20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (3015)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er algerlega byggt á misskilningi. að þfkn. geti ráðið kaupi þm., þegar frestað er. Í l. um þingfararkaup frá 1919 er þannig í 1. gr.:

„Alþingismenn skulu hafa 12 kr. þóknun daglega, bæði fyrir þann tíma, sem þeir sitja á Alþingi, og þann tíma, sem fer til ferða að heiman til þings og heim af þingi.“

Þessa daga eiga þeir að fá 12 kr. og aðra daga ekki. Svo kemur síðar, að þm. fái ferðakostnað og þfkn. ákveður ferðadagana, hvað þeir séu margir og hvaða útgjöld séu á leiðinni. (SigfS: Stendur það í lögunum?) Það stendur í lögunum, að þm. skuli fá kaup, 12 krónur á dag, þann tíma, sem setið er á Alþingi, og þá daga, sem þm. eru að ferðast heiman að til þings og heim af þingi. Þetta er tæmandi upptalning um það. Ef það er hins vegar meiningin að borga alþm. kaup einhvern tíma, eftir að störfum er hætt í dag, þá er þingi frestað frá þeim degi, sem því er hætt. Ef það er meining hæstv. ríkisstj. að láta þm. fá kaup jólafríið, þá er þingi frestað frá 31. des. Fram að þeim tíma teljast þeir starfandi, þótt í fríi séu, og fram að þeim tíma eru þeir skyldugir að mæta, ef forseti kallar þá saman. Þetta var um þingfrí. En ef um frestun er að ræða, verður sjálf ríkisstj. að boða fund og kalla þm. saman með fyrirvara, þegar tími er til kominn. Þegar frestað er, fá þeir ferðakostnað heim og heiman, en það fá þeir ekki, þegar þingfrí er, því að þá eru þeir skyldugir að mæta, ef þörf er á.

Ég er sjálfur með því, að gerð verði þingfrestun. Ég sé enga ástæðu til að borga öllu starfsfólki milli 8 og 10 þús. kr. á dag í meira en mánuð, ef ekkert á að gera.

Ef það er meiningin. að þingið komi saman strax eftir áramótin eða boða þurfi fund milli jóla og nýárs, þá er sjálfsagt að gefa aðeins þingfrí, en fresta ekki. Þetta liggur ljóst fyrir. Ef þingi er frestað, þá situr það ekki einu sinni að nafninu til. Þá er hægt að gefa út brbl. Þá er engum greitt kaup, aðeins ferðakostnaður heim og til þings, aftur. Ef þingfrí er gefið, situr þingið að nafninu til, öllum er greitt kaup, en enginn ferðakostnaður er greiddur, hvorki heim né heiman, og þá má ekki gefa út brbl. Það er eðlismunur á þessu tvennu. Ég læt aldrei hafa mig til að samþykkja kaup þvert ofan í lögin. Það er búið að brjóta nóg lög á sjálfu Alþingi.