20.10.1947
Sameinað þing: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3276)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt mikið. það hefur ekki komið margt nýtt fram eftir ræðu mína á dögunum, þó að alllangt hafi verið talað, eins og ég vék að nokkrum orðum á föstudaginn.

Það leynir sér ekki hjá þeim hv. þm., sem síðast talaði, að hann er þeim samningi andvígur, sem gerður var í fyrra, og telur hann munu færa mikla hættu yfir hina íslenzku þjóð. Afstaða þeirra, sem samninginn samþykktu, er að sjálfsögðu allt önnur. En hér er þess að gæta, að við þessa samningsgerð mæltust Íslendingar ekki einir við. En auðvitað hefðum við ekki samþ. þann samning, ef við hefðum talið hann jafnhættulegan og þessi hv. þm. vill vera láta, enda er það svo, að margt af því, sem fært er til um þær hættur, er af þessum samningi muni stafa, að það er af annarlegum rótum runnið, svo sem þau erlendu blaðaskrif og annað slíkt, sem hann færði til. Þar er sumt alveg rétt og nákvæmlega hermt, en annað er úr lagi fært, eins og gengur og gerist, og ég hef satt að segja ekki gert mér grein fyrir á, hvoru meira ber, enda tel ég, að fyrir okkur skipti það litlu máli, sem verið er að segja um okkur og ákvæði samningsins, og þá sérstaklega það atriði, sem hann gerði mest að umræðuefni, uppsagnarákvæði samningsins, því að það atriði er svo ótvírætt sem mest má vera. Það er ekki sagt, að samningurinn skuli falla úr gildi að þeim tíma liðnum, sem þar er ákveðinn, heldur að það sé á valdi hvors aðila um sig að segja honum upp með þeim hætti, sem ráðgert er. Það er því á valdi stjórnarinnar á þeim tíma, hvort þetta ákvæði verður notað eða ekki.

Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir, sem telja alls konar hættur í samningnum fólgnar, eins og hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Siglf., liti öðrum augum á málið en þeir, sem telja að samningurinn sé alls ekki svo hættulegur, heldur telja að hér sé um að ræða hagkvæmnismál fyrir Íslendinga. En það, hversu lengi samningurinn skuli standa, um það verða þeir aðilar, sem þar eiga hlut að máli, að ákveða á sínum tíma eftir þeirri reynslu, sem þá verður fengin af samningnum. Ég tel sjálfsagt, að íslenzk stjórnarvöld haldi þannig á málinu, að ekkert verði gert, sem bindur landið lengur en í samningnum segir. og að allt sé gert, sem hægt er, til þess að afla okkur þekkingar í þessu efni eins og öðrum, til þess að við verðum sem bezt undir það búnir að taka við þeirri starfrækslu, sem þar er um að ræða, í okkar hendur, ef okkur svo lízt. Ég tel það engu máli skipta fyrir sjálfstæði Íslands, hvort svo er gert eða ekki, af því að þessi samningur haggar ekki einum stafkrók við sjálfstæði Íslands og skapar þannig enga þá hættu, sem ekki er þegar margfaldlega fyrir af öðrum ástæðum. Hér er ekki um neitt slíkt stórmál að ræða í þeim skilningi, sem sumir andstæðingar þessa samnings vilja vera láta. Hitt er annað mál, að það eru ýmis atriði í þessum samningi, sem sjálfsagt hefði mátt hafa með öðrum hætti. Vitanlega væri æskilegt, að við gætum annazt öll þau störf, sem vinna þarf á íslenzkri grund. Það er vonandi, að svo verði, en þegar þar að kemur, verður úr því skorið.

