23.03.1948
Efri deild: 85. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Það er algerlega rangt hjá hv. þm. Barð., að þetta mál hafi verið afgr. í fjhn. á næturfundi. Það var afgr. í fjhn. í gærdag. Það er enn fremur rangt, að ekki hafi verið rætt við hæstv. fjmrh.. og því kom mér ræða hans algerlega á óvart. N. óskaði álits hans og frestaði einmitt fundi af þeim sökum. Einn nm. fór á fund ráðh. og óskaði þess, að hann sæti fund með n., en mér skildist, að hann hefði ekki haft tíma til að koma á fundinn. Hins vegar kom nm. með þau skilaboð, að ráðh. tæki ekki afstöðu og léti n. eina um afgreiðslu málsins. — Því kom mér á óvart, þegar hæstv. ráðh. segir, að ekki hafi verið leitað til sín, og tekur í öðru lagi ákveðna afstöðu gegn málinu nú. Hefði hann gert það í gær, má vera, að málið hefði verið afgr. á annan hátt í n.

Hv. þm. Barð. telur, að þetta mál sé ekki nægilega undirbúið og eigi því ekki að ná fram að ganga, ófullkomin athugun sé lögð til grundvallar. — En það er nú svo, að þrír verkfræðingar, Eiríkur Briem, Gunnar Böðvarsson og Benedikt Gröndal, hafa gert áætlanir og skilað áliti um þetta og eru allir á einu máli um, að þetta sé rétt leið.

Hv. þm. Barð. sagði enn fremur, að raforkumálastjóri væri þessu andvígur. — Það er einnig rangt. Þvert á móti. Raforkumálastjóri hefur sagt, að ekki komi til greina að ráðast í Dynjandavirkjunina á næstu árum, en öðru máli gegni um þessa virkjun og stangist þær framkvæmdir engan veginn. Og í umsögn raforkumálastjóra er talið, að gjaldeyrissparnaður af hitaveitunni muni nema um 220 þús. kr. á ári. miðað við kolanotkun til húsahitunar, — svo að það er algerlega rangt, að hann hafi mælt á móti þessu. Hitt er annað mál, að hann telur þurfa frekari athugana við - og því neitar heldur enginn.

Hér er aðeins farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til þess að leyfa Ísafjarðarbæ að koma aflstöðinni upp og veita ríkisábyrgð á lánum til stöðvarinnar. Ríkisstj. hefur því málið algerlega í hendi sér, og ekkert verður gert, fyrr en hún telur málið fullkomlega undirbúið. Hér er því ekki um annað að ræða en það, að Alþ. treystir ríkisstj. til þess að láta gera þær athuganir, sem þarf, og ábyrgjast lánið. Það lítur ekki út fyrir, að hv. þm. Barð. treysti ríkisstj. til þess arna, og jafnvel sjálfur fjmrh. virðist ekki bera það traust til hennar. — En þótt mitt traust á hæstv. ríkisstj. sé ekki mikið, þá treysti ég henni til að flana ekki út í verklegar framkvæmdir, og ekki sízt eftir þá ræðu, sem hæstv. ráðh. flutti nú, sem var ekki annað að inntaki en almennur áróður á móti öllum framkvæmdum.

Þjóðin sýpur nú annars seyðið af því nú, að of lengi hefur verið beðið með ýmsar framkvæmdir fyrir stríð, svo að öll okkar framleiðslutæki voru í niðurníðslu. Af því sýpur hún seyðið, en ekki hinu. Og að nota einstök áföl] sem almenn rök gegn heimild til að leggja í verklegar framkvæmdir er algerlega ósæmandi. Óhöpp geta alltaf komið fyrir, svo að slíkt eru engin rök.

Hv. þm. Barð. fetti mjög fingur út í 2. gr. frv. Nú er 2. gr. frv. ekkert aðalatriði í málinu. En hún er sett inn vegna þess. að bæjarstjóri telur nauðsynlegt, að slík ákvæði séu fyrir hendi til þess að tryggja rekstur fyrirtækisins, og hún virðist því ekki vera óeðlileg.

Ég kem þá að því, sem hv. þm. Barð. og hæstv. fjmrh. hafa gert að höfuðatriði í andmælum sínum, að heimildin til ríkisábyrgða skuli vera 90% af stofnkostnaði en hér stendur aðeins, að þegar ríkisstj. hefur gefið leyfi til framkvæmdanna, skuli hún fyrir hönd ríkissjóðs ábyrgjast allt að 5.5 millj. kr. lán og þó ekki meira en 90% af stofnkostnaði. — Það er þannig algerlega rangt, að nokkru sé slegið föstu um þetta, og ríkisstj. hefur þetta alveg í hendi sér.

En þetta er heldur ekki höfuðatriði, heldur hitt. hvort Alþ. vill fyrir sitt leyfi veita þessa heimild til mjög aðkallandi og nauðsynlegra framkvæmda.