21.11.1947
Neðri deild: 22. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

91. mál, raforkulög

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þetta frv., er nú liggur fyrir, ásamt mörgum fleiri hv. dm. úr öllum flokkum sökum þess, hve nú er erfitt að fá nauðsynleg lán til raforkuframkvæmda. Raforkul. voru sett fyrir hálfu öðru ári, og var þá deilt um, hve kostnaðarhluti héraðanna ætti að vera mikill. Sumir héldu það ofætlun, að rafmagnsnotendur gætu borgað 1/4 stofnkostnaðar, en þannig voru l. sett. Og þó ekki væri þá eins langt gengið og ýmsir hefðu kosið, var þá stórt spor stigið í þá átt að flytja rafmagnið út um byggðir landsins. Þá var gert ráð fyrir, að mönnum yrði kleift að fá lán til þessa fjórðungshluta, en reynslan hefur nú sýnt, að það er útilokað, enda er engin lánsstofnun, sem telur sig sérstaklega hafa skyldur að rækja í þessu efni. Þótt ekki sé langt síðan raforkul. voru sett, hafa þau þegar orðið að miklu gagni og hefur samkvæmt þeim verði byrjað á mörgum veitum, svo sem Grenjaðarstaðaveitu, Reykjanesveitu, Borgarfjarðarveitu, Dalvíkurveitu, þar sem framkvæmd er þegar hafin, veitum fyrir austan fjall og ýmsum fleiri. En engar þessar veitur hafa fengið lán, og við svo búið má ekki standa, því að komið hefur í ljós, að þó að rafmagnsnotendur eigi ekki að greiða meira en 1/4 stofnkostnaðar, er þeim það ofætlun, rafmagnsnotendur geta ekki borgað þessa upphæð. Reikna má með því að heimtaugagjaldið verði 6000 kr., ef ekki er meira en 1 km. milli bæja að meðaltali. Sumir mundu nú e. t. v. segja, að rafmagnsnotendum væri ekki ofraun að borga þessar 600 kr., en ég vildi benda á, að þarna kemur fleira til greina á þeim stöðum, þar sem rafmagn hefur ekki áður verið. Þar verða menn einnig á sama tíma að kaupa öll rafmagnsáhöld og kosta auk þess innlagnir í öll hús. Og þó að heimtaugagjaldið yrði ekki nema 6000 kr., þá yrði stofnkostnaður þannig alltaf 10–15 þús. Almenningur getur ekki lagt þetta fram, og því verður hann að fá lán. Þetta frv. gerir ráð fyrir, að raforkusjóður verði efldur, svo að hann geti orðið rafmagnsnotendum til frekari stuðnings, og er ætlazt til, að framlag ríkissjóðs til sjóðsins hækki úr 2 milljónum upp í 2½ milljón og heimilt skuli að lána helming af framlögum héraðanna til 10 ára með 2% vöxtum. Ef gert er ráð fyrir raflögnum á 300 býli á ári og til hvers þeirra þurfi að lána 3000 kr.. þá verður sú upphæð 900 þús. kr., eða 400 þús. kr. meiri en gert er ráð fyrir að auka raforkumálasjóð um samkv. þessu frv. Menn gætu því sagt, að ekki hefði veitt af, þótt lagt hefði verið til að hækkað ríkisframlagið í 3 milljónir kr., en við flm. treystumst ekki til að fara fram á meiri hækkun en upp í 2½ millj. kr. og teljum rétt að fá úr því skorið, hvað þetta frv. getur náð langt til að skapa jafnvægi í þessum málum og til að veita þeim raforku, sem hennar óska. Reynslan sýnir bezt, hverjir vankantarnir eru, og af henni mun Alþ. læra að skapa hinn rétta grundvöll þessa máls. Þetta frv. nær aðeins til rafveitna, en brátt kemur að því, að eitthvað þarf og fyrir rafvirkjanirnar að gera, en mikið mun kveða að rafvirkjanagerð á næstunni. Má þar nefna viðbótarvirkjanir Laxár og Sogsins, enn fremur fyrirhugaðar virkjanir í Skagafirði og á Snæfellsnesi og munu lánastofnanir tæplega færar um að veita fé til þessara mannvirkja. En ástæðan til þess að virkjanir eru hér ekki nefndar, er sú að raforkumálasjóður er ekki nógu öflugur til þess að styrkja svo stórfelldar framkvæmdir. Ef þróunin í rafmagnsmálunum verður eins og við vildum kjósa, þá rekur brátt að því, að hér verði að stofna raforkubanka. Það er ekkert smáræðis fé, sem þarf til þess að koma raforkumálunum í það horf, sem fyrirhugað er. Til dæmis er gert ráð fyrir, að viðbótarvirkjun Sogsins muni kosta um 50 milljónir kr., en Laxárvirkjunarviðbótin um 20 millj. En þetta atriði er ekki ætlunin að leysa með þessu frv., en ég bygg að með framgangi þessa frv. sé stórt spor stigið í þá átt að gera dreifbýlinu fært að fá rafmagn. Og þó að erfitt verði að borga heimtaugagjöldin, ætti það að vera kleift, ef kostur er á lánum til langs tíma með vægum vöxtum.

Ég vona því, að þetta frv. verði hér samþ. og ekki eingöngu hér, sem telja má víst, þar eð svo margir dm. hafa sýnt skilning á málinu og gerzt flm., heldur og í hv. Ed. — og megi verða að l. sem fyrst, svo að það fái bætt úr því, sem til er ætlazt, þótt það gangi ekki eins langt og margir hefðu kosið. En reynslan sker úr og vona ég að fenginni reynslu verði þeir vankantar, sem í ljós kunna að koma, af skornir og þessum málum þannig skipað, að íbúar dreifbýlisins fái rafmagn, án þess að þeim verði íþyngt um of.

Óska ég svo að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn. að þessari umr. lokinni.