21.10.1947
Sameinað þing: 11. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (3280)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Frá því að ég talaði hér fyrst í þessu máli, hafa miklar umr. farið fram um málið, og hafa t. d. sumir hæstv. ráðherrar talað hér tvisvar, án þess að þess hafi verið kostur, að ég svaraði þeim á milli, og verður þetta því alllangt mál, sem ég þarf að flytja til þess að geta svarað þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar, og öðru, sem fram hefur komið, frá því að ég fylgdi till. minni úr hlaði.

Hæstv. menntmrh. svaraði hér í gær fyrirspurn, sem ég gerði í framsöguræðu minni, en hún var um það, hvað liði ákvæði samningsins um innheimtu gjalda af flugvellinum og varðandi ákvæðið um innheimtu 9 aura gjaldsins af hverjum benzínlítra. Hæstv. ráðh. svaraði þessari fyrirspurn fyrst fyrir helgina — ég held á föstudaginn —, en í gær leiðrétti hann fyrri fullyrðingar sínar og sagði, að greidd hefðu verið viss gjöld fyrir afnot flugvallarins, en þær greiðslur hefðu ekki hafizt fyrr en 1. júlí, en hæstv. ráðh. nefndi þetta ekki frekar. Er ráðh. svaraði ræðu minni s. l. föstudag. þá gaf hann í skyn, að ástæðan fyrir því, að gjöldin hefðu ekki verið innheimt reglulega fyrr, hefði verið sök fyrrv. flugvallarstjóra, Arnórs Hjálmarssonar, sem hefði svikizt um að innheimta þessi gjöld, en honum hefði síðar verið vikið frá, og hefði þetta þá lagazt. Í seinni ræðu sinni sagði ráðh., að þetta væri ná ekki enn komið í lag, og er því hér um eitthvað annað að ræða en sviksemi Arnórs Hjálmarssonar, fyrrv. flugvallarstjóra. Það má nú vera, að sökin sé ekki heldur ráðh., en það er engu að síður mjög óviðurkvæmilegt að bera sakir á mann, sem ekki er hér viðstaddur og hefur engan möguleika til að bera hönd fyrir höfuð sér, og hæstv. ráðh. biðst ekki afsökunar á ummælum sínum, en mér finnst rétt, að þessi hlið málsins komi hér fram. Nú, fyrrv. flugvallarstjóri hefur komizt inn í þessar umr. hér á Alþ., og er þetta eina ákæra hæstv. menntmrh. á hann, að hann hafi ekki innheimt þau gjöld, sem sagt er til um í samningnum, en annað, sem fram hefur komið hér um þennan mann, eru aðeins fúkyrði, eins og að hann væri andstyggð á að horfa og svikull, eins og ummæli hæstv. utanrrh. hljóðuðu, og eru því ummæli menntmrh. mun háttprúðari.

Hæstv. menntmrh. kennir mér um það, að gjaldskrá hafi ekki verið sett fyrir Keflavíkurflugvöllinn. Mér er vel kunnugt um þessi mál, og vil ég því skýra Alþ. frá þessu. Það hafði verið gengið frá gjaldskrá fyrir Reykjavíkurflugvöllinn, og var sú gjaldskrá þýdd og skyldi síðan sett fyrir Keflavíkurflugvöllinn einnig, en hæstv. fyrrv. utanrrh. (ÓTh) taldi ekki vera hægt að setja gjaldskrá fyrir Keflavíkurflugvöllinn, nema Bandaríkjamenn fengju að athuga hana áður, og taldi hann, að gert væri ráð fyrir slíkri meðferð málsins í flugvallarsamningnum, að gjaldskráin fyrir Keflavíkurflugvöllinn yrði samin í samráði við Bandaríkjamenn. Þessi gjaldskrá var svo upphaflega afhent í þýðingu manni að nafni Mr. Hunter, sem var yfirmaður American Overseas Airlines, og þetta var gert í nóvember eða desember s. l. Ég man ekki þetta upp á dag, en þetta var gert rétt fyrir áramótin. Og nú tefst afgreiðsla málsins. Mr. Hunter athugar málið ýtarlega, og þegar spurt er um, hvernig afgreiðslu málsins liði, þá er því til svarað, að málið sé í vörzlu Hunters eða í Washington. Og það er ekki fyrr en ég hafði látið af störfum sem flugmrh., að Mr. Hunter varð að afhenda gjaldskrána, og er þá komið fram í marzmánuð. Sama er að segja um það. er þessi Mr. Hunter átti að afhenda skjöl varðandi þær flugvélar, sem lentu í Keflavík, þá beitti hann eintómum undanbrögðum. Og hvað hefði nú ríkisstj. átt að gera við slíkan mann, sem skrökvaði að íslenzkum valdamönnum. Ríkisstj. hefði átt að svipta Mr. Hunter landvistarleyfi, en í stað þess hefur hún í frammi ósannindi um fyrrv. flugvallarstjóra, en það er ekki ríkisstj. að þakka, að Arnór Hjálmarsson snerist ekki á sveif með hinum erlendu.

