02.02.1948
Sameinað þing: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

129. mál, fjárlög 1948

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á s.l. hausti var lagt fram fjárlagafrv. fyrir 1948 og var það með rúmlega 900 þús. kr. rekstrarhalla. Í þessu nýja fjárlagafrv. var yfirleitt gert ráð fyrir sama kostnaði við ríkisreksturinn og verið hafði s.l. ár, en allar verklegar framkvæmdir stórlega lækkaðar. Nú er nýtt fjárlagafrv. komið fram, og eru tekjur þess áætlaðar 60 millj. kr. hærri en á fyrra frv. Rekstrarhalli er áætlaður aðeins lægri, eða rúmar 600 þús. kr., en greiðsluhalli tæpar 27 millj. í stað 20 áður.

Til hvers er þá þessi 60 millj. kr. tekjuaukning ætluð? Er ekki eitthvað af henni ætlað til hækkunar á framlagi til verklegra framkvæmda, sem nú er verið með og aðkallandi er áð reyna að ljúka sem fyrst? Nei. Öll fúlgan gengur til þess að reyna að halda niðri dýrtíðinni og í vexti og afborganir af lausaskuldum ríkissjóðs, og hrekkur þó ekki til, því að þessir 3 liðir eru nú samtals áætlaðir á þessu nýja frv. nálega 65 millj. kr. — Það sjá allir, hvert stefnir. Hinn eiginlegi rekstrarkostnaður ríkisins, dýrtíðarráðstafanir og afborganir og vextir af skuldum eru nú þegar að gleypa allar tekjurnar og ekkert að verða umfram til framkvæmda aðkallandi umbóta. Afleiðingar verðbólgunnar og þeirrar fjármálastefnu, sem hér hefur verið ráðandi fram að síðustu stjórnarskiptum, eru nú að koma betur og betur í ljós á þessu sviði sem öðrum.

Ef litið er á tekjuhlið fjárlagafrv., sést, að eldri tekjuliðir hafa verið hækkaðir í áætlun um nálega 14 millj. kr., en einum nýjum bætt við, þ.e. söluskattinum, sem áætlaður er 19 millj. Ég býst við, að flestir, sem kynna sér þessa tekjuáætlun, verði að viðurkenna, að hún sé svo há, að ekki sé fært að áætla núverandi tekjustofna hærra en gert er. Meira að segja vil ég benda á, að vafasamt er, að áfengistekjurnar fái staðizt áætlun. Sumir telja, að þessar tekjur hafi á s.l. ári verið óeðlilega miklar, og þykir mér ekki ótrúlegt, að einhver hæfa sé fyrir því, þótt ég ætli ekki að fara að ræða eða rökstyðja það hér. En hitt er víst, að ef eitthvað af þeim tillögum, sem nú liggja fyrir Alþ., um takmörkun á sölu áfengis, nær fram að ganga, sem ég vona, þá þýðir ekki að leyna sig því, að slíkt hlýtur að skerða áfengistekjurnar að mun.

Þá má einnig benda á atriði, sem að vísu varðar aðeins greiðslujöfnuðinn, að ekki virðist það lögum samkvæmt að færa rúml. 800 þús. kr. tekjuafgang ríkisútvarpsins þann veg, sem gert er. Þetta er vafalaust af vangá gert og mun verða leiðrétt, en þar með hækkar greiðsluhallinn um þá fjárhæð og verður tæpl. 28 millj. kr.

Samkvæmt framansögðu geri ég hér ráð fyrir, að jafnvel bjartsýnustu menn geti varla gert sér vonir um hærri tekjur en fram eru taldar og að líklegra sé jafnvel, að áætlunin sé ekki alls kostar varleg, miðað við núverandi tekjustofna. Spurningin er þá: Eru þetta nægar tekjur til að fullnægja greiðsluþörf ríkissjóðs? Frv. sjálft svarar þessari spurningu, þar sem það gerir ráð fyrir 27 millj. kr. greiðsluhalla, en ég óttast, að þar með sé ekki öll sagan sögð. Eins og ég tók áðan fram, er halli á rekstraryfirlitinu nálega 600 þús. kr., en ef farið er í gegnum gjaldabálkinn virðist mér, að því miður séu ekki öll kurl til grafar komin. Get ég ekki betur séð en að ýmsar lögbundnar greiðslur, sem erfitt verður undan að komast, séu vantaldar og því aðeins til að blekkja sjálfan sig að taka þær ekki upp eins og ætla verður, að út þurfi að leggja. Annað er ef til vill hægara að leiða hjá sér að einhverju leyti, en þó er þörfin svo mikil og aðkallandi, að ég ætla hér að nefna upphæðir, ef til vill meira frá sjónarmiði brýnustu þarfa en þess, sem kann að reynast fært fyrir ríkissjóð að leggja fram.

