09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

161. mál, bifreiðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér þykir náttúrlega vænt um, að hv. 3. landsk. ber það traust til Morgunblaðsins, að hann telur það jafngilt lögreglurannsókn, og væri óskandi, að hann tryði ýmsu þar betur en hann gerir og eins vel og þessu atriði, og geri ég þá ráð fyrir, að okkur kæmi betur saman en raun ber vitni. Ég skal þá ekki heldur vefengja það, sem í blaðinu stendur, en lýsi yfir því, að mér er með öllu ókunnugt um það og get ekki upplýst það frekar að svo komnu máli. Hitt er svo annað, að ég tek málið til athugunar eða læt athuga það. Ég hef töluvert látið þegar athuga áfengissölu bílstjóra hér í bænum, og án þess að ég láti nokkuð uppskátt um niðurstöður af þeim rannsóknum, þá get ég sagt, að réttir aðilar láta þetta ekki afskiptalaust til lengdar.