03.03.1948
Sameinað þing: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í D-deild Alþingistíðinda. (3678)

125. mál, rafmagnsþörf austurhluta Rangárvallasýslu og Mýrdals

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Sk. hefur gert grein fyrir till. á þskj. 246. Hann hefur líka gert grein fyrir því, hvers vegna till. er flutt, og það er í fyrsta lagi vegna rafmagnsskorts í Vík í Mýrdal. Það er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. V-Sk. hafi áhuga fyrir að leysa raforkumál Víkurkauptúns og annarra þar í grennd, en hv. þm. er nýr hér á þingi, enda talaði hann um þetta mál eins og það væri alveg nýtt og ekkert væri farið að gera í því. Og af þeirri ástæðu, að hv. þm. talaði um málið á þennan hátt, og þar sem felst í till. áskorun um að vinna það verk á þessu ári, sem verið er að vinna að og loforð liggja fyrir, að verði lokið fyrir næsta ár, kemst ég ekki hjá að gefa upplýsingar um málið eins og það liggur fyrir hv. þm. til leiðbeininga.

Það var árið 1946, sem Skógafoss var mældur með tilliti til virkjunar, og var það eftir ósk frá Jóni Kjartanssyni, núverandi sýslumanni Skaftafellssýslu, Gísla Sveinssyni fyrrv. alþm. og samkvæmt bréfi, sem ég skrifaði þáverandi raforkumrh., Emil Jónssyni. Hann lagði síðan fyrir rafmagnseftirlit ríkisins að mæla Skógafoss og láta rannsaka, hvort heppilegt væri fyrir austurhluta Rangárvallasýslu og Víkurkauptún að fá rafmagn frá Sogsvirkjuninni eða virkja Skógafoss. Og samkv. fyrirmælum fyrrv. raforkumrh. er rafmagnseftirlitið nú að vinna. að þessu, og hef ég fengið loforð þess um, að þessum rannsóknum skuli verða lokið, áður en Alþ. næst kemur saman, til þess þá að hægt verði að taka ákvörðun um, hvað gera skuli í þessum efnum. B-liður þessarar þáltill. er því ekki heppilegur á þessu stigi málsins, því að samkv. honum felst áskorun um að leggja fram frv. um öflun raforku fyrir þessar sveitir, sem byggt sé á niðurstöðu þessarar rannsóknar. Og verði að því horfið að leiða rafmagn frá Soginu, þá er ekki um það að ræða að afla raforku sérstaklega fyrir þessar sveitir, því að þær fylgjast þá að með virkjun Sogsins þangað austur og þá verður væntanlega þar ekki um neina rafeklu að ræða. Um þetta efni þarf því ekki ný l. Verði hins vegar að því ráði horfið að láta Víkurkauptún og bæina í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllum fá raforku frá virkjun Skógafoss, verður að leggja fram sérstakt frv. um virkjun Skógafoss og fá samþ. l. um það, en það er ekki tímabært að leggja fram frv. um þetta, fyrr en niðurstöður rannsókna liggja fyrir um, að það sé heppilegra.

Það er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. V-Sk. og hv. 1. þm. Rang. hafi áhuga fyrir þessum málum og kannske eðlilegt, að hv. þm. V-Sk. hafi ekki fylgzt með, að þessar rannsóknir séu nú að fara fram, en ég hafði búizt við, að hv. 1. þm. Rang. hefði vitað, hvað væri að gerast í þessum málum, en svo er ekki að sjá, því að hann hefur gerzt flm. að þessari till. — Ég veit, að hv. þm. sjá nú af því, sem ég hef sagt, að þessi till. er gersamlega óþörf, þótt hún að vísu geti ekki spillt fyrir málinu. Ég taldi mér skylt að upplýsa þetta mál og vænti, að hægt verði að hefjast handa um framkvæmdir, þegar rannsóknum er lokið, því að það er rétt hjá hv. 1. flm., að rafmagnsþörf þessara staða er mjög mikil, og er Víkurkauptún mjög illa statt í þessum efnum og mjög kostnaðarsamt að nota olíuvélar til raforku.