Ég skal þá telja upp helztu liðina, sem virðist þurfa að hækka:

Jarðabótastyrkurinn er bundinn lögum. Á frv. er hann áætlaður 21/2 millj. kr. Árið 1947 reyndist hann 3.4 millj., og kunnugir telja, að nú þurfi að áætla hann 4 millj.

Þá er áfallin lokagreiðsla vegna eldri laga um byggingarstyrki í sveitum. Sú upphæð er talin 310 þús., en hefur ekki verið tekin upp.

Samkv. lögum ber að veita styrk til nýrra mjólkurbúa. Það er vitað, að á ríkissjóð eru áfallnar kröfur í þessu efni. Engin fjárhæð er tekin upp, en virðast ekki mega vera lægri en var á fjárl. 1947, kr. 400 þús.

Til vegaviðhalds var 1946 varið rúmlega 111/2 millj., 1947 rúml. 13 millj. Á s.l. ári bættust við meira en 500 km langir þjóðvegir, sem sennilega þurfa nú meira viðhaldsfé en s.l. sumar. Sjálfsagt verður að reyna að draga úr þessum mikla viðhaldskostnaði, en tæplega get ég hugsað mér, að minna hrökkvi til en 11 millj., og er það 2 millj. kr. hækkun.

1947 var lögum samkv. lagt til sýsluvegasjóða 4 millj. kr. Fjárveiting í þessu skyni er nú áætluð 1/2 millj. Reynslan hefur sýnt, að ekki þýðir að áætla minna en leggja varð fram s.l. ár. Þessi liður þarf að hækka um 1/4 millj.

Á frv. er lagt til að verja 3 millj. til nýrra vega í stað tæpl. 7 millj. s.l. ár. Það er alveg vonlaust, að hægt verði að komast af með þessa fjárhæð, jafnvel þótt ekki væri reiknað með lagningu vega á hinum nýju leiðum, .sem teknar voru í þjóðvegatölu s.l. ár. Til brúargerða er áætluð ein millj. kr. í stað tæplega 21/2 millj. s.l. ár. Til hafnargerða og lendingabóta 31/2 millj. í stað 6.3 millj. s.l. ár. Þá er ætlað til sveitasíma tæp 1/2 millj. í stað 1 millj. s.l. ár.

Hér er um svo stórkostlegan niðurskurð að ræða á þeim verklegu framkvæmdum, sem að framan eru taldar, að ég tel slíkt algera neyðarráðstöfun, sem ekki komi til greina fyrr en að betur athuguðu máli, og mun ég koma nokkuð að því síðar. Ég tel ríflega fjárveitingu til vega- og símalagninga í sveitum eitt af frumskilyrðum þess, að fólkið geti haldizt þar við. Fáliðaðir eða einyrkja bændur eru dæmdir til að yfirgefa jarðir sínar, ef þeir eiga enn um langa framtíð að flytja að og frá búum sínum á klökkum og þurfa ætíð um langan veg að fara til þess að reka erindi sín við sveitunga eða þá verzlun, sem við er skipt. Þetta veit ég, að bæjafólkið skilur vel, sem telur sér það bráða nauðsyn að hafa einn eða fleiri síma í svo að segja hverju húsi og steyptar gangstéttir og malbikaða vegi til umferðar.

Sama er að segja um hafnargerðir og lendingabætur. Að þeim er nú unnið á mörgum stöðum, og framhald þeirra og nokkrar nýjar aðkallandi framkvæmdir mundu sennilega þarfnast 12–15 millj. kr. framlags, ef vel ætti að vera, en slíkt er auðvitað vonlaust. En viða mun ekki hægt að stöðva framkvæmdir, bæði af því, að á þessu stigi koma þær ekki að liði, og eins af hinu, að það, sem búið er að gera, er þá eyðileggingunni undirorpið. Sums staðar verður líka að halda áfram vegna þess, að stækkandi bátafloti byggðarlagsins getur annars ekki haldizt við í heimahöfn, og svona má halda áfram að telja upp ástæður.

Mér þætti ekki ósennilegt, að menn kæmust að þeirri niðurstöðu, að erfitt sé að komast hjá að hækka fjárframlagið til vega, brúa, sveitasíma og hafnargerða og lendingabóta um minnst 8 millj. kr.

