18.12.1947
Efri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. sagði, að sósíalistar hefðu verið að ljúga því, að ríkisstj. ætlaði sér að lækka gengið, leggja á gjaldeyrisskatt og lækka vísitöluna ofan í 280 stig. Sannleikurinn er þessi: Ríkisstj. hefur verið með allar þessar ráðstafanir á prjónunum í langan tíma og hefur verið að hörfa úr hverju víginu eftir annað, og það síðasta var að hörfa bæði frá gengislækkun og gjaldeyrisskatti, en taka söluskattinn í staðinn.

Þá reyndi hæstv. utanrrh. að endurtaka hér margendurtekin ósannindi um afurðasölusamningana við Bretland. Það er athyglisvert, að utanrrh. skuli nú nota tækifærið hér í Ed. til þess að endursegja þessi ósannindi. Fyrir einum degi síðan rak Lúðvík Jósefsson þessi sömu ummæli ráðherrans svo eftirminnilega ofan í hann, að engin dæmi munu til þess í þingsögunni, að ráðherra hafi staðið þannig jafn opinber að ósannindum, enda gat ráðh. ekkert sagt. Bókuð ummæli ráðherrans sjálfs sanna sem sé, að Lúðvík hefur aldrei gert tillögur um að gera samninginn á þeim grundvelli, sem hann var gerður á. Aðeins ríkisstj. ákvað, að samningurinn skildi samþykktur. Hið sama er að segja um ummæli hæstv. viðskmrh. um fulltrúa Sósfl. í stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Það er margsannað, að hann sagði aldrei þau orð, sem ráðh. hafði eftir honum hér í útvarpið rétt áðan, og ég verð að segja, að þeim er ekki flökurt þessum ráðherrum.

Þá sögðu hæstv. forsrh. og viðskmrh., að í dýrtíðarfrv. okkar sósíalista væru engar tillögur til að draga úr dýrtíðinni eða lækka tilkostnað útgerðarinnar, en sannleikurinn er sá, að lagt er til, að lækkaðar verði vaxtagreiðslur, vátryggingariðgjöld, veiðarfæraútgjöld, viðhaldskostnaður, beitukostnaður og olíukostnaður um 50 til 60 þús. kr. á hvern meðalbát, og þetta kallar hæstv. forsrh. sýndartillögur.

Þá ræddi hæstv. menntmrh. um söluskattinn, eða hinn nýja veltuskatt, og hlýtur það að vera beiskur biti að gleypa fyrir Framsókn eftir öll skrifin um það, hvílíkt ódæði veltuskatturinn hafi verið 7945. En þeir framsóknarmenn eru ekki í vandræðum með að verja þetta. Þeir segja, að það sé einhver munur á þessum skatti. Fyrri skatturinn, sem þeir skömmuðust sem mest út af. hafi allur lent á aumingja verzlunarfyrirtækjunum, á heildsölum, kaupmönnum og kaupfélögum, en þessi skattur lendi allur á neytendum. Það er nú einhver munur. Það er ekki lítil huggun fyrir kaupfélagsmennina, að það skuli ekki vera félögin þeirra, sem eiga að borga skattinn, heldur þeir sjálfir. Áður þurftu kaupfélögin að borga 1% af veltunni. Já, hvílíkur munur, enda er Eysteinn stoltur af afrekunum. Sjálfsagt eiga þeir, sem verzla við kaupmenn, líka að blessa ríkisstj. fyrir það, að kaupmaðurinn þeirra og heildsalinn eru ekki látnir borga, heldur eiga þeir sjálfir að borga 31/2%.