Ég tek það fram, að er á leið deiluna um gjaldskrána, þá kom að því, að Mr. Hunter komst í nokkurn vanda, er sendiherra Bandaríkjanna hér varð að skerast í leikinn, til þess að hægt væri að knýja út gjaldskrána, og var það einungis vegna þess, að sendiherrann skarst í leikinn, að Mr. Hunter sá þann kost vænstan að afhenda gjaldskrána. Og áður en Arnóri Hjálmarssyni var vikið frá, hafði hann lokið við að skrifa út reikninga fyrir öllum þessum gjöldum. sem ræðir um í gjaldskránni. Þetta er því dæmi um það, hvernig ríkisstj. hefur brugðizt skyldum sínum gagnvart þessum málum, hvernig utanrrh. svíkst um að ýta á eftir þessum málum, en tínir hins vegar fram önnur eins ummæli um fyrrv. flugvallarstjóra, að einsdæmi mun vera úr þingsæti, að hann væri andstyggð á að líta og svikull og allt hafi verið í ólagi með þessi mál vegna þessa flugvallarstjóra. Ég veit hins vegar, að allt var hreint í störfum Arnórs, er honum var vikið frá. Og þetta er nánar sagt mjög fordæmanlegt af hæstv. ráðh., að hafa ekki vald á skapsmunum sínum, og ég hef meira að segja heyrt hæstv. utanrrh. kalla flokksbræður sína fífl og segja, að þeir væru að fremja skepnuskap, en er hæstv. utanrrh. er búinn að loka að sér með flokksmönnum sínum, þá velur hann ekki kveðjuna til þeirra, og einn flokksbræðra hans hefur sagt mér, að honum blöskraði orðbragð hans svo mjög, að réttast hefði verið að henda honum út. Ég er ekki að kvarta yfir því, að hann heili úr skálum reiði sinnar yfir mig, en mér finnst leitt að heyra, þegar saklausum manni er útþvælt, án þess að raunhæfar ásakanir finnist á hann. Utan starfs Arnórs er mér hann lítt kunnur, nema ég setti hann í embættið samkv. tillögu flugmálastjóra, og þá var maðurinn rannsakaður af Ólafi Thors, sem bað þá þess, að flett væri upp í sálnaregistri Sjálfstfl. til að vita, hvernig manninum væri innanbrjósts. Fékk hann þær upplýsingar hjá Jóhanni Hafstein, að Arnór mundi vera alþýðuflokksmaður. Maðurinn var síðan rannsakaður meir og flett upp í spjaldskrám Alþfl., og útkoman var sú, að maðurinn skyldi dæmdur til þess að teljast andstyggilegur ásýndum. Þessi maður hefur aldrei skipt sér af pólitík, svo að ég viti, og ég setti hann inn í embættið að till. flugmálastjóra, og þótt hann noti sjálfsagt atkvæðisrétt sinn, sem öllum þegnum landsins er heimilt, þá áfellist ég ekki menn fyrir það. Hæstv. utanrrh. sagði, að maðurinn væri hæfileikalaus og að hann hefði reynzt óhæfur til þess að gegna sínum störfum. Ég tel það órétt að hella sér yfir gáfur manna, því að þær skammta menn sér ekki sjálfir, og þótt það sé annars alrangt, að maðurinn hafi ekki verið hæfur til þess að gegna sínum störfum, þá á ekki að ásaka Arnór, heldur mig, sem setti hann inn í embættið, — ásaka mig, en ekki starfsmanninn. Og enn ástæðulausari er árásin á þennan mann, er hæstv. utanrrh. veit vel, hvernig utanrmn. hefur haldið á rétti Íslendinga, en hefur aftur á móti gert ókleift að halda á rétti Íslands varðandi framkvæmdirnar á Keflavíkurflugvellinum — og í stað réttarins er logið að íslenzkum valdamönnum.