Varðandi þá miklu andstöðu, sem hv. þm sagði, að hefði mætt samningnum, þá er það á allra manna vitorði, að meginþorri þjóðarinnar taldi samninginn vera góða lausn á þessu máli, sem leysa þurfti í fyrra, og meira en sætti sig vei við samninginn. Menn töldu þessa lausn vera mjög heppilega. Og ég vil sérstaklega geta þess, að það er algerður misskilningur, sem hv. þm. hélt fram, að á flokksfundum sjálfstæðismanna, a. m. k. hér í bæ, hefði komið fram nokkur andstaða gegn þessum samningi. Það var þvert á móti. Menn voru óvenjulega sammála um þessa samningsgerð og töldu hana einstaklega heppilega. Hitt er annað mál, að í flokknum voru ýmsir menn, sem höfðu sérstöðu um ýmis smærri atriði, eins og veli getur verið, þó að menn séu sammála um það, sem hefur meginþýðingu. Ég skal ekki vefengja það, að ýmsir sjálfstæðismenn hafi fundizt, sem hafi litið öðrum augum á þennan samning en meiri hluti flokksins og meiri hluti þjóðarinnar gerði, en ég held, að það sé ástæðulaust að telja sér trú um andstöðu gegn þessum samningi, sem aldrei var til og bezt kom fram í þeirri misheppnuðu tilraun, sem gerð var í fyrra, þegar þó var búið að hleypa miklum æsingi í þetta mál og undirskriftum safnað gegn samningnum af miklu offorsi. Ég held, að ekki hafi fengizt, þó að tekið sé með utanbæjarfólk það, sem í náðist, nema 1/6 íbúa bæjarins til þess að mótmæla. Ég held, að það gefi ákaflega rétta mynd af áliti manna á þessum samningi, og eftir atvikum taldi yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar samninginn sérlega heppilegan og málinu mjög vel ráðið til lykta.

Varðandi einstök atriði af því, sem hv. þm. minntist á, þá skal ég ekki fjölyrða um þau. Það voru flest sömu atriði og sama eðlis og hjá hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Siglf. Hann vildi marka sérstöðu sína frá því, sem hinir fluttu fram, en meginhlutinn af efni ræðu hans var það sama. Það eina, sem hv. þm. kom réttilega inn á, voru gjaldeyrisviðskiptin milli þeirra. sem þarna eiga hlut að máli. Ég er ekki reiðubúinn að gefa skýrslu um það, því að til þess vantar mig nú nauðsynleg gögn. Málið hefur verið til meðferðar hjá ríkisstj., og viðskiptaráð hefur látið semja grg. og till., sem eru nú til meðferðar hjá einstökum ráðh. Ég geri ráð fyrir, að það hafi mesta þýðingu í þessu efni, hvort menn vilja heimila útlendingum yfirleitt að selja farmiða hér á landi fyrir íslenzkan gjaldeyri. Það er mikil spurning, hvort á að heimila mönnum að kaupa farmiða fyrir íslenzkan gjaldeyri, nema þeir geri grein fyrir, að þeir hafi fengið tilsvarandi gjaldeyrisleyfi hjá yfirvöldunum. Þess hefur ekki verið gætt í þessu efni, og þarf það athugunar við. Vona ég, að ákvörðun verði tekin um það, áður en langt um líður. Annars er þetta mál í höndum hæstvirts viðskiptamálaráðherra, og mun ekki standa á að framfylgja þeim ákvörðunum, þegar þar að kemur.