Varðandi afurðasölumálin vil ég, auk þess sem ég hef áður sagt, leyfa mér að vitna í grein eftir Ólaf Jónsson, í Frosti, blaði Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Til ýmissa svo nefndra „clearing“-landa höfum við aftur á móti selt fisk fyrir verð, sem jafngildir fyllilega núverandi ábyrgðarverði. Er þá hægt að segja, að það verð sé markaðsverð hraðfrysts fisks? Varla er hægt að halda því fram, því að það er svo takmarkað, sem fæst að selja til þessara landa, þar sem við verðum að taka vörur frá þeim á móti andvirði fisksins. Innflytjendur hér og ráðamenn innflutningsins virðast yfirleitt ekki hafa haft mikinn áhuga á að kaupa vörur frá þessum löndum, og eru þær sagðar dýrar og óhentugar. Hygg ég þó, að hægt væri að verzla mun meira og okkur í hag við þessi lönd en gert hefur verið til þessa. En mjög er ég hræddur um, að hafi ríkissjóður ekki beinna hagsmuna (vegna verðábyrgðar) að gæta við sölu fisksins, verði þyngra á metunum hjá þeim, sem þessum málum ráða, að fá fyrir fiskinn frjálsan gjaldeyri, sem svo er nefndur, heldur en að firra frystihúsaeigendur og aðra framleiðendur tapi. Dreg ég þessa ályktun af þeirri reynslu, sem ég hef haft af þessum málum á yfirstandandi ári.“

Þessi voru ummæli eins helzta útgerðarmanns á Suðurnesjum og sjálfstæðismanns í tilbót, og gætu þau verið íhugunarefni fyrir hæstv. utanrrh.

Þetta frv. heitir frv. til l. um dýrtíðarráðstafanir, og er í því að finna m.a. það úrræði gegn dýrtíðinni að leggja 31/2% söluskatt á allar nauðsynjavörur almennings, enn fremur á allar þjónustur, og má „verð vöru hækka sem söluskatti nemur“, segir í 45. gr. Jafnframt því skulu tekjur launþega lækka um 8.5%, eins og sannað hefur verið hér áður.

En þetta er ekki í fyrsta sinn, að svona till. koma fram á Alþ. Árið 1943 var lagt fram frv. um dýrtíðarráðstafanir af utanþingsstj., sem þá var við völd. Það var þó að því leyti betra en þetta, að þar var ekki gert ráð fyrir nema 2% skatti á nauðsynjavöru almennings, engin ákvæði um sérstaka launalækkun, 15% hækkun á tekjuskatti, sem hefði þá auðvitað farið stighækkandi á hátekjum. En hér er nú ekki verið að krefjast hækkandi gjalda af hátekjumönnum.

En hvað haldið þið, hlustendur góðir, að hæstv. núv. forsrh. hafi þá sagt um þær ráðstafanir, sem gengu í svipaða átt og þessar, en bara ekki eins langt? Við 1. umr. málsins í Nd. komst hann m.a. svo að orði: „Ég vil víkja að því, hve skynsamleg dýrtíðarráðstöfun þetta er til lækkunar. En sú meginregla að leggja ákveðið hundraðsgjald ofan á allar vörur er frá sjónarmiði okkar algert ranglæti og til að auka misrétti og magna dýrtíðina.....

Ég tel engum vafa bundið, að það séu engar dýrtíðarráðstafanir að setja tolla á nauðsynjavörur, en það hefur óhjákvæmilega í för með sér, að vöruverð á aðfluttum vörum hlýtur að hækka. Ég tel því mjög hæpið að segja, eins og grg. frv. greinir frá, að fé þessu skuli varið til dýrtíðarráðstafana, þar sem þess er aflað á þá lund, að þetta verður til þess að auka dýrtíðina í landinu. .... Þó er það víst, að það eru engar dýrtíðarráðstafanir, sem sýnilega aðeins miða að því að lækka að einhverju leyti vísitöluna, en hækka samtímis raunverulegt vöruverð í landinu.

Þetta eru hins vegar ráðstafanir til að halda niðri kaupgreiðslum til samræmingar við raunverulega dýrtíð, og það eru því engin undur, þótt almenningur á Íslandi sé orðinn nokkuð tortrygginn út af sumum dýrtíðarráðstöfununum.

