21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (3815)

119. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég skal segja í fáum, stórum dráttum frá því, sem mér er kunnugt um, að gert hafi verið í þessu máli í sambandi við þá nefndarskipun, sem nýbyggingarráð gerði.

Það var í janúarmánuði 1946, að nýbyggingarráð skipaði n. manna til þess að athuga möguleika á undirbúningi frv., ef til kæmi, um byggingu áburðarverksmiðju, og voru í þeirri n. 3 efnafræðingar, Björn Jóhannesson, sem var formaður n., en ekki ég, Ásgeir Þorsteinsson, sem starfar í rannsóknaráði ríkisins, og sömuleiðis Trausti Ólafsson. Ég fór í þessa n. af hálfu Búnaðarfélags Íslands. N. vann um sumarið og skilaði áliti í nóv. 1946. Var hún þá búin að gera þær athuganir á málinu, sem hún taldi unnt að gera á þeim tíma, og búin að safna þeim upplýsingum, sem þá var unnt að safna, til þess að stjórnarvöldin gætu gert sér grein fyrir, hvort hægt væri að reisa hér verksmiðju og semja um það frv. eða löggjöf. N. gekk út frá verksmiðju, sem framleiddi 2500 tonn af köfnunarefni, sem yrði 7700 tonn af ammoniumnítrati.

Það var byrjað á athugun á raforku, og þá kom í ljós, að nægileg frumorka (þ. e. orka, sem er handbær allan sólarhringinn) verður ekki fáanleg, fyrr en að lokinni næstu Sogsvirkjun, en það verður ekki fyrr en eftir 1950. Umframorka (þ. e. orka, sem rafveitan hefur aflögu á öðrum tímum en þeim, sem álagið er mest) verður heldur ekki fáanleg, fyrr en að lokinni nefndri virkjun. Niðurstaðan er því sú, að ekki sé hægt að fá nægilega orku til verksmiðjunnar, og munar vitanlega miklu, hvort um umframorku eða frumorku er að ræða. Þetta leiddi til þess, að niðurstaða n. varð sú, að eini staðurinn, sem til greina gæti komið með tilliti til orkunnar væri hér sunnanlands, eftir að lokið er næstu virkjun Sogsins. N. athugaði fleiri möguleika, en niðurstaðan varð sem sagt þessi.

Með því að nota fáanlega umframorku frá Sogsstöðinni eftir stækkun þá, sem ráðgerð er næst, má ætla, samkvæmt fengnum upplýsingum, að árlegur rekstrarkostnaður áburðarverksmiðju, sem framleiðir á ári 7700 tonn af ammóníumnítrati, yrði um kr. 350000,00 minni en með því að nota orku jafnt allan sólarhringinn eftir stækkunina. Af þessari ástæðu taldi n. einsýnt, að koma yrði verksmiðjunni upp hér eftir stækkunina.

Vegna dreifingarinnar gerði n. sér grein fyrir því, hvort réttara væri að hafa verksmiðjuna hér eða í nánd við Akureyri, og varð niðurstaðan sú, að dreifingarkostnaður yrði um 100 þús. kr. lægri frá verksmiðju við Reykjavík en frá verksmiðju við Akureyri.

N. áætlaði, að stofnkostnaður verksmiðju af þessari stærð yrði 17.5 millj. kr. Um áburðarverðið kæmu þá þrír möguleikar til greina. 1. að tekið yrði lán með 4% vöxtum, 2. að tekið yrði lán með 2½% vöxtum, 3. að ríkið lánaði stofnféð, sem væri framlag frá því að meira eða minna leyti. Verðið á áburðinum yrði sem sé undir því komið, hver leiðin yrði valin. Ef gert er ráð fyrir 4%, þá sýnir það sig, að áburðarverðið er allmiklu óhagstæðara en frá Kanada. Ef reiknað er með 2½%, yrði það einnig óhagstætt, en legði ríkið fram stofnkostnaðinn, mundi ekki muna miklu, en þó yrði áburðurinn nokkru ódýrari en hann er nú frá Noregi.

Eins og ég sagði, skilaði n. af sér þessum athugunum til nýbyggingarráðs í nóv. 1946. Svo á síðasta sumri var þetta mál rætt í ríkisstj. og ákveðið að taka það upp aftur og endurskoða þessa áætlun með tilliti til verðbreytinga, sem hafa orðið bæði innanlands og utan, og flytja frv. um málið hér á þingi. S. l. haust fól ég Birni Jóhannessyni, sem verið hafði formaður n., að endurskoða útreikningana og undirbúa drög til þess, að hægt yrði að leggja frv. fyrir þingið. Þetta starf hefur hann haft með höndum, en það var seinlegt fyrir hann, því að hann þurfti að umreikna marga liði. Auk þess fól ég honum að gera áætlun um stærri verksmiðju, því að það er vitanlegt, að því stærri sem verksmiðjan er, því ódýrari verður hún og rekstrarkostnaður því minni, þannig að ef við gætum búizt við að reka verksmiðju þrefalt stærri en hér er talað um, þá værum við ekki aðeins samkeppnisfærir innanlands, heldur gæti komið til mála, að við gætum flutt út, en til þess þarf ekki aðeins stórkostlega miklu meira stofnfé, heldur líka orkuver, sem ekki eru líkur til, að við gætum komið okkur upp.

