29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (3287)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef haldið eina ræðu áður um þetta mál, og hæstv. utanrrh., sem hefur haldið þrjár ræður um málið, vék að ýmsu, sem ég hef sagt, og bar m. a. fram nokkrar fyrirspurnir til mín auk ýmissa ærumeiðandi ásakana. Ég mun nú taka fyrir þessa ræðu. sem hann flutti og svara nokkrum af þeim fyrirspurnum, sem hann bar fram.

Ég verð að segja, að mér ógnar í raun og veru, að ráðh., sem er utanrrh. og dómsmrh. okkar lands, skuli koma fram eins og þessum hæstv. utanrrh. þóknaðist að gera í þeirri ræðu, í fyrsta lagi, að utanrrh. skuli sýna aðra eins vanþekkingu í utanríkispólitík og utanríkismálum eins og þar hefur komið fram, og í öðru lagi, að dómsmrh. þessa lands skuli láta hjá líða á Alþingi að svara ásökunum, sem á hann eru bornar, að hann hafi í stórum stíl þolað lögbrot í okkar landi án þess að gera nokkurn skapaðan hlut til að afstýra þeim og jafnvel verið í vitorði með þeim, sem þau hafa framið, og að því er virðist lagt stund á að festa þessi lögbrot sem venju í okkar landi. Maður hefði vel getað skilið, að það hefðu verið skrifaðar greinar í Morgunblaðið í svipuðum stíl og hæstv. ráðh. talaði þá, en að ráðh. tali í þinginu eins og þar væri á ferðinni grein í Morgunblaðinu. er slæmt tákn í þróun lýðræðisins.

Hæstv. ráðh. beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvort ég, sem hefði lagt stund á sagnfræði, gæti nefnt eitt einasta dæmi um, að lýðræðisþjóð hefði hafið árásarstríð. Hæstv. ráðh. gaf m. ö. o. til kynna á þennan hátt, að það væri svo fráleitt, að slíkt hefði aldrei í annálum sögunnar komið fyrir og það ætti að sýna, hve þekkingarleysi mitt væri geysilegt, að ég skyldi láta mér detta í hug annað eins og það, að Bandaríkin eða nokkur önnur lýðræðisþjóð hefði farið í árásarstríð. Það var eins og hæstv. ráðh. hefði sagt skák og mát, nú þyrfti ekki framar að sökum að spyrja, það væri augsýnilegt, hversu hörmuleg væri vanþekking þm. Sósfl. í öllum málum, sem snertu utanríkispólitík, en hann einn hefði til að bera alvizku og gífurlega þekkingu á sögu mannkynsins, hann gæti fullvissað Alþ. um, að aldrei hefði þekkzt lýðræðisþjóð, sem hefði háð árásarstríð, og mundi ekki koma fyrir, og því gæti þjóðin verið róleg, ekkert væri að óttast. Það þyrfti ekkert að velta því fyrir sér og ekki þyrfti að taka slíkt með í reikninginn, þegar við sem alþm. værum ábyrgir fyrir, hver örlög þjóðarinnar yrðu.

Ég skal verða við ósk hæstv. ráðh. og nefna dæmi um árásarstríð hjá lýðræðisþjóð. Ég skal þá fyrst nefna það land, sem almennt er talið fyrirmynd lýðræðisríkja í Evrópu, helzta þingræðisríki álfunnar, sem margar aldir hefur verið brautryðjandi í því að skapa hjá sér lýðræði. Það er Bretland.

Svo að við lítum aðeins á síðustu 100 ár, þá má nefna þar tvö árásarstríð af hálfu Breta, í fyrsta lagi árásina á Kína 1842 og næstu ár, þegar Bretland réðst á Kína til að neyða það til að opna land sitt, svo að Englendingar gætu selt þar ópíum. Þetta var beint verzlunarstríð, sem var háð til þess að geta selt eiturlyf í landinu, háð til að kúska þjóð, sem var að reyna að bjarga sér undan ópíumbölinu.

Svo er annað dæmi á okkar öld, sem ég hélt, að okkur væri ekki liðið úr minni, en það er Búastríðið, árásarstríð á Búa, stríð til að leggja undir sig sjálfstæða þjóð, stríð, sem talað var og ritað um á Íslandi og eitt af okkar beztu skáldum orti um, svo að hatramlegar hefur aldrei verið ort um Bretaveldi. Fleiri stríð má nefna, sem Bretland háði, meðan það var að leggja undir sig Asíu og Afríku, undiroka heilar þjóðir til að byggja upp heimsveldi sitt. Við skulum vera klárir á því, að það er lýðræðisríkið Bretland, sem fremur þessar árásir. Það voru til menn í Englandi, sem voru á móti þessum árásum, en þetta var framkvæmt engu að síður. Og ef við viljum rekja ástæðurnar til þessara árása, þá er ástæðan sú, að borgarastéttin, sem brauzt til valda í Englandi á 17. öld og smám saman jók sín völd, vildi leggja undir Bretland eins mikil lönd og hægt var. Þannig fór þetta saman, að samtímis því, sem verkalýðurinn barðist fyrir auknu lýðræði heima fyrir, varð hann yfirgangssamur við aðrar þjóðir. Þessu megum við ekki gleyma. ef við viljum skilja, hvers konar lýðræði þetta er.

Þá er annað ríki, sem hefur verið mikill brautryðjandi í lýðræðisbaráttu Evrópu, Frakkland. Þar er sömu söguna að segja. Það háði hvert árásarstríðið á fætur öðru, þegar það var að brjóta undir sig nýlendurnar, sem það á í Norður-Afríku, og barði niður þjóðirnar, sem þar voru fyrir, með sífelldum árásarstríðum, þegar það var að byggja upp franska heimsveldið.

Nú vill hæstv. ráðh. kannske segja, að þótt lýðræðisþjóðirnar í Evrópu, þessir miklu brautryðjendur lýðræðisins. hafi nú í síðustu 100 ár gert sig sek í hverju árásarstríðinu á fætur öðru og brotið þannig þetta lögmál, sem hæstv. ráðh. hélt fram, að aldrei hefði verið brotið í mannkynssögunni, þá hefðu hin heilögu Bandaríki þó aldrei gert sig sek í því. Ég hafði, þegar flugvallarsamningurinn var til umr., birt með mínu minnihl. nál. nokkrar frásagnir um afskipti Bandaríkjanna af smáríkjunum í Mið-Ameríku. Ég hélt máske, að hæstv. utanrrh., sem þá var formaður utanrmn., hefði látið svo lítið að lesa þetta nál. og þær skýrslur, sem því fylgja, sem eru studdar tilvitnunum í þau rit, sem Bandaríkin sjálf hafa gefið út. M. a. er vitnað í þær rannsóknir og yfirheyrslur, sem fram hafa farið af hálfu n., sem Bandaríkjaþing hefur kosið á hverjum tíma til að rannsaka viðskiptin við þessar þjóðir, og mér vitanlega hefur enginn gert tilraun til að hrekja það, sem þar kemur fram. Það var sett fram af minni hálfu, til þess að enginn í utanrmn. og enginn hv. alþm. gæti verið í efa um, hvað smáþjóðir eins og við geta átt á hættu af því ríki, sem við höfum samið við, án þess að ég dragi á nokkurn hátt í efa, að Bandaríkin séu lýðræðisþjóð. Ég hélt, að hæstv. ráðh. hefði kynnt sér þetta. Ef hann hefði gert það, þá hefði svo getað farið, að hann hefði ekki komið með þær staðhæfingar, sem hann hefur komið hér með, því að þar auglýsti hann svo greinilega vanþekkingu sína á þeirri þjóð, sem hann er nú að skipta við. Bandaríkin hafa hvað eftir annað ráðizt á nágrannaríki sín til þess að tryggja sér þar hagsmuni og sett þar her á land til þess að tryggja sér þar ríkt. Ég nefndi í þessu þskj. dæmi um, hvernig smáríki í nágrenni við Bandaríkin hafa orðið fyrir ofbeldi og árásum af þeirra hendi.

Fyrsta dæmið er lýðveldið Santo Domingo. Þar segir svo um íhlutun Bandaríkjanna, með leyfi hæstv. forseta: Smáríkinu Santo Domingo (Dominican-lýðveldinu) náðu Bandaríkin valdi á með því að hlutast til um innanríkismál þess hvað eftir annað, taka upp tolltekjur ríkisins og senda herskip og sjólið til eyjarinnar. Þessi íhlutun náði hámarki í maí 1916, er bandaríska sjóliðið undir forystu H. N. Knapps kapteins var látið taka stjórn landsins með ofbeldi í sínar hendur og setja upp hernaðareinræði. Yfirlýst var, að þetta væri gert samkvæmt skipun frá Washington, vegna þess að „stjórn Bandaríkjanna hefði lagt ríkt á við stjórn Santo Domingos að gera vissar nauðsynlegar ráðstafanir, er Santo Domingostjórnin hafi annaðhvort ekki viljað skilja eða getað skilið.“ (Blakeslee. G. H.: Mexico and the Carribbean). Þessi hernaðareinræðisstjórn stóð til 1924. „Bandarískur flotaforingi var landsstjóri og hafði allt framkvæmdar- og löggjafarvald, þingið starfaði ekki. Ráðherrasætin voru fyllt með liðsforingjum bandaríska flotans og flotaliðsins.“ (Blakeslee, sama rit). Herstjórn landsins var haldið fram, þar til lýðveldið Santo Domingo taldi sig til neytt að gera samning við Bandaríkin, er gaf „lagaheimild“ til að framkvæma það, sem herstjórnin framkvæmdi með valdi. Það var ekki fyrr en á dögum Roosevelts forseta, að linað var á kverkatökum Bandaríkjastjórnar á þessu smáríki.

