21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (3814)

119. mál, áburðarverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar fyrirspurnir á þskj. 211 ásamt hv. 1. þm. N-M. (PZ). Sú fyrsta er um áburðarverksmiðjuna.

Svo sem þm. muna, var hér á þingi 1944 rætt um áburðarverksmiðju og gert ráð fyrir framleiðslu köfnunarefnisáburðar og að hún gæti afkastað ca. 3000 smál. á ári. Það var miðað við það, sem landsmenn notuðu þá, en nú er það svo, að þótt landsmenn hafi ekki notað nema 3–4 þús. tonn, þá er áburðarþörfin miklu meiri, en út í það skal ég ekki fara. Ég ætla, heldur að reyna að geta um það, hvað hefur gerzt síðan. Málið var mikið rætt á þingi, og höfðu menn ýmsar skoðanir um það. Því var síðan vísað til nýbyggingarráðs. Nýbyggingarráð réð síðan sérfróðan mann til að fara utan og kynna sér slíkar verksmiðjur víða um lönd og afla, sér vitneskju um það, hvort heppilegt væri að byggja verksmiðjuna eins og gert hafði verið ráð fyrir. Þessi sérfræðingur er nú kominn heim og hefur gefið skýrslu um störf sín. Eftir því, sem fram hefur komið, virðist ekki ráðlegt að byggja verksmiðjuna eins og ráð hafði verið fyrir gert. Þessi verkfræðingur mun hafa lagt til, að verksmiðjan yrði stærri og með öðru sniði til þess að hún næði tilgangi sínum. Nýbyggingarráð skipaði n. í málið. Sú n. hefur nú setið í tvö ár. Hæstv. núverandi landbrh. er formaður hennar og veit því hvað n. hefur gert. Ég efast ekki um, að n. hafi gert sér grein fyrir því, hvort rétt sé að byggja hér verksmiðju og hvernig verksmiðja okkur hentar o. s. frv. Það er rétt, að menn hugleiði, hvernig áburðarþörfin verður. Undanfarið hafa bændur ekki fengið nema helming af þeim áburði, sem þeir hafa viljað kaupa, en verðið fer alltaf hækkandi. Það, sem bændur spyrja um, er ekki, hvort áburðurinn sé framleiddur í landinu eða erlendis, þeir spyrja um, hvort þeir geti fengið hann og fyrir hvaða verð. Það er spurning, hvort það borgar sig að vinna áburðinn innanlands eða eyða milljónum króna í kaup á tilbúnum áburði.

Ég vænti þess, að hæstv. landbrh., formaður n., sem starfað hefur í 2 ár, geti gefið þinginu skýrslu um þetta mál. Er rétt að byggja hér verksmiðju eða flytja inn erlendan áburð?

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi áhuga fyrir þessu, en býst við, að ef n. teldi ráðlegt að byggja þessa verksmiðju, hefði þessi ráðh. lagt fram frv. um það hér á Alþingi. Það hefur þessi ráðh. ekki gert, og er því ástæða til að ætla, að n. telji framkvæmd vafasama. Ég vil ekki vera með getsakir um þetta, þar sem hæstv. landbrh. mun nú gefa nauðsynlegar upplýsingar.