23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

129. mál, fjárlög 1948

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það er eftirtektarvert, eftir þær þungu rökstuddu ásakanir. sem hér hafa verið bornar á íslenzka kommúnista, að þá skuli það verða hv. 6. þm. Reyk.v. (SigfS), sem tekur að sér vörnina í því máli, — maður, sem almennt er kallaður hin vonda samvizka Sósfl., og kann það að segja nokkuð út af fyrir sig. Hann hefur þó fengið opinbert vottorð frá flokksbræðrum sínum um það, að hann sé ekki kommúnisti, og ég held, að hann sé það ekki. Hins vegar vill flokkurinn hafa hann innan sinna vébanda, því að hann er duglegur agitator. Það er ekki ósvipuð aðferð höfð við hann eins og svartfuglsveiðimenn á Skagafirði höfðu þegar þeir rotuðu fugl. sem þeir kölluðu bandingja, til þess að draga að sér aðra fugla til að auka veiðina. — Þessi hv. þm. var svo brjóstheill að fara að verja aðfarir kommúnista í Tékkóslóvakíu. Það er þó ekki af því, að hann sé svo einfaldur, að hann viti ekki, hvað þar hefur verið að gerast, en samt gerir hann þetta. Það skyldi þó ekki vera af því, að hann væri tvöfaldur?

Núv. ríkisstj. er samstjórn þriggja flokka, með mismunandi stefnu og sjónarmið í innanlandsmálum, sem komu á samtökum sín á milli til að firra algeru öngþveiti á erfiðum tímum og bjarga þingræðinu frá miklum vanda, er illkynjuð og langvarandi stjórnarkreppa hafði sett það í á s.l. ári. Í landi harðvítugrar flokkabaráttu, eins og hér tíðkast, setur jafnan hroll að sumum harðsnúnum flokksmönnum af tilhugsuninni um það að eiga að hefja samstarf með sínum höfuðfjendum og það jafnvel að nýafstaðinni harðri kosningabaráttu, með sviðann enn í sárum undan óvægilegum höggum.