En það er annað, sem hefur gert það, að málið hefur tafizt í meðferðinni — og þá er ég kominn að nýju atriði.

Rannsóknaráð ríkisins — og sérstaklega Ásgeir Þorsteinsson, sem hefur mikinn áhuga á þessu máli — hefur haldið áfram rannsóknum á framleiðslu köfnunarefnisáburðar. Hefur Ásgeir Þorsteinsson vakið athygli stj. á því, að nú fer framleiðsla köfnunarefnisáburðar fram með öðru lagi en verið hefur fram til þessa, þannig að köfnunarefnisáburðurinn er aðeins hálfunninn við það, sem áður var, og fleygir þeirri framleiðslu svo fram, að á yfirstandandi ári er reiknað með, að framleiðsla fljótandi köfnunarefnisáburðar verði 37% af allri framleiðslu Bandaríkjanna af köfnunarefni til áburðar.

Hann segir: „Þær athuganir, sem rannsóknaráð hefur framkvæmt undanfarið, hafa leitt í ljós, að vel gæti komið til mála að hafa á máli þessu allt annan hátt en gert hefur verið ráð fyrir, að hafður yrði, til þessa. Í stuttu máli virðast vera góðir möguleikar til þess að staðnæmast við framleiðslu ammoníaks og einbeina sér að framleiðslu fljótandi áburðarefna. yfirleitt í stað fastra efna. Hyrfi þá úr sögunni allur vélakostur, húsakostur og að heita má öll sú vinna, sem fólgin er í því að umbreyta ammoniaki í nitrat og framleiða fast, rakavarið og geymsluhæft ammoniumnitrat, sem í rauninni hefur engin sérstök efnagæði í sér fólgin til jarðvegsbætis umfram ammoniakið.“ Þ. e. að í stað þess að binda áburðinn í fast efni með þeim ærna kostnaði, sem því fylgir, yrði hann tekinn fljótandi og borinn á eins og foraráburður, og er talið, að það sé á margan hátt miklu hagkvæmara og ódýrara, þar sem verksmiðjurnar liggja tiltölulega nærri því landi, þar sem áburðurinn er notaður, þó að hann sé ófær til að flytja hann á milli landa. En kosturinn við þessa aðferð er sá, að hægt er að komast af með ódýrar verksmiðjur og að hægt er að reka litlar verksmiðjur. Það þarf minni vélar og minni vinnukraft, og þar sem vinnuaflið er jafndýrt og hér hjá okkur, mundi það muna miklu.

Nú þótti mér rétt að taka þessar upplýsingar til meðferðar, og hef ég fengið Ásgeir Þorsteinsson til þess með Birni Jóhannessyni. Vænti ég þess, þótt þetta hafi tafizt svona, að hægt verði að leggja frv. fyrir þingið bráðum og taka þar ákvörðun um þetta mál. En í sambandi við þetta hef ég falið dr. Birni Jóhannessyni að gera rannsóknir og tilraunir með dreifingu þessa áburðar til þess, að hafa nokkuð á að byggja. Auk þess mun ég beita mér fyrir því, að hann fari utan í sumar til þess að kynna sér þetta mál. Í sambandi við þetta mál hefur það komið til tals milli mín og þessa sérfræðings, að unnt megi verða að blanda fosforefni og kalí á ódýrari hátt en nú er. Er það til athugunar hjá þessum mönnum, og telja þeir, að hægt sé að koma upp á næstu árum verksmiðju, sem framleiði alhliða áburð, bæði fosforsúrt kali og köfnunarefni:

Það eru mörg rannsóknarefnin í þessu sambandi t. d. það, hvernig hægt sé að koma áburðinum út á meðal bænda, og mundi sennilega heppilegast að nota tankasystem. Eru líkur til, að það yrði ekki dýrara en sú dreifing, sem við þekkjum nú.

Ég tel ekki þörf að ræða þetta nánar. Ég vildi aðeins láta hæstv. Alþingi vita, hvernig þetta mál er statt. Vænti ég þess, að áður en þingi lýkur, geti það legið fyrir með fyllri upplýsingum en ég hef gefið nú.