05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (3419)

18. mál, viðbótarvirkjun í Soginu og Laxá

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Það eru meðal annars þrjú atriði, sem farið er fram á með till. þeirri, sem hér um ræðir. Í fyrsta lagi er farið fram á við ríkisstj., að hún geri allar ráðstafanir til þess, að virkjununum verði lokið svo fljótt sem verða má og ekki síðar en 1949, í öðru lagi er farið fram á gjaldeyrisleyfi til að tryggja aðstoð erlendra sérfræðinga og loks, að ríkisstj. noti fengna heimild til að festa kaup á vélum og efni. Það má segja, að ekki sé vanþörf á að ræða þessi mál hér á Alþ., enda hlutu þau að koma til umr. hér, því að í ráðuneyti því, er ég veiti forstöðu, hefur verið skýrsla um þessi mál í heild, og er ákveðið að leggja þá skýrslu fyrir fjvn., sem kemur til með að þurfa mjög að fjalla um þessi rafmagnsmál. Og það þarf fleira að gera en skora á ríkisstj. að nota heimildir o. s. frv. Það þarf að taka málin fastari tökum.

Þessi tvö mál, sem um ræðir í till., standa nú þannig, að undirbúninginn að viðbótarvirkjun Sogsins hefur rafmagnsveita Reykjavíkur með höndum, og er rannsóknum þar langt komið. Hvað snertir erlenda sérfræðinga, þá hefur í sumar verið tryggður gjaldeyrir til þess, að þeirra gæti notið við. Þingmönnum er kunnugt, að heimild er til fyrir ríkisstj. að taka þátt í Sogsvirkjuninni, og í sumar kom borgarstjóri að máli við ráðuneytið til að spyrja um, hvort áhugi væri af hálfu ríkisstj. á því að nota þessa heimild. Ég tel, að áhugi á því sé fyrir hendi, ef viðunandi samningar takast milli Reykjavíkurbæjar og ríkisins, en í þessu sambandi eru mörg flókin atriði, sem athuga þarf gaumgæfilega, áður en samið er. Ríkisstj. hefur skipað sérfróða menn við undirbúning málsins og eru þeir í sambandi við rafmagnsstjóra Reykjavíkurbæjar, en niðurstöður þeirra verða lagðar fyrir þetta þing. En til þess að þetta þyrfti ekki að tefja virkjanirnar, þá hefur ríkisstj. stuðlað að því, að rannsóknir haldi áfram af fullum krafti. Sogsvirkjunin mun kosta um 50 millj. kr. og þar af 40–50% í erlendum gjaldeyri. — Um Laxárvirkjunina er það að segja, að heimildin, sem ríkisstj. fékk s. l. vor, hefur verið notuð að því leyti að undirbúningsrannsóknir hafa verið gerðar í sumar og er svo langt komið, að brátt mun ástæða til að panta vélar til virkjunarinnar. Sama er að segja um Laxárvirkjunina og hina, að fram hefur komið sú skoðun, að ríkið ætti að standa að virkjuninni með Akureyrarbæ eins og að Sogsvirkjuninni með Reykjavíkurbæ og er það í athugun, ef viðunandi samningar nást. Lausleg áætlun um kostnað við virkjunina við Laxá er um 20 millj. kr., þannig að kostnaðurinn við báðar virkjanirnar er áætlaður um 70 millj. kr., og eins og áður segir, 40–50% í erlendum gjaldeyri. En þegar þessar virkjanir eru á komnar, fylgir þegar stórkostleg lánaþörf til þess að færa orkuna út um byggðina og byggja nýjar línur, þannig að þessar virkjanir, þótt komnar séu upp, hafa í sér fólgna geysimikla þörf á auknu fjármagni. — Þessar tvær virkjanir, sem skorað er á ríkisstj. að hrinda í framkvæmd, kosta um 70 millj. auk kostnaðar við að byggja línur út frá þeim. En það eru fleiri mál, sem óleyst eru í þessu sambandi og þarf jafnvel að leysa á undan. Þessar virkjanir og leiðslur hafa verið byggðar eða er ákveðið að byggja og hefur verið ætlazt til, að þær gætu aflað sér lánsfjár. En ástandið er þannig, að þær hafa ekki getað fengið einn eyri frá hinum opinberu lánsstofnunum. Mörg þessara mannvirkja hafa verið sett á stofn með bráðabirgðalánum úr raforkumálasjóði, en þegar sjóðurinn hefur ætlað að kalla inn sín lán og virkjanirnar þurft að fá lán úr bönkum eða sparisjóðum, þá hafa þau ekki fengizt, og ef þessu fer fram, verður raforkumálasjóður að mestu óvirkur, er fé hans er þannig bundið.