Ég get ekki látið hjá líða vegna þeirrar meðferðar, sem Arnór Hjálmarsson hefur orðið hér fyrir, að minna á, að sé hann lagður í eineiti, þá hlýt ég að eiga nokkra sök, þar sem ég setti hann í embætti, og fyrir það eru honum valin þau ummæli, að hann sé óþverramenni og annað slíkt, þótt hann sé algerlega saklaus af því níði, sem á hann er borið. Þá vil ég segja það við utanrrh., að þeir, sem leyfa sér að hafa í frammi slík ummæli og nota þinghelgina til þess, eru smámenni, ef þeir fyrirskipa ekki opinbera rannsókn. — Og við skulum sjá, hvað úr því verður.

Eitt höfuðatriði þáltill. minnar er það, að stjórnin skuli gefa út reglugerð um starfrækslu flugvallarins. Hæstv. utanrrh. ræddi þetta nokkuð, er hann las álit flugvallarn., og sagði, að það væri að kenna hæfileikaleysi fyrrv. flugvallarstjóra, að reglugerðin væri ekki komin. Ég vil minna á það, að þetta mál hefur áður verið rætt í þinginu í sambandi við lögfestingu nokkurra ákvæða flugvallarsamningsins. Þá var veitzt að fyrrv. utanrrh. fyrir það, að reglugerð hefði ekki verið sett. Þá var það sagt, að eina, ástæðan væri sú, að flugvallarn., sem ég hefði skipað, hefði svikizt um að gera uppkast að reglugerðinni. Þetta var sett fram sem eina ástæðan. Nú kennir hins vegar hæstv. utanrrh. fyrrv. flugvallarstjóra um þetta. Í skýrslu eða réttara sagt Morgunblaðsgrein flugvallarn. er því aftur á móti haldið fram, að bezt sé að láta setningu reglugerðarinnar bíða, þar til meiri reynsla sé fengin. Fyrst er sviksemi flugvallarn. kennt um, síðan Arnóri Hjálmarssyni, og svo kemur álit flugvallarn., sem var fín n., skipuð af fyrrv. utanrrh. (ÓTh), og þar er ástæðan talin sú, að nauðsynlegt hafi verið að bíða eftir meiri reynslu.

Það sést á þessu, að í hvert sinn er gripið í það hálmstráið, sem fyrir hendi er. Og af hverju er þetta gert? Það er gert vegna þess, að hæstv. utanrrh. veit, að Bandaríkjamenn hafa meiri réttindi á flugvellinum en þeim er heimilt samkv. samningnum. Þess vegna er þyrlað upp moldviðri til þess að slá ryki í augu almennings. Þannig eru allar hans röksemdafærslur. Þær stangast í einni og sömu ræðu, að ekki sé á það minnzt, ef dag ber á milli ræðnanna. Þetta er aðeins lítið dæmi um málflutning hæstv. utanrrh. Sú alvarlega vanræksla, sem hann hefur sýnt skyldustörfum sínum, gefur Alþ. tilefni til að láta fara fram gagngera rannsókn í þessum efnum.