Þetta er það, sem við mundum kalla árásarstríð.

Annað dæmið, sem ég nefndi, var Haiti, smáríki, sem hafði háð harða og langa baráttu til að öðlast frelsi, eins og við höfum lesið um í sögum, ekki sízt í hinni frægu bók „Svarta Napóleon. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa örlítið upp, sem sýnir viðskipti Bandaríkjastjórnar við þetta ríki:

„Í desember 1914 lenti bandarískur sjóliðsflokkur í Port au Prinee, höfuðborg landsins, hélt til þjóðbanka Haiti og tók þar um hábjartan dag 500000 dollara virði í gulli og fór með það um borð í herskipið „Machias“.

Gullið var flutt til New York og varðveitt í hvelfingum National City Bank. Það var eign Haitiríkis og geymt til seðlainnlausnar. Haiti mótmælti þegar þessu broti á fullveldis- og eignarrétti lýðveldisins og krafðist skýringar af Bandaríkjunum. En engin „skýring“ var gefin. Roger L. Farnhams, varaforseti National City Bank, skýrði öldungadeildarnefnd svo frá 1921, að utanríkismálaráðuneytið og National City Bank hafi saman skipulagt þessa aðför.“ (Current History Magazine, 15. bindi — U. S. „Foreign Relations“. 1915.)

Sumarið 1915 nota Bandaríkin byltingu á Haiti sem tilefni til að senda herskip og sjólið þangað undir stjórn Capertons flotaforingja, er gerist þegar umsvifamikill í innanlandsmálum. Er stjórn landsins þybbast við ágengniskröfum Bandaríkjanna,. fær Caperton fyrirskipun um að hernema tollstöðvar landsins, og var það gert milli 21. ágúst og 2. sept. 1915. Þar sem tolltekjurnar voru langmestur hluti ríkisteknanna, tók bandaríska sjóliðið raunverulega stjórn landsins í sinar hendur, — og 9. sept. 1915 varð ríkisstjórn Haiti að undirrita nauðungarsamninginn, sem Bandaríkin héldu að þeim. Því, sem Haitibúar hafa síðan mátt þola af völdum bandarískra sjóliða og sendimanna, verður ekki lýst í stuttu máli, en ber flest einkenni stjórnar „herraþjóðar“ yfir kúgaðri smáþjóð (Johnson, J. W.: Self Determining Haiti.)

Þriðja dæmið er lýðveldið Nicaragua. Ég hafði grein um það vegna þess, að dálítið svipað stóð á um afskipti Bandaríkjanna af Nicaragua eins og með íhlutunina á Íslandi. Ég ætla að lesa örfá orð upp úr því. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Saga þeirra viðskipta má telja, að hefjist með því, að nokkru eftir aldamót fara Bandaríkin að reyna að fá flotastöð í Fonsecaflóa í Nicaragua og leyfi til að byggja skipaskurð um landið. Fyrirætlanir Bandaríkjanna vöktu mikla ólgu í Mið-Ameríku, og sumarið 1907 var svo komið, að styrjöld virtist yfirvofandi milli allra smáríkjanna þar. Roosevelt Bandaríkjaforseti (eldri) og Diaz Mexíkóforseti neyddu þau til að leggja málið í gerð. Fulltrúar hinna fimm smáríkja komu til Washington 1907 og gerðu þar samninga, sem miðuðu að því að efla einingu Mið-Ameríku. Mikilvægast í þeirri samningagerð var stofnun gerðardómstóls fimm manna, skipuðum einum frá hverju ríkjanna, er átti að hafa æðsta dómaravald í öllum ágreiningsmálum þeirra.

Stjórn Nicaragua-forsetans José Sambos Zelaya hafði beitt sér gegn fyrirætlunum Bandaríkjanna um flotastöð í Fonsecaflóanum og tilraunum bandarískra auðhringa að ná fótfestu í landinu.

En Bandaríkin taka til sinna ráða.

Bylting brýzt út gegn Zelaya 1909. Hún var kostuð af manni að nafni Adolfo Diaz, starfsmanni hjá bandarísku félagi í Bluefields, La Luz and Los Angeles Mining Company. Diaz þessi hafði 1000 dollara í árslaun, en þótt ekki sé vitað um aðrar tekjur hans, gat hann eytt í byltinguna 600000 dollurum, er hann síðan borgaði sjálfum sér. ...

Zelaya var neyddur til að segja af sér og fara úr landi. Þing Nicaragua kaus sem forseta dr. José Madriz. En Bandaríkin héldu áfram að styðja byltingu Estradas gegn Madriz-stjórninni.

Madriz forseti mótmælti við Taft Bandaríkjaforseta íhlutun Bandaríkjanna um innanlandsmál Nicaragua, en Bandaríkin kröfðust þess, að bandarískum skipum með hergögn handa uppreisnarmönnum yrði hleypt gegnum hafnbannið, sem hin löglega stjórn landsins hafði komið á.

En stjórnarherinn sigraði uppreisnarherinn, neyddi Estrada á undanhald til Bluefields og reyndi þar að framfylgja hafnbanni. Jafnskjótt voru sendar þangað sveitir bandarískra sjóliða, er hindruðu stjórnarherinn í því að halda Bluefields í herkví eða ráðast á bæinn. Þannig gat uppreisnarherinn safnað kröftum að nýju og náð völdum með hjálp bandarískra byssustingja. Hinn 20. ágúst 1910 sagði Madriz af sér, er her hans hafði beðið ósigur fyrir her Estrada. Viku síðar hélt Estrada inn í höfuðborg landsins, Managua, sigri hrósandi.

Og nú var leiðin opin fyrir bandaríska auðvaldið, sem í náinni samvinnu við Bandaríkjastjórn fer að ráðsmennskast í Nicaragua, líkt og um sigrað óvinaland væri að ræða. Fulltrúar Bandaríkjastjórnar segja fyrir um stjórnmál og fjármál landsins. Undirlægjuháttur Estradastjórnarinnar gerði hana svo óvinsæla, að 27. marz 1911 símar bandaríski sendiherrann í Nicaragua stjórn sinni: „Estrada forseti helzt einungis við í embætti sínu vegna stuðnings vors og þeirrar skoðunar, að hann hafi oss að baki, ef í hart fer.“

Estrada. varð að fara frá, og annar þægur Bandaríkjaþjónn, Diaz, settist í forsetastól. Næstu árin stendur í stöðugu þófi, þar sem þing Nicaragua reynir að andæfa ásælni Bandaríkjanna, en bandariski sendiherrann ásamt Bandaríkjaleppunum í stjórn landsins reyna að þvinga upp á Nicaragua miklum bandarískum lánum, sem bundin eru því skilyrði, að Nicaragua afhendi Bandaríkjunum tolltekjur sínar og raunverulega yfirráð alls fjármálalífs landsins. Þegar líkindi voru til, að smáþjóðin ætlaði að verða Bandaríkjunum of óþæg, pantaði bandaríski sendiherrann herskip að heiman frá sér, og varð Bandaríkjastjórn hvað eftir annað við þeim tilmælum, og dugði ógnun Bandaríkjaflotans oftast til þess, sem á vantaði, þegar sannfæringarmátt bandarískra sendimanna þraut...

Með þeim aðförum, sem nú hefur verið lýst, tókst að beygja og kúga þetta litla ríki svo undir Bandaríkin, að tíu árum síðar, í „samningi“ milli ríkjanna 18. febrúar 1916. fær stórveldið vilja sínum framgengt til fulls. Samkvæmt þeim samningi, Bryan-Chamorro-samningnum, greiddu Bandaríkin þrjár milljónir dollara fyrir þessi fríðindi af hálfu Nicaragua:

1. Rétt til að grafa skipaskurð um landið.

2. Leigu til 99 ára á Corneyjum og flotastöð í Fonseca-flóa.

3. Bandaríkjunum sé heimilt að framlengja samninginn um flotastöðina í önnur 99 ár. Ákvæðið um flotastöð í Fonseca-flóa vakti áhyggjur grannríkjanna, og tvö þeirra, Costa-Rica og Salvador, kærðu það ákvæði samningsins fyrir gerðardóminum í Mið-Ameríkumálum, sem Bandaríkin höfðu átt mestan þátt í að koma á fót. Féll dómur hans á þá leið, að samningsákvæðin um flotahöfnina skyldu ógild, en þá brá svo við, að bæði Bandaríkin og Nicaragua neituðu að hlíta úrskurðinum, og var dómstóllinn leystur upp 1918.

Bandaríska bankaauðvaldið, utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og Bandaríkjaflotinn hafa síðan mátt heita einráð í þessu „sjálfstæða“ ríki.

Mótspyrnan gegn leppstjórnum Bandaríkjanna hélt áfram. Sumarið 1921 var enn gerð uppreisn, og leppstjórnin lýsti yfir hernaðarástandi. Bandaríkjastjórn sendi 10 þúsund riffla og nóg af vélbyssum, til þess að leppstjórnin gæti haldið völdum. Vorið 1932 átti leppstjórn Chamorros enn í vök að verjast, en lét þá fangelsa 300 leiðtoga frjálslyndra, og er það dugði ekki, hótaði bandaríski flotinn að láta til sín taka.

