18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

83. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ætlað að leiða þessar umr. hjá mér, en þar sem gætti misskilnings í ræðu hv. síðasta ræðumanns. þá vil ég leyfa mér að leiðrétta hann.

Ég skil vel afstöðu hv. þm., að vilja fá brú á þetta fljót, sem sker sundur blómlega byggð. En ef frv. er athugað í réttu ljósi, kemur í ljós, að það getur tæplega staðizt ef athugaðar er u fyrri samþykktir þingsins. eins og hv. 1. þm. Árn. (JörB) minntist lítillega á.

Hv. flm. las upp þál. um brú á Hvítá hjá Iðu. Hann misskildi þá þál., þar sem hann sagði, að búið væri með henni að ákveða að byggja þá brú fyrir fé úr ríkissjóði. Þetta var algerður misskilningur, ef hv. þm. hefur meint það. sem hann sagði. Ég vil nú með leyfi hæstv. forseta lesa upp þessa þál. og leiðrétta misskilninginn. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar hefja undirbúning til brúargerðar á Hvítá hjá Iðu í Biskupstungnahreppi. Skal brúin síðan reist eigi síðar en svo, að hún verði fullgerð á árinu 1948.

Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði“ (ekki kostnaðurinn við brúargerðina, heldur við undirbúninginn og athugunina).

Hv. þm. vita, að í sambandi við flestar þál. um. að fram fari athuganir og rannsóknir, stendur þessi klausa neðan undir, að kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði, og það er það, sem hér er átt við, þ. e. a. s. að athuga og undirbúa þetta verk, að brúa Hvítá hjá Iðu, en engin ákvörðun tekin með till., að brúin skuli byggð fyrir fjárframlög úr ríkissjóði.

Hv. þm. minntist á Þjórsárbrúna í þessu sambandi. Ég tel ekki þörf á að ræða mikið um hana, þar sem ákveðið hefur verið að byggja hana og fjárhagsráð hefur veitt fjárfestingarleyfi fyrir hana. Í sambandi við heimildina, sem hann gat um, að væri í fjárl., 700 þús. kr., til byggingar Þjórsárbrúarinnar, þá er mér ekki kunnugt, hvað hæstv. stj. hefur gert í því, en ég geri ráð fyrir, að hún noti heimildina, og enda þótt nú sé í fjárlfrv. heimild um 700 þús. kr., sem ætlazt er til, að notuð verði vegna byggingar á Þjórsárbrúnni, þá er enn eftir a. m. k. hálf önnur millj. kr. af áætluðum byggingarkostnaði, og þá er óráðið, hvernig þess fjár verður aflað. Ég minnist þess í fyrra. — og ég held, að það hafi verið á fundi í fjvn. eða þá í prívatsamtali. — að vegamálastjóri minntist á það, að mjög eðlilegt væri að fá fé úr brúasjóði til Þjórsárbrúarinnar og væri þá hugsanlegt að taka lán til brúargerðarinnar, sem yrði endurgreitt með fé úr brúasjóði, eftir því sem fé kæmi í sjóðinn. Þetta vildi ég leyfa mér að benda á, vegna þess að mér finnst gæta dálítils misskilnings hjá hv. þm.

Ég er samþykkur því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, að það yrði ekki til að auka virðingu þingsins, ef það færi í máli eins og þessu að gera samþykktir, sem færu í bága hver við aðra. Mér virðist því, að samþykkt eins og þessi um Hvítárbrú hjá Iðu bindi nokkuð þá framkvæmd og að hún hljóti að koma á undan þeirri brú, sem hv. síðasti ræðumaður talaði hér um, þó að ég skuli fyllilega viðurkenna, að sú brú sé nauðsynleg, og skilji vel, að hann hlýtur að hafa áhuga fyrir henni, og er sjálfsagt að styðja hann í þeirri viðleitni, þegar föng eru á.