Flugvallarn. var skipuð til þess að semja um viðtöku og rekstur flugvallarins og semja reglugerð um fyrirkomulagið í ýmsum atriðum, eftir að Íslendingar tækju við vellinum. Hún var ekki lagaleg stofnun, heldur samninganefnd milli ríkisstj. og erlenda samningsaðilans. Þetta var gert til þess, að ríkisstj. þyrfti ekki að standa í samningum um smáatriði og skapa betri aðstöðu vegna sérþekkingar nm. N. getur ekkert gert upp á eigin spýtur. Hún getur borið fram óskir íslenzku ríkisstj. til Bandaríkjamanna og gagnóskir þeirra til ríkisstj., en hún getur ekki tekið neina ákvörðun. Nú er þessi nefnd hins vegar gerð að valdastofnun, vegna þess að hæstv. utanrrh. þarf að afsaka slóðaskap sinn. Af þessum ástæðum skipar hann n. að semja skýrslu, og skýrslan er samin af þeim Gunnlaugi Briem og Gunnlaugi Péturssyni. Oftar en einu sinni var hún borin undir hæstv. utanrrh., og þótt hann fengi breytingar á henni, vildi hann fá ýmsar fleiri, sem hann komst ekki upp með. Ég vil taka undir það með hæstv. forsrh., að báðir þessir menn, sem sömdu skýrsluna, eru ágætir embættismenn. Að þeir séu persónulegir vinir hans, mun hins vegar vera tilhæfulaus rógur. Frá þeirra hálfu hafa ekki komið fram nein ósannindi. Þar sem ósannindi koma fram, til dæmis um tölu starfsmanna á vellinum, er byggt á upplýsingum frá öðrum. Það mun vera byggt á upplýsingum núverandi flugvallarstjóra ríkisins, ekki man ég nú, hvað hann heitir, og n. því ekki eiga sök á þeim ósannindum. Hún hefur bara tekið þennan embættismann trúanlegan, og svo er þetta sett í skýrsluna samkv. kröfu hæstv. utanrrh. Í sjálfu sér er skýrslan ekki skýrsla um störf n., heldur vörn fyrir hæstv. utanrrh. En þótt n. hafi ekki gert sig seka um að fara með rangt mál, nema þar sem upplýsingarnar eru fengnar hjá öðrum, verð ég þó að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að sú auðsveipni, sem nm. hafa sýnt í þessu máli, kastar rýrð á þá alla. Þeir eru allir fjórir sannfærðir um, að framkvæmd samningsins sé hneyksli, enda hafa þeir haft tækifæri til þess að fylgjast með því, hvernig framkvæmdin hefur verið. Það mun síðar að því koma, að þeir sjá, að þeir hafa gert sig að minni mönnum með þægð sinni við hæstv. utanrrh. Ég veit ekki, hvort hann hefur hótað að reka þá, en ég gæti vel trúað því, því að það þarf ekki mikið út af að bera. Hæstv. utanrrh. hefur nýlega látið reka einn starfsmann utanrrn., án þess að neinar ástæður hafi enn verið gefnar fyrir því. Það er líka kunnugt, að hans lundarfari er þannig varið, að hann rekur menn út frá sér, ef hann kemst í vandræði. Ég gæti því vel trúað því. að hann hafi hótað nm. með brottrekstri. En það er ekki nægileg afsökun fyrir því að senda út slíka skýrslu í blekkingarskyni, þótt nm. hafi óttazt, að hæstv. utanrrh. ræki þá frá störfum.

Þessi skýrsla flugvallarn., sem þannig er til komin, gefur ærið tilefni til þess, að nákvæm rannsókn verði látin fara fram í þessum málum. Slík missmíði hefur það verið, hvernig hæstv. utanrrh. hefur haldið á rétti Íslendinga. Það er ekki efamál, að flugvallarn. getur gefið þýðingarmiklar upplýsingar varðandi framkvæmd þessara mála og framkomu ríkisstj.

Í tilefni af fskj. nr. 2, sem fylgir þáltill. minni, hefur hæstv. utanrrh. látið Gunnlaugana þrjá lýsa því yfir, að sú áætlun, sem þar er gerð um rekstrarfyrirkomulag á flugvellinum, sé ekki frá n. Hann heldur því ýmist fram, að ég hafi stolið þessu eða falsað það. Ég tek mér þetta ekki nærri, ég er öllu vanur af honum, og ég mun ekki gefa honum neinar upplýsingar um það, hvaðan ég hef þetta. Það er rétt, sem stendur í Morgunblaðinu 17. okt., það er ekki komið frá flugmálastjóranum. En það mun enginn hafa talið þörf á því að fara heimullega með þetta. Það borgar sig bezt fyrir Íslendinga, að allt sé opinbert varðandi þessi mál. Við höfum engu að leyna. Allur heimurinn veit, að við höfum gert þennan samning. Flugvallarn. fékk engin fyrirmæli um það að pukrast með þessi mál eða leyna þeim. En þegar sýnt var. hvernig hæstv. utanrrh. hundsaði till. n., þá varð nauðsyn að halda þeim leynilegum, en aðeins vegna utanrrh. sjálfs. Þjóðinni gat aðeins orðið það til gagns, að till. n. væru birta.r. Þær sýndu, að n. hafði unnið vel og viljað tryggja fyllsta rétt Íslendinga, þótt hún bæri ekki gæfu til þess að hafa yfir sér utanrrh., sem veitti henni stuðning í því efni.

