20.02.1948
Neðri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

61. mál, sementsverksmiðja

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þar sem úrskurður forseta er ekki fallinn um það, hvort umr. skuli frestað, en ég gæti búizt við, að hann yrði á þá lund, að annað yrði ástæðulaust en þeim yrði haldið áfram, vil ég segja nokkur orð við hv. þm. Siglf. — Hv. þm. talar um grundvallarmun á mínum skoðunum og sínum, og er það rétt. Hann lítur allt öðrum augum á framkvæmdir en ég. Það er aukaatriði frá hans sjónarmiði. hvort fyrirtæki kostar 15 eða 30 millj., og að því leyti get ég undirstrikað það, að á skoðunum okkar er grundvallarmunur. Frá mínu sjónarmiði er það höfuðatriði að tryggja fyrirtækið fjárhagslega og sjá í upphafi endinn. Ef ráðizt er í fyrirtæki, sem á að kosta 15 millj., en það verða svo 30 millj., verður það ekki aukaatriði fyrir ríkisstj., sem á að greiða féð. Og það yrði heldur ekkert aukaatriði fyrir hv. þm. Siglf., ef hann ætlaði að ráðast í fyrirtæki með eina millj. í höndunum, en kæmi svo á daginn, að hann yrði að greiða tvær. Hann mundi þá bæði verða ráðþrota og gjaldþrota.

Hv. þm. Siglf. varð á unga aldri ráðh. og fékk þannig mikil og góð tækifæri til að verða þjóð sinni að liði. En störf hans hefðu orðið þjóðinni til meiri nytsemdar, ef þetta sjónarmið hefði ekki verið jafnríkjandi hjá honum, að kostnaðarhliðin á framkvæmdum væri aukaatriði, því að það er siður en svo, að það sé nokkuð einkennilegt sjónarmið, þótt um það sé hugsað, áður en byrjað er á fyrirtæki, að sjá því fyrirtæki fjárhagslega borgið.

Hv. þm. Siglf. telur öllum undirbúningi lokið og nánari athuganir alveg óþarfar áður en hafizt er handa, og í samræmi við þessa skoðun flytur hann brtt., þar sem hann vill gera lögin um verksmiðjubyggingu að skyldulögum. Mér þykir leitt, að hv. þm. skuli ekki hafa lært meira af reynslunni en raun ber vitni um. Hann nefndi aðeins tvö dæmi í gær um framkvæmdir, sem hefðu orðið fjárfrekari en gert var ráð fyrir, Skeiðsfossvirkjunina og síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði. Sagði hann, að Skeiðsfossvirkjunin hefði ekki orðið nema helmingi dýrari en áætlað var, og þótti það engin fjarstæða, þar sem miklar verðhækkanir hefðu orðið á því tímabili. sem framkvæmdir stóðu yfir. En kostnaðurinn varð bara enn meiri en þeim hækkunum nemur og framkvæmdirnar mun meira en helmingi dýrari, þar sem upphaflega var reiknað með 6 millj., en kostnaður er kominn hátt á 15. millj. Siglufjarðarbær á því mjög erfitt með að standa undir virkjuninni og hefur verið í vandræðum með stofnkostnaðinn og orðið að leita á náðir ríkisins til þess að standa straum af rekstrinum. Ég sé því ekki, að hv. þm. Siglf. hafi neina sérstaka ástæðu til að lýsa gleði sinni yfir þessu. og það eru mér vonbrigði, hve lítið hann virðist hafa lært af þessari illu reynslu. Síldarverksmiðjurnar, sem reistar voru í hans tíð, voru þörf fyrirtæki, og ber ekki að lasta það út af fyrir sig, að þær voru reistar. En það hefði mátt koma þeim upp fyrir minna fé, ef allt hefði verið betur undirbúið og hugsað í upphafi. Það er ekki undarlegt, þó að hv. þm. Siglf. hafi gert þetta, af því að hann var sannfærður um það þá, sem hann er sannfærður um enn þá, að þau drög að áætlunum, sem lögð voru fyrir hann, væru rétt og nákvæm.

Hann talar um það, að byggingar hinna nýju síldarverksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd hafi farið fram úr áætlun vegna þess, að vinnulaun hafi hækkað. En þær fóru meira fram úr áætlun en sem nemur þeirri hækkun. Eða voru síldarverksmiðjur þessar ekki upphaflega áætlaðar 18 millj. kr.? Það minnir mig. Á öðru stigi voru þær áætlaðar 27 millj., og á þriðja stigi held ég, að þær hafi komizt upp í 40–42 millj. kr. Ég er ekki viss upp á milljón, man það ekki, en það er aukaatriði í þessu sambandi, því að kostnaðurinn við þessar verksmiðjur tvöfaldaðist ekki aðeins, miðað við fyrstu áætlanir, heldur liggur nærri, að margfalda megi fyrstu áætlun með tveimur og hálfum til að fá út kostnaðarverð verksmiðjanna.

