23.03.1948
Sameinað þing: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3169)

166. mál, áhættuiðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Þetta mál hefur verið athugað í allshn. Eitt af því fyrsta, sem n. gerði við það, var að senda það til umsagnar tryggingaráðs. N. barst svo álit tryggingaráðs, og sömuleiðis mæltist forstjóri tryggingastofnunarinnar til viðræðu við n. og ræddi allýtarlega við hana um málið. Við það að kynna sér skýrslu tryggingaráðs, sem hér hefur verið prentuð með sem fskj. og ég vænti. að hv. þm. hafi kynnt sér. þá komst n. að þeirri niðurstöðu, að sú lækkun, sem gert er ráð fyrir í till. á þann veg, sem þar er gert ráð fyrir, gæti ekki komið til greina. Skýrslur og reikningar tryggingaráðs sýna, að ef slík lækkun væri gerð á iðgjöldum, þá mundi það hafa það í för með sér, ef miðað er við 3 síðustu ár. að skorta mundi nærri 1½ millj. kr. á það, að iðgjöldin hrykkju fyrir þeim bótum og öðrum greiðslum. sem sjómannatryggingin þarf að inna af hendi.

Það mun hafa verið fyrst og fremst með þetta fyrir augum, að tryggingaráð mótmælti alveg þessari till., lagði alveg gegn henni, og sömuleiðis framkvæmdastjóri þessara mála, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins.

Hitt kom þá líka í ljós, þó að það gæti ekki komið til framkvæmda að því er sjómannatrygginguna snerti, að það virtist vera augljóst, að um þá deild, sem kallast iðntryggingar, gegndi allt öðru máli. Þar hafa safnazt á undanförnum árum gildir sjóðir, og samkvæmt reikningum tryggingastofnunarinnar er tekjuafgangur á árinu 1946 í þessari deild 1728217 kr. Þetta er mikil upphæð á okkar mælikvarða, og það virtist, að einnig mundi verða mjög mikill tekjuafgangur í þessari deild á árinu 1947, en frá þeim reikningum hefur ekki verið gengið enn.

Það kemur líka fram í bréfi forstjóra tryggingastofnunarinnar, að hann gerir ráð fyrir og tryggingaráð gerir ráð fyrir, að hér muni vera hægt að lækka. Eftir að n. hafði kynnt sér þetta rækilega, varð hún sammála um, eins og ég sagði áðan, að ekki væri fært að fylgja till. óbreyttri, heldur taka sjómannatryggingarnar út úr og leggja til, að iðntryggingarnar væru lækkaðar. Þetta mætti mjög mikilli mótstöðu hjá forstjóra tryggingastofnunarinnar og einnig hjá tryggingaráði, að því er mér skildist. Og þar sem það var alveg sýnt, að n. mundi ekki geta orðið sammála um slíka afgreiðslu, en á hinn bóginn var orðið það áliðið þings, að ef eitthvað átti að ganga fram um þetta, varð að leitast við að ná samkomulagi á þann veg, að málinu þokaði nokkuð áfram, þó að það næðist ekki til fulls, sem að var stefnt. Og með því að ýmsir nm. töldu, að hér væri um þýðingarmikið mál að ræða, sem æskilegt væri, að drægist ekki um skör fram, þá töldum við þó betra að slá nokkuð af okkar kröfum en að málið strandaði eða dagaði uppi. Það varð því samkomulag um það í n. að breyta till. á þann veg, sem hér er gert með brtt. á þskj. 618, en aðalbreyt. er þar sú, að sjómannatryggingarnar eru felldar út úr og að lækkun komi ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1949. Um þetta gat öll n. sameinazt. Töldum við, að málinu væri þar með borgið, ef við legðum til, að till. væri afgr. í því formi til ríkisstj.