17.02.1948
Efri deild: 63. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2979)

160. mál, stóríbúðaskattur

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Í gær voru húsaleigulögin rædd hér í þessari hv. þd. Voru þau rædd allýtarlega og sitthvað sagt um gildi og framkvæmd þeirra. En í umr. þessum kom það m. a. fram, að margir töldu, að húsnæði væri enn af mjög skornum skammti. og álíta, að ef breyt. verði gerð á húsaleigul., mundi það fólk, sem sagt yrði upp húsnæði, verða húsnæðislaust. Nú sem stendur virðist varla vera nóg húsnæði í Rvík. en það stafar af því, að fjöldi fólks býr miklu rýmra en það áður gerði. Algengt er, að ein fjölskylda hafi til umráða 6–12 herbergi, og er í þeim fjölskyldum oft sárafátt fólk, — allt niður í tvennt í 12 herbergja íbúð. Við flm. þessa frv. teljum því þörf, þar sem sumir búa við mjög rúmgott húsnæði, en aðra vantar það, að reynt verði að bæta hér úr að nokkru. Við teljum ekki óeðlilegt, að þeir, sem búa í miklum húsakynnum, verði látnir greiða skatt til hins opinbera. Í húsaleigul. eru að vísu ákvæði um það, að húsaleigunefnd sé heimilt að taka húsnæði og ráðstafa því, en húsaleigun. hefur ekki sýnt í framkvæmdum sínum neitt í þá átt. Ég hef ekki heldur trú á því, að hún geri neitt í þá átt. Þess vegna viljum við flm. þessa frv. leyfa þeim mönnum, sem búa í stóríbúðum, að halda áfram að vera flott, en láta þá greiða nokkurn lúxusskatt til ríkisins eða leigja út hluta af húsnæði sínu. Hvað stórt húsnæði eigi að vera skattfrjálst, er auðvitað nokkurt álitamál. Við flm. þessa frv. vildum ekki fara hart að mönnum, en viljum leyfa mönnum að halda áfram að búa nokkuð flott, en ákvæði 2. gr. frv. ákveður, hve stórt húsnæði skuli vera skattfrjálst í hverri íbúð. Í 4. gr. frv. er svo fram tekið, að af hverjum fermetra í gólffleti íbúðar, sem er fram yfir það, sem 2. gr. tiltekur, skuli sá, er íbúðina hefur til afnota, greiða kr. 200.00 á ári. Þá er lagt til, að skattanefndir leggi skattinn á og að frv. þetta, ef að lögum verður. komi til framkvæmda alls staðar þar. sem húsaleigul. koma til framkvæmda. Nokkuð er þetta þó umdeilanlegt, því að nokkuð er misjafnt ástandið í húsnæðismálunum í sveitunum og við sjóinn. Svo er einnig háttað, að víða fer húsnæðisþörfin eftir árstíðum, og má hér minna á það, að yfir síldveiðitímann er húsnæði víða þéttskipað, en losnar svo um það að síldveiðum loknum. Í frv. er þetta tekið til greina, ef húseigandi þarf að hafa fleira fólk í íbúð sinni yfir vissan tíma á árinu vegna þess, að atvinnuháttum er svo varið, og fjallar 3. gr. frv. um þetta.

Þá er svo lagt til í frv., að skattanefndir reikni út stóríbúðaskattinn og að þær fái upplýsingar um stærð húsa hjá lóðaskrárriturum í Rvík, en hjá byggingarnefndum og byggingarfulltrúum annars staðar á landinu. Þá skal manntalsskrifstofan í Rvík og þeir, sem framkvæma manntal annars staðar, gefa skattanefndum upp fjölda heimilisfastra manna í hverri íbúð í umdæminu. Ef sá, sem húsnæði hefur, gefur ekki þær upplýsingar, sem krafizt er í frv., fyrir tilskilinn tíma, er heimilt að beita allt að 100 kr. dagsektum.

Þá er lagt til í frv., að mönnum sé gert kleift að kæra álagningu stóríbúðaskatts til skattanefnda. Nú eru ráðherrastólarnir tómir hér í hv. Ed., og þýðir þess vegna víst ekki, að benda á, að í öðrum 1., sem Alþ. hefur samþ., er mönnum meinað að leita réttar síns, — meinað að kæra, því að ekki er gert ráð fyrir, að slíkt sé hægt. í 1. um eignakönnun og eignaraukaskattinn er hvergi gert ráð fyrir kærufresti, en slíkt þarf að vera í þeim l. eins og í l. um tekju- og eignarskatt. Við setningu l. þarf að gæta þess, að opin leið sé til þess að leita réttar manna, ef vitlaust er á þá lagt, en slík ákvæði vantar í þessi tvenn l., sem ég nefndi.

Ég þarf svo vart að tala frekar fyrir þessu frv. Tilgangur þess er að losa um húsnæði, sem notað er í óhófi. — Ég vænti svo þess, að þessu máli verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. þessarar hv. d., fái þar fljóta afgreiðslu og gangi hratt í gegnum þingið.