Einmitt vegna þess, að Alþfl. er með því að gera skynsamlegar ráðstafanir til að lækka dýrtíðina raunverulega, er hann á móti þessu frv., og af því, að hann telur þetta rangláta aðferð, sem raunverulega verður til þess að auka dýrtíðina. Hér er því ekki um að ræða neinar dýrtíðarráðstafanir, sem Alþfl. getur fylgt, og þess vegna mun hann skilyrðislaust beita sér gegn þessu frv.“

Þetta sagði Stefán Jóh. Stefánsson, og þetta var skoðun Alþfl. 1943. Hvað er það, sem gerzt hefur síðan og valdið þeirri kollsteypu hjá flokknum, að hann er nú alveg hættur að hugsa um „skynsamlegar ráðstafanir til að lækka dýrtíðina raunverulega“, en flytur nú sem forustuflokkur í ríkisstj. till., sem verka munu nákvæmlega í sömu átt og verr en þær, sem hann beitti sér skilyrðislaust gegn á herrans árinu því? Jú, það, sem gerzt hefur, er það, að Alþfl. hefur myndað sína fyrstu ríkisstj. á Íslandi. Til þess að hafa stjórnarforustu, þótt ekki væri nema að nafninu til, hefur hann gengið á mála hjá Sjálfstfl. til að vernda hagsmuni auðmannanna og á mála hjá Framsókn, sem hin s.l. átta ár hefur sífellt barizt fyrir allsherjar launalækkun undir því yfirskini, að hún væri að heyja heilagt stríð gegn dýrtíðinni.

Eitt er það hugtak, sem oftar en nokkuð annað hefur verið sett fram í því moldviðri, sem þyrlað er upp út af dýrtíðinni. Það er setningin: Nú þurfa allir að fórna. — Og víst er það, að öllum almenningi er ætlað að leggja fram verulegar fórnir í þessu heilaga stríði núna. En nú hafið þið heyrt, hvernig forsrh. sjálfur hefur sannað, að ráðstafanir sem þessar falsa vísitöluna, hækka vöruverð, auka misrétti og magna dýrtíðina. Þess vegna hlýtur einhver annar tilgangur að liggja bak við kröfuna um fórnirnar. Og það skyldi þó aldrei vera, að forsrh. hitti naglann á höfuðið, þegar hann segir „að auka misréttið“, og þar sé tilgangurinn fólginn.

En að Alþfl. skuli hafa lagt á hilluna allan vilja til að gera „skynsamlegar ráðstafanir“, en valið þetta í staðinn, er umhugsunarefni handa kjósendum hans.

Ef til vill mætti nú réttlæta þessa kollsteypu með því að benda á ný viðhorf, sem skapazt hefðu á þessu tímabili. Og víst hefur hæstv. ríkisstj. gert margar tilraunir til að láta búa til handa sér frambærilegar ástæður, er orðið gætu til að fylkja almenningi um stefnu hennar.

Fyrsta sporið var að kalla saman stéttaráðstefnu í byrjun nóvember. Ráðstefnan varð svo óþæg að heimta upplýsingar og gögn til að vinna eftir og draga sínar ályktanir af. En þau voru engin til, og þá var skipuð hagfræðinganefnd til þess að afla þeirra. Þá var og hagstofan sett í gang og enn aðrir sérfræðingar fengnir n. til aðstoðar, og árangurinn varð sá, að gögnin fæddust í októberlok, eftir því sem Tíminn sagði.

En eftir það fékkst tæplega fundur haldinn í stéttaráðstefnunni þrátt fyrir ítrekaða beiðni fulltrúa Alþýðusambandsins um fundahald.

En þrátt fyrir það að ekki tækist að reikna niður dýrtíðina, hafa verið dregnar fram í þessu sambandi ýmsar mikilsverðar upplýsingar og staðreyndir um það, hvernig ýmsar aðgerðir mundu verka. Þessar upplýsingar hefði mátt nota með árangri við smíði tillagna um raunverulegar ráðstafanir gegn dýrtíðinni, et það hefði átt að gera. En svo vill til, að engin þeirra hefur bent í þá átt, sem hér er farin.