Dvöl bandaríska sjóliðsins í landinu hefur hvað eftir annað leitt til árekstra. Í febrúar 1921 eyðilögðu bandarískir sjóliðar hús Nicaraguablaðsins „Tribuna“, en það hafði gagnrýnt Bandaríkjaliðið. Þá og eftir árekstra síðar fengu illræðismennirnir væga dóma. Í ágúst 1925 var látið heita svo, að herinn færi úr landi, en við starfi hans tóku lögreglusveitir, sem kennt var og stjórnað af Bandaríkjamönnum.

Þessi þrjú dæmi í nál. mínu frá því í fyrra eru öll óhrekjanleg, því að þau eru studd með bandarískum sagnfræðiritum og skjölum og skýrslum um íhlutun, afskipti, árásir og árásarstríð Bandaríkjanna gagnvart öðrum ríkjum.

Það má nefna fleira til viðbótar. Það má nefna Mexíkó, árásina á Vera Cruz, það má nefna, þegar Bandaríkjamenn gengu á land á Cuba, það má taka, ef maður vill, árásarstríð á aðrar þjóðir, árásina á Spán 1898, sem var árásarstríð, m. a. til að geta náð Cuba á sitt vald. Þetta má rekja endalaust. Öll þessi ríki, England, Frakkland, Bandaríkin, sem eru forysturíki í lýðræði, hafa ráðizt með ofbeldi á önnur ríki, sem hafa mátt sín minna. Bandaríkin eru voldugasta lýðræðisþjóðin um allan heim. En forseti ríkisins hugsar fyrst og fremst um að auka vald og auðlegð síns ríkis. Og í krafti síns mikla valds sendir hann her inn í lítið nágrannaríki, tekur af því fé og vill neyða þjóðina til að samþykkja það, sem hann hefur sjálfur hugsað sér.

Ég verð því að segja, að það, að hæstv. utanrrh. skuli ekki hafa hugmynd um höfuðviðburðina í sögu heimsins, þó að ekki væri nema síðustu 100 árin, það er hörmulegt. Það er hörmulegt til þess að vita, ef utanrrh. Íslands, að svo miklu leyti sem hann hefur ráðið því, sem gert hefur verið í okkar utanríkismálum upp á síðkastið, lætur örlagaríkar ákvarðanir um framtíð landsins grundvallast á slíku þekkingarleysi. Það er skylda þeirra manna, sem fara með völd af hálfu smáþjóða, að afla sér eins mikillar þekkingar og hægt er í þeim málum, sem kemur undir þá að hafa með að gera. Þjóðin treystir þeim mönnum, sem hún setur í slíkar stöður á hverjum tíma, til að vera færum um að gegna þeim. Og einn þátturinn í því er að afla sér þekkingar á þeim hlutum til þess að vera fær um að dæma um þá. Það þekkingarleysi, sem þarna kemur fram hjá hæstv. utanrrh., sýnir, að hann hefur farið í þessa stöðu meira af vilja en mætti, án þess að gera sér ljóst, hvaða ábyrgð hlaut að hvíla á þeim manni, sem slíka stöðu tæki að sér.

Íslenzka þjóðin hefur lítið fengizt við utanríkismál. Það er fyrst nú fyrir skömmu síðan, að hún fór sjálf að stjórna sínum utanríkismálum. Samt er hún nú á tímum erfiðar sett en nokkru sinni áður, vegna þess að hún hefur lent meira inn í utanríkismál mannkynsins en við flestir hefðum óskað. En því meir ríður þjóðinni á, að þeir menn, sem gegna trúnaðarstörfum fyrir hana á þessu sviði, séu starfi sínu vanir, geri sér far um að afla sér sem mestrar þekkingar á þeim málum, sem þeir eiga að dæma um, til þess að geta út frá slíkri þekkingu ráðlagt þjóðinni og sagt henni, hvað bezt sé að gera á hverjum tíma. Ef hæstv. utanrrh. þess vegna stjórnar utanríkismálum okkar þjóðar og beitir sínum áhrifum á lausn vandamestu utanríkismála okkar út frá þessu sjónarmiði, út frá því þekkingarleysi, sem hann þarna birtir, þá er illa farið, og þá hefur hann gert sig sekan um að bregðast því trausti, sem þjóðin hlýtur að bera til þeirra manna, sem taka að sér forystu í eins erfiðu máli og hennar utanríkismál eru. Ef það er hins vegar þannig, að hæstv. utanrrh. hefur byggt á einhverju öðru en þessu, sem hann hefur haldið fram, að engin lýðræðisþjóð hafi verið árásarþjóð, þá hefði hann átt að gefa okkur það upp, en ekki reyna að slengja þessu fram til þjóðarinnar, að við þurfum aldrei að óttast árásir af hálfu lýðræðisríkis, því að þau ummæli hæstv. ráðh. eru byggð, ef hann meinar þau, á megnri vanþekkingu, sem getur orðið þjóðinni hættuleg. Ef hann vill vinna heiðarlega að þessum málum, þá er miklu nær fyrir hann að láta það blað, sem hann skrifar svo mikið í, segja hreinskilnislega frá, hvað það er, sem veldur því, að hann hefur tekið upp þessa stefnu og vill, að Alþ. fylgi henni, því að hér er ekki um smámál að ræða. Hér er um að ræða framtíðarheill þjóðarinnar. En það er ekki hægt með neinum rétti að saka fjöldann um, þótt hann sé kannske ekki vel kunnugur öllu, sem gerist í okkar utanríkismálum. Það er ekki hægt að búast við, að hver einasti kjósandi geti sett sig svo vel inn í utanríkismál þjóðarinnar og þær hættur, sem þar kunna að vera yfirvofandi, þær hættur, sem aðrir hafa fengið reynslu fyrir. Þjóðin hlýtur á hverjum tíma að treysta þeim, sem gera það svo að segja að lífsstarfi sínu að fást við stjórnmál, að hafa meira vit en almenningur á þessum hlutum, meiri þekkingu, meiri reynslu. Þjóðin hlýtur að treysta þeim og krefjast af þeim, að þeir hafi meiri hugmynd um þær hættur, sem bak við kunna að leynast, en almenningur getur haft. Þjóðin hlýtur því á hverjum tíma að dæma þá menn, sem hún kýs til forystu, eftir því, hvernig þeirra þekking og þeirra stjórn reynist í þessu. Það er engin afsökun fyrir neinn stjórnmálamann, ef hann hefur orðið þess valdandi að leiða ógæfu yfir þjóð sína, að koma til hennar og segja: Ég hafði ekki hugmynd um. að svona gæti komið fyrir. — Það þýðir ekki fyrir utanrrh. að koma og segja við þjóðina: Það hefur aldrei komið fyrir, að lýðræðisþjóð hafi framið árásarstríð, og því gerðum við ráð fyrir, að slíkt væri óhugsandi. — Þeir menn, sem taka að sér forystu einnar þjóðar, verða að vita, hvað gerzt hefur og hvaða hætta vofir yfir. Og ef þeir eru tvístígandi, þá verða þeir að leggja fyrir þjóðina staðreyndirnar og láta hana vita, hvernig viðhorfið er. Sá, sem heldur fyrir þjóðinni upplýsingum eða gefur henni rangar upplýsingar, sá maður tekur á sig ábyrgð gagnvart þjóðinni. Þess vegna vil ég átelja það mjög þunglega, að utanrrh. skuli koma fram með og gefa til kynna, að hann byggi afstöðu sína á annarri eins vanþekkingu og þarna kemur fram. Ef utanrrh. hefur samþ. samninginn um Keflavíkurflugvöllinn af því, að það hefði aldrei komið fyrir og gæti ekki komið fyrir, að nein lýðræðisþjóð fremdi árásarstríð, þá hefur hann samþ. hann á röngum forsendum. Menn verða að gera sér ljóst, að það er ekki aðeins sjálfstæði þjóðarinnar, sem hér er í veði, heldur og líf helmings þjóðarinnar. Hver sá maður, sem tók ábyrgð á því að gera slíka hluti sem þessa, samninginn um Keflavíkurflugvöllinn, veit það, að það er vel hugsanlegt, þó að það hafi ekki komið fyrir áður, að þess háttar aðstaða eins og þarna er sköpuð verði notuð til stríðsundirbúnings, og sá meiri hl., sem slíkan samning samþykkti, sætir meðábyrgð á þeim hlutum, sem þar eru að gerast.

