21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (3830)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er ekki hægt að komast hjá því að segja nokkur orð um þetta mál, sem er mjög alvarlegt, eins og þetta er nú komið.

Það verður ekki sagt, að fullnægt hafi verið með sæmilegu móti þeirri skyldu ríkisstj. að svara þeim fsp., sem fyrir hana eru lagðar. Þessum málum er svo komið, að þau eru miklu alvarlegri en hér hefur komið fram. Það er með öðrum orðum þannig í sambandi við þessar fsp. og aðrar, sem koma siðar, að bændur hafa gert ýmsar framkvæmdir í trausti þess, að staðið sé við framkvæmd laga, eins og siðuðu þjóðfélagi sæmir. Það er ósæmilegt að setja l. í einu þjóðfélagi og framkvæma þau ekki, sérstaklega þegar svona er ástatt, sem ég kem hér síðar að. Hér er um atriði að ræða, sem ríkisstj. hlýtur að veita mjög mikla. athygli af ástæðum, sem ég mun minnast á síðar.

Við verðum að svara þessum mönnum, sem hafa beðið um lán, svo að milljónum skiptir, og eru búnir að gera framkvæmdir og geta síðan ekki staðið í skilum samkvæmt loforðum, sem þeir hafa sjálfir gefið og byggt á l., sem samþ. eru á Alþ. með samþykki ríkisstj. Því að vitanlega á engin ríkisstj. að taka við l., sem hún vill ekki bera ábyrgð á að framkvæma. Það skiptir ekki máli, þótt það sé verið að gera þetta að sið í þessu landi. Það er siður, sem aldrei getur orðið framkvæmdur til lengdar.

Ég veit, að hv. þm., sem farið hafa út á land í jólafríinu, hafa sannarlega orðið varir við þá bændur, sem nú liggja undir vanskilaorði fyrir það, að ekki er hægt að framkvæma það, sem lofað er í l. frá Alþ. Ég vil benda á það, að ég hygg, að ekki mjög mörg ákvæði séu orðuð eins og 12. gr. vísar til. Það er beinlínis tekið fram, að ríkissjóður veiti eða útvegi lán. Og ég hygg rétt fyrir ríkisstj. að athuga, hvort ekki muni vera hægt að fá dóm á hana samkvæmt þessum l., ekki sízt þegar gert er ráð fyrir því, að lánsfé þessara stofnsjóða, sem hér er um að ræða, er samkvæmt ákvæði síðar í greininni samansett af því fé, sem ríkisstj. veitir eða útvegar.

Ég þarf ekki að ræða þetta frekar, en ég geri ráð fyrir því, að það sé erfitt fyrir bankastjórnir og þær stofnanir, sem hér er um að ræða, að neita daglega bændum, sem koma með vanskilaskuldir og eru orðnir vanskila vegna þess, að ekki er hægt að veita þeim þann rétt, sem þeir samkvæmt l. eiga að geta náð. Ég bara bendi á þessi lagaákvæði og hvernig það muni vera fyrir bankastjóra að geta ekki veitt lán, sem eru svo aðkallandi, að fjöldi manna lendir í vanskilum fyrir. Bankastjórinn í útibúinu á Akureyri sendi hraðskeyti um yfirdrátt fyrir ríkisstj. um fjárhæð, sem erfitt væri fyrir bankann að neita, því að hart væri að honum gengið að veita þau lán, sem vanskila væru orðin, því að þeim hefur ekki fundizt þessum ákvæðum vera fullnægt. Það er því vegna þeirra ákvæða, sem hér eru til staðar, sem rekið er hart á eftir því, að þeim sé fullnægt. Það er ekki hægt að komast undan því nema stuttan tíma að greiða það, enda er ég ekki að segja neitt, sem hæstv. fjmrh. gerir sér ekki ljóst. Hann sagði, að hér væri um skyldur að ræða, og það verður að hjálpast að því að framkvæma þessi ákvæði.

En ég get ekki sem formaður bankaráðs í þeim banka komizt hjá því að benda á það, hvað ástandið er alvarlegt og vil taka undir ummæli hæstv. fjmrh., að menn ríði svo bezt úr hlaði, að þeim sé hjálpað til að greiða úr þessu. En það á ekki að ríða úr hlaði og samþykkja l., sem ekki eru framkvæmanleg. Nú eru komnar vanskilaskuldir, en vegna þessara laga er ekki hægt fyrir ríkissjóð að komast undan því að standa við þau loforð, sem þessum mönnum hafa verið gefin. Fyrst þetta mál er komið inn á fyrirspurnalistann, þá vildi ég sérstaklega undirstrika þetta, því ef þessar upphæðir eru ekki greiddar, þá verður að taka málið upp á öðrum vettvangi, enda sé ég ekki, hvernig ríkisstj. ætlar að hafa þessi ákvæði í gildi, ef þau eru ekki framkvæmd.