21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (3827)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef fáu að bæta, sem upplýsir málið, við það, sem þegar hefur verið sagt. Mér virðist hv. 1. þm. N-M. vera í einhverjum sérstökum „habít“ til að byrja með, og því hef ég ekki neina löngun til að ræða við hann um þetta mál. Hann virðist frekar leggja áherzlu á að bera sakir á menn um að ræða nauðsyn málsins. Ríkisstj. hefur leyst af hendi, eins og tekið hefur verið fram, framlag í báða þessa sjóði. Í byggingarsjóð 2½ millj. kr. og ræktunarsjóð 2½ millj. kr. Ríkisstj. hefur að vísu ekki tekið það mál upp í fjárl., síðast þegar þau voru afgreidd, og ekki lagt til, að það væri tekið upp í þessi fjárl. En það er tækifæri til þess enn, ef hv. þm. N-M. vill og getur fengið Alþ. til þess að koma með tekjur á móti.

Ég veit það, að þau eru ekki fá þau lagaákvæði frá síðustu tímum, þar sem er líkt kveðið að orði um skyldur ríkisins til þess að útvega lán eða lána til ýmissa hluta, en þó ekki tekið upp í fjárl. Manni hefði nú fundizt, að það væri skyldast að reyna að standa við að greiða það, sem í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir. Þetta, sem hv. þm. segir um, að ríkisstj. hafi greitt út mikið fé, sem þingið hafi ekki heimilað, því vísa ég frá mér og þeirri stjórn, sem nú er, a. m. k. er það ekki neitt, sem heitið getur. Það hefur komið fyrir allar stjórnir á öllum tímum, að þær hafi orðið að greiða lítils háttar fé, þótt þingið hafi ekki samþ. Svo var t. d. með kostnaðinn við Snorrahátíðina. í sumar, sem ekki var nú gífurlegur, en var ekki samþ. af þinginu. Það þótti skylt og var, að stjórnin greiddi hann. Og svo kann að vera með einhverjar fleiri smágreiðslur. En að bera það fram, að við höfum goldið út fé, svo að nokkru nemi, án samþykkis Alþ., það er ekki rétt. Hv. þm. vitnar hér til mótorbáta og að teknir hafi verið víxlar til greiðslu á mótorbátum. Ég ímynda mér, að þó að farið hafi verið út á þá braut að taka víxla upp í þá mótorbáta að nokkru leyti sem greiðslu, þá hefði það verið mikið álitamál, hvort fremur hefði átt að láta þá standa í naustum, smíðaða, eða fara þá leið, sem ráðuneytið gerði, áður en við komum í það, sem sé að taka að nokkru leyti víxla af bátakaupendum. Ég drep á þetta hér, þó að það sé óskylt þessu máli, því að hv. þm. N-M. gusaði því út úr sér, að þarna hefðu einhver ósköp skeð. En það er ekki af viljaleysi hjá hvorki einum né öðrum, sem með þetta mál fara, heldur hefur stjórninni ekki enn sem komið er tekizt að fá nægilegt fé, því að það er nú svo með margt, sem er ráðið að gera og þingið hefur stefnt út í nú í nokkur ár, að það er eins og Alþ. hafi búizt við því, að hér sé hægt að vinna. að öllum framförum með sama hraða. Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í það nú, það gefst væntanlega tími, áður en langt um líður, að lýsa því. Við verðum að sætta okkur við þá hugsun að geta ekki haft taumlausan hraða í öllum fjárfestingum og framförum í þessu landi, þótt við höfum eitthvert tímabil látið okkur dreyma um, að það væri hægt.

Ég veit, að það er bagalegt fyrir þá, sem út í framkvæmdir hafa farið í trausti þessara l., að geta ekki fengið allar óskir sínar uppfylltar. Svo er á fleiri stöðum, þar sem stofnað hefur verið til lánveitinga, sem ætlazt er til, að standi opnar, og þær vonir geta líka brugðizt. Það er skemmst að minnast stofnlánadeildarinnar. Menn líða undir því að hafa ekki nema mjög takmarkað fé til umráða. En ég vil taka undir það, sem hæstv. landbrh. sagði, að það er verið að vinna að því að reyna að greiða úr þessu, ekki á einu sviði, heldur mörgum. Ég held, að við ríðum þá úr hlaði bezt í þeim efnum, þegar Alþ., ríkisstj. og bankinn leggja saman krafta sína með góðvilja til úrlausnar á þessum málum, en síður á þann veg að varpa órökstuddum spurningum fram á hendur ríkisstj. í sambandi við skyldur til að útvega fé, sem þó er ekki staðfest í fjárl. ríkisins.