16.02.1948
Neðri deild: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég vil taka undir það, sem hv. 5. þm. Reykv. (SK) sagði og ég tók fram við 1. umr. þessa máls, að dómari, sem án sakar og í fullu fjöri yrði víkið frá milli 65 og 70 ára, hefði rétt til skaðabóta. Ég tók þetta fram við 1. umr. og óska að segja það skýrt, ef það kemur eigi nægilega skýrt fram í frv., að þetta er minn skilningur á málinu.

Ég held því, að það sé nægilega ljóst, að þetta er sá skilningur, sem frv. er flutt í.

Ég vildi spyrja hv. þm. V.-Húnv. (SkG), hvort hann álíti, að ætlunin sé að færa niður aldurshámarkið með 35. gr. einkamálal. Hér er einungis um þann rétt að ræða, sem menn eiga skv. 35. gr. einkamálal., en ekki um aldurshámark embættismanna. Ef hann áttar sig, held ég, að hann falli frá þessu.

Viðvíkjandi því, sem hv. 5. þm. Reykv. (SK) sagði, að aldurshámarkið væri aðhald fyrir ráðh., þá er það rétt. Sjötíu ára aldurshámarkið verður eftir sem áður aðhald, því að ef dómari hefur ekkert látið á sjá og ekkert gert af sér, þá á hann rétt til að sitja til 70 ára aldurs eins og fyrir þetta frv.

Hitt er ekki rétt, að það sé almenn regla að láta hæstaréttardómara fara frá, þegar þeir eru 65 ára. Eins og ég sagði, hefur aldurshámarkið verið í stjskr. frá því 1874. Kristján Jónsson háyfirdómari sat til áttræðisaldurs. Eggert Briem og Páll Einarsson sátu fram yfir 65 ára aldur, og þeir fóru frá einungis vegna þess, að nýr ráðh. kom, en ekki vegna þess, að aldurshámarkinu væri breytt. Ég tek undir það, að hæstaréttardómarar hafa verið látnir hverfa úr stöðu sinni, þótt þeir hefðu getað setið lengur. En þrátt fyrir það, að menn hafa verið látnir fara úr stöðu, sem þeir hefðu getað gegnt lengur, hefur enginn treyst sér til að breyta þessu, því að menn gera sér ljóst, að það er varhugavert að láta menn njóta dómaraverndar um setu í embætti fram yfir 65 ára aldur. Það getur verið fullkomlega rétt að láta menn hafa vernd til þess tíma, en eftir það fer að verða álitamál, hvort menn eiga að sitja í svo vandasömum stöðum. Það gæti orðið til þess, að menn á sinum efri árum mundu lenda í hneykslis- og leiðindamálum fyrir þá og aðra, sem bezt væri að komast hjá.