Það er alveg rangt, að sérstök aðferð sé viðhöfð um innflutning þeirra manna, sem koma frá Bandaríkjunum til að starfa við flugvöllinn. Stundum hefur ekki verið veitt dvalarleyfi, fyrr en þeir hafa verið komnir hingað. Ég veit ekki, við hvaða tímamark er miðað þar, en hitt veit ég, að það hefur komið mikið starf á aðalræðismannsskrifstofuna í New York í þessu sambandi, um áritun þeim til handa samkvæmt því, sem mér er tjáð, og síðan er fylgzt með því hér heima, að mér er sagt af mönnum, sem sérstaklega hafa verið til þess settir, að við flugvöllinn séu engir menn nema þeir, sem hafa til þess fullkomið leyfi. Er engin ástæða til að hafa hér aðra siði en tíðkast yfirleitt um útlendinga, sem hingað koma. Munurinn er aðeins sá um Bandaríkjamenn og flesta aðra, að þeir þurfa áritun á vegabréf sín, áður en þeir koma hingað. Fyrir ýmsa aðra þarf enga áritun til að komast hingað. Það er fyrst, ef þeir eru lengur en þrjá mánuði, að leyfi þarf. Það er því strangara með Bandaríkjamenn en aðra útlendinga, sem hingað koma, og þess vegna sízt ástæða til að sakast um slæmt eftirlit með þeim. Það er hægt að benda á hundruð og þúsundir tilfella með aðra en Bandaríkjamenn, sem koma hingað og fá ekki dvalarleyfi, fyrr en þeir stigu fæti hér á land, enda vita menn, að sami háttur er hafður um það, hvar sem er í heiminum, að menn þurfa að fá áritun á vegabréf sín, þegar þeir koma í land, en útvega það ekki, áður en þeir koma til landsins. Í öllu þessu tali felst sú mikla hræðsla við það, að þessi samningur og öll hans framkvæmd hafi verið þannig, að sjálfstæði landsins stafi hætta af, þó að þar sé farið eftir strangari reglum en annars tíðkast í sams konar tilfellum. Ég verð að segja við þá, sem bera í brjósti þennan ótta við Bandaríkjamenn, að ef Bandaríkjamenn vilja beita okkur illu í þessu efni, þá hefðu þeir varla farið að semja við okkur sem jafnréttháa aðila í einu og öllu. Þeir gátu haft í fullu tré við okkur, ef þeir hefðu viljað, án þess að fara þannig samningaleiðina. Við höfum séð svo mörg dæmi um það á síðari árum, hvernig smáþjóðirnar hafa verið algerlega réttlausar gegn voldugum nágrönnum sínum, að við ættum sannarlega ekki að kvarta yfir því, sem hér hefur átt sér stað, þegar við lítum á þau ósköp, sem aðrar þjóðir hafa orðið að þola. Við ættum því sannarlega ekki að gefa misjafnlega réttsýnum blaðamönnum ástæðu til að segja ófrægðarsögur um skipti okkar við þetta vinsamlega ríki, sem hefði sannarlega getað, ef það hefði viljað, beitt okkur svipaðri kúgun og ýmsar þjóðir hafa orðið að þola og verða að þola um þessar mundir. Við eigum að viðurkenna það, sem satt er, að Bandaríkin hafi viðurkennt okkur, eins og vera ber, sem jafnréttháan aðila, og menn eiga að koma fram við þá sem slíka, en hvorki að feila þykkju á þá né vera með neina, minnimáttarkennd gagnvart þeim út af atriði, sem að engu leyti haggar við okkar sjálfstæði, heldur er eingöngu slíkt atriði, sem iðulega kemur fyrir í skiptum milli hinna stærri ríkja, án þess að nokkur maður sjái ástæðu til þess að gera út af því nokkra aths. En það er vitað mál, að algeng eru milli ríkja svipuð viðskipti og þau, sem hér eiga sér stað, að þau noti hvert flugvelli annarra, og dettur engum í hug, að með því sé nokkur þjóð að ofurselja þjóðerni sitt eða neitt slíkt.

Hitt er annað mál, að meðan þessi samningur er í gildi og Bandaríkjamenn hafa samkvæmt honum nokkur hundruð manna lið í landinu, þá er út af fyrir sig ákaflega hæpið fyrir okkur að blanda þeim of mikið saman við íslenzkt þjóðlíf að öðru leyti. Ég hef af þeim sökum talið ákaflega hæpið, að það ætti að leggja áherzlu á að tengja byggð flugvallarins við byggðina í Keflavík sjálfri. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að það gæti verið eins gott að láta hana vera nokkuð úr alfaraleið, vegna þess líka, að þegar Íslendingar taka að sér rekstur flugvallarins, þá þurfa þeir á þessum húsum að halda fyrir sjálfa sig til þeirrar starfrækslu, sem þeir koma til með að hafa þar á staðnum.

Þá vil ég benda þeim mönnum, sem telja, að hér sé um einhverja þjóðernishættu að ræða, á það, að þessir Bandaríkjamenn eru ekki nema helmingur á við þá Dani, sem eru nú víðs vegar um landið. Þykir þó engum þjóðernishætta stafa af þeim, en mikil af Bandaríkjamönnum. Það er því best, að þessir menn lifi hér út af fyrir sig sínu daglega lífi, að vísu undir íslenzkum l., eftir því sem samningar standa til, með sérstakri aðstöðu, sem um hefur verið samið.

Hv. þm. lét svo, að ríkisstj. hefði ekki haft hugsun á að innheimta tolla og skatta hjá flugfélaginu eftir því, sem samningar stæðu til. Það er tekið fram í skýrslunni, að íslenzka ríkisstj., eða flugvallarn. fyrir hennar hönd, hafi um þetta borið fram ákveðna kröfu, sem að vísu hafi ekki orðið samkomulag um í einstökum atriðum, en þó hefur fengizt viðurkenning á því, að flugfélagið og þeir, sem starfa á þess vegum, eigi ekki að komast undan sérákvæðum samningsins.

