09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

161. mál, bifreiðalög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Allar þær breytingar, sem felast í þessu frv., virðast til verulegra bóta frá því, sem nú er í l. Ég sé því ekki annað en ég geti fylgt frv. með mjög góðri samvizku.

Það hefur ýmislegt dregizt hér inn í umræðurnar, er hnígur að því, að um sé að ræða lélegt eftirlit með gildandi bifreiðalögum, einkum hvað bifreiðaakstur snertir, og er það hverju orði sannara. Ég hygg, að í færri tilfellum sé ekið með leyfilegum hraða, og á það ekki sízt við Reykjavík. Það mun vera rétt hjá hv. 1. þm. N–M., að þeir, sem gæta þess að aka með leyfilegum hraða, séu í einna mestri hættu, þannig er eftirlitið eins og með svo margt annað.

Við sjáum það daglega fyrir okkur. og oft á dag, að bifreiðar eru skildar eftir með eitt, tvö eða öll hjól uppi á gangstéttum og bifreiðalögin þannig brotin. Enn eru önnur lögbrot, sem ekki liggja eins ljóst fyrir, en orðrómurinn telur flestum lögbrotum almennari, og það er leynivínsalan í bílum, og gengur þetta svo langt, að heilar bílastöðvar hafa verið bendlaðar við þetta í munni almennings. Nú skal ég ekkert fullyrða um þetta. En mér hefur alltaf þótt einkennilegt, að þetta gæti átt sér stað með lögreglustöðina í hjarta bæjarins, og getur ekki verið um að ræða skort á lagalegri aðstöðu til að uppræta þennan ósóma, heldur ber þetta vott um þann almenna slappleika í eftirliti með framkvæmd laga hér á landi.

Nýlega voru ummæli í Morgunblaðinu um leigubilstjóra og leynivínsölu. Það hefur verið fullyrt, að varla væri hægt að fá leigubíl nema kaupa um leið flösku af bílstjóranum. Þetta hefur þótt heldur ótrúlegt, en í umræddri Morgunblaðsgrein segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta þótti heldur ótrúlegt og varð til þess, að farið var að rannsaka málið. Við þá rannsókn kom í ljós, að sögurnar höfðu við rök að styðjast og allmargir bifreiðarstjórar hafa neitað að aka með fólk, nema um brennivínskaup væri að ræða um leið.“

Mig langar nú til að spyrja hæstv. dómsmrh. ýmissa spurninga í sambandi við þetta: hvort þessi rannsókn hafi verið gerð, hver hafi framkvæmt hana, hvernig hún hafi verið gerð og hvað hún hafi þá leitt í ljós, hverjar niðurstöðurnar séu. Hann vék að því í sinni ræðu, að ekki skorti lagaákvæði um sekt í bifreiðalögunum, heldur væri svo miklum erfiðleikum bundið að afla nægilegra sannana fyrir lagabrotunum. Eftir því, sem Morgunblaðið segir, virðast þær sannanir liggja fyrir í ýmsum tilfellum, og þætti mér fróðlegt að vita nánar um það, sem er að baki þessari frásögn hins virðulega blaðs.