21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í D-deild Alþingistíðinda. (3825)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef flutt þessa fsp. ásamt hv. 1. þm. N-M. og vil taka í sama streng og hann og leggja áherzlu á það, að þetta fé hefur ekki enn tekizt að útvega Búnaðarbanka. Íslands, en samkv. 12. gr. laganna á það að vera gert. Hæstv. atvmrh. talaði um, að fsp. væri tæplega rétt orðuð, þar sem talað væri um framlag, en hér væri um lán að ræða, og það væri ekki spurt um þessi framlög, sem hefðu verið greidd, 2,5 millj. vegna landnáms og 2,5 millj. til byggingarsjóðs. En það vantar til byggingarsjóðs samkv. 12. gr., þar sem segir:

„Stofnfé sjóðsins er:

a. Byggingarsjóður, nýbýlasjóður og smábýladeild Búnaðarbanka Íslands, eins og þessar stofnanir eru nú.

b. Lán, er ríkissjóður veitir eða útvegar vaxtalaust, þannig að stofnféð nemi alls 10 millj. kr. 1. júlí 1947, en síðan leggist árlegur tekjuafgangur sjóðsins við stofnféð.“

Og það, sem vantar til þess að stofnfé sjóðsins sé 10 millj., það er, eins og segir í fsp., tæpar 5 millj. kr.

Nú er það, eins og hv. 1. þm. N-M. tók fram, að menn hafa reitt sig ákaflega mikið á þessi l. og byrjað byggingarframkvæmdir í von um að fá lán samkvæmt þessum l., sem eru mjög góð og vaxtavæg, en hafa svo ekki, af því að stofnfé sjóðsins er ekki enn orðið nálægt því eins mikið og til var ætlazt, getað fengið þessi lán, sem þeir gerðu sér vonir um, og þess vegna eru margir menn, sem byrjuðu þessar byggingar, eftir að þessi 1. voru samþ., í hreinustu vandræðum, af því að þeir fá ekki lán. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, þó að spurt sé um það, hvers vegna ríkisstj. hafi ekki útvegað þetta lánsfé til byggingarsjóðs. Hæstv. atvmrh. segir, að þetta hafi ekki verið hægt fram að þessu. Ég skal ekkert rengja það, að það hafi verið örðugleikum bundið. Hæstv. ráðh. segir líka, að þar sem ríkisstj. telji vafasamt, að hún geti leyst þetta mál, þá sé það þingsins að hjálpa til með útvegun á þessu lánsfé. Ég býst við því, að það sé þingsins að hjálpa, þegar stjórnin er í vandræðum með útvegun fjár, en stjórnin hefur ekki enn þá leitað til þingsins í því skyni að fá hjálp til útvegunar á þessu fé. Það er ekki fyrr en þessi fsp. kemur fram, sem ríkisstj. gerir þá játningu, að hún hafi ekki getað útvegað þetta fé. — Ég held, að það verði ekki fram hjá því komizt að útvega þetta fé. Bændur hafa ekki búizt við því, að l., sem Alþ. samþykkti, væru aðeins „blöff“, heldur hafa þeir reitt sig á og byggt á því, sem Alþ. hefur gert í þessum efnum. Og það verður ð leysa þetta mál þannig, að l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum verði ekki pappírsskraut, heldur komi að þeim notum, sem til er ætlazt.

Ef hæstv. ríkisstj. þarf að leita til þingsins til að útvega fé, þá geri ég ráð fyrir því, að stuðningsmenn hennar leitist við að verða henni aðstoð í þessum efnum, þannig að hægt sé að uppfylla þær kröfur, sem l. ákveða, því að það er ekki langt síðan þessi l. voru staðfest, þau eru síðan 15. apríl 1946. Þeir, sem stóðu að því að samþykkja þessi l., munu einnig standa á verði um það, að féð verði útvegað til byggingarsjóðsins. Ég efast ekki um það, að hæstv. ríkisstj. hafi nú ráð í hendi sér til þess að útvega þetta fé, og mér er kunnugt um það, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn notað einfaldar tekjuöflunarleiðir, sem fyrir hendi eru, til þess að ná inn milljónum króna. Meðan stjórnin gerir það ekki, þá á hún ekki að vera að berja sér framan í þm. um það, að hún sé með tóman kassann og geti ekki staðið við skuldbindingar samkv. lögum.