fengið nægilegan undirbúning, sbr. umsögn raforkumálastjóra, þykir rétt, að slíkur undirbúningur verði látinn fara fram, áður en frv. verður gert að lögum, og tekur deildin því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Er þetta alveg í samræmi við umsögn raforkumálastjóra um þetta mál.

Annars vildi ég gjarnan heyra frá hæstv. fjmrh. tvennt. Annars vegar, hvort hann er samþykkur því, að þessi ábyrgðarheimild verði samþ., eins og gert er ráð fyrir hér í þessu frv. Og í öðru lagi, ef þessi heimild yrði samþ., hvort hann þá væri fús til að veita öðrum stöðum, þar sem ríkið ábyrgist lán vegna raforkuframkvæmda fyrir þorp eða kaupstaði, sams konar ábyrgð, þ.e.a.s. sem svarar 90% stofnkostnaðar raforkuframkvæmda þar í staðinn fyrir 85%, eins og nú er í l. Ef ekki á að veita öðrum stöðum sams konar aðstöðu um ábyrgð ríkisins eins og þessum stað, þá vil ég ekki brjóta venjuna, að því er Ísafjarðarkaupstað snertir í þessu efni, og fara þannig með einn stað upp í 90% um slíka ábyrgð ríkisins. —

Ég hélt, að hv. þm. væru búnir að fá næga reynslu í þessum efnum viðkomandi Siglufirði. Ég hygg, að þegar byrjað var á því máli hér á Alþ., þá hafi afgreiðslu þess verið hraðað álíka mikið og hér um þetta mál er stefnt að viðkomandi Ísafirði. Og ég veit ekki betur en að fjórum sinnum hafi það raforkumál komið inn í þingið og síðast nú fyrir nokkrum dögum til þess nú athugunarlaust að fá heimild til þess að bæta við 2 millj. kr., sem ríkið ábyrgist lán á, án þess að nokkur gögn lægju fyrir um það, að þetta væri lokagreiðsla. Hér hefur því í sambandi við Siglufjörð verið farið af stað með illa undirbúið fyrirtæki, sem kemur til með að liggja sí og æ á ríkissjóði, af því að athuganir við undirbúning framkvæmdanna hafa reynzt rangar. Og það er sannarlega happdrættisaðferð, ef sú leið, sem stefnt er að með þessu frv., verður valin í þessu máli, sem hér liggur fyrir.

Ef dagskrártill. mín verður ekki samþ., sem ég þó vona, að verði, mun ég bera fram brtt. um, að þessi ábyrgðarheimild, sem t frv. er, verði lækkuð.