Hæstv. utanrrh. kom inn á það í sambandi við umræður um það, hvaða hætta væri eða kynni að vera yfirvofandi yfir hinni íslenzku þjóð vegna þessa samnings, að það væri nú líka hætta á, ef önnur stórveldi fengju slíkan rétt sem Bandaríkin hafa hér. Og ég hef heldur aldrei dregið dul á það. Í öllu, sem ég hef sagt um þetta mál og skrifað um það í nál. hér í þinginu, hef ég lagt á það ríka áherzlu, að sama hætta væri á fyrir Íslendinga, hvaða stórveldi eða ríki sem í hlut ætti. Það er ein og sama hætta, sem alltaf vofir yfir, ef við leyfum einhverju stórveldi fótfestu á okkar landi, og hvaða eitt stórveldi. sem ástæðu hefur til að óttast um sig fyrir öðru, lítur á slíkt sem ógnun gagnvart sér, og ber okkur vitanlega af fremsta megni að forðast að dragast inn í slíkar deilur, sem stofna mundu þjóð okkar í hættu. Þess vegna duga engar flokkspólitískar ásakanir í því sambandi. Hættan er jafnmikil fyrir Íslendinga, hvaða ríki, sem þarna ætti í hlut. Ummæli ýmissa þekktra hernaðarfræðinga, sem skrifað hafa um þessi mál, sýna, að þeir eru þeirrar skoðunar, að ef til átaka kæmi, mundu Rússar mjög fljótlega ná þeim stöðum, sem af sumum er reiknað með, að Bandaríkin hafi nú, t. d. í Suðvestur-Evrópu og í Grikklandi, þannig að það er vitað mál, að hernaðarstöðvar eins og á Íslandi og Grænlandi mundu verða þær, sem árásir yrðu fyrst og fremst framkvæmdar frá. Það má ekki minna vera en þeir, sem bera ábyrgð á okkar þjóðfélagi, reyni að gera allt, sem í þeirra valdi stendur til þess að hindra, að þjóð okkar dragist inn í slíka styrjöld, og geri þær ráðstafanir, sem unnt er, til þess að bjarga lífi þjóðarinnar og dragi ekki úr hættunni, sem yfir henni vofir. Ef til slíkra átaka kæmi, væri það óverjandi ábyrgðarleysi af okkur, þegar við vitum, hvað þjóð okkar á mikið undir því að gera ekki þær ráðstafanir, sem verða mættu til þess, að Ísland yrði að sem mestu leyti — helzt að öllu leyti — laust við slíka styrjöld, ef til kæmi. Það er ekki nóg fyrir okkur að vera með óskadrauma um slíkt. Og ef þjóðin ætti að dæma okkur, eftir að slíkt stríð er skollið á, mundi hún segja: Þið tókuð að ykkur að sjá slíkt fyrir. Þið buðuð ykkur fram til kosninga. Þið áttuð að vita meira en sjómenn, bændur og verkamenn. — Og þetta er rétt. Þjóðin getur gert þessa kröfu til okkar, og hún mun gera það. Við megum ekki blanda inn í þetta, hvaða skoðanir og hvaða samúð hinir og þessir í þjóðfélagi okkar kunna að hafa með þeim stórveldum, sem í styrjöld væru. Það er ekki spursmálið fyrir Íslendinga, ef til styrjaldar kæmi, hvernig menn mundu skiptast hér í samúð sinni. Það, sem allt veltur á fyrir okkur. er það, að sjálft líf þjóðarinnar er í veði, ef til slíks kæmi, og þá hefur ekki þýðingu, hvernig við skiptumst í flokka, heldur hitt, hvernig líf þjóðarinnar verður tryggt. Og það, sem ég vil leggja áherzlu á, er það að þeir, sem stóðu að því að samþykkja samninginn um Keflavíkurflugvöllinn, hafa gerzt meðábyrgir fyrir því, að Bandaríkjamenn geti notað sér þær dulbúnu herstöðvar, sem þeir hafa fengið, með þeim afleiðingum, sem það hefði fyrir íslenzku þjóðina og þær þjóðir, sem þaðan yrði ráðizt á.

Að því er snertir hitt, óskadrauminn, að ekki komi til styrjaldar, þá vil ég leggja áherzlu á það, að við verðum að vera raunsæir og hafa opin augun fyrir þeim möguleika, að það geti komið til styrjaldar. Og við getum ekki lokað augunum fyrir því, að í Bandaríkjunum eru af hálfu málsmetandi manna nú sem stendur uppi kröfur um styrjöld og hvað eftir annað sagt, að það ætti að varpa atómbombum á ákveðin ríki í Evrópu, þannig að þetta er kannske ekki styrjaldarundirbúningur, heldur áróður fyrir, að styrjöld sé hafin. Og í öllum blöðum Bandaríkjanna eru menn búnir undir slíka árásarstyrjöld, svo að við getum ekki lokað augunum fyrir þessu, og það er rangt af okkur að dylja fyrir okkar eigin þjóð þessa staðreynd — jafnrangt og þegar verið var að dylja það, að Hitler var að undirbúa árásarstyrjöld í Þýzkalandi. Munurinn hér er aðeins sá, að nú fer þessi stríðsundirbúningur fram í Bandaríkjunum, sem ráða yfir 60% af allri stóriðnaðarframleiðslu heimsins og þar með vopnaframleiðslunni. Því fer þess vegna svo fjarri, að við getum rólegir hallað okkur út af og sagt: Það hefur aldrei hent lýðræðisþjóð að hefja árásarstríð, og sérstaklega stafar engin hætta af hálfu Bandaríkjanna. — Við ættum heldur að segja þjóðinni, að það er hætta á ferðum, einmitt hætta af hálfu Bandaríkjanna og kannske frá fleiri þjóðum. Það er rétt, að íslenzka þjóðin geri allt til þess að forðast að dragast inn í þann leik. Þetta mundum við segja, ef við værum heiðarlegir gagnvart þjóð okkar, láta hana vita sannleikann um þessi mál og ráðgast við hana um það, hvernig mætti afstýra þessari hættu. Hitt, sem gert er af hálfu utanrrh., er að dylja þjóðina þeirri hættu, sem yfir vofir, og reyna að útbreiða vanþekkingu á þeim staðreyndum, sem sagan sjálf greinir frá, og reyna að láta hana vaða í villu og svima um það, hvað að höndum getur borið.

Þá skal ég athuga það, sem utanrrh. sagði, og reyndar forsrh. líka, að við Íslendingar, hvað þjóðina snerti, þyrftum ekkert að óttast af hálfu Bandaríkjamanna, við hefðum aldrei orðið fyrir ógnunum af þeim og ekkert af þeim reynt annað en orðheldnina. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að það er ekki orðheldni, sem við höfum reynt af hálfu Bandaríkjamanna. Stjórn þeirra hefur brugðizt þeim samningi, sem við gerðum við hana 1. okt. 1941, því að hún sveikst um að fara með her sinn af landi burt, eins og hún hafði þó lofað. Meðan Bandaríkjastjórn hafði enn her í landinu í trássi við gerða samninga, fór hún fram á að gera samning við okkur í krafti herstyrks síns. Við stóðum því ekki jafnt að vígi. Og hvað fólu þeir samningar í sér, sem þeir fóru fram á? Að við afhentum þrjá tiltekna hluta af landi okkar til 99 ára undir vald Bandaríkjanna sem herstöðvar fyrir Bandaríkin. Það átti með öðrum orðum að svipta Íslendinga yfirráðum yfir 3 tilteknum hlutum af landi sínu um 99 ára bil til þess að reisa þarna herstöðvar fyrir voldugasta herveldi jarðarinnar. Að fara fram á þetta af hálfu Bandaríkjastjórnar, meðan þeir höfðu her manns í landi okkar, það var ógnun.

Við höfum þess vegna þá reynslu, að stjórn Bandaríkjanna hefur í fyrsta lagi rofið á okkur gerðan samning. Í öðru lagi átti að fá okkur til þess að afhenda Bandaríkjamönnum land af okkar landi. Íslendingar neituðu þessu, og Bandaríkjamenn munu ekki hafa séð sér fært að fylgja þeirri kröfu frekar fram. Bandaríkjastjórn rak sig því á það, að hún yrði að beita öðrum aðferðum til þess að ná tökum hér á Íslandi og ná þeim herstöðvum, sem ekki fengust með beinu áhlaupi 1945. Keflavíkurflugvallarsamningurinn var svo gerður í fyrra haust. Þegar sá samningur var gerður, var því haldið fram af hálfu forsvarsmanna hans, að með honum ynnu Íslendingar hinn stóra sigur í baráttunni fyrir frelsi landsins. Það var sá stóri sigur að fá hinn útlenda her burt af okkar landi, og þau einu rök, sem mér þóttu þau raunverulegu rök, voru þessi: Við fáum ekki Bandaríkjamenn til þess að fara burt með her sinn úr landinu, nema við gerum þennan samning. Það var jafnan vitnað í það, að herverndarsamningurinn frá 1941 væri svo óljós, og við mundum losna við allan óskýrleikann í honum með því að gera þennan nýja samning, því að þá færi herinn burt af landinu. Þessu var haldið fram, og í afstöðu minni í utanrmn. lagði ég áherzlu á, að þetta væri í raun og veru aðalröksemdin af hálfu þeirra, sem fylgdu samningnum, og þar væru þeir að skírskota til neyðarástands, sem þeir réðu ekki við, og þessi samningur væri þess vegna neyðarsamningur, sem Íslendingar væru móralskt ekki bundnir af. Ég hef undirstrikað það sérstaklega, að einmitt þessi rök meiri hl. bentu til þess, að þessum samningi var þvingað upp á Íslendinga í krafti hersetunnar á Íslandi, m. ö. o., að Bandaríkin hefðu notað sér þá aðstöðu, sem þau höfðu sökum hersetunnar í landinu, og þau hefðu rofið þann samning 1841 að fara strax af landi burt að stríðinu loknu. Ég hafði því ætlað, að þeir, sem þessum rökum beittu, mundu segja við þjóðina á eftir: Sjáið þið, nú höfum við unnið þessa miklu hluti. Herinn er farinn af okkar landi, og við erum lausir við þetta útlenda vald, og þess vegna munum við auðvitað segja þessum samningi upp, þegar þar að kemur. Hann var gerður til þess, að við gætum losnað við herinn af landi burt. — Ég hafði haldið, að þetta mundu verða þeirra rök og þeirra afstaða, þegar fram í sækti, eftir þeim rökum, sem fyrst var beitt af þeirra hálfu, að herliðið færi af landi burt samkvæmt samningnum. Það var sigurinn, sem þessir menn þóttust hafa unnið. En hvað er nú komið á daginn? Það er nú auðséð, að það er ekki lengur neitt aðalatriði eða neitt atriði í augum þessara manna, sem Íslendingar lögðu inn í samninginn frá 1941: að losna við herinn úr landinu. Nei, nú er samningurinn um Keflavíkurflugvöllinn orðinn samningur um það, að Bandaríkjamenn fái að vera hér áfram, og allt það, sem forsvarsmenn samningsins börðust fyrir, þegar hann var samþykktur fyrir einu ári, er gleymt. Nú er auðséð, að aðalatriðið er það, að Bandaríkin hafi þetta vald hér á landi. Hitt hefur þá, að minnsta kosti verið yfirvarp af hálfu forsvarsmanna samningsins.

Og það er auðséð, að þeir menn, sem samþykktu samninginn, færa sig nú upp á skaftið og búa sig undir að tryggja Bandaríkjunum volduga íhlutun um okkar mál.

Hingað til hafa Bandaríkin sýnt sig nægilega voldug til þess að halda flestum þeim stöðum, sem þau hafa á annað borð náð undir sig, og hafa aldrei gert meira að því en nú að ná undir sig nýjum stöðum, þannig að ef ekki er spyrnt fótum við, er gefið, hvernig fara muni. Við vitum, hvaða aðferð er nú viðhöfð af hálfu Bandaríkjanna í þessum efnum um heim allan. Bandaríkin stilla sér nú upp sem hið eina auðmannastórveldi og þau segja við auðmannastétt hvers lands: Við, Bandaríkin, erum ykkar eina skjól og skjöldur. — Þannig þýðir það fyrir hverja þjóð, ef hún lánar Bandaríkjunum sem herveldi og stórveldi íhlutun og ítök í sínu landi, hið sama og að styðja auðmannastéttina í veröldinni í þeirri baráttu, sem hún er að undirbúa gegn lýðræðishreyfingum lýðræðisþjóðanna. Þetta er sama stefnan eins og þýzka auðmannavaldið hafði í frammi undir forystu nazista gagnvart sérhverri auðmannastétt innan Evrópu á árunum 1933 og fram eftir. Aðferðin er nákvæmlega sú sama hjá auðmannstéttum beggja þessara stórvelda, Þýzkalands og Bandaríkjanna, sem sé að veifa með kommúnistagrýlunni framan í almenning og í skjóli hennar að berja niður lýðræðishreyfingar lýðræðislandanna. Og í aðalmálgagni Sjálfstfl., Morgunblaðinu, rekur maður sig nú daglega á sömu slagorðin gegn kommúnistum, er verið er að halda uppi málsvörn fyrir Bandaríkin og þá, sem með þeim standa, eins og áður var gert, er þar var hafður í frammi áróður fyrir Þýzkaland Hitlers og þá, sem honum fylgdu. Í krafti þessarar nýju herferðar gegn kommúnistum er nú farið að banna verkalýðsfl. og kommúnistafl. og innleiða fast að því galdrabrennur gagnvart þeim, bæði í Ameríku og Evrópu. Þá hefur kaþólska kirkjan lýst yfir, að hún muni svipta alla þá menn sakramentinu, sem ekki vilja trúa á auðmannaskipulagið. Nokkurn veginn það sama og var að gerast í Frakklandi, þegar þýzka auðmannavaldið var að fá menn eins og Laval í lið með sér, virðist nú verið að undirbúa hér á Íslandi — og skapa hér fyrir Bandaríkin og auðmannavaldið sinn Laval. Mér finnst óhjákvæmilegt að ræða nokkuð þessa hluti, sem ég hef nú gert, þar eð hæstv. utanrrh. í hvert skipti, er hann ræðir þetta mál, kemur með alls konar alþjóðamál inn í umr., enda er gott, að þjóðin geri sér sem ljósasta grein fyrir, að hverju stefnt er með þeim aðferðum, sem hafðar eru uppi. Er rétt, að menn athugi í þessu sambandi, hver endalok þessarar áróðursherferðar urðu fyrir 15 árum, sem kölluð var á móti kommúnistum, en var í raun og veru gegn öllu lýðræði og frelsi, áður en menn ákveða endanlega að lána Bandaríkjunum vaxandi ítök í okkar landi.

Þetta, sem ég nú hef sagt, er sérstaklega viðvíkjandi því, sem hæstv. utanrrh. talaði um sem utanrrh. Ég vil svo fara nokkrum orðum um það, sem mér finnst meira snúa að honum sem dómsmrh., og það, sem hann svaraði mér í þeirri ádeilu, sem hann hafði hér í frammi sem slíkur. — Ég veit, að hæstv. dómsmrh. er miklu meiri lögspekingur en ég er — að hann er jafnvel talinn með lögfróðari mönnum landsins og að hann er fyrrverandi prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Slíkt mundi því vafalaust þykja frekja af mér að dirfast að halda fram, að ég kæmi betur auga á, hvað væru íslenzk l., heldur en hann, hvaða l. væru í gildi og hvaða breyt. á 1. hefðu átt sér stað. En ég ætla í þessu tilfelli að leyfa mér slíkt og geri það í vitund þess, að hann hafi látið þá hleypidóma, sem hann er haldinn af í stórmálum, og þann æsing, sem öðru hvoru gagntekur hann, þegar við sósíalistar eigum í hlut, eða hins vegar, ef stjórn Bandaríkjanna á í hlut, blinda sína lögfræðilegu sjón, þegar nú er um að ræða, að hann sem dómsmrh. ætli að halda uppi l. okkar lands gagnvart sínum kæru bandarísku vinum. Hann vitnaði í, að Bandaríkin hefðu ýmis réttindi á vellinum í skjóli þess samnings, sem staðfestur hefði verið með l. af hv. Alþ. Við skulum nú athuga, hvað það var, sem öðlaðist lagagildi. Það var m. a. þar, sem segir í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Flugförum þeim, sem rekin eru af Bandaríkjastjórn eða á hennar vegum í sambandi við framkvæmd þeirrar skyldu, er Bandaríkin hafa tekizt á hendur, að hafa á hendi herstjórn og eftirlit í Þýzkalandi, skulu áfram heimil afnot af Keflavíkurflugvellinum. Í þessu skyni skal stjórn Bandaríkjanna heimilt að halda uppi á flugvellinum á eigin kostnað, beinlínis eða á eigin ábyrgð, þeirri starfsemi, þeim tækjum og því starfsliði, sem nauðsynlegt kann að vera til slíkra afnota. Taka skal tillit til sérstöðu slíkra flugfara og áhafna þeirra, að því er varðar tolla, landvistarleyfi og önnur formsatriði. Engin lendingargjöld skal greiða af slíkum flugförum.“ 4. gr. segir það sem sé skýrt, að Bandaríkjunum sé heimilt að halda hér uppi ýmiss konar starfsemi, sem þeim kann að vera nauðsynleg í sambandi við framkvæmd þeirrar skyldu að hafa á hendi herstjórn í Þýzkalandi. Þá segir í 9. gr.: „Eigi skal leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt til afnota fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmenn hennar samkvæmt þessum samningi eða til afnota fyrir starfslið það, sem dvelur á Íslandi vegna starfa, sem leiðir af framkvæmd samnings þessa.“ Og 10. gr. hljóðar svo: „Eigi skal leggja tekjuskatt á þær tekjur þess starfsliðs Bandaríkjanna, sem á Íslandi dvelur við störf, er leiðir af framkvæmd samnings þessa, er koma frá aðilum utan Íslands.“