Þá ber hv. þm. fram þá spurningu: Hvers vegna þarf að semja? Hvers vegna er ekki sett reglugerð? Sannleikurinn er sá, að reglugerðin, sem ráð er fyrir gert í samningnum, eins og ég gerði grein fyrir á dögunum, er nokkuð annars eðlis. Þar er fyrst og fremst hugsað um umferðarstjórnina á vellinum, en ekki annað eins og þetta. Það, sem hér skiptir máli, er það, að hér hefur verið gerður samningur milli okkar og Bandaríkjanna. Mörg ákvæði samningsins eru ótvíræð. En eins og önnur mannanna verk, eru önnur atriði hans þannig, að menn verða ekki með öllu sammála um, hvað í samningnum felst. Og við erum skuldbundnir til að fara eftir því, hvernig ákvæði hans verða skilin, ekki af öðrum aðilanum einhliða, heldur verðum við að vera við því búnir að halda ekki öðru fram í því efni en því, sem viðurkennt yrði af alþjóðlegum dómstóli, ef til þess kæmi. Þess vegna er það út í bláinn að segja varðandi svona reglugerð, að við eigum að ákveða hana einir. Við verðum að koma okkur saman um framkvæmd samningsins. og þá tjáir ekki að halda öðru fram en því, sem líklegt er, að verði viðurkennt af alþjóðadómstóli. Þess vegna verður um þennan samning eins og aðra að ná samkomulagi, setja sjónarmiðin fram, sjá, hvað á milli ber, og komast svo að samkomulagi, ef það er ekki neitt slíkt, sem ber á milli, sem okkur þykir með öllu óaðgengilegt og alls ekki í samræmi við samninginn. Þetta liggur í augum upp. Það er þess vegna fjarri því, að stjórnin geti tekið móti ávítunum af þessum sökum, heldur hefur flugvallarn. farið rétt að og þá einu leið, sem hugsanlegt er að fara í milliríkjaviðskiptum, því að þótt fjarri fari því, að samningurinn skerði sjálfstæði Íslands eða sé ósamboðinn íslenzka ríkinu, heldur þvert á móti, þá er þetta engu að síður samningur, sem við erum bundnir við samkvæmt alþjóðal., og hann verður túlkaður á þann veg, sem um samninga. gildir, og hann verður framkvæmdur á þann veg, sem framkvæmd samninga yfirleitt segir til um, en þar er það ekki vilji annars, sem ræður einn, heldur vilji beggja, en ástæðulaust að leita til dómstóla, nema ágreiningur sé um slík meginatriði sem ómögulegt sé að ná samkomulagi um.

Nú vil ég varðandi það atriði, sem sérstaklega hefur verið talað um, að linlega hafi verið staðið á verði varðandi innheimtu tolla og skatta, skýra frá því, að þar náðist samkomulag í höfuðatriðunum. Það má segja, að það hafi kannske dregizt lengur en æskilegt hefði verið, því mæli ég ekki á móti, en það er nú svo, að mönnum hefur ekki enn komið saman um meðferð málsins í einstökum atriðum. Okkur hefur ekki þótt fært að ganga að því tilboði, sem við höfum fengið, en hinum finnst, að kröfur okkar gangi lengra en segir í samningnum, en samkomulag varð í meginatriðunum. En ég er þeirrar trúar, að við frekari umræður verði samkomulag um meðferð málsins, á þann veg, að við megum við una. Náist ekki samkomulag, þá verðum við að taka til eigin ráða, og þá er tími til að láta málið fara lengra, í málaferli fyrir alþjóðadómsóli. Ég skil vel, að þeir, sem vilja gera samskipti þessara tveggja ríkja tortryggileg og koma þar fjandskap á, vilji láta allt fara í hörku um framkvæmd samningsins. En við, sem teljum mikilsvert fyrir íslenzka ríkið að halda vinsemd og góðu samkomulagi við Bandaríkin, teljum samninginn í höfuðatriðum heppilegan og að hann verði á engan veg misnotaður á Íslendingum. Við munum fylgja fram þeirri stefnu okkar og reyna að leysa öll þau vandamál. sem upp kunna að koma friðsamlega.

Það má segja sem svo: Hví að hafa svo vafasama samninga? Ég hef lagt stund á lögfræðikennslu á annan tug ára, og ég hef ekki ennþá vitað þá lagagrein, hvað þá heilan samning, að ekki mætti skrifa fram og aftur um mismunandi atriði, sem þar eru sett upp. Seint mun finnast svo fullkominn samningsgerðarmaður, að ekki geti sitt sýnzt hverjum, og að því leyti er þessi samningur eins og hvert annað mannanna verk, en óneitanlega happasælt og gott mannanna verk.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði ákaflega mikið um þessa skatta og tolla og las þar upp úr skýrslum flugvallarn. Hann sagði, að samkvæmt því, sem hann las upp, ættum við í einu og öllu að hlíta ákvörðunum Bandaríkjamanna um þetta efni. En hann gleymdi að lesa framhaldið, sem tryggir rétt okkar gagnvart Bandaríkjamönnum. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta fyrirkomulag á að tryggja það, að ekki sé farið í kringum ákvæði samningsins um vöruinnflutning, og ef tollayfirvöldin telja, að um óeðlilegan innflutning sé að ræða, ber þeim skylda til að hafa þegar í stað samráð við flugmálastjórnina og flugvallarn., sem tekur ákvarðanir þar að lútandi, áður en til afhendingar kemur. Með þessu geta íslenzk stjórnarvöld fylgzt og metið sjálfstætt, hvernig ákvæði 9. gr. samningsins skuli framkvæmd.“

Þá kemur fram í þeirri skýrslu um grg.. sem Bandaríkjamenn hafi tekið að sér að gefa, að Íslendingar hafi rétt til að sannreyna, hvort þar sé um vörur að ræða, sem samkvæmt samningnum eigi að njóta hlunninda. Hitt er annað mál, að stjórnarvöldin verða í því efni að fara eftir samningum, en geta ekki farið eftir eigin geðþótta, en það er endanlega á þeirra valdi, hvaða vörum er hleypt inn í landið samkvæmt þessum ákvæðum, og ef það fer í hart, þá verða Bandaríkin að sækja á og kæra Ísland fyrir alþjóðadómstóli, ef ekki næst samkomulag. Hv. 2. þm. Reykv. vildi gera þetta atriði mjög tortryggilegt, þar sem segir, að Íslendingar geti fylgzt með þessu, og spyr, af hverju sé ekki sagt, að þeir skuli gera það. Auðvitað er ætlazt til, að þeir fylgist með því. Þeir hafa aðstöðu til þess.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði mikið um það, samkvæmt hvaða lagaheimild Bandaríkjamenn hefðu tollfrelsi hér á landi. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp úr l. um, að ákvæði samnings frá 7. okt. 1946 við Bandaríki Ameríku, er varða aðflutningsgjöld o. fl., skuli öðlast gildi. Þar segir svo: „Meðan samningur sá. er undirritaður var fyrir Íslands hönd hinn 7. okt. 1946 við Bandaríki Ameríku um niðurfelling hervarnarsamningsins frá 1941 o. fl., er í gildi, skulu ákvæði hans, er varða aðflutningsgjöld, útflutningsgjöld. tekjuskatt, afnotarétt fasteigna og önnur atriði, sem sérstaklega er rætt um í samningnum og varða íslenzka löggjöf, hafa lagagildi hér á landi. Þarna er beinlínis sagt, að ákvæði samningsins öll skuli hafa lagagildi hér á landi. Hér er þetta tekið fram í l., sem sett voru á síðasta þingi og hv. þm. sagðist að vísu vera andvígur, en tók þó þátt í meðferð þessa máls í n. Í 9. gr. flugvallarsamningsins segir, með leyfi hæstv. forseta: „Eigi skal leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt til afnota fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmenn hennar samkvæmt þessum samningi eða til afnota fyrir starfslið það, sem dvelur á Íslandi vegna starfa, sem leiðir af framkvæmd samnings þessa. Útflutningsgjalda skal heldur eigi krefjast af útflutningi téðra vara: Og 10. gr. hljóðar svo: „Eigi skal leggja tekjuskatt á þær tekjur þess starfsliðs Bandaríkjanna, sem á Íslandi dvelur við störf, er leiðir af framkvæmd samnings þessa, er koma frá aðilum utan Íslands.“ Það er því allt tekið fram berum orðum í samningnum, sem hv. 2. þm. Reykv. var að rífast út af, og það er skýlaust sagt, að ekki skuli leggja toll á þessar vörur. Ég mun því ekki á þessu stigi fara frekar út í að ræða aðstöðu Bandaríkjanna varðandi innflutninginn, þar eð slíkt hefur enga þýðingu. Hins vegar er sjálfsagt, að ríkisstj. athugi nánar sum atriði samningsins í samráði við þingn. Það er ómögulegt að komast í kringum það, að Bandaríkin hafa tollfrjálsa innflutningsheimild samkv. þessu ákvæði samningsins, þótt ef til vill mætti segja, að það sé óheppilegt og mjög umdeilanlegt, en við verðum líka að gæta þess, að þótt svo sé, þá er það engu að síður í gildi og var sett vegna þess, að Íslendingar eiga að hafa stórkostlegan fjárgróða af samningsgerðinni að öðru leyti. Þótti ekki ástæða til þess að leggja skatta eða tolla á þennan varning, vegna þess að um það er samið í samningnum, að Íslendingar eigi endurgjaldslaust að samningstíma liðnum að verða eigendur að þeim miklu mannvirkjum. sem þarna verða reist, og þótti því ekki eðlilegt að láta Íslendinga fyrst taka tolla og skatta af kostnaðinum við að koma þessum mannvirkjum upp.

