21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (3819)

119. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Í sambandi við aths. og upplýsingar hv. þm. Barð. skal ég geta þess, að ég mun taka það til athugunar, sem hann benti á, í sambandi við atvinnudeild háskólans.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði um það, hversu miklu rafmagni hefði verið reiknað með fyrir þessa verksmiðju. Það eru 7000 kw., sem gert er ráð fyrir, að hún muni nota. Í sambandi við fsp. hans um það, hvort samkomulag væri milli Reykjavíkurbæjar og ríkisins um virkjun Sogsfossanna, get ég getið þess, að það hafa farið þar fram samræður milli þessara aðila, og er fullt útlit fyrir, að fullkomið samkomulag náist um áframhaldandi virkjun. Það er aðeins eftir að ganga frá samningum í einstökum atriðum, og verður það gert næstu daga. Sömuleiðis er samkomulag um það milli mín og bæjarstjórnar Reykjavíkur og rafmagnsstjóra Reykjavíkurbæjar, að þeir, sem hafa haft undirbúning þessa máls með höndum, skuli ekki bíða eftir því, að fullkomið samkomulag verði gert milli ríkisins og Reykjavíkurbæjar um undirbúning málsins, heldur skuli þeir vinna að verkinu alveg eins og samkomulag hefði náðst, hvort sem það næst eða ekki, vegna þess að framkvæmdarinnar er þörf, þannig að ég held, að þessi dráttur, sem orðið hefur á að ríki og bær hafi gert fullnaðarsamninga, hafi ekki þurft að tefja fyrir pöntun á vélum og öðrum nauðsynlegum undirbúningi, sem unnt hefur verið að leysa af hendi. Það er rétt, að það tekur mörg ár að fá vélar til stærri framkvæmda og fyrirtækja eins og þessa, og af þeim ástæðum hafði ég kosið, að þetta mál kæmist fyrir þingið, til þess að heimild fengist til að gera ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, panta vélar og annað þess háttar, þó að sýnilegt sé, að slíkri verksmiðju yrði ekki af tekniskum ástæðum komið upp fyrr en um sama leyti og Sogsvirkjuninni vegna þess að skortur er á rafmagni, sem á að reka verksmiðjuna með. En ef Alþ. féllist á það, þá vildi ég gjarnan, að þessu yrði hagað þannig, að áburðarverksmiðjan yrði tilbúin um það leyti, sem Sogsvirkjunin nýja getur tekið til starfa.