Það mætti nú ætla, að hv. þm. Siglf. hefði eitthvað af þessu lært og ástæðulaust væri fyrir hann að tala um bölsýni hjá þeim, sem vilja athuga þetta mál með sementsverksmiðjuna með gaumgæfni og fá úr því skorið, hvort málið sé eins vel og heppilega undirbúið og hægt er og ekki sé hægt að gera það betur. Að fenginni reynslu í byggingu verksmiðja er síður en svo undarlegt. þó að hér komi fram raddir um, að sjá verði fótum sinum forráð í þessum efnum umfram alla muni. Ég lýsti yfir því hér í gær, að ég vildi, að hv. ríkisstj. sæi sér fært að ráðast í þessa framkvæmd og byggja sementsverksmiðjuna, og hv. atvmrh. hefur nú lýst yfir því, að það verði gert, ef fært þyki eftir fullnaðarrannsókn. Það er þessi yfirlýsing, sem iðnn. hefur látið sér nægja, að fela ríkisstj. málið og heimila henni að ráðast í framkvæmdir, ef það er talið heppilegt, í stað þess að æða út í eitthvert fen að lítt rannsökuðu máli. Hitt er aðeins til að heimska sig á, að skipa ríkisstj. að framkvæma verk, sem ef til vill er ekki unnt að framkvæma. Hv. þm. Siglf. ætti ekki sem fyrrv. atvmrh. að láta sér sæma að koma með slíkar áskoranir. Hvaða þm. öðrum en þá honum dettur í hug, að nokkur möguleiki sé á því að hefja byggingu þessarar verksmiðju á næsta sumri, þar sem hvorki er farið að gera nokkrar teikningar af henni né hefja annan undirbúning að byggingunni? Og samt vill hv. þm. setja inn í 1. gr. fyrirskipun um, að byggingin skuli hafin á þessu ári.

Sem sagt, ríkisstj. hefur lýst yfir því, að hún muni ráðast í þá framkvæmd, sem hér um ræðir. ef það reynist hægt við nánari rannsókn. Það látum við okkur nægja, sem viljum, að málið nái fram að ganga. Ég efast ekki um, að almennur vilji er fyrir þessari verksmiðjubyggingu, ef rétt er talið frá þjóðhagslegu sjónarmiði að reisa hana. Til huggunar hv. þm. Siglf. vil ég segja það, að ég er því eindregið fylgjandi, að rannsóknum verði hraðað svo fyrir næstu áramót. að framkvæmdir geti hafizt árið 1949, ef rannsóknirnar hafa leitt í ljós, að heppilegt er talið að ráðast í þetta. Og er þá ekki betra að bíða í nokkra mánuði og rasa ekki um ráð fram. Þannig hugsa þeir, sem vilja tryggja fyrirtækið fjárhagslega, um leið og ráðizt er í það. Ríkisstj. þarf m.a. að athuga gjaldeyrismöguleikana. Það þarf 7–8 millj. í erlendum gjaldeyri, og það þarf að athuga, hvort það fé fæst af tekjum þjóðarinnar eða taka þarf það að láni. Svo þarf aðrar 7–8 millj. fyrir innlenda vinnu, og athuga þarf. hvort þær þarf að taka að láni í Landsbankanum eða hvort hægt er að leggja þær til hliðar af tekjum ársins. Hv. þm. Siglf. talaði svo spaugilega um peningamálin í þessu sambandi, að mér datt í hug grein, sem ég las um Hitler einu sinni, þó að annars sé ólíku saman að jafna, en þar segir, að ráð Hitlers til að leysa peningavandræði hafi bara verið að láta alltaf prenta meiri og meiri peninga. Ég álít nú raunar ekki, að prenta þurfi nýja peninga vegna þessarar verksmiðju. Ég álít, að við höfum nægilegt fjármagn til að standa undir innlenda kostnaðinum, en það er meira vafaatriði með erlenda gjaldeyrinn; það eru margar dýrar framkvæmdir á döfinni á næstu árum.

Ég held nú, að hv. þm. Siglf. ætti að láta sér nægja, að þetta frv. verði samþ. sem heimildarlög. Og í sannleika sagt býst ég við, að hann væri jafnnær, þó að till. hans væri samþ. Því að þótt hann fengi till. sína samþykkta, væri jafnvafasamt, að unnt væri að framkvæma hana, eins og þó að hún hefði aldrei verið samþykkt. Það liggur fyrir yfirlýsing frá ríkisstj. um, að ráðizt verði í byggingu þessarar sementsverksmiðju, ef talið sé þjóðhagslega rétt að gera það. Þessu máli er fylgt eftir með þunga, og ríkisstj. hefur hvorki vilja á að svæfa það né sér sér það fært. Og ég er á sama máli og hv. þm. Siglf. um, að þetta fyrirtæki eigi að setja á stofn, og það sem fyrst, þegar fullnaðarúrskurður hefur verið felldur um það, að það sé þjóðhagslega rétt að ráðast í það.