09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Hv. fjhn. er yfirleitt öll með því, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ. og gert að l. Hins vegar hefur minni hl. fjhn., hv. 2. þm. Reykv., flutt brtt. við frv., og hefur hann lýst henni. Hv. 2. þm. Reykv. álítur, að húsaleigan í Rvík eigi að verka á hina almennu vísitölu samkv. nýjum útreikningi. ll4eð því er farið fram á að raska þeim grundvelli, sem hin almenna vísitala er byggð á. E.t.v. mætti ýmislegt segja um þann grundvöll, en ég sé þó ekki ástæðu til að taka þetta eina atriði út úr og raska með því öllum grundvellinum, sem hingað til hefur verið byggt á. Það er vitað mál, að þó nokkuð af húsnæði í Rvík mörg undanfarin ár, eða frá 1940 til þessa dags, hefur verið leigt nokkru dýrara en í hlutfalli við hina almennu vísitölu. Það hefði kannske verið ástæða til þess að taka þetta mál upp fyrr, þar sem um það er að ræða, að greitt hefur verið kaup með vísitöluútreikningi hverju sinni, og ég tel ekki ástæðu til að taka þennan þátt — sem um er að ræða í till. hv. 2. þm. Reykv. — vísitöluútreikningsins út úr hér á Alþingi nú að þessu sinni. Hv. 2. þm. Reykv. hafði betri aðstöðu til þess að koma þessu máli fram meðan hann studdi ríkisstj., en þá hreyfði hann engum till. í þessa átt. Mér virðist því, að hér sé um að ræða aðeins stundaráhuga hjá honum.

Það má vera, að ef búreikningarnir gömlu. sem vísitalan var byggð á, væru endurskoðaðir. þá kæmi fram, að þeir þyrftu endurbóta við, en eins og ég sagði áðan, þá sé ég ekki ástæðu til þess, og Alþ. taki þennan eina þátt út úr.

Ef till. hv. 2. þm. Reykv. yrði samþ., þá er það vitað mál, að hin almenna vísitala mundi hækka um 19 stig. Ég minnist þess, og það stendur hér í grg. hv. 2. þm. Reykv., að ef sama leiðrétting hefði verið gerð árið 1945, þá hefði vísitalan samkv. útreikningi hækkað um 15 stig. Kjarni málsins er, að það hefur enga praktíska þýðingu að taka þennan eina lið út úr vísitöluútreikningi og breyta með því öllum grundvelli hans. Ætla má, að nýjum íbúðum í Rvík hafi fjölgað um ca. 3000 síðan hinn almenni grundvöllur fyrir vísitölu var lögfestur. Ég verð fyrir mitt leyti að mæla á móti brtt. hv. 2. þm. Reykv., því að ég tel hana gersamlega þýðingarlausa.

Þá hafa þeir hv. 11. landsk. og 8. þm. Reykv. flutt hér brtt. á þskj. 272 og gert grein fyrir henni. Um það atriði, sem hún fjallar um, er það að segja, að uppbótin á laun launþega fór nokkuð á misvíxl um áramótin eftir því, hvernig útborgunum var háttað. Eins og hv. þm. vita, átti að greiða opinberum starfsmönnum þannig, að þeir fái laun greidd fyrirfram í byrjun hvers mánaðar, og hefur verið haldið þeirri reglu að greiða dýrtíðaruppbót á grunnlaun, þegar búið er að reikna út almenna vísitölu. Þeir, sem fengu laun sín greidd í des., fengu þau greidd samkv. vísitölu 328 stig. Þeir, sem tóku þau jafnóðum, fengu þau reiknuð samkv. vísitölu 326 stig. Hér munar þá tveimur stigum, en hjá því var ekki hægt að komast. Ég tel ákaflega örðugt að taka til greina þennan 2 stiga mismun, eftir allan þennan tíma, og illframkvæmanlegt það, sem farið er fram á með till. þeirra hv. 11. landsk. og 8. þm. Reykv. Enginn vafi er á því, að dýrtíðarl. eru rétt skilin á þann hátt, sem þau hljóða og hafa verið framkvæmd, og í meðferð málsins á Alþ. hefur ekki sérstaklega verið farið út í þetta atriði, hvorki af andstæðingum stj. né þeim flokkum á Alþ., sem fylgja stj. að málum. Eins og mönnum er kunnugt um, þá er samkv. l., sem sett voru um áramótin síðustu, óheimilt að reikna eftir annarri vísitölu en 300 stiga.

Ég vildi því mega vænta þess, að frv. verði samþ. óbreytt.