Eins og ég upplýsti hér um daginn, hafa Bandaríkjamenn látið undan kröfum Íslendinga um breytingar á fyrirkomulagi í þessum efnum, sem sé að í stað þess, að þeir ætluðu sér í fyrstu að reisa þessi mannvirki úr bráðabirgðaefni, þá ætla þeir nú að byggja úr varanlegu efni, til þess að þau geti orðið varanleg eign fyrir íslenzka ríkið, en það, að þeir ætluðu sér í upphafi að byggja úr bráðabirgðaefni, kemur um leið í bága við þær fullyrðingar sumra, að þeir ætli sér að sitja hér um aldur og ævi. Hvað þessi mannvirki snertir, er hér ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Það var gert mjög tortryggilegt í fyrra, þegar fyrrv. forsrh. (ÓTh) sagði, að Bandaríkjamenn byggjust við að leggja í völlinn um 80 til 70 milljónir króna, en ég veit með vissu, að þær framkvæmdir, sem þarna verða gerðar, koma til með að kosta tugi milljóna króna. Hér er því verið að skapa verðmæti handa Íslendingum, sem þeir taka við að samningstíma liðnum, þegar þeir taka við stjórn flugvallarins, en undir okkar kringumstæðum væri ómögulegt að reisa þessi mannvirki af eigin rammleik. sem ég vil segja, að sé meira en öryggisnauðsyn fyrir allar flugferðir yfir Norður-Atlantshafið, að séu á þessum stað. Það er ekki hægt að hafa sómasamlegt öryggi á þessari flugleið, nema þessi flugvöllur sé starfræktur, og það hefðu áreiðanlega komið fram þungar kröfur frá umheiminum á hendur okkur Íslendingum um að koma þessum mannvirkjum upp af eigin rammleik, ef ekki hefði verið séð fyrir þessu á annan veg. Það var sem betur fer gerður þessi samningur við Bandaríkin, sem m. a. fól þessi hlunnindi í sér fyrir Íslendinga, þar sem við fáum stórkostlegan fjárgróða af þessu að lokum, og verður það því tiltölulega þýðingarlítið, hvað við verðum að fórna varðandi toll- og skattgreiðslur af einstökum hlutum, vegna þess að búið er að semja um, að þetta eigi að greiðast með þessum tiltekna hætti. Hitt er svo annað mál, að staðið verði fyllilega á verði um það, að enginn réttur, sem Íslendingar eiga samkvæmt samningnum, verði borinn fyrir borð og allir þeir skattar og tollar innheimtir, sem við eigum rétt á. Hefur ríkisstj. tekið upp hagkvæmar leiðir til þess að fá því framgengt, sem hægt er, og þegar fengið sín meginsjónarmið viðurkennd. Þessu til viðbótar kemur svo það, sem einnig er viðurkennt í skýrslunni, að ég geri ráð fyrir, að það muni mjög verulegar rekstrartekjur koma inn af vellinum, er renna til ríkissjóðs Íslands, vegna þeirra gjalda, sem þær flugvélar greiða, sem þarna fara daglega um. Mætti að vísu segja, að ekki væri ólíklegt, að þau gjöld rynnu í sameiginlegan sjóð, er varið yrði til viðhalds og rekstrar vallarins, en það hefur ekki verið ráðgert af Íslendinga hálfu, heldur að þessar tekjur rynnu beint í ríkissjóð Íslands. — Það er hins vegar rétt, og hefur aldrei verið dregin nein dul á það, að Bandaríkjamenn hafa sérstöðu varðandi þessar toll- og skattgreiðslur, vegna þess að þeir eiga að greiða þau gjöld með öðrum hætti. Hitt er svo annað varðandi sérstöðu þeim til handa að öðru leyti, t. d. í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um hér á dögunum, að þeir mundu ekki vera látnir sæta viðurlögum fyrir brot á íslenzkum lögum, ef þeir gerðust sekir um ólöglegan innflutning og annað slíkt, og er það algerlega rangt. Um þetta sæta þeir vitanlega sömu viðurlögum og íslenzkir þegnar, og get ég upplýst, að Bandaríkjamenn, sem á vellinum hafa starfað og teknir hafa verið fyrir brot á íslenzkum lögum, hafa sumir nú þegar setið í íslenzku fangelsi, sumpart til þess að taka út sinn dóm og sumpart í gæzluvarðhaldi. Einn slíkur maður bíður nú dóms, þar sem gera má ráð fyrir, að fangelsisvist verði lögð á. Það er rangt, sem hv. þm. gaf í skyn á dögunum. að þessir menn væru bara sendir af landi burt, ef þeir gerðust brotlegir við íslenzk lög, því að þeir eru þvert á móti dregnir fyrir íslenzka dómstóla, þegar íslenzk yfirvöld hafa hendur í hári þeirra. Það getur að sjálfsögðu komið fyrir að einhverjum þeirra hafi tekizt að sleppa, því að eins og kunnugt er, eru mörg brot framin, án þess að takist að hafa upp á þeim, sem brotið hefur framið. Það er t. d. enn ekki upplýst, hver stal plagginu frá flugvallarn., og enginn vafi er á því, að sá, sem það gerði, hefur framið lagabrot, en stundum eru yfirvöldin svo mild, eins og í þessu tilfelli, að þau kæra sig ekki um að hefja málaferli út af slíku, því að þau vita, að almenningsdómurinn er bezti dómurinn á slíka menn. — Um aðra nákvæmni hv. þm. nægir að geta þess, að hann sagði, að það hefðu verið greiddar yfir 20 milljónir króna í dollurum til Bandaríkjamanna fyrir þá hermannabragga, sem íslenzk yfirvöld hefðu keypt af þeim. Mér hefur ekki tekizt að fá nákvæma upphæð yfir þetta, en ég þori að fullyrða, að þessi fjárhæð er margfaldlega ýkt og nær ekki neinni átt.