Einn aðalþátturinn í útgjöldum hvers heimilis eru erlendar vörur. Vísitalan er reiknuð eftir meðalútgjöldum 40 fjölskyldna í Rvík 1939–40. Með núgildandi verðlagi þarf 5 manna fjölskylda að greiða 4865.49 kr. fyrir það magn erlendra nauðsynjavara, sem vísitalan segir til um. Þessi upphæð skiptist þannig:

Kostnaðarverð samtals ............ kr. 2674.40

Álagning ................................... — 2191.09

Samtals kr. 4865.49

Þetta þýðir það, að af hverjum 100 kr., sem þessi fjölskylda greiðir fyrir erlendar nauðsynjavörur, fara 55 kr. til að greiða kostnaðarverð vörunnar kominnar hér á land, en 45 kr. til að greiða álagningu íslenzka verzlunarkerfisins.

En við þurfum ekkert að undrast þessa niðurstöðu. 220 heildsölufyrirtæki, sem hvert fyrir sig þarf dýrt húsnæði, hvert fyrir sig þarf sitt starfsfólk, hvert fyrir sig þarf að kosta sendiferðir út um lönd í verzlunarerindum o.m.fl., þurfa mikið fé. Bara hin löglega starfsemi hjá slíku verzlunarkerfi hjá aðeins 130 þús. manna þjóð hlýtur að taka mikið fé úr vasa hvers einstaklings, m.ö.o. að skapa dýrtíð. Þar fyrir utan er hið ólöglega, sem sumir hafa leyft sér, að skilja nokkurn hluta eftir erlendis af fjármagninu og þannig draga það fé alveg út úr íslenzku atvinnulífi. Ekki dregur það úr verzlunarkostnaðinum. Skyldi það nú vera að ástæðulausu, að við sósíalistar teljum, að það megi lækka dýrtíðina með því að breyta þessu verzlunarkerfi þannig að færa innflutningsverzlunina í hendur innkaupastofnunar þjóðarinnar, er stjórnað sé af fulltrúum þeirra fjöldasamtaka, sem hagsmunn hafa að gæta, ásamt ríkisstj.?

Um þetta og fleira viðvíkjandi verzlunarrekstrinum hefur Sósfl. gert till. í frv. sínu um ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Hver maður, sem ekki er haldinn pólitísku flokksofstæki, viðurkennir, að það mætti spara mikið í verzlunarrekstrinum með slíku fyrirkomulagi. En hæstv. stjórnarflokkar mega ekki heyra það nefnt.

Það er að vísu mjög eðlilegt, að Sjálfstfl. standi vörð um þetta verzlunarkerfi, sem nú er, því að hann lifir á því, en hitt er furðulegt, að bæði Alþfl. og Framsfl. skuli standa vörð um það með honum.

Enn fremur má geta þess, að tollaupphæð vísitöluvaranna er ca. 578 kr. Sú upphæð gerir í vísitölunni 15 stig. Verzlunarálagning sú, sem leyfð er á þessa tollupphæð, gerir 6 stig í vísitölunni, og er þá 232 kr. Með því að fella niður tolla af þessum vörum ásamt álagningunni á þá mundi því vísitalan lækka þegar í stað um 21 stig og ársútgjöld fjölskyldu þeirrar, sem miðað er við, um 810 kr.

Samkv. útreikningum frá 1943 mundi þannig löguð vísitölulækkun bæta við sig 1/3 á nokkrum mánuðum, þ.e. fljótlega bæta við sig 7 stigum og lækka þá um 28 stig eða niður í 300 stig, og eðlileg launalækkun kæmi á eftir. Hér væri virkilega byrjað að klifra niður dýrtíðarstigann, eins og sumir ráðh. hafa komizt svo fagurlega að orði. Sósfl. leggur til í frv. sínu, að þessi leið sé farin, en ekki fæst það samþ.