N. segir í niðurlagi greinarinnar í Morgunblaðinu, að fskj. nr. 2, sem birt er með till. minni, sé ekki frá n., heldur hafi þær till. verið samdar af flugmálastjóra sem umræðugrundvöllur fyrir n. Þarna grípur n. til þess að skrökva. Þessar till. voru samdar af flugmálastjóra, en þær voru lagðar fyrir n., og hún féllst á þær í öllum höfuðatriðum. N. var að vísu ekki búin að skrifa formlega undir till., en hún fór sjálf með þær á fund utanrrh., og þar var þeim forkastað. N. viðurkennir hins vegar með þögninni fyrri tillögurnar um tolla- og skattamálin, enda var formlega frá þeim gengið, og n. hafði undirritað þær og sent ríkisstj. Þessar till. gefa þýðingarmiklar upplýsingar um álit opinberra starfsmanna og fagmanna á því. hvernig þessum málum skuli hagað. Fyrir hæstv. utanrrh. er það hins vegar óþægilegt, að þær séu opinberaðar. En það var þjóðþrifaverk að birta þær og heiður fyrir flugvallarn., þótt hún hafi síðan nokkuð rýrt þann heiður með skýrslunni í Morgunblaðinu. Þær hjálpa til að vekja það álit, að Ameríkumenn geti ekki gengið á þann rétt, sem okkur er ætlaður, eftir vild, eins og Mr. Hunter og fleiri hafa gert.

Þá sný ég mér að einstökum atriðum skýrslunnar. N. segir, að nú þegar sé á vellinum íslenzk löggæzla og tollgæzla. Það er rétt, að tollskoðun er gerð hjá þeim, sem fara um völlinn. Hins vegar gildir annað um tollgæzluna á þeim vörum, sem fluttar eru til Bandaríkjahers til notkunar hér á landi. Í því sambandi hefur hæstv. utanrrh. þyrlað upp miklu moldviðri og farið heldur óráðvendnislega með lögfræðiþekkingu sína. Tollrannsóknin er nauðsynleg í mörgu skyni. Í fyrsta lagi til þess að tryggja löglegar tolltekjur ríkissjóðs af þeim innflutningi, sem ekki er tollfrjáls. Í öðru lagi til þess að líta eftir því, að innflutningurinn fari fram í samræmi við innflutningsleyfi. Til þess höfum við ekki haft sérstaka menn, heldur hafa tollgæzlumennirnir yfirleitt séð um það. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að fylgjast með því, sem ameríska liðið flytur inn, til þess að fylgjast með framkvæmd samningsins. Einfaldasta leiðin til þess er einmitt tollgæzlan. Ríkisstj. á því ekki að láta sér nægja jafngóða tollgæzlu og á öðrum innflutningi, sem nú er góð, þar sem segja má, að litið sé í hvert „kollí“, heldur verður tollskoðunin að vera miklu strangari vegna eftirlitsins með því, að samningurinn sé haldinn í framkvæmd. Ef Ameríkumenn vilja ekki lenda í stöðugum deilum, getur ströng tollgæzla forðað þeim frá að flytja inn hluti, sem ekki eru í samræmi við samninginn. Ríkisstj. hefur ekki fallizt á þetta, vegna þess að Ameríkumenn hafa ekki viljað fallast á það. Þeir segja sem svo: „Við skulum senda ykkur afrit af þeim vöruskrám. sem við þurfum að gera, hvort eð er.“ Jú, jú! Síðan eru vörurnar teknar inn í sérstök geymsluhús þeirra, og Íslendingar mega koma og skoða þær. Persónulegar sendingar munu vera skoðaðar, eins og venjulegur póstur, en vörusendingar til félagsins mega Íslendingar tollskoða, ef utanrrn. eða fjmrn. telur ástæðu til. Tollskoðunin fellur ekki undir tollstjórann og ekki undir sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu, heldur beint undir fjmrn. Ef það ákveður, að skoðun skuli fara fram, þá eru Ameríkumenn ekki á móti því! Þetta er í alla staði ósæmilegt og engin ástæða til þess að beita öðrum aðferðum en við venjulega tollskoðun. Miklu fremur væri ástæða til að hafa þessa tollskoðun strangari, því að það er önnur og meiri skylda, sem hvílir á okkur í sambandi við hana en aðra venjulega tollskoðun. Ég hef áður getið þess, hvað flugvallarn. segir um tollgæzluna á flugvellinum. Skýrslur flugvallarliðsins um innflutninginn eru taldar góðar og gildar, og íslenzka ríkisstj. á ekki að hafa afsalað sér neinum réttindum. Þó er það kunnugt, að stórfelldar sendingar hafa verið afhentar án tollskoðunar. Það er þetta, sem hæstv. utanrrh. kom ekki inn á. Hæstv. utanrrh. hefur ekki komið inn á það í ræðum sínum, hvernig beri að framkvæma eftirlitið, og frá Íslendinga hendi hefur verið fallizt á það, sem Ameríkumenn hafa viljað. Nú munu Ameríkumenn hafa gert tilboð í þessu sambandi, en í hverju það er fólgið, er enn ekki vitað, og hæstv. utanrrh. virðist álíta, að almenningur þurfi ekkert um slíkt að vita, hvað hér er á ferðinni, en ég skil ekki, hvaða hernaðarlega þýðingu það hefur að leyna þessu tilboði. En slík er aðferð þeirra manna, að velja þessa leið, sem bregðast skyldu sinni gagnvart máli, sem þeim er trúað fyrir.

