23.03.1948
Efri deild: 85. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. beindi til mín fyrirspurn í sambandi við þetta mál, og er það sannast að segja, að það er nú það fyrsta orð, sem til mín er beint eða fjmrh. varðandi það mál, sem hér er um að ræða. Hvorki flytjendur frv. né hv. n. hafa á neinn hátt boríð þetta undir ráðuneytið eða leitað álits þess. (ÞÞ: Einstakur nefndarmaður hefur gert það.) Kann að vera, a.m.k. hefur það þá verið mjög á förnum vegi, ef það hefur verið gert. Ég er ekki með þessu að segja það, að það hefði gert svo sem sérstaklega til. En það er þó a.m.k. eitt atriði, sem hefði þurft skýringar við, sem allir koma auga á, sem er, að hér er gengið út frá því að víkja frá þeirri venju, sem hefur verið nokkuð föst, að ábyrgðir eins og sú, sem hér er gert ráð fyrir, færu ekki fram úr 85% stofnkostnaðar. Nú er hér til þess ætlazt að rjúfa þann vegg með því nýja ákvæði hér, að ábyrgðin megi vera sem svarar 90% stofnkostnaðarins. Og skil ég ekki eiginlega, hvað þar liggur til grundvallar, af því að það er orðinn mikill fjöldi af þessum rafvirkjunum, sem eru nú komnar áleiðis, sem heyra undir þennan svokallaða sjálfsagða taxta. Mér hefur heyrzt það vera talinn eins og eiginlega sjálfsagður taxti, að þessar ábyrgðir færu ekki fram úr 85% stofnkostnaðar þessara framkvæmda.

Nú ber það við, að svona stórt mál eins og þetta kemur hér seint fram á þinginu, og náttúrlega þolir það enga bið. Það er siðurinn og hefur verið fjármálasiðurinn hér undanfarið. Og fyrir það sýpur nú ríkissjóður og þjóðin seyðið af ýmsu, sem gert er, af því að það þolir aldrei neina bið eftir okkar mælikvarða, ef okkur dettur í hug að fá eitthvað í gegn.

Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Barð., að hann hélt því fram, að raforkumálastjóri teldi þetta mál ekki nægilega undirbúið. Ég sé nú ekki, að það komi hér beinlínis út í grg. (GJ: Það er í nál. frá Nd. á þskj. 516.) Hitt veit ég, að það hafa verið mál á ferðinni, sem jafnvel rafmagnseftirlit ríkisins og raforkumálastjóri hafa skoðað nægilega undirbúin, en þó hefur komið í ljós, að undirbúningurinn hefur annaðhvort ekki verið nógu vandaður eða ekki nógu framsýnn. Það hafa komið í ljós stór áföll í sambandi við þessar áætlanir um virkjanir, svo stór áföll, að öllum hefur blöskrað, og er þar skemmst að minnast Skeiðsfossvirkjunarinnar. En þar er reglan þessi orðin, að þótt allir sjái, að búið sé að sökkva í það fyrirtæki ótrúlega miklu fé, þá er það svo, að þegar farið en fram á meira, neyðast menn til að segja já við því. Það verður að segja b, þegar búið er að segja a. Og það verður að halda áfram þessum framkvæmdum, þegar búið er að byrja á þeim. En kannast verður við, að af lítilli framsýni hefur verið byrjað oft og tíðum í þessum efnum. Nú kann að mega segja, að eitthvað megi af þessu læra, þannig að hv. þm. færu dálítið hægar í þessum málum heldur en þeir hafa gert. Það er ekki meining mín, að það beri að standa í vegi fyrir sjálfsögðum raforkuframkvæmdum. En það þarf að vanda til áætlana um þær miklu betur heldur en gert hefur verið hingað til. Og það gildir ekki aðeins þetta mál, sem hér liggur fyrir, heldur öll þessi ábyrgðarmál og stórkostlegu fjárhagsmál, sem ríkissjóður er við riðinn. Það er blátt áfram skylda hv. þm. að gá að sér í þessum efnum með þeim hæfilega fyrirvara, að ekki hljótist neitt stórtjón af fyrir þessi fyrirtæki, sem í hlut eiga. Og að hverju leyti væri líka Ísafjarðarkaupstaður bættari eða aðrir staðir, sem að raforkuframkvæmdum standa, ef farið er út í stórkostlegar framkvæmdir á grundvelli, sem er ekki nógu vel lagður? Ég spyr. Ég ímynda mér, að ef Siglufjarðarbær ætti að standa straum af sinni Skeiðsfossvirkjun, þá væri honum það alveg um megn, enda er svo komið nú, að það er bara ríkissjóður, sem verður að standa straum af öllum þeim hlutum. Það átti sér stað stór útborgun árið 1947 úr ríkissjóði út af ábyrgð vegna Siglufjarðar, 3/4 millj. kr. Og það var ekki eins stór, en stór upphæð, sem krafizt var af fjmrn. eftir áramótin í sama skyni. Með þetta fyrir augum finnst mér, að þingið verði að hafa allan vara á. Og sé það rétt hermt, sem ég reyndar ekki efa, hjá hv. þm. Barð., að í þessu máli liggi fyrir umsögn raforkumálastjóra á þann veg, að hann sé ekki ánægður með undirbúning málsins, þá sé ég ekki, að það sé forsvaranlegt fyrir þeirra hluta sakir að hraða endanlegri afgreiðslu málsins á þessu þingi. Mér hafa ekki verið færð nein rök fyrir því, að málið sé nægilega undirbúið, og ég hef ekki séð nein rök til framdráttar því, að málið sé sett allt í voða, þó að það dragist um eitt þing. Hins vegar vita það allir, að ef sá dráttur yrði til þess, að undirbúningur þessa máls yrði betri, þá mundi það gera það að verkum, að framkvæmdirnar yrðu byggðar á öruggari grundvelli, bæði fyrir Ísafjarðarkaupstað og fyrir ríkið. Og þá gæti vel verið, að þeir mánuðir, sem framkvæmdir þessa fyrirtækis biðu, margborguðu sig, eins og oft hefur átt sér stað, að með betri undirbúningi mála hefur náðst betri grundvöllur undir framkvæmd þeirra heldur en með því að hrapa að framkvæmdunum að lítt yfirveguðu máli.

Hv. þm. Barð. hefur komið hér með till. til rökst. dagskrár, þess efnis, að frestað verði afgreiðslu þessa máls og það betur undirbúið. Ég skal ekkert um það segja, hvort þessi dagskrártill. er það rétta, sem fram þarf að koma í þessu máli. En hvað sem því liður, þá þarf að upplýsa það, hvað til þess ber, að það á nú, samkv. till. þessa frv., að taka upp nýja og ríkissjóði áhættumeiri ábyrgðarreglu heldur en tíðkazt hefur að undanförnu. Ég ætla þó, að allir hv. þdm. geti við það kannazt, að sá ábyrgðaþungi, sem raforkuframkvæmdir hingað til hafa lagt á ríkissjóðinn, mundi nú reynast honum alveg nægilega þungur.

Þar sem, eins og ég sagði áður, þetta mál er flutt án alls samráðs við fjmrn. og hins vegar er það, að sú n., sem hefur fjallað um það hér í þinginu, virðist vera sammála um, að það gangi fram, ætla ég ekki að leggja mig í lima til þess að stöðva það. En ég vildi nota þetta tækifæri til þess að benda hv. þingmönnum á, að í fyrsta lagi virðist.hér farið gálauslega af stað og í öðru lagi er miðað að því, að brotin verði sú regla í ábyrgðarveitingum, sem Alþ. hefur um nokkuð langt skeið verið búið að viðurkenna.