03.11.1947
Efri deild: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

56. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því að sjá þetta frv. fram komið. Eftir að mþn., sem fjallaði um þetta mál. skv. þál. frá 12. apríl 1943, hafði skilað áliti til félmrn., varð nokkur dráttur á, að það kæmi fram, en þegar ég talaði um að flytja það, lét þáverandi félmrh., Finnur Jónsson, þá skoðun í ljós, að hann liti á það sem þjófnað, ef ég flytti málið, meðan það væri hjá ráðuneytinu. Ég vildi nú ekki gera mig af opinberum þjóf, enda þótt ég teldi það nú orka tvímælis, hvort ég fengi það nafn af að flytja frv., en þá frömdu tveir þm. þjófnaðinn og fluttu málið 1945–'46. Nú hefur ráðh. flutt þetta frv. fyrir hönd ríkisstj., en látið gera á því breytingar. sem miða að öllu leyti til hins verra. Sú bremsa, sem koma á í veg fyrir óeðlilega hátt verð á löndum og lóðum, að meta skuli landið, hefur reynzt harla lítils virði, þegar hverjum aðila er heimilað að krefjast yfirmats, sem alltaf hefur gengið á þann veg að kaupverðið hefur verið hækkað. Ég fæ ekki séð að það sé meira brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að setja ákveðið hámarksverð á lönd og lóðir, þannig að þau verði ekki seld fyrir meira en tvöfalt fasteignamatsverð, heldur en þegar sett er hámarksverð á alls konar vörur, húsaleigu o.fl. Það er ekki eins og þetta hámarksverð, sem um hefur verið rætt, sé nein smán, því að fasteignamatið var reiknað um 60% af kostnaðarverðinu 1938–39, en söluverðið mátti ekki fara fram úr tvöföldu fasteignamati. Og hefði lögum um fasteignamat ekki verið breytt og matið haldið sér, eins og lögin ætluðust til, þá væri tvöfalt fasteignamat sæmilegt verð. Þegar því þetta ákvæði um hámarksverðið er fallið úr frv., tel ég það lítils virði og hygg, að eins og það er nú í frv. muni það alls ekki ná tilgangi sínum.

Úr því að félmrh. er hér viðstaddur, þá langar mig að spyrja hann um eitt atriði, sem varðar einmitt þetta mál. Það er verið að byggja þorp á Egilsstöðum, en þar líða allir af landleysi, því að það náðist ekki samkomulag milli landeigenda og þorpsbúanna um kaup á landinu. Nú veit ég ekki, hvað þessu máli líður að öðru leyti en því, að þorpsbúar vilja fá landið bæði í lóðir og matjurtagarða. Ég geri ráð fyrir, að félmrn. hafi þetta mál til meðferðar og vil leyfa mér að spyrja ráðh., hvað því líður, og ef mat hefur farið fram, þá hversu aðgengilegt það er.