Hvað sem rétt kann að vera í því, er snertir óleyfilega sölu og meðferð erlendra peninga, þá býst ég við því, að Bandaríkjastj. hafi ekki neina sérstaka ánægju eða áhuga fyrir því að hleypa inn í landið tollfrjálsum vörum, og vil ég sízt bera það á hana. En eigi þetta eftirlit hins vegar að vera framkvæmt af þeim einum, þá má segja, að það sé ef til vill mannlegt, þó að þeir menn, sem framkvæma það hér, gæti þar ekki alls svo vel sem skyldi og ekki eins vel og í þeirra heimalandi væri þrátt fyrir ströng fyrirmæli frá stjórn Bandaríkjanna. En það er þá langt frá því, að íslenzkum stjórnarvöldum beri að sætta sig við slíkt. Eftirlitið á flugvellinum getur aldrei orðið í raun og veru eins og það á að vera, nema það sé í höndum Íslendinga sjálfra, en í samráði við Ameríkumenn. Ef eftirlitið þarna á að vera í höndum Ameríkumanna, þá gef ég lítið fyrir það, jafnvel þó að ströng fyrirmæli séu viðhöfð, og það er heldur ekkert í samningnum talað um slíkt, heldur að Íslendingar hafi þarna öll ráð í sinni hendi.

Þá er í þessari skýrslu minnzt á, að afhending vöruleifa frá hernum beint til innlendra aðila hafi ekki átt sér stað, heldur til ríkisstj. Ég býst við, að þetta sé rétt í meginatriðum. En ástæðan til þess, að svo lítið hefur verið afhent á þann hátt, er fyrst og fremst sú, að sáralítið hefur verið til af slíkum vörum, vegna þess að þau fyrirtæki, sem hafa með þær að gera, eru enn í höndum Ameríkumanna sjálfra. Það er því ekki fyrir aðgerðir íslenzkra stjórnarvalda, að engin slík afhending hefur farið fram nema á olíu. Þær birgðir hafa heldur ekki verið afhentar íslenzkum stjórnarvöldum, heldur Standard Oil félaginu, er Olíufélagið h. f. tók við og hefur fengið einkarétt til þess að afgreiða benzín þarna, að svo miklu leyti sem Ameríkumenn hafa komizt upp með það, en þeir hafa ekki getað gengið svo langt að geta bannað alveg öðrum olíufélögum að afgreiða þarna benzín, en þau eru, eins og t. d. B. P., Shell, Nafta o. fl., einfær um að annast þessa hluti. En þeim er gert þarna mjög erfitt fyrir, þannig að þau verða að sækja þessar vörur til Rvíkur á tankbílum, og sjá þá allir, hvaða samræmi getur verið í hagnaði þessara félaga. Flugvallarn. er þetta ljóst, og hún skýrir frá þessu, þó svo að hinu leytinu sé reynt af sumum að leggja þann skilning í, að allt sé í stakasta lagi.

