09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Eins og ég hef áður tekið fram, er það þungamiðja þessa máls, að raunveruleg verðlagsvísitala var ekki borguð nema 11 mánuði ársins. Og opinberir starfsmenn fengu laun greidd með verðlagsvísitöluuppbót fyrir nóvember borgaða fyrst í desember með 328 stigum. Þannig fengu þeir desembervísitöluna borgaða tvisvar á þessum mánuði. (Forsrh.: Það er misskilningur.) Nei, það er ljóst, og það, sem skiptir hér mestu máli, er, að það eru laun fyrir þjónustu opinberra starfsmanna í desember, en ekki í janúar, sem þarna er um að ræða. Og okkur þykir það hart, að öllum launþegum, hvort sem þeir eru starfsmenn hins opinbera eða ekki, sé ekki gert jafnt undir höfði.