15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er, eins og hv. þm. munu sjá, flutt í því skyni að afla stj. heimildar til að taka lán, allt að 15 millj. kr., innanlands eða erlendis, til kaupa á tækjum til síldarvinnslu.

Þótt síldveiði hafi oft verið hér við Faxaflóa, kom mörgum á óvart sú síld, sem var hér s.l. haust. Þ.e.a.s., sú mikla gengd. síldar, sem var, kom á óvart, enda þótt menn byggjust við, að nokkur síldveiði kynni að verða eins og árin þar á undan. Hér þarf ekki að rekja þá sögu. Það var leitazt við af hálfu stjórnar síldarverksmiðja ríkisins að gera allt það, sem tiltækilegt væri til að hagnýta þessa veiði, því að öllum bar saman um, að þess yrði að freista í lengstu lög. Nú var það svo, að hér í grennd var verksmiðjukostur lítill. Það var að vísu verið að byggja verksmiðjur hér við flóann, t.d. fiskimjölsverksmiðju á Akranesi, í Keflavík og í Njarðvíkum, og enn fremur var flutt nokkuð af síld til Patreksfjarðar til vinnslu þar. En þetta kom ekki að nægu haldi, og kom fljótt að því, að sigla varð með síldina um þennan erfiðasta tíma ársins til Siglufjarðar.

Þetta hefur orðið mjög dýrt, svo dýrt, að allar líkur eru fyrir því, að síldarverksmiðjur ríkisins beri mjög skarðan hlut frá borði. Hins vegar var það svo, að ef ekki hefði átt að greiða sjómönnum nema það verð, sem öruggt var, að ekki væri of hátt fyrir síldarverksmiðjur ríkisins, sem sé svo öruggt væri, að þær bíða ekki tjón, þá er búið við, að sumir þeirra, sem stunduðu síldveiðarnar, og kannske allir hefðu séð sitt óvænna, þannig að þeir hefðu talið sig bera of litið frá borði, og þannig hefði mátt svo fara, að síldveiðarnar hefðu ekki notazt svo sem varð.

Nú er það hins vega r vitað mál, að þótt þær ráðstafanir, sem gerðar voru, væru nokkuð miklar, komu þær ekki að haldi til þess að bjarga nema hluta af veiðinni, og þrátt fyrir mikinn skipakost varð að grípa til þeirra úrræða að safna síldinni í bing.

Sá kostnaður, sem í því fólst að flytja síldina norður, hefur að miklu leyti orðíð að greiðast í erlendum gjaldeyri, þar á meðal mikið í dollurum, því að eins og vitað var, voru stærstu flutningaskipin amerísk og þurfti að gjalda þeim í þess lands mynt.

Nú er mikill undirbúningur í aðsigi um að stækka síldarmjöls- og fiskimjölsverksmiðjuna á Akranesi, enn fremur í Keflavík, og svo er undirbúningur hafinn undir það að byggja síldarverksmiðju í Reykjavík sjálfri. Þar fyrir utan hefur verið stofnað félag með þátttöku ríkisins og Reykjavíkurbæjar til að kaupa síldarbræðsluskip, og er ætlunin að láta í þetta skip vélar, sem hafa verið keyptar til landsins og búið er að inna af hendi gjaldeyrisgreiðslur fyrir. Þessar vélar eru nú eign Óskars Halldórssonar útgerðarmanns, og ætlar hann að gerast einn þátttakandinn í þessum félagsskap eða er orðinn það, eftir því sem ég bezt veit.

Eins og eðlilegt er, þarf mikinn undirbúning til þess að afla þeirra véla, sem þörf er á, bæði í landverksmiðjurnar, sem stækka á, og svo í hið væntanlega síldarbræðsluskip, og eru horfurnar ekki vænlegar, utan hægt sé að gera nú innan skamms ráðstafanir til þess að festa kaup á hinum nauðsynlegustu tækjum til þessara hluta. Á hinn bóginn er gjaldeyrisástandið þannig — og þá einkum um þann gjaldeyri, sem kemur þarna til greina, dollarana — að þeir eru ekki fyrir hendi, eins og stendur, til meira heldur en brýnustu þarfa, lífsnauðsynja, og tæplega eða ekki það. En eins og ég hef áður lýst, er talið stórhættulegt með tilliti til atvinnu sjómanna á komandi hausti, að það verði beðið með að panta eða smiða þessar vélar, ef þær eiga að vera komnar upp í tæka tíð til þess að verða að gagni, þar sem við allir vonum, að síldin verði með svipuðum hætti hér við Suðvesturlandið og hún hefur verið á síðari árum. Þess vegna þótti ríkisstj. nauðsynlegt að freista þess að fá lán til þessara hluta. Ekki lán til þess að verða eyðslueyrir fyrir okkar daglegu þörfum, heldur að fá lán, sem sérstaklega sé til þess tekið og notað að undirbúa véltækni til atvinnu, bæði á sjó og landi, fyrir væntanlega næstu haustsíldarvertíð og til að ná í nauðsynleg veiðarfæri. Og með þetta fyrir augum er þetta frv. hér flutt.

Ég tel óþarfa að hafa hér lengri formála. Í aths. við frv. er tekið fram allt eða flest af því, sem ég hér hef sagt. Og að öðru leyti er hv. þdm. svo vel kunn þörfin á því að hafast að í þessum málum og hefja undirbúning í tæka tíð, að ég þarf ekki, að ég hygg, að lýsa þeirri þörf frekar en ég nú hef gert.

Ég vil svo mælast til þess, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.