18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þessi brtt., sem ég flutti hér áðan, er nú ekki til umr. hér í hv. d., þar sem henni var vísað frá. Hæstv. menntmrh. ætlaði að nota sitt vald sem ráðh. til þess að neita um afbrigði. En hv. d. var nú svo greiðasöm að gera þetta fyrir hann og taka af honum þá skömm, sem hann hefði orðið fyrir, ef hann hefði haldið fast við sína fyrri ákvörðun. Það má vel vera, að þessi skömm verði léttari, þar sem hún hvílir á fleiri bökum, og skal ég ekki frekar um það ræða. En, eins og hæstv. dómsmrh. tók fram hér áðan, þá mun hv. þm. ljóst vera, að þessi ofsi, sem greip ýmsa hv. þm. hér áðan, getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir það mál, sem þeir vildu berjast hraustlega fyrir. Það má vel vera, að þótt meiri hluti hv. þm. verði með því og telji ekki ofrausn að verja einni millj. kr. árlega til þess að hafa hér symfóníuhljómsveit, þá nái málið samt sem áður ekki fram að ganga, því að hér í þessari hv. d. hefur verið gefið fordæmi um að neita um afbrigði fyrir brtt., sem fram er komin á löglegan hátt.

Ég tók fram hér áðan, að ég tel, að það sé vel þess vert að efla hljómlist í landinu og að hún geti haft menningarlegt gildi fyrir þjóðina. En ég endurtek það, að ég tel of mikið að skattleggja borgarana þannig, að þeir greiði eina millj. kr. á ári til symfóníuhljómsveitar. Slíkt geta milljónaþjóðir gert, en ekki Íslendingar, sem eru ekki nema um eitt hundrað þús. að tölu. (SigfS: Þetta eru ekki nema 600 þús. kr.). Þetta eru ekki nema 600 þús. kr., segir þessi hv. þm. En þetta er nærri ein millj. kr., þegar allt landið er með reiknað, og byggi ég það á nákvæmum tölum, sem ég hef fengið á borgarstjóraskrifstofunni um bíóhúsin hér í Reykjavík. En eftir að þær tölur voru upp gefnar, hefur bætzt við Austurbæjarbíó, sem alltaf er fullt á hverju kvöldi, og líka Trípólíbíó, sem ekki voru tekin með í reikninginn, þegar þessi útreikningur var gerður. Nú er tekinn 21 eyrir af hverjum bíómiða sem sætagjald, sem rennur í bæjarsjóð. Og af þessum þremur bíóum, Tjarnarbíói. Gamla bíói og Nýja bíói, hefur árin 1944, 1945 og 1946 komið þannig í tekjur til bæjarins um 400 þús. kr. á ári. Svo bætast við tvö bíó, og er þá öruggt, að þegar þau eru tekin með, þá hafa tekjur bæjarins af þessu 21 aura sætagjaldi orðið um 600 þús. kr. En þetta er aðeins Reykjavík, og það er það, sem hv. 6. þm. Reykv. reiknar með. Hann reiknar aðeins með Reykjavík, þegar hann talar um tekjurnar af þessu, en ætlast þó til, að ákvæði frv. gildi öll kvikmyndahús á landinu. En ég geri ráð fyrir, að þegar öll kvikmyndahús á landinu eru tekin með í reikninginn í þessu efni, þá sé öruggt, að tekjurnar af þessu 25 aura gjaldi verði nær einni millj. kr. Í öllum stærri bæjum eru kvikmyndahús og sums staðar tvö, og kvikmyndahús eru komin víðs vegar um landið í kaupstöðum og þorpum. Og ef þessi lög eiga að gilda fyrir allt landið, þá tel ég öruggt, að þetta 25 aura gjald nægi til þess að ná inn einnar millj. kr. tekjum. — Það er ekki svartsýnin hjá hæstv. menntmrh. og ekki hjá hv. alþm., sem telja, að við séum svo efnum búnir, Íslendingar, að við getum haldið uppi symfóníuhljómsveit, sem kostar hvorki meira né minna en þetta. Hvaða þjóð í heimi mundi leyfa sér að verja jafnmiklu fé hlutfallslega eins og þessir ágætu menn ætlast til, að 130 þúsunda þjóð geri, með því að fá þetta frv. samþ.? Ég tel miklu eðlilegra, að það sé árlega, eftir því sem efnahagur leyfir og ástæður þykja til, varið ákveðinni og hóflegri fjárhæð á fjárl. til eflingar hljómlist í landinu.

Ég leyfi mér að bera fram rökstudda dagskrá við þetta mál á þessa leið:

Enda þótt vert sé að efla hljómlist í landinu og symfóníuhljómsveit hafi menningarlegt gildi, telur deildin ofrausn að skattleggja landsmenn allt að einni milljón króna árlega til symfóníuhljómsveitar í Reykjavík, eins og verða mundi, ef frumvarpið á þingskjali 463 verður að lögum, og telur réttara að verja hæfilegri fjárhæð í fjárlögum, ef fært þykir, í því skyni og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.