Ég vil þá gefa nokkurt yfirlit um rafmagnsveitur, sem verið er að byggja eða áformað er að reisa, og ástand þeirra. Til Reykjanesveitu þarf allt að 350 þús. kr. bankalán, og ekkert af fé raforkusjóðs fengist þaðan endurgreitt. Árnessýsluveita er fyrirhuguð, og þarf til hennar 1,4 millj. kr. lán, en ekkert af því er fáanlegt nú. Húsavíkurveitu vantar 1,1 millj. kr., sem hvergi fæst. Virkjun Fossár var ákveðin hér á síðasta þingi, en í hana þarf 3,5 millj. kr., en það fjármagn er sömuleiðis ófáanlegt. Gönguskarðsárveita var hafin í fyrra, en sökum gjaldeyrisskorts og þess, að ekkert lánsfé fæst, verður henni ekki lokið í ár, og það, sem gert er, er fyrir bráðabirgðalán úr raforkumálasjóði, þar sem hinar opinberu lánsstofnanir hafa ekki treyst sér til að láta neitt af höndum. Til Hafnarfjarðarveitu voru fyrirhugaðar 700 þús. kr., en það fé er ófáanlegt. Ölfusveita þarf 365 þús. kr., sem hvergi fást. Reykholtsveitu vantar 320 þús. kr., en það fé er ekki fáanlegt. Þá var og lína um Flóa, sem gerði ráð fyrir 680 þús. kr. láni, en það fæst ekki. Grenjaðarstaðaveitu skortir 100 þús. kr., sem einnig fæst ekki. Að Dalvíkur- og Hríseyjarveitu hefur nokkuð verið unnið, en þar vantar 1150 þús., en sú upphæð er ófáanleg. Smærri veitur þurfa svo 800 þús. kr., og fæst það fé hvergi að heldur. Þá eru tvær virkjanir, Skeiðsfoss- og Andakílsárvirkjanirnar. Til þeirra vantar lán að upphæð 600 þús. til 1 millj. kr. Og hef ég sem ráðh. þessara mála gert allt til að útvega þeim nauðsynleg lán, en hvergi fengið þau. Bankarnir eru lokaðir og hvergi peninga að fá. Með öðrum orðum, þegar þetta er saman dregið liggja fyrir raforkumannvirki, sem munu kosta um 160 millj. kr. og eru í undirbúningi eða eru ákveðin og þegar hafin, og lánsþörf þeirra er að minnsta kosti 120–130 millj. kr., og þegar ástandið er þannig, sem ég hef lýst, þá vona ég, að hv. þm. sjái, að meira þarf að gera en skora á ríkisstj. að kippa þessu í lag. Í kjölfar virkjananna siglir svo stórkostleg lánsþörf vegna línubygginga til að koma rafmagninu út um landið, því að annars væri tilgangslaust að reisa virkjanir. Ég er sízt á móti því að ræða þetta mál hér og hafði hugsað mér að byrja á því að gefa fjvn. skýrslu um málið, því að hún mun koma til með að hafa forgöngu um málið hér á þingi, og mun ég senda nefndinni skýrslu um þessi mál, en taldi rétt að gefa þetta bráðabirgðayfirlit hér. En það er víst, að nefndinni er óhætt að taka þessi mál til rækilegri athugunar en orðalag till. þeirrar, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir.