24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3194)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann á síðustu stundu, en vildi gera grein fyrir fyrirvara mínum. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, ekki af því, að ég sé ekki sammála till. eins og hún er orðuð á þskj. 848, ég er henni fyllilega sammála og tel, að með þeirri orðun, sem þar er, stuðli hún að því. að dreifingin út um land verði sem réttlátust, ef eftir því væri farið, en það eru hinir 4 liðir. 1.–4., sem fyrirvari minn byggist á. Ef þessir liðir eru athugaðir vel, er flestum ljóst, að það er ekki hægt að fara veru1ega eftir þeim, og er auðséð á nál., að flestum nm. hafa verið ljósir ýmsir megingallar á þessu.

Ég veit ekki. hvort ég á að fara að eyða tíma í að rekja þetta í sundur. Ég býst við, að flestir flm. till. hafi ekki gert sér ljóst, hvað verið væri að innleiða, ef taka ætti þetta bókstaflega, sem þeir vilja hafa í till. Það er ekki nema eðlilegt, að Alþ. láti í sér heyra í sambandi við viðskiptamál. Það er kunnugt, að farið hafa fram umræður um þau um land allt meðal almennings og kaupsýslumanna og ekkert undarlegt, þegar innflutningurinn er skorinn niður, ekki um tugi milljóna, heldur kannske um hundruð milljóna, þá verði afleiðingarnar af því vöruleysi óánægja allra, sem við verzlun fást, og eins hinna, sem fá ekki vörur út á skömmtunarseðlana, sem þeir hafa í höndunum, en við, sem erum úti á landi, viljum vitanlega tryggja það eftir því sem unnt er, að landsbyggðin verði ekki afskipt. Ég hef hitt menn utan af landi, sem hafa sagt: „Allar búðir í okkar verzlunarstað eru tómar. Þar fást engin búsáhöld, engin vefnaðarvara.“ Og þeir héldu það, þessir góðu menn, að það væri ekkert annað en að fara til Rvíkur, en þegar þeir höfðu verið í bænum í 1–2 daga til þess að ná í þessar vörur, var reynslan orðin allt önnur, og þetta er afleiðing af þeim niðurskurði, sem gerður hefur verið á heildarinnflutningnum; þetta er afleiðing af því, að núna í 3 mánuði, sem liðnir eru af þessu ári, hefur ekkert innflutningsleyfi verið veitt fyrir vefnaðarvöru, búsáhöldum o. fl. — Það væri hægt að segja ýmislegt um þessi mál og sérstaklega hina fjóra liði, sem eru hér á till. á þskj. 486. en ég mun nú láta máli mínu lokið. Ég tel, að það sé alveg fráleitt að hugsa sér að skipta landinu þannig í fjórðunga eins og þarna er gert ráð fyrir. Afleiðingin af því mundi verða sú, að taka yrði upp í meginatriðum þá reglu, sem sósíalistar fluttu hér í vetur, sem sé það, að ef fara á að meta þarfir allra eins og þar er gert nákvæmlega, að hafa algert „kontrol“ með því, hvað hver eigi að fá, þá yrði að setja upp viðskiptan. í hverjum landsfjórðungi til þess að skipta því milli hinna einstöku verzlana, sem hver landsfjórðungur ætti að fá, svo að maður ekki nefni það, sem hv. þm. Dal. talaði um í gær, að þó að Dalasýsla væri í Vestfirðingafjórðungi, þá mundu Dalamenn ekki óska eftir því að sækja vörur sínar vestur á Patreksfjörð eða Ísafjörð, heldur mundu þar flestir vilja sækja þær til Reykjavíkur.

Ég tel ástæðulaust að fjölyrða meira um þetta. Ég tel, að brtt. eins og hún liggur fyrir á þskj. 648 sé ákveðin ábending til ríkisstj. um það að greiða eins úr þessu máli og mögulegt er og að svo miklu leyti sem það brýtur ekki í bága við fjárhagsráðsl. eins og þau nú eru.