03.03.1948
Sameinað þing: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3673)

112. mál, málmleit o.fl.

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Í sambandi við þessa till. á þskj. 178 vildi ég leyfa mér að segja nokkur orð. — Ég hygg, að flestir hv. alþm. séu sammála um, að of lítið hafi verið gert til þess að ganga úr skugga um, hvort dýrmæt efni og málmar væru í jörðu á landi voru í svo ríkum mæli, að það svaraði kostnaði að vinna þau. Við höfum hér rannsóknaráð ríkisins, en því hefur verið sniðinn svo þröngur stakkur, að það hefur ekki getað nema að litlu leyti leyst þessi störf af hendi. Við höfum orðið varir við það, að aðeins fyrir tilviljanir hafa menn fundið dýrmæt efni í jörðu hér, — ekki af því að þeir hafi verið að leita að þeim, heldur t. d., þegar menn hafa verið að grafa skurði eða fyrir húsum, og er þar skemmst að minnast marmarans á Snæfellsnesi. Það er vitanlega engin vissa fyrir því, hvort hér á landi séu svo miklir málmar í jörðu, að það svari kostnaði að vinna þá, en þar sem líkur virðast ef til vill til þess, þá er óafsakanlegt að hefja ekki rannsóknir á því, þannig að úr því verði að fullu skorið. Með þessari þáltill. er ætlazt til, að rannsóknaráði ríkisins verði falin þessi rannsókn, en þá þarf um leið að búa öðruvísi að því en nú er gert. Þeir menn, sem í rannsóknaráði eru, mega ekki hafa þetta sem aukastörf, nema því aðeins að það ráði sérfræðing eða sérfræðinga til þessara starfa. Fyndist mér það engin fjarstæða, þótt 1 eða 2 sérfræðingar væru ráðnir í þessu skyni til þess að vinna að þessu nú um sinn, svo að við vöðum ekki lengur í villu um það, hvað hér er um að ræða. Atvinnuvegir landsmanna eru ekki það fjölbreyttir, að við getum ekki bætt þar við, og ef um dýrmæt efni í jörðu hér er að ræða og það kannske í stórum stíl og það gæti svarað kostnaði að vinna þá, þá hefðum við vissulega þörf fyrir slíkt.

Ég tel líklegt, að hæstv. Alþ. taki þessari till. vel og vilji ekki sofa lengur á þessu máli. Hv. alþm., sem vita það, að fjárhag ríkisins á hverjum tíma er þannig háttað, að þar er þörf fyrir meira fé til ýmiss konar starfsemi, vilja vissulega athuga það, hvort hér séu ekki nýir möguleikar fyrir hendi. — Ég legg þess vegna til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og hv. allshn.