Það liggur sem sé skýrt fyrir, eins og ég hef hér áður haldið fram, að Bandaríkin hafa þessi réttindi, þ. e. toll- og skattfrelsi, en eingöngu í sambandi við framkvæmd þeirrar skyldu sinnar að halda uppi hereftirliti í Þýzkalandi, en um allt annað, sem þarna er ekki tekið fram, gilda íslenzk l. Ég leyfi mér hins vegar að halda fram, að það sé brot á íslenzkum l., þegar flutt er til Keflavíkurflugvallarins svo og svo mikið af alls konar vörum, án þess að af þeim sé greiddur tollur, — að það sé raunverulegt smygl með vitund íslenzkra yfirvalda, Alþ. hefur sett þessi l., og það hefur enginn íslenzkur embættismaður rétt til þess að breyta framkvæmd þessara 1., og til þess er okkar framkvæmdarvald og okkar embættismenn settir, að þeir sjái um, að l. sé framfylgt. Hæstv. utanrrh. bar heldur ekki fram neina vörn fyrir því, að þarna væru ekki brotin íslenzk 1. Það hafa ekki aðeins verið brotin íslenzk tollal. í stórum stíl, heldur einnig l. um tóbakseinkasölu ríkisins, því að það er ekkert, sem undanþiggur Bandaríkjamenn hér á landi því að greiða þá álagningu, sem tóbakseinkasalan leggur á. Hefur hæstv. dómsmrh. ekki einu einasta orði hnekkt því, að þau l. hafi verið brotin. Þá hafa l. um áfengisverzlun ríkisins verið brotin, og hann hefur ekki heldur hnekkt því, en samkvæmt þeim hefur enginn nema hún leyfi til að ráða yfir innflutningi áfengs bjórs til landsins og er engum íslenzkum embættismanni heimilt að gefa undanþágu í þessum efnum. Nú skyldi maður ætla, þegar bent er á, að þessi l. séu brotin — og það viðurkennt af hæstv. dómsmrh. og utanrrh. —, að gerðar væru einhverjar ráðstafanir til þess að stöðva slík lagabrot og að þeir, sem þar væru við riðnir, yrðu látnir sæta refsingu. Sérstaklega gæti maður ætlazt til þess af hálfu þeirra manna, sem allra manna mest segjast standa á grundvelli 1. og stöðugt prédika, að menn skuli sýna löghlýðni, að þeir mundu taka undir, að lagabrot verði stöðvuð. En því fer fjarri, að þetta sé gert, Morgunblaðið, aðalmálgagn hæstv. dómsmrh., gerir bara grín að því, að þarna sé ef til vill drukkið of mikið af áfengum bjór, en dettur ekki í hug að minnast á, að þarna sé um lagabrot að ræða. Hv. 4. þm. Reykv. benti á það í sinni ræðu, að suður á Keflavíkurflugvelli væru brotin l. um lyfjasölu hér á landi, og hafa æðstu menn þeirra mála einnig vakið athygli á þessu, en ekkert verið að gert. Enn fremur hafa l. um útlendingaeftirlit verið brotin, og hafa menn komið þarna án þess að hafa landvistarleyfi, þótt þeir hafi kannske fengið það eftir á. Þá er það vitanlegt, að iðnaðarlöggjöfin íslenzka hefur verið þverbrotin, svo og l. um fjárhagsráð. Það er eins og mig minni, að samþ. hafi verið l. á Alþ. um skattskyldu útlendinga, sem heimiluðu að innheimta skatta af mönnum, þótt þeir hefðu ekki dvalið hér nema örfáa mánuði, og ég beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort hún hefði athugað, hvort menn hefðu farið af landi brott án þess að greiða slíka skatta. — Það má þannig telja upp hver íslenzku l. á fætur öðrum, sem brotin hafa verið þarna suður frá, og hæstv. dómsmrh. hefur alls ekki reynt með neinum rökum að afsaka þessi lagabrot. Vil ég vekja eftirtekt á því, að stærstu lagabrot, sem framin hafa verið á Íslandi, hafa viðgengizt þennan tíma undir yfirumsjón hæstv. núverandi dómsmrh. sem eins lögfróðasta manns landsins. Hann hefur setið í sessi dómsmrh., meðan útlendingar hafa leyft sér að þverbrjóta, svo að tugum skiptir, íslenzk l., án þess að hann hafi reynt að gera nokkuð til þess að koma í veg fyrir slíkt.

Hæstv. dómsmrh. vildi halda fram í þessu sambandi, að það stoðaði ekki fyrir Íslendinga að halda öðru fram varðandi starfsemi Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvellinum en því, sem líklegt væri, að stæðist fyrir alþjóðadómstól. Eins og nokkur þurfi að segja manni, að íslenzk l. standist ekki frammi fyrir alþjóðadómstól? Þeir menn, sem starfa þarna suður frá, hlíta því íslenzkum l., nema að því er snertir undanþáguákvæði samningsins um tollfrelsi á vörum, sem eru í sambandi við hereftirlit Bandaríkjanna í Þýzkalandi — og annað ekki.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að ríkisstj. hefði farið rétt að í þessum málum og að þeir Bandaríkjamenn. sem brotið hefðu íslenzk l., væru dregnir fyrir dóm. Ég held því fram, að mörg hundruð Bandaríkjamenn hafi þverbrotið íslenzk l. og ekki ennþá verið dregnir fyrir dóm. Þá sagði hæstv. ráðh., að bornar hefðu verið fram kröfur af hálfu Íslendinga á hendur Bandaríkjamönnum um að reyna að ná samkomulagi, að því er varðar brot á íslenzkum l., sem Bandaríkjamenn hefðu viðurkennt. Er það aðferð hans, þegar um lagabrot er að ræða af Íslendinga hálfu, að bera fram kröfur um að reyna ná samkomulagi þar um, og þykir það nægilegt, ef viðurkenning fæst frá þeim um, að þeir skuli reyna að taka tillit til l. — og þar við látið sitja? Ég verð að segja það, að ef hæstv. utanrrh. finnst, að eitthvað hafi verið samið af Bandaríkjamönnum í þessum samningi, þá er það ekki hans verk sem íslenzks embættismanns að halda hlífiskildi yfir Bandaríkjamönnum hér. Það er hans verk að sjá um, að þarna séu íslenzk l. látin gilda. Það er hart, að hæstv. dómsmrh. skuli hvað eftir annað vera að reyna að túlka samning, sem Íslendingar hafa gert við Bandaríkjamenn, eins og hann væri málafærslumaður Bandaríkjanna.

Hæstv. dómsmrh. ber það fyrir sig, að það sé af fjandskap við Bandaríkin, þegar við berum fram gagnrýni um framkvæmd þessa samnings og ætlumst til, að staðið sé við íslenzk l. Ég gæti trúað því, að fyrr á tímum hefðu þeir landshöfðingjar, sem danskt vald hafði sitjandi á Alþ., svarað kannske einhverju svipuðu, þegar Íslendingar stóðu fastir fyrir um vörn íslenzks málstaðar, að slíkt væri af fjandskap við danska konungsvaldið, og veit ég ekki. hvort það hefði verið tekin sem rök á þeim tímum. Nú virðist það vera ein aðalmálsbót hæstv. utanrrh. og að nokkru leyti hæstv. forsrh., að við Íslendingar getum ekki tekið önnur eins mál í okkar hendur eins og rekstur Keflavíkurflugvallarins, við verðum því að halda tvíbýlinu áfram. Minnir þetta undarlega mikið á röksemdir sumra heimastjórnarmanna hér í gamla daga, þegar það kvað við í sífellu, að við værum ekki færir um að stjórna okkar málum — við værum svo lítils megnugir. Það kemur því úr hörðustu átt, að hæstv. dómsmrh. og utanrrh. skuli með tilliti til sinnar persónu flytja fram þessi rök fyrir Íslendinga nú, og hefði honum vafalaust þótt það hart á vissum tímum, ef Íslendingar hefðu viljað verja Dani með slíkum rökum. Ég var nýlega að lesa um Elliðaármálið í Morgunblaðinu og hvernig Íslendingum var stundum nauðsynlegt að taka völdin í sínar hendur, þegar embættismenn, vegna danalundar sinnar, héldu illa á málefnum Íslendinga og gættu eigi, að íslenzkum l. væri fylgt. Er ég hræddur um, að ljótar sögur varðandi afstöðu íslenzkra embættismanna um að halda uppi íslenzkum l. séu nú að endurtaka sig, þegar dómsmrh. landsins sér í gegnum fingur við. að l. séu brotin, svo framarlega sem Bandaríkjamenn fremja þau, því að það er skylda hæstv. dómsmrh., hvort sem menn hafa samúð eða andúð með heimsveldisstefnu Bandaríkjanna eða annarra ríkja, að muna eftir einu, að þegar um er að ræða að standa á verði um íslenzkan málstað, verður hann að líta jafnalvarlegum augum þann aðila, sem við eigum að verja okkur fyrir, líka þótt það séu hans kæru vinir, Bandaríkjamenn.

Hæstv. dómsmrh. vildi draga í efa þær tölur, sem ég kom hér með um, hvað greitt hefði verið úr landi fyrir eignir bandaríska setuliðsins hér á landi. Sagði ég, að þessi upphæð mundi nema 20 milljónum króna, en ef hún er röng, vona ég, að hann gefi upplýsingar um það.

Þá vildi ég með nokkrum orðum víkja að því, sem hv. 4. þm. Reykv. talaði um í ræðu sinni hér áðan, án þess þó að ég sé alveg búinn með það, sem hæstv. utanrrh. sagði. Hv. 4. þm. Reykv. var að aðvara ríkisstj. og segja, að hún skyldi ekki fremja þá goðgá og vitleysu að skoða ádeilur kommúnista sem einskæra markleysu og það væru fleiri en þeir, sem ekki væru fullkomlega ánægðir með framkvæmd samningsins, og því ekki skynsamlegt af stjórninni að stimpla þá alla sem kommúnista. Ég vil segja við hv. 4. þm. Reykv., að það þýðir víst lítið að vera með svona aðvaranir, því að ég held. að hv. ríkisstj. taki ekki mikið tillit til þeirra. Mér heyrðist á hæstv. forsrh., að hann vildi helzt algerlega sparka þessum flokksmanni sínum úr flokknum og að allt væri í stakasta lagi og engra aðvarana þyrfti við, svo að ég er hræddur um, að hv. 4. þm. Reykv. verði fyrir vonbrigðum af flokksmönnum sínum. Það er vitað mál, að þeir menn, sem vilja stuðla að heimsveldisstefnu Bandaríkjanna. stimpla alla, sem ekki vilja aðhyllast þá stefnu, kommúnista. Ef einhver sjálfstæðismaður lýsti sig óánægðan með framkvæmd samningsins, þá er ég ekki í vafa um, að Bjarni Benediktsson risi upp með öllu sínu skapi og offorsi og segði hiklaust, að hann væri kommúnisti, sem bæri í brjósti þjóðhættuleg áform. Ég skal ekki segja um það, hvað Framsókn segði undir sömu kringumstæðum, en ég tel nokkurn veginn víst, að ef áberandi menn í Framsfl. létu í einhverju í ljós óánægju þetta varðandi, þá mundi Morgunblaðið verða fljótt til að stimpla þá sem kommúnista. Þetta er engan veginn óþekkt fyrirbrigði. Þetta hefur skeð áður, t. d. með Hitler í Þýzkalandi. en hver sem sýndi sig í að vera ekki algerlega sammála, var vægðarlaust stimplaður bolsi. Meira að segja átti þetta sér stað með Churchill. Ef hv. 4. þm. Reykv. fyrir eintóman góðvilja aðvarar hæstv. núverandi ríkisstj. um, að ekki sé allt eins og það á að vera í þessum efnum, þá má hann eindregið búast við að verða stimplaður kommúnisti.

Hæstv. forsrh. talaði eftir hæstv. utanrrh. og fór nokkrum fallegum orðum um mótstöðukraft þjóðarinnar, sem væri svo mikill, að engin hætta væri á ferðum. þótt við lifðum í tvíbýli við aðra þjóð um langan aldur. Ég verð að segja það, að ég er ekki hræddastur um þjóðina í heild, hún mundi kannske komast út úr því einhvern veginn, en hve mikið hún mundi líða við þá sambúð, það fer eftir ráðamönnum hennar. Ég er ekki hræddastur um alþýðuna, að hún mundi draga um of dám af útlendingunum eða vera þeim of eftirlát, en ég er hræddastur við „toppana“. Ég hef ekki ástæðu til að trúa mikið á mótstöðukraft þeirra. Hæstv. forsrh. mætti vera minnugur þess, að ef þeir, sem þjóðina eiga að leiða, verða fyrir erlendum áhrifum, þá er hætta á ferðum.

Ég get sagt frá einum íslenzkum stjórnmálamanni, sem ekki þurfti að vera samvistum við útlendan mann nema lítinn tíma til þess að skipta um skoðun á mikilvægu máli. Árið 1938 var haldið alþýðuflokksþing og þar lögð fram stefnuskrá Alþfl., en í henni var ákveðið, að Alþfl. á Íslandi væri því eindregið fylgjandi, að stofnað yrði lýðveldi á Íslandi, strax og efni stæðu til, og m. a. til að sýna þetta var kosinn nýr formaður flokksins hæstv. núverandi forsrh. (StJSt).

Í ágúst 1938 kom svo hingað upp danski stjórnmálamaðurinn Stauning, og átti hann mörg viðtöl við hæstv. núverandi forsrh. og þáverandi formann Alþfl., sem nokkru eftir öll þessi viðtöl fór til Kaupmannahafnar og fær þá í fyrsta skipti tækifæri til þess að kynna skoðanabræðrum sínum í Danmörku skoðanir flokksbræðra þeirra á Íslandi, og dönsk blöð eiga við hann viðtöl og spyrja hann: .,Hvad mener Ministeren om Forbindelsen?“ En þá svarar hæstv. forsrh.: „Jeg kan ikke udtale mig derom, ti mit Parti har endnu ikke taget Stilling der til“. Sem sagt, eftir að Stauning var búinn að vera hér uppi, þá var Stefán Jóh. búinn að gleyma, hverju flokkur hans hafði nýlega lýst yfir. Ef nú áhrif eins útlendings geta orðið svona mikil á ráðamikinn Íslending eftir stuttan tíma, hversu mjög gætir þá ekki áhrifanna eftir margra ára sambúð við útlendingana? Manni virðist því, að það komi úr hörðustu átt, þegar hæstv. forsrh. er að tala um „hinn mikla mótstöðukraft þjóðarinnar“. En það hefur sýnt sig fyrr, að það eru „topparnir“, sem veikastir eru fyrir.

Ég vil að lokum víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. utanrrh. Hann minntist nokkrum orðum á þátt embættismanna í framkvæmd samningsins. Ég hef áður lýst því yfir, hvar ég áliti, að sökin væri þetta varðandi, og ég verð að segja það, að það er ekki stórmannlegt af hæstv. utanrrh. að ætla að skjóta sér bak við embættismennina, þegar hann sér, að í óefni er komið hjá honum, og mér er nær að halda, að t. d. tollstjóri hafi farið efir skipun frá hærri stöðum.

Hæstv. utanrrh. lauk svo máli sínu með svo frekum orðum og fjarstæðum fullyrðingum, að mig undrar stórlega á því, að þessi maður, jafnvel þótt reiður hafi verið, skuli leyfa sér að fara með annað eins. Hann sagði m. a., að sósíalistar hafi yfir meira fjármagni að ráða en nokkrir aðrir íslenzkir menn. Nú veit hæstv. dómsmrh., að sósíalistar hafa fram á þennan dag átt í erfiðleikum með að gefa út blað og halda uppi flokksstarfsemi vegna fjárskorts. Þeir sem þekkja þetta mál eins vel og ég, vita, að enginn flokkur hefur sýnt meiri fórnfýsi og óeigingirni, þegar um flokksstarfsemi var að ræða, ekki sízt meðan ganga varð milli fátækra verkamanna til þess að biðja þá um að gefa fáeinar krónur, til þess að hægt væri að halda úti blaði. Það kemur því heldur einkennilega fyrir sjónir, þegar einn fulltrúi hinna ríkustu stétta heldur því fram úr ráðherrastóli sínum, að blöð hinna fátækustu í landinu eigi yfir mestu fjármagni að ráða. Hér eiga hins vegar tvö einkafyrirtæki að kalla má blöð, en það eru dagblöðin Morgunblaðið og Vísir. Í krafti auglýsinga heildsalanna og annarra áróðurshagsmuna þeirra er þessum blöðum að mestu leyti haldið úti. Þannig eru það peningarnir, sem ráða prentfrelsinu í þessu landi. Aldrei hafa peningarnir í landinu verið á færri höndum en einmitt nú, nema ef vera kynni á Sturlungaöldinni, þegar höfðingjar, voldugir og auðugir, réðu öllu. Það er hart að hæða okkur fyrir það, að við höfum barizt í bökkum með að gefa út blað, og það er ekkert nýtt að heyra það, að þeir, sem barizt hafa fyrir hagsmunum verkalýðsins síðustu 100 árin fram á þennan dag, séu kallaðir „launaðir æsingamenn“ og öðrum álíka sanngjörnum nöfnum. Meðan sósíalisminn hafði ekki náð verulegri fótfestu meðal þjóðanna, voru auðmennirnir ekki í vandræðum með að finna nógu sterk orð og ljótar lýsingar til að sverta verkalýðinn og leiðsögu hans, og hefur þá jafnan verið viðkvæðið, að þar væri um launaða æsingamenn að ræða. Þetta eru nú svo gömul slagorð, og að því er ég hélt, svo úrelt, að maður gat varla látið sér til hugar koma, að meiri háttar maður í ráðherrasessi léti sér þau um munn fara.

Þá sagði hæstv. utanrrh., að ég hefði sagt, að ef núverandi ríkisstj. færi frá völdum, þá yrði hærra borgað fyrir íslenzkar vörur. Hvers konar vitleysa og bábiljur eru þetta? Það hefur verið deilt á hæstv. utanrrh. fyrir það, að hann hafi sleppt tækifæri til að selja vörur okkar erlendis hærra verði en við fáum nú fyrir þær, og honum hefur enn ekki tekizt að sanna neitt í því efni, en aðeins haldið því fram, að ekki hefði verið hægt að fá hærra verð fyrir þær. Það er ekki einu sinni reynt að prófa að fá hærra verð. Mér dettur í hug, að ef aldrei hefði verið mynduð sú stjórn, sem tók við völdum 1944, og þeir menn, sem sátu áður við völd, hefðu setið áfram, þeir menn, sem hæstv. utanrrh. virðist kominn í náið sálufélag við — ég á við Björn Ólafsson og þá — ef sú ríkisstj., sem settist að völdum 1944, hefði ekki fengið tækifæri til að sanna það á tveim árum, að hægt var að fá markaði og sæmilegt verð fyrir afurðirnar, já, hverju hefði þá verið haldið að þjóðinni? Hefði sú ríkisstj., sem settist að völdum 1944, ekki verið mynduð, hefði verðið á íslenzkum afurðum lækkað. En nú sat hún að völdum í tvö ár og sannaði með óhrekjandi staðreyndum, að hægt var að opna. nýja markaði og selja afurðirnar hærra verði. En núverandi ríkisstj. er að reyna að breiða yfir þessar staðreyndir. Hún reynir að boða og prédika það, að ekki sé hægt að fá hærra verð fyrir afurðirnar en nú er. Hún vill ekki hærra verð, og hún reynir ekkert að gera til þess að fá það. — Þjóðin á erfitt með að sanna, hvaða verð er hægt að fá. Sú vitneskja er aðeins í höndum valdhafanna.