Sjálfsagt er einnig að athuga hlut ríkissjóðs í þessu sambandi. Níu fyrstu mánuði þessa árs var innflutningur 360 millj. kr. Tolltekjur ríkisins af vísitöluvörum námu 17.8 millj. á sama tíma. Nú hefur hæstv. ríkisstj. ásamt fjárhagsráði gert áætlun um niðurskurð á innflutningi næsta árs niður í 220 millj. kr. Með skömmtuninni er m.a. dregið úr innflutningi og kaupum á sumum tollhæstu vísitöluvörunum, s.s. vefnaðarvöru og skófatnaði. Þótt innflutningsáætlun stjórnarinnar springi úr böndum, og allur innflutningur færi upp í 300 millj., þá eru ekki minnstu líkur til, að tolltekjur vísitöluvaranna færu fram úr 15 millj. kr. Það yrði því hæsta tap ríkissjóðs.

Enn fremur liggur fyrir hagfræðilegur útreikningur um það, að hvert stig, sem vísitalan lækkar, spari ríkissjóði 638 þús. kr. 21 stigs lækkun mundi því spara ríkissjóði 13.4 millj. kr. og framhaldandi lækkun enn meira í viðbót. Niðurstaðan yrði sú, að ríkissjóður tapaði engu.

Nú veit ég. að þið hlustendur spyrjið: Hvers vegna er þá ekki farin þessi leið, fyrst ríkissjóður tapar ekki? Jú, það er annar aðili, sem tapar. Verzlunarstéttin mundi verða að fórna þeim 232 kr., sem hún nú fær að taka af hverri fjölskyldu í skjóli tollanna, og láta sér nægja 1959 kr. í staðinn fyrir 2191 kr.

Þá skal ég koma að þeirri leiðinni, sem verið er að fara núna. Það er niðurfærsluleiðin, sem Framsókn hefur sífellt barizt fyrir. Hagstofan hefur reiknað út, hvernig sú leið muni verka, og niðurstöður eru þessar:

Ef vísitalan er bundin með lögum, þannig að í staðinn fyrir hverjar 325 kr., sem hver launa-starfsmaður fær nú, verði aðeins greiddar 200, þ. e. launalækkun um 38,5%, kaup bændanna lækkað að sama skapi og niðurgreiðslur ríkissjóðs lækkaðar um helming, þá stendur dýrtíðarvísitalan eftir í 299 stigum vegna þessara hluta og annarra, sem ekki er hægt að lækka vegna heimsástands, sem við ráðum engu um.

Þetta þýðir, að fyrir hverjar 326 kr., sem launamaður eða bóndi fær greiddar nú, fengi hann framvegis greiddar aðeins 200 kr., en fyrir hverjar 326 kr., sem hann þarf nú að greiða, þyrfti hann framvegis að greiða 299 kr. Þetta væri þriðjungs launaskerðing, miðað við raunverulega dýrtíð. Og verði niðurgreiðslur felldar alveg niður, verður þetta mun óhagstæðara. Þessa leið hefur Framsókn alltaf verið að bjóða fyrir hönd bændanna og síðast nú á stéttaráðstefnunni. Og það er sannarlega öðrum en Framsókn að þakka, að ekki skuli vera búið að rýja bæði bændur og launþega inn að skyrtunni á þennan hátt.

En eins og ég sagði, þá er það þessi leið, sem verið er að fara núna, þó að þetta sé aðeins byrjun.

Nú er vísitalan fest í 300 með lögum, en meiningin er að halda lengra. Það sanna bæði ummæli sumra hæstv. ráðherra og blaða þeirra.

