17.10.1947
Sameinað þing: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (3273)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég vil samgleðjast hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræðrum hans, að hann skuli nú hafa fengið málið aftur og hafa talfærin í betra lagi en á þriðjudaginn. því að nú hefur þessi hv. þm. talað í 2½ klst., en eins og vænta mátti, hefur ræðan verið sami vatnsgrauturinn og vant er, soðinn aftur og aftur og ausinn úr sama erlenda pottinum, en slíkar gerast nú ræður þessa hv. þm.

Meginatriðið í ræðu þessa hv. þm. kom fram í lokin og það atriðið, sem er höfuðskoðanamunurinn milli mín og hans, en það er, að hann telur Bandaríkin líkleg til að verða árásarþjóð og muni ætla sér að nota Keflavíkurflugvöllinn til þess að gera árásir á meginland Evrópu. Þetta er kjarni málsins, og raunar aðalatriðið í ræðu 2. þm. Reykv.

Það er vitað, að þessi þm. hefur varið nokkrum árum ævi sinnar til sagnfræðináms, og ég veit, að hann hefur góða þekkingu í þeim fræðum. Vil ég nú skora á hann að nefna dæmi úr sögunni um það, að lýðræðisþjóð hafi hafið árásarstríð að tilefnislausu eða í þeim tilgangi að undiroka önnur ríki. Ég hygg, að það séu fá dæmi um slíkt. Nei, hættan stafar alltaf frá einræðisríkjunum, þar sem fólkið fær ekki að ráða. Ég trúi ekki, að nokkur þjóð hyggi á nýja styrjöld eftir þær hörmungar, sem síðasta styrjöld hefur valdið, þar sem líka kemur alltaf betur og betur í ljós, þó að vitað væri fyrir, að styrjaldir leysa ekki vandamálin, heldur skapa stöðugt fleiri og erfiðari viðfangsefni. Ég trúi því ekki á þetta tal um yfirvofandi styrjöld. Og sízt af öllu tel ég hættu á því, að Bandaríkin hefji árásarstríð, því að þau eru sú lýðræðisþjóð, sem hefur sannað, að með lýðræðinu er hægt að skapa meiri velmegun en með nokkru öðru skipulagi. Og það má mikið vera, ef fjandskapur hv. 2. þm. Reykv. og skoðanabræðra hans við Bandaríkin, sem lesa má út úr hverju þeirra orði, stafa ekki af því, að þessi þjóð hefur með stjórnarfari sínu allan þann tíma, sem hún hefur verið sjálfstæð, sannað betur en nokkurs staðar annars staðar hefur verið sannað í heiminum, að lýðræðið er bezta stjórnarfyrirkomulag og lýðræðið getur ekki aðeins gilt fyrir litlar þjóðir, eins og menn kenndu áður fyrr, heldur er einnig hægt að stjórna mesta stórveldi heimsins með lýðræðisfyrirkomulagi. Hv. 2. þm. Reykv. byggir á þessum forsendum sínum, sem öll gögn skortir fyrir og öll reynsla manna mælir gegn, það, að mikil hætta hafi verið færð yfir Íslendinga með því að gera þeim kleift að hafa þennan flugvöll um stundarsakir í Keflavík og að nú sé reynslan búin að kenna okkur, að við Íslendingar eigum það ekki undir sjálfum okkur komið, hvort við drögumst inn í styrjöld eða ekki, og það taki ekki að loka augunum fyrir því, að ef Íslendingar verða fyrir þeirri ógæfu ásamt heiminum öllum, að styrjöld brjótist út, sem ég vil ekki trúa né trúi, að þá getum við ekki treyst á okkar eigin mátt til þess að verða þar algerlega utan við.

En hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksbræður hefðu viljað tryggja hag og líf íslenzku þjóðarinnar og íslenzkra borgara, sem byggju sunnanvert við Faxaflóa, þ. e. a. s. hér í Reykjavík og næsta nágrenni, þar sem hann segir mikinn hluta þjóðarinnar og mikið af hennar verðmætum saman komið. Hv. 2. þm. Reykv. vill tryggja þessar eignir á þann hátt að láta eina stóra flugvöllinn vera í sjálfri höfuðborg Íslands. Segjum, að það sé rétt, að Bandaríkin séu árásarþjóð, sem sé líkleg til að ráðast á Ísland. Mundi það þá hafa verið skynsamlegri leið, sem hann stakk upp á í fyrra, eða hans flokksmenn, að sprengja Keflavíkurvöllinn í loft og láta Reykjavíkurflugvöllinn vera eina völlinn, sem eftir væri? Mundu menn þá, eftir þær ægilegu lýsingar, sem hv. 2. þm. Reykv. af af hinni fyrirhuguðu árás Bandaríkjanna á Ísland, geta talið öryggi þjóðarinnar betur borgið en nú, þegar aðalflugvöllurinn er á þeim stað, þar sem byggð er mjög lítil, og fjarri meginhluta fólks, sem þetta land byggir? Ef þessi lýsing um yfirvofandi stríð er rétt, þá held ég, að ekki hefði verið hyggilega að farið að láta eina flugvöllinn á landinu, sem þýðingu hefði, vera í miðri Reykjavík. Auðvitað er það, að ef styrjöld kemur, þá geta fleiri ráðizt á Ísland en Bandaríkin. En hv. 2. þm. Reykv. vill lítið tala um, að aðrir hafi vopn og geti gert árás en elzta lýðræðisþjóð í veröldinni. Hitt er enn annað, sem samgmrh. sannaði hér glögglega í fyrra, að því fer svo fjarri, að þessi samningur skapi möguleika til árása á Evrópu, því að þessi samningur, samkvæmt fyrirmælum hans, er þó aldrei lengur í gildi en meðan Bandaríkin hafa herstöðvar í Mið-Evrópu. Ef Bandaríkin ætluðu að hafa Keflavíkurflugvöllinn til þess að gera árásir þaðan, — ætli þeir mundu þá ekki frekar velja borgir inni í Mið-Evrópu til þess að geta þaðan gert árásir en héðan frá Íslandi og þurfa að sækja yfir stór úthöf? Sannleikurinn er sá, að forsendurnar, sem hv. 2. þm. Reykv. byggir allt mál sitt á, eru fjarstæða og staðlausir stafir. Hér er ekki um neina herstöð að ræða né nokkra grímubúna bækistöð til þess að ráðast á aðrar þjóðir. Hér er einungis um venjulega samgöngumiðstöð að ræða, sem Bandaríkjunum var nauðsynlegt að fá, meðan þau samkvæmt alþjóðlegum samningi, við Breta, Frakka, Rússa og yfirleitt allar þjóðir, sem þátt tóku í styrjöldinni, eru skyldug að halda uppi hervernd í Þýzkalandi. Meðan þeir eru í gildi, er Bandaríkjunum nauðsynlegt að tryggja, svo sem bezt má verða, öryggi flugferða yfir Atlantshaf. Og auðvitað tæki því ekki fyrir Íslendinga, sem höfðu notið góðs af sigri þessara þjóða, og við erum margir, sem trúum því, að við eigum þeirra sigri frelsi okkar að þakka, að neita jafnmeinfangalausri greiðasemi eins og að leyfa þessa samgöngumiðstöð í okkar landi, úr því að hún er til og úr því að hún er ekki aðeins nauðsynleg fyrir þetta tiltekna flug, heldur einnig lífsnauðsyn fyrir allt flug yfir Atlantshaf vissan tíma árs. Með því er ekki sagt, að allar flugvélar, sem þessa leið fljúga, komi hér við. Hitt er rétt, að flug yfir Atlantshaf er öruggara og minni hætta fyrir líf og eignir, vegna þess að fullkominn flugvöllur er til hér á Íslandi, sem hægt er að nota, þegar hætta steðjar að. En það er öllum Íslendingum ljóst, sem nokkuð meta fjármál og gera sér grein fyrir því, hvað við þurfum að gera margt í okkar stóra, erfiða en mikla ágætislandi, að það var okkur ofvaxið að taka að okkur að halda við og reka svo stórfellda flugstöð sem þessa.

Hæstv. menntmrh. drap á það hér í upphafi þessa fundar, áður en losnaði um málbeinið á hv. 2. þm. Reykv. og sullið að austan fór að leka yfir þingsalinn, þá drap hann á það, að kostnaður við Reykjavíkurflugvöllinn mundi nú hafa verið býsna mikill. Ég held, að þegar menn fá að sjá alla þá reikninga, muni koma í ljós, að það hefði því miður orðið okkur ofvaxið um sinn, þar til okkur vex fiskur um hrygg, að halda sjálfir við þeirri samgöngumiðstöð, sem nauðsynleg er fyrir flugferðir um norðanvert Atlantshaf, sem eigi sér stað einmitt á Íslandi.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði hér mikið um álit það, sem komið hafði frá flugvallarn. í vor, og till. Flugvallarn. sjálf hefur nú lýst því yfir í skýrslu sinni, að alls ekki sé um nál. og till. n. að ræða. Hv. 2. þm. Reykv. gat aldrei um þessa einföldu staðreynd, að menn höfðu sjálfir tekið sig til og skrifað stjórninni, þar sem ekki væri um þeirra álit né till. að ræða, heldur talaði hann sífellt um þetta sem þeirra till. Þegar nú þannig er sagt frá um jafnauðsæjar staðreyndir, sem engum getur blandazt hugur um, hver sannleikurinn sé, þá má geta nærri, hvernig farið er með sannsöglina, þegar komið er að flokksefnum. Auðvitað er það svo með völlinn í Keflavík, að þar mætti margt betur fara. Það er einmitt eðli þess skipulags, sem ég og mínir flokksmenn og stuðningsmenn núverandi stjórnar trúa á, gagnstætt því skipulagi, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur því miður ákveðið að verja ævinni til að berjast fyrir. Og við búum við frjálsræði og gagnrýni og trúum á, að við komumst að beztri niðurstöðu. þegar frjálshuga menn eiga kost á því að bera ráð sin saman. Þess vegna er fjarri því, að við höfum á móti því, að þetta mál verði rætt. Ég skal ekki segja um það, hvort innan um alla gagnrýnina hjá hv. 2. þm. Reykv. kunni ekki að felast eitthvað, sem athugavert sé, þó að ekki verði séð í fljótu bragði. Einmitt af þeim sökum höfum við ekki kviðið umræðum um þetta mál, heldur fagnað því, að tilefni gafst til þess að ræða það hér á Alþ. og heyra álit Alþ., þá hef ég ákveðið að gera ekki þá ráðstöfun, sem annars er embættisskylda mín, að láta fram fara rannsókn á, með hverjum hætti plöggunum var stolið úr skjalasafni flugvallarn. og þau birt undir röngu heiti, fyrst í Þjóðviljanum, en síðan lesin upp af hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. Reykv. Ég veit vel, að þessir þm. gera sjálfa sig seka með athæfi sínu. Þeir væru teknir af lífi í Austur-Evrópu. Það er betra að láta þjóðina kveða upp dóminn eftir frjálsar umr. Ég veit, að minn málstaður er sterkari, því meira sem málið er rætt.