Það, sem eðlilegast hefði verið, að íslenzk stjórnarvöld hefðu sagt við ameríska olíufélagið, er: Við tökum við öllum þessum olíubirgðum, við höfum nógu mörg olíufélög á Íslandi til að selja olíu, og hér hefur það verið frjáls verzlun, og við viljum hafa það svo áfram, og íslenzka stjórnin tekur við þessu og afgreiðir til þeirra félaga, sem vilja. Þá hefði ekki verið hægt að tala um einkarétt neins, eins og nú á sér stað með Standard Oil félagið. N. minnist á það í skýrslu sinni, að þetta félag þyrfti að vera háð sömu skyldum og kvöðum og önnur félög og unnið sé að því að koma framtíðarskipulagi á þessi mál. En mér er kunnugt um, að n. hefur ekki fjallað um þessi mál, heldur mun það vera haft eftir flugmálastjóranum í Rvík.

Þá er það viðvíkjandi tollgæzlu og greiðslu nokkurra gjalda til ríkisins o. fl. Í skýrslunni segir, að flugvallarn. og umboðsmenn Bandaríkjastj. hafi rætt um það, að ef þeir hefðu aðra starfsmenn á flugvellinum en þá, sem stæðu í sambandi við eftirlitið í Þýzkalandi, þá þyrfti slík starfsemi að vera háð sömu skyldum og kvöðum og starfsemi annarra félaga, og hefðu fulltrúar Bandaríkjanna komið með ákveðnar till. um greiðslu tolla og gjalda vegna þessarar starfsemi. En hvað gerir svo Bandaríkjastj.? Jú, hún gerir tilboð, sem ekki er búið að taka ákvörðun um, og hefur svo áfram þarna alla sína hentisemi og betri aðstöðu en aðrir til þess að reka flug og hefur stjórn Bandaríkjanna með því gert sig seka um mikla lítilsvirðingu í garð Íslendinga. Það verður ekki annað séð en að þrátt fyrir flugvallarsamninginn og skýlausan rétt Íslendinga þurfi þeir að fara bónarveg til stjórnar Bandaríkjanna til þess að reyna að fá hana til þess að viðurkenna þau sjónarmið. Það er engu líkara en að samningurinn gefi okkur ekki neinn rétt, við þurfum að bera hvert einasta atriði undir Ameríkumenn og reyna að fá þá til að fallast á það, svo líða kannske mánuðir og ekkert gerist. Það kemur ekki fyrir, að Bandaríkjamenn geri neitt til þess að flýta fyrir slíkum störfum. Íslenzka ríkisstj. kemur fyrst með till. í málinu, en þá koma Bandaríkjamenn með gagntill., sem ríkisstj. fellst á. En yfir þetta virðingarleysi og yfirgang Bandaríkjamanna hefur verið reynt að breiða af sumum mönnum, eins og t. d. hæstv. utanrrh., með því að tala um þær miklu eignir, sem við Íslendingar eigum á Keflavíkurflugvellinum, sem væru upp á margar millj. kr. og við ættum að vera stoltir af, en Bandaríkjamenn fengju bara að hafa not af þeim í sex og hálft ár. Þegar íslenzka ríkisstj, var spurð að því, hvort hún vildi gefa yfirlýsingu um það, hvort samningurinn yrði framlengdur, þá skoraðist hún undan því. Það er yfirleitt sama svarið við öllum spurningum og gagnrýni á framkvæmd þessa samnings. Við skulum vera ánægðir með það, sem við eigum á Keflavíkurflugvellinum, og það er allt í lagi, að Bandaríkjamenn noti hann og það, sem þar er, við getum ekki verið harðir með okkar kröfur, vegna þess að þetta eru svo stórfelld verðmæti, sem við fáum hjá þessari miklu og auðugustu þjóð heimsins. Ég held, að hæstv. utanrrh. fái fáa Íslendinga til þess að verða stolta af því, hvað við höfum orðið auðugir í sambandi við Keflavíkurflugvöllinn. Það væri áreiðanlega betra fyrir okkur, að allt, sem þar er, væri rifið niður og við fengjum að vera í friði utan við deilur, sem rísa kunna út af þessu mannvirki, vegna legu flugvallarins, ef svo ömurlega skyldi fara, að til nýrrar styrjaldar kæmi, sem allir vona þó, að ekki verði.

