21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (3817)

119. mál, áburðarverksmiðja

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í tilefni af hinum mjög merkilegu upplýsingum hæstv. atvmrh. um, að það gæti komið til mála, að notað yrði fljótandi efni til áburðar í staðinn fyrir fast efni, vildi ég benda á það, að þegar hafa verið gerðar af útgerðarmönnum tilraunir með að nota límvatn, að vísu í smáum stíl, en með þeim árangri, að ef límvatn er tekið og blandað 2 hlutum af vatni og 1 af lími, þá fæst betri spretta af þeirri jörð, þar sem slíkur áburður er notaður, heldur en þótt notað sé venjulegt fast efni. Komi það því til greina að breyta þessu þannig að taka fljótandi efni á þann hátt, sem hæstv. ráðh. talaði um, vildi ég beina því til hæstv. ráðh., hvort ekki væri sérstök ástæða til að láta efnafræðinga háskólans rannsaka þetta mál, því að sannarlega eru ekki lítils virði öll þau tonn af fitu, sem renna frá íslenzkum verksmiðjum til sjávar og þannig mætti nota og spara þar með svo og svo mikinn hluta af þeirri vinnslu, sem hér er um rætt.