Núverandi ríkisstj. er að berjast fyrir því að þvinga fram lækkanir. Hæstv. utanrrh. hefur boðað það í blöðum sínum hvað eftir annað, að vöruverðið yrði að lækka. Vegna þessarar afstöðu ríkisstj. höfum við sósíalistar gagnrýnt hana og sagt, að svona ríkisstj. væri ekki treystandi. Ég álít, að hyggilegast væri, að þessi stjórn færi frá og við tækju menn, sem héldu vel á málum þjóðarinnar. Það yrði þá að koma í ljós, hvort sú ríkisstj. gæti fengið hærra verð fyrir afurðir okkar. Ég er ekki að segja. að það yrðu endilega sósíalistar. Hæstv. utanrrh. er með einhverjar dylgjur um, að til þess að fá hækkað verðlag yrðu að gerast einhverjar pólitískar breytingar og að við vildum helzt, að sósíalisti sæti í hans stöðu. Hvers konar málflutningur er þetta? Hvers konar dylgjur er ríkisstj. með? Þetta sýnir svo mikla vanþekkingu, því að nú eru að gerast verzlunarsamningar í heiminum, sem sýna það greinilega, að hæstv. ríkisstj. hefur enga afsökun fyrir hrópi sínu um verðlækkun á íslenzkum afurðum. Til dæmis er það, að Englendingar vildu ekki borga Dönum það verð fyrir smjör, sem þeir heimtuðu, en þeir heimtuðu 50% hækkun. Þá sneru Danir sér til annarra þjóða, þar á meðal til Sovétríkjanna, og fengu þar það verð, sem þeir vildu fá fyrir smjörið. Nei, það þarf engar pólitískar breytingar hér aðrar en þær, að hér þyrftu að setjast að völdum menn, sem vildu vinna að bættum lífskjörum okkar. (Dómsmrh.: Vill þá hv. þm. fá annan utanrrh. úr Sjálfstfl.7) Ef þessí stjórn færi frá, mundi Alþ. vissulega velja þá menn, sem það treysti bezt til að halda á málstað þjóðarinnar. Og það er krafa þjóðarinnar, að utanrrh. gangi ekki í blöðin og hrópi þar um, að verð á íslenzkum afurðum verði að lækka, og vegi þannig að þeim mönnum, sem eru að reyna að semja fyrir Íslendinga um sem hæst verð. Ég held, að hæstv. utanrrh. ætti að fara sér rólega í því, sem hann talar. Ég hygg, að íslenzka þjóðin muni ekki kunna því vel, að þannig sé vegið aftan að henni, þegar alls staðar eru nógir markaðir og hægt er að fá hærra verð fyrir íslenzkar afurðir en nú er, að þá skuli utanrrh. þjóðarinnar hlaupa með það í blöðin, að afurðaverðið verði að lækka. Ég segi bara það, að svo framarlega sem sósíalistar hefðu gert sig seka um slíkt, hefði verið hrópað um það í Morgunblaðinu sem landráð. Barátta Íslendinga fyrir hækkuðu fiskverði er barátta þeirra fyrir lífskjörum sínum. Í norska fiskveiðitímaritinu „Fiskers Gang“ er grein um Newfoundland, og er þar talað um erfiðleika sjómanna. Þeir tala um, að þeir sæti svo harðri samkeppni frá öðrum og þá einkum Íslendingum, að það valdi þeim erfiðleikum í að selja fiskafurðir sínar. Hér heima er svo verið að prédika það, að við verðum að lækka og lækka sjávarafurðirnar. Nei, það er ekkert nýtt, að Bretar skipi okkur að lækka fiskverð okkar. Hæstv. utanrrh. ætti að þekkja slíka nauðungarsamninga. Hann man kannske eftir nauðungarsamningnum frá 1916. Það er þess vegna ekkert nýtt, að sú ágæta þjóð, Bretar, skipi okkur fyrir verkum, en hæstv. ríkisstj. ætti ekki að vera að stuðla að því, að slíkir nauðungarsamningar væru gerðir. (Menntmrh.: Er ekki hv. þm. orðinn svangur?) Meðan forseti gerir engar aths. mun ég halda áfram. Eða vill forseti heldur, að ég geymi að ljúka ræðunni þar til á eftir? (Forseti: Ef hv. þm. á ekki mikið eftir af ræðunni, væri æskilegt, að hann lyki við hana áður en gert verður matarhlé.)

Nú skal ég upplýsa,, að ríkisstj. vissi, að eftir stríðið var hægt að selja síldarolluna á 135£ tonnið, en á árunum 1941–1945 fengum við aðeins 38 pund fyrir tonnið. Hvaða ástæða er nú til að ætla, að sannvirði olíunnar hafi verið minna í styrjöldinni en eftir hana? Það liggur í augum uppi, að það, að við höfum orðið að selja síldarolluna á 38 pund, stafar eingöngu af því, að landið var hernumið og hernámsyfirvöldin skipuðu okkur fyrir um verðið í samræmi við vilja Unilever-hringsins. Það er dæmalaus vanþekking af hæstv. utanrrh., ef hann veit þetta ekki. Að mínu áliti hefur verið stolið af Íslendingum á árunum 1941–1946 100 £ af hverju síldarollutonni. Unilever-hringurinn hefur þannig grætt á síldarolíunni, sem íslenzkir sjómenn hafa orðið að vinna fyrir með miklu erfiði. Það væri nær fyrir þá, sem nú hafa völdin um afurðasölu Íslendinga, að skýra þjóðinni frá, hvaða baráttu hún verður að heyja. Mér er vel kunnugt um það, því að ég hef átt í samningum um afurðasölu Íslendinga ásamt bróður hæstv. utanrrh. Aðferðirnar, sem beitt var, voru það harðvítugar, að beitt var refsiaðgerðum gegn Íslendingum að tilhlutan Unilever. Það var bannað að selja smjörlíkisolíu til Íslands, vegna þess að Íslendingar seldu síldarolíu til Tékkóslóvakíu og Sovét-Rússlands. En þegar herstöðvasamningurinn var hér á döfinni, urðu Bandaríkin hrædd og kipptu að sér hendinni, því að slíkar aðgerðir, ef þjóðin vissi, gátu haft slæmar afleiðingar í för með sér á framgang herstöðvasamningsins. Þetta veit hæstv. utanrrh., því að bréf liggja fyrir um það frá sendiráðinu í Bandaríkjunum. (Dómsmrh.: Það eru fáir, sem hlusta á hv. þm. núna.) Já, ég hef áður talað fyrir fáum áheyrendum. En ég vil, að þjóðin fái að vita þessa hluti. Ég tala hér til þess, að þær aðvaranir, sem ég hef flutt, kæmu fram á Alþ. Hitt er svo undir þm. sjálfum komið, hvort þeir vilja hlusta eða ekki. Ég get ekki betur gert en sagt frá því, sem ég veit, að er satt. Ég þoli vel, að það sé hæðzt að mér fyrir það, en segja skal ég það, meðan málfrelsi er til í þessu landi. Ég veit vel, að hjá mörgum af hæstv. ráðherrum hafa rök ekkert að segja, en þjóðin verður að fá að heyra þau. Ég álít, að hæstv. utanrrh. hafi hagað sér eins og ráðherrar Íslands eiga ekki að haga sér. Hann hefur komið fram sem málaflutningsmaður fyrir erlent ríki, gegn hagsmunum Íslands. Í viðskiptunum við Breta hefur hann fórnað hagsmunum Íslendinga og reynir nú í krafti þess áróðurs, sem hann hefur yfir að ráða, að spila út úr höndunum á íslenzku þjóðinni þeim möguleikum, sem hún hefur haft. Ég álít, að hann hafi vísvitandi rýrt kjör íslenzku þjóðarinnar. Ég ásaka hann fyrir að gera þetta meðal annars til þess að skapa atvinnuleysi og til að hjálpa auðmannastéttinni til meiri auðs á kostnað alþýðunnar. Við sóíalistar höfum alltaf barizt fyrir því, að verðið á okkar vörum yrði sem hæst. Í krafti þess valds, sem við höfum yfir að ráða, höfum við reynt að sanna það. Ég vísa svo algerlega á bug þeim fullyrðingum hæstv. utanrrh., að við séum að vinna fyrir aðra en Íslendinga. Það erum við, sem höfum barizt fyrir því, að verkalýðurinn í þessu landi fái hærra kaup og bætt kjör. Er við sósíalistar sátum í ríkisstj., þá sýndum við fram á, að íslenzkir atvinnuvegir gátu borið hærra kaup en við höfðum áður búið við. Svo segir hæstv. utanrrh., að við hefðum rekið alþýðu Íslands eins og við hefðum getað. Þetta kemur nú úr hörðustu átt frá hæstv. ráðh., því að utanrrh. sjálfur berst móti íslenzkri alþýðu. Það erum ekki við sósíalistar. sem skrifuðu um stórkostlega lækkun á íslenzkum afurðum. Nei, sala íslenzkra afurða er rekin að vild þeirra manna, sem vilja selja ódýrar en við sósíalistar. Hæstv. utanrrh. hefur sýnt með afstöðu sinni í þessu máli eintómt flokksofstæki, og það flokksofstæki lætur hann blinda sig svo, að hann vinnur óhikað á móti hagsmunum íslenzku þjóðarinnar með því að gera samninginn um Keflavíkurflugvöllinn óhagstæðan Íslandi. Hæstv. ráðh. lætur þar leiða sig út í hluti, sem stríða gegn hagsmunum Íslendinga. Það er hin geigvænlegasta hætta fyrir okkar land, og nú virðist hæstv. ráðh. ætla að stofna til harðsnúinnar innanlandsbaráttu og hann hefur sýnt slíka vanþekkingu á sögu annarra þjóða í utanríkismálastefnu sinni, að það má kallast gott, ef það á ekki eftir að leiða af sér eitthvað illt, og hann gleymir hinni dýrkeyptu reynslu okkar Íslendinga í þeim efnum frá liðnum öldum.

Ég hef nú sett hér fram mína skoðun, en það kann nú að vera, að hæstv. ráðh. finnist bezt, að sem fæstir þm. heyri mál það. sem ég flutti. — [Fundarhlé.]