En eins og ég hef áður tekið fram, er það eftirtektarvert, að skýrsla n. er ekki samin sem skýrsla, heldur gögn fyrir hæstv. utanrrh., þó að hún hins vegar beri vott um það, hve slælega hefur verið haldið á málum Íslendinga, og alveg ljóst af henni, hvernig Bandaríkjamenn ganga á okkar rétt. t. d. þegar Íslendingar vilja koma mönnum inn á flugvöllinn til vinnu, þá er sama svarið hjá Bandaríkjamönnum, að Íslendingar verði sjálfir að borga þessum mönnum, en slíkt kemur auðvitað ekki til mála að sleppa nokkrum réttindum eða valdi til þess að spara okkur peninga, en Bandaríkjamenn hafa legið á því lúalagi að segja, að við gætum ekki skaffað svo marga sérfróða menn sem þyrfti á flugvöllinn, en íslenzka ríkisstj. hefur heldur ekki gert neitt til þess að rannsaka, hve marga slíka menn þyrfti í raun og veru. En við höfum svo miklu af sérfróðum mönnum á að skipa, að við gætum sjálfir haft verkstjórn á hendi í öllum þeim greinum, sem nauðsynlegar eru í sambandi við flug. En þrátt fyrir þessa kunnáttu Íslendinga hefur ekki tekizt að koma að mönnum í þýðingarmiklar stöður, enda kemur það glöggt fram hjá n. Hún segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar í upphafi lagði n. áherzlu á að koma sem flestum Íslendingum að við vinnu á flugvellinum. Var haft fyrir augum, að kostnaður félli ekki á ríkissjóð í því sambandi, en hins vegar reynt að koma mönnum í sem flestar starfsgreinar og að Ameríkumenn greiddu kaup þeirra. 15. júní s. l. voru starfandi á flugvellinum 96 Íslendingar í þjónustu Iceland Airport Corporation. Af þeim störfuðu 19 að tekniskri flugþjónustu, 57 unnu í eldhúsum, þvottahúsum og á hótelinu, en 20 að venjulegum verkamannastörfum.“ Samkv. þessum upplýsingum vinna flestir þessara manna það, sem hin hámenntaða þjóð Bandaríkjanna lætur svertingja vinna. (Samgmrh.: Telur þm. skömm að því að vinna eldhúsverk?) Nei, ég tel ekkert athugavert við það, að menn vinni eldhúsverk, en ég álít, að Íslendingar ættu ekki eingöngu að vinna þau störf. Og þótt í þessari skýrslu sé talið, að 19 menn vinni að tekniskum störfum, þá er það alls ekki rétt. Það eru þjónustustörf, þó að þau séu meira í sambandi við flug, því að þeir eru hafðir t. d. til þess að raða pökkum og aðstoða á annan hátt. Það getur verið, að tveir menn geri eitthvað annað. og hér því um bein ósannindi að ræða, sem að vísu er ekki n. að kenna, heldur er það haft eftir flugmálastjóra samkvæmt kröfu hæstv. utanrrh., enda hefur ekki fengizt nein skýring á því, hver þessi störf væru. Það hefur ekki tekizt að koma að einum einasta manni til þess að annast flugstjórn og engum manni að í turninum, þó að við eigum fullan rétt til þess, enda hefur n. verið það ljóst, og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp það, sem n. segir: „Þess skal getið, að flugvallarn. fór á sínum tíma fram á það við félagið, að Íslendingar yrðu látnir gegna störfum í flugturni vallarins á kostnað Bandaríkjamanna. Var tekið vel í þetta mál, en þá voru ekki kunnáttumenn fyrir hendi. Þar sem nú er hægt að fá íslenzka kunnáttumenn, hefur málið verið tekið upp á ný. Um hitt þarf ekki að leita samkomulags, ef Íslendingar vilja setja menn í flugturninn á sinn kostnað.“ Þetta hefur verið samþ. í „prinsip“, en svo eru margir mánuðir liðnir og ekkert hefur gerzt, þrátt fyrir það að nú höfum við þá kunnáttumenn, sem þarf til þeirra starfa, sem þarna er um að ræða, og við höfum valdið til þess að hafa þar öll ráð yfir Bandaríkjamönnum, sem eiga ekki að hafa þar meiri ráð en erlent skip í íslenzkri höfn. Það er enginn vilji fyrir að framkvæma samninginn röggsamlega. Stjórnin hreyfir sig ekki, nema þegar á að gera eitthvað í augum þjóðarinnar. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Já. ég á talsvert eftir. (Forseti: Þá vildi ég spyrja, hvort hann vildi fresta því, sem hann á eftir, þar eð fundartíma er lokið.) Já, ég skal gjarnan verða við þeim tilmælum hæstv. forseta. [Frh.]