Utanrrh. hefur sagt: „Það er miklum annmörkum bundið að stíga stærri skref í einu. ... Ef dýrtíðin er ekki lækkuð miklu stórkostlegar en hægt er á þessu stigi, þá þarf fiskábyrgð. Ríkisstj. stefnir að því að afnema fiskábyrgðina.“

Eigi að lækka vísitöluna stórkostlega með svona aðgerðum, þýðir það þær fjárhagslegu afleiðingar, sem ég lýsti áðan, fyrir almenning án þess að bjarga vélbátaútveginum út úr hans erfiðleikum. Það liggur alveg fyrir sannað. Og eitt aðalstjórnarblaðið, Vísir, segir sama daginn sem frv. var lagt fram:

„Þannig er vísitala þessa mánaðar 328 stig, en vafalaust á hún eftir að hækka vegna hækkaðs vöruverðs á erlendum nauðsynjum. Tillit verður ekki tekið til slíkrar hækkunar í framtíðinni.“

Hér er það bara eitt af aðalstuðningsblöðum stjórnarinnar, sem slær því föstu, að dýrtíðin muni fara hækkandi.

En á þessu ári eru gjaldeyristekjur þjóðarinnar mörgum milljónum kr. meiri en nokkru sinni fyrr og þjóðin betur útbúin af góðum atvinnutækjum en áður hefur þekkzt.

Að þessu athuguðu er vert að minnast ofurlítið meira á hinar margumtöluðu fórnir.

Víst er um það, að almenningi eða launþegum er ætlað að fórna af sínum tekjum. En hver skyldu vera ákvæði um það, að stórgróðamenn skuli fórna af sínum tekjum? Bæði ég og aðrir þm. höfum lesið frv. orð fyrir orð án þess að geta fundið þau. En lítið atvik, sem gerzt hefur í sambandi við meðferð málsins, skýrir þetta.

Þegar frv. var fyrst útbýtt meðal þm., stóð þessi setning m.a. í grg.:

„Einnig eru settar skorður við því, að hluthöfum í hlutafélögum sé greiddur óhæfilegur arður af bréfum sínum.“ Ég fór að leita betur, þegar ég las þetta, en varð einskis vísari. En skýringin kom daginn eftir. Þá var frv. útbýtt að nýju í 2. útgáfu og þá búið að fjarlægja þessa hættulegu setningu úr grg. Mér er sagt, að 1. útgáfunni hafi verið brennt.

Þetta bendir til þess, að einhvern tíma hafi einhverjum komið til hugar að reisa einhverjar skorður við því, að hluthöfum í hlutafélögum væri greiddur óhæfilegur arður af bréfum sínum. Þannig hefur þessi setning álpazt óviljandi inn í grg. En þetta sýnir líka, að það er ekki meiningin að láta þá, sem hafa óhæfilegan arð, fórna neinu af honum. Nú hefur hæstv. forsrh. sannað það sjálfur fyrir fjórum árum síðan, að fórnir eins og þær, sem nú eru ætlaðar algengum launþegum, eru ekki til þess að lækka dýrtíðina, heldur þvert á móti.

Þær skyldu þó ekki eiga að brenna á altari gróðamannanna, altari þeirra, sem eiga að fá að halda því áfram að fá greidda óhæfilegan arð af bréfum sínum? Kannske það eigi líka einhverjir að bætast við, sem ekki hafa fengið hann áður?

Ef til vill er einhverja slíka hluthafa að finna innan hæstv. ríkisstj. sjálfrar. Það er „fyrsta ríkisstj., sem Alþfl. myndar á Íslandi“, sem flytur þetta frv.

Og hvað hefur gerzt, sem réttlætir það, að sá flokkur, sem beitti sér af alefli gegn sams konar ráðstöfunum 1943, tekur þær nú á arma sína sem stjórnarforustuflokkur 1947? Nákvæmlega ekki neitt. Hin skýru rök, sem núverandi forsrh. færði þá fram fyrir því, að svona ráðstafanir falsa vísitöluna, hækka vöruverð, auka misrétti og magna dýrtíðina, eru í fullu gildi ennþá. Það mun almenningur finna, þegar kemur fram á árið 1948. En napurt er það fyrir þá stjórn, sem lýsti sitt aðalverkefni að lækka dýrtíðina, að þá skuli árangurinn verða þessi að dómi forsrh. sjálfs.