29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3296)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Þetta var furðulegur og smásálarlegur útúrsnúningur hjá hæstv. menntmrh. og hefði betur sæmt, hæstv. utanrrh. Ég hef ekki haldið því fram, að ekki hefði verið tímabært að setja reglur og gjaldskrá, áður en herinn hvarf á brott, en ég sagði, að aðstaða íslenzku ríkisstj. hefði verið allt önnur og verri til að setja þessar reglur, á meðan hér var erlendur her, en eftir að hann var farinn og hér voru aðeins eftir erlendir þegnar, sem verða að hlýða íslenzkum yfirvöldum og ríkisstj. þessa lands, eftir því sem hún vill sjálf. Ég sagði, að hæstv. fyrrv. utanrrh. hefði viljað leita samráðs við hernaðaryfirvöldin, því að á meðan hér var erlendur her og hernaðaryfirvöld, var ekki hægt að koma fram íslenzkum valdboðum nema í samráði við hin erlendu yfirvöld í þessu efni. Þetta veit hæstv. menntmrh. og aðrir.

Það var skemmtilegt, þegar hæstv. menntmrh, fór að minnast á hina 19 Íslendinga, sem eiga að vinna teknisk störf á Keflavíkurflugvellinum. Hann fór ekki út í að lýsa þeim störfum, þó að það skipti miklu máli að fá upplýsingar um þau, og það er furðulegt, að hann skuli hafa talað við flugvallarstjóra, en veit þó ekkert um þetta. Eða eru upplýsingar flugvallarstjóra þannig, að hann vilji ekki koma með þær hingað inn í þingið? Þessi störf eru of ömurleg til þess.

Þessar umr. hafa nú upplýst, að Keflavíkursamningnum hefur verið skotið til hliðar af núverandi ríkisstj. í hverju einasta atriði, sem er mikilvægt og lýtur að framkvæmd hans, á Keflavíkurflugvellinum er því aðeins nokkuð framkvæmt, að samþykki Bandaríkjanna komi til. Og mörg atriði eru þar óleyst ennþá.

Hæstv. menntmrh. sagði, að það væri ekki nema ein leiðsla að Standard Oil tönkunum í Keflavík. Það er hlægileg afsökun. Það væri hægt að reka olíuverzlunina á þann hátt sem gert er á Reykjavíkurflugvellinum, að Íslendingar hefðu hana í sínum höndum. En ríkisstj. veik fyrir Bandaríkjunum í þessu sem öðru. Það er komið fram, að hæstv. utanrrh., sem á að hafa framkvæmd samningsins á hendi, eftir því sem hæstv. menntmrh. segir, það er komið fram, að hann lokar augunum fyrir ýmsu, sem gerist þar á vellinum, svo að ástæða er til að ætla, að forystumenn Sjálfstfl. hafi gengið inn á aðrar og meiri skuldbindingar en teknar eru fram í samningnum. Það er full ástæða til að ætla það, og það mun sýna sig. Það væri því full ástæða til, að þingnefnd fengi tækifæri til að yfirheyra þá embættismenn, sem hér eiga hlut að máli, en það vill ríkisstj. losna við. Það er miklu betra að semja skýrslu, sem hæstv. utanrrh. getur verið í ráðum með, og lesa hana síðan upp eins og nokkurs konar véfrétt. En sú skýrsla mundi sjást í öðru ljósi, ef þingnefnd fengi að yfirheyra þá fjóra embættismenn, sem hafa skrifað undir hana, og þeir fengju að skýra nánar frá öllum málavöxtum. Það sýnir ekkert betur hinn vonda málstað ríkisstj. en vilja ekki, að þingnefnd gefist kostur á að fá nánari skýringar og upplýsingar hjá þessum embættismönnum. Það hæfir vel málstað ríkisstj. í þessu máli að afgreiða það, eins og nú er ætlunin, með því að vísa því frá á vesalan hátt, og það eftir hin miklu hreystiyrði hæstv. utanrrh., er hann sagði í upphafi þessarar umræðu, að hann vildi, að þetta mál upplýstist sem bezt.