Þá gat hv. 2. þm. Reykv. þess og var með miklar dylgjur um það, að þeir embættismenn, sem gefið hefðu þessa skýrslu, sem ég las upp í framsöguræðu minni, mundu hafa verið til þess knúðir af mér. Þessu vil ég algerlega vísa á bug og verð að segja, að ég hef sjaldan heyrt meiri árás á íslenzka embættismenn og minna gert úr manndómi þeirra og heiðarleik en þegar gefið er í skyn, að þeir hafi látið hræða sig til þess að gefa skýrslu gegn betri vitund. Það kom glögglega fram hjá hv. þm. og í blaði hans, Þjóðviljanum, að sumir þessara manna mundu hafa verið sviptir lífsframfæri sínu og orðið atvinnulausir, ef þeir hefðu ekki skrifað undir þessa skýrslu. Ég vil nú leyfa mér að spyrja: Ætli Þjóðviljinn eða þeir, sem hann kosta, hefðu ekki viljað borga töluvert, ef það hefði legið fyrir, að beitt hefði verið hótunum um brottrekstur við þessa embættismenn, ef þeir skrifuðu ekki undir ranga skýrslu? Ég er alveg viss um það, að Kommúnistafl., sem hefur yfir meira fjármagni að ráða en runnið er af íslenzkum rótum, mundi ekki hafa hikað við að taka alla þessa menn á laun og kosta þá ríkulega til æviloka, ef þeir hefðu gefið honum vottorð um, að á þeim hefði þannig verið níðzt, enda er sannleikurinn sá, að enginn flugufótur er fyrir þessum ásökunum. Þessir menn voru beðnir um að gefa sanna og rétta skýrslu um það, sem þarna hefði verið framkvæmt, og hefur ekki á nokkurn veg verið leitazt við að fá þá til að skrifa undir annað en það, sem þeir töldu rétt og satt. Ég veit ekki til, að neinn ráðh. hafi talað um þessa skýrslugerð við nokkurn mann nema hr. Gunnlaug Pétursson, sem ég hef í mínu ráðun. og hef daglegt samband við, og að öðru leyti hafa þessir menn komið sér sjálfir saman um hana og vitanlega samið hana á þann veg, sem þeir töldu sannleikanum samkvæmt. Eða hvers konar hótanir ætli hafi átt sér stað við hr. Erling Ellingsen, sem komið hefur drengilega fram gagnvart ríkisstj. í þessu máli og tók sig til og tilkynnti upp í stjórnarráð, að hann ætti enga ábyrgð á þeim rangfærslum, sem birtust í Þjóðviljanum í októberbyrjun. Hv. þm. Siglf. setti sjálfur þennan mann yfir flugmál landsins, og því kemur það alleinkennilega fyrir sjónir, ef þeir menn, sem hér eru með getsakir í garð embættismanna, trúa honum til að hafa framið slíkt óhæfuverk að gefa ranga skýrslu til upplýsinga fyrir almenning, svo sem þeir nú ásaka hann um, einungis af hræðslu við ofsóknir.