En þetta er eðli og nauðsyn þingræðisins, þar sem svo er háttað, að enginn einn flokkur fær meirihlutaumboð þjóðarinnar á þingi. Þá verða fleiri en einn flokkur að taka höndum saman um stjórn landsins, ef þingstjórnarfyrirkomulagið á ekki að verða óvirkt. Afleiðing þess hlýtur að verða tímabundnir samningar um meðferð mála, málamiðlun og vopnahlé. Að þessu geðjast auðvitað misjafnlega ýmsum baráttumönnum í öllum flokkum. og telja þeir jafnan velferð og heiður síns eigin flokks í veði við slíka grautargerð, eins og þeir kalla samstarfið. En fram hjá þessu verður erfiðlega komizt, þar sem búið er við lýðræðisskipulag eins og okkar, þar sem flokkaskipun er svipuð, enda hefur orðið að grípa til sama úrræðis í öllum löndum og álfum, er eins stendur á. Það, sem hver flokkur verður að gera upp við sig, er hann gengur til slíks samstarfs, er það, hvort hann telur sínum hugðarmálum betur borgið með samstarfi og málamiðlun eða fullkominni andstöðu, og hafa sannfæringu sína um það að leiðarljósi í samstarfinn. Hitt held ég, að sé óþarfa vantraust á lýðræði og dómgreind hins frjálsa borgara, þar sem hugsunin er frjáls og orðið er frjálst. að hann geri sér ekki grein fyrir eðli og afleiðingum samstarfsins, ruglist í viðhorfi til flokka og málefna og finni ekki fætur sína, þegar staðið er upp úr flatsænginni. Ég vil í þessu sambandi minnast eins skýrasta dæmis um það, hvernig frjáls og óþvinguð hugsun borgarauna starfar, þrátt fyrir óvenjulegan sveigjanleik í samvinnu við andstæða flokka. Dæmi þetta er frá höfuðheimkynni frjálsra stjórnmála, Englandi. Í síðustu styrjöld var þar náin samvinna milli aðalstjórnmálaflokka landsins, en stjórnarforustuna hafði á hendi sá maður, sem á þeim árum bar ægishjálm yfir flesta stjórnmálamenn veraldar, Winston Churchill. Í stríðslokin var hann átrúnaðargoð ekki aðeins þjóðar sinnar, heldur og alls hins menntaða heims. Og um það leyti gengur hann til kosninga í heimalandi sínu, í fararbroddi fyrir flokk sinn. Og þá gerast þau undur, að þetta átrúnaðargoð þjóðarinnar frá stríðsárunum bíður hinn ægilegasta kosningaósigur og verður að sleppa stjórnartaumunum. Ég ræði ekki um það hér, hvort enska þjóðin hefur farið hér viturlega að ráði eða ekki. En ég tek þetta dæmi til að sýna, hvernig frjáls þjóð, þar sem frelsi í hugsun og orði er í hásæti, gat verið fullkomlega hleypidómalaus gagnvart persónum, og það mikilmennum, og lét einlægt samstarf, en tímabundið um ákveðin mál, á engan hátt villa sér sýn, þegar hún tók ákvarðanir um framtíðarskipun sinna eigin mála við kosningar, sem hófust meðan á samstarfi þessu stóð. Ég held að með þetta dæmi fyrir augum ættu engir hinna varfærnu flokksmanna núverandi stjórnarflokka að þurfa að óttast það, að íslenzkri flokkshyggju þurfi að vera veruleg hætta búin vegna þess tímabundna samstarfs, sem hér hefur verið efnt til af þremur stjórnmálaflokkum. Upplýsingastarfsemi og pólitísk fræðsla hinna einstöku flokka er á engan hátt heft og ber ekki að hefta þrátt fyrir stundar vopnahlé, og frjáls hugsun gerir sínar ályktanir og tekur sínar ákvarðanir á milli bardaganna, engu síður en meðan þeir standa yfir. En þó að stjórnarflokkarnir hafi mjög misjöfn sjónarmið um það, hver sé heillavænlegust lausn ýmissa hinna innlendu þjóðfélagsvandamála, þá er þó eitt mikilsvert undirstöðuatriði, er sameinar þá alla. Þeir tryggja allir stjórnmálastarfsemi sína á grundvelli þeirra lýðræðishugsjóna, sem þingstjórnarfyrirkomulag norrænna og vestrænna þjóða er vaxið upp úr. Þeir leggja megináherzlu á að vernda og viðhalda þessum starfsgrundvelli sem því fullkomnasta skipulagi, er frjálsir menn hafa enn þá fundið til að byggja stjórnmálastarfsemi sína á. Við höfum allir trú á því, að frelsi í hugsun, frelsi í orði og frelsi lýðræðisins í stjórnarháttum sé líklegast eða það eina, sem megni að þroska og siðbæta hið meingallaða mannkyn. En þarna erum við einnig í fullri andstöðu við leiðandi öfl í flokki núverandi stjórnarandstæðinga. Það er sýnilegt, að þau hafa helgað sig hinni nýju einræðisstefnu, sem heimurinn hefur fengið dýrkeypta reynslu af á undanförnum árum. Við sáum hana í alveldi sínu á valdadögum þeirra Hitlers og Mussolinis. Og við sjáum fald hennar rísa að nýju, hærra og hærra með hverju árinu. þó að það sé undir nýju nafni og með öðrum mönnum. Og sporin hræða. Milli þessara tveggja höfuðstefna er og verður óbrúanlegt djúp. Hitt er svo annað mál, að í innanlandsmálum hljóta kommúnistar alltaf, á meðan þjóðin veitir þeim þingsetu, að komast í snertingu við aðra stjórnmálaflokka, eins og aðvífandi reikistjarna, sem birtist í framandi sólkerfi, og með þeim afleiðingum að verða þá sammála öðrum flokkum í ýmsum málum, jafnvel ýmsum góðum málum. Vegna þessa og svo vegna hins, að þeir beita jafnan meiri hávaða og offorsi í baráttu sinni en aðrir flokkar, hafa þeir komið ýmsum saklausum og auðtrúa mönnum til að álíta, að þeir væru hinir sjálfkjörnu forustumenn í ýmsum umbótamálum þjóðarinnar. En það er hinn mesti barnaskapur að byggja á slíku, því að þessir menn eru ekki sjálfum sér ráðandi og óútreiknanlegt, hvernig þeir kunna að snúast við hverju máli. Og þetta er af þeirri einföldu ástæðu, eins og Hæstv. menntmrh. lýsti réttilega í gær, að kommúnistar í hverju landi utan móðurlandsins eru ekki annað en lítið hjól í stórri vél, sem engu ræður um gang vélarinnar.