Hv. 2. þm. Reykv. lauk máli sínu með því að ásaka okkur fyrir það að hafa ekki tekið miklu meira fyrir þennan samning en við hefðum gert, vegna þess að samningurinn væri eiginlega þúsundir milljóna dollara virði, held ég, að hann hafi sagt. Í fyrra var gerð ýtarleg grein fyrir því, af hverju þessi samningur var gerður, og hef ég rifjað upp sumt af því nú. Þar hefur aldrei komið til mála nein landssala eða heimtun á endurgjaldi fyrir afsal þeirra réttinda, sem aldrei var afsalað, og af þeirri ástæðu er þetta tal hv. 2. þm. Reykv. gersamlega ástæðulaust. Hitt fær engum dulizt, að þessar ræður hv. þm. eru sprottnar af sama toginu, eins og þegar hann hefur farið landshornanna á milli í sumar til þess að breiða það út, að einungis ef núverandi ríkisstj. færi frá, mundi verða borgað miklu hærra verð fyrir afurðir okkar á markaði í Austur-Evrópu. Uppistaðan í ræðum hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksbræðra um þessar mundir sýnir, að það er einmitt hann, sem er meira en reiðubúinn, — hann er trylltur af löngun til þess að reyna að verzla með réttindi landsins og láta einhverja aðra en Íslendinga sjálfa kveða á um það, hverjir eigi að vera í ríkisstj. hverju sinni. Og hv. þm. má vera þess fullviss, að ekki aðeins mér, heldur meiri hluta þingheims og allrar þjóðarinnar flökrar við, þegar hann er að tala um undirlægjuhátt og annað slíkt gagnvart erlendri þjóð. Hann hefur nú þegar, m. a. frammi fyrir alþjóð í útvarpinu, gert sig bera að því að ganga annarra erinda en Íslendinga, og ætti hann því ekki að vera að bregða öðrum um þá ómennsku, sem hann hefur gerzt sekur um sjálfur, enda hygg ég, að það muni vera réttmæli, sem einn gamall og reyndur þm. sagði hér á dögunum, þegar menn undruðust mjög margmælgi í ræðum hv. þm. — en vissulega var ekki að finna skýringuna hvorki í málflutningi né efni ræðu hans — að skýringin væri sú, að hann mundi fá eitthvert fé greitt fyrir hana seinna annars staðar frá, og ég held, að málflutningur þessa hv. þm. sé allur með því marki brenndur, að þar sé verið að tala fyrir annarra eyru en Íslendinga.