Þá kem ég að fjárframlögum til skólabygginga. Um það má deila, af hvað mikilli fyrirhyggju í þær byggingar hefur verið ráðizt. Er talið, að ef ætti að fullnægja fjárþörfinni svo að segja eingöngu vegna skólahúsa, sem byrjað er á, mundi þurfa meira en milljónatug á þessu ári. Slíkt getur auðvitað ekki komið til mála, en illt er og nærri frágangssök, að ekki sé hægt að koma þeim byggingum undir þak, sem ekki eru nú svo langt komnar, og stöðva þá heldur framkvæmdir á því stígi, ef nauðsyn ber til, og eins verður að keppa að því að ljúka þeim byggingum, sem lítið vantar á, að séu nothæfar. — Er gizkað á, að til þess að ná þessu marki sem víðast þurfi að hækka fjárveitingu til barna-, alþýðu-, húsmæðra- og gagnfræðaskóla um 1–2 millj. kr.

Til nýrra raforkuframkvæmda er áætlað 1 millj., en kunnugir menn þeim málum telja, að ómögulegt sé að komast af með þá upphæð vegna þeirra framkvæmda, sem nú standa yfir. Þá má benda á þá staðreynd, að einlægt bætast fleiri eða færri liðir á útgjöldin í meðferð þingsins. Getur því farið svo, að þing og stjórn verði að horfast í augu við möguleika á 16–18 millj. kr. rekstrarhalla og allt að 45 millj. kr. greiðsluhalla.

Þetta er óglæsileg útkoma, og ég veit, að hæstv. fjmrh. segir: Svona er ekki hægt að afgreiða fjárl., — og er ég honum sammála um það. En það er heldur ekki hægt að afgreiða fjárlagafrv. óbreytt. Áður en lengra er farið, vil ég taka það fram, að þessi athugun mín í sambandi við fjárlagafrv. er ekki gerð til þess að deila á hæstv. fjmrh., heldur er hún tilraun til að bregða upp raunhæfri mynd af þeim erfiðleikum, sem við er að stríða við meðferð málsins. Hæstv. ráðh. hefur ekki átt margra kosta völ og engra góðra, þegar hann hefur verið að reyna að skila fjárlfrv. sem næst rekstrarhallalausu í hendur Alþingi. Ég held, að það hafi verið vonlaust verk, eins og allt var í pottinn búið.

Ég sagði áðan, að það væri að mínum dómi ekki hægt að afgreiða frv. eins og það liggur fyrir. Ég tel m.a. ekki hægt á þessu ári að skera svona mikið niður allar verklegar framkvæmdir. Hins vegar þýðir ekki að leyna sig því, að svo er nú komið fjárhag ríkisins, að ókleift kann að reynast að fá sumar þær fjárhæðir, sem ég hef nefnt. Þá má vera, að gjaldeyrisskorturinn komi þar einnig til greina. Eins og allir vita, er nú svo komið, að allar innistæður okkar erlendis eru upp eyddar, og við byrjum þetta ár með erlendar skuldir vegna vörukaupa. Við verðum því nú þegar að sætta okkur við að horfast í augu við þá beisku og illu staðreynd að láta okkur framvegis hrökkva til allra þarfa þann gjaldeyri, sem við fáum fyrir útflutningsvörur okkar, og í ár göngum við inn í þetta tímabil með skertar gjaldeyristekjur ársins vegna skulda erlendis. Það er illt til þess að vita og illf að sætta sig við, en þetta er eðlileg afleiðing heimskulegrar og ábyrgðarlitillar gjaldeyrissóunar undanfarinna ára, sem lamar nú allar eðlilegar framkvæmdir, og mun það eiga eftir að koma betur í ljós en orðið er. — Ég veit, að fleira kemur til greina í sambandi við verklegar framkvæmdir en greiðslumöguleikar ríkissjóðs og gjaldeyrisgetan, að því leyti sem erlent efni þarf til framkvæmdanna. Það þarf líka að beina vinnuaflinu yfir til undirstöðuatvinnuveganna og eitthvað af því fólki á sjálfsagt strax að koma úr þeim hópi, sem nú hefur um skeið unnið að margs konar framkvæmdum ríkis, bæjar- og sveitarfélaga, en það eru takmörk fyrir því, hvað breytingin getur verið ör. — Þeirra hluta vegna er ekki hægt að hlaupa frá öllu hálfloknu, en auðvitað verður að taka tillit til fjárfestingargetunnar. Þetta fólk á líka að koma víðar að og það nú þegar. Eitthvað mun vera af fólki við ýmiss konar þýðingarlitinn og óþarfan iðnað, sem gott og réttmætt væri, að hyrfi að meiri þjóðnytjastörfum. Þá mætti af sömu ástæðu vænta fólks frá verzluninni og úr alls konar braski og milliliðastörfum, og sumir telja, að að skaðlausu gæti það opinbera misst álitlegan hóp frá skriffinnskuborðum sínum.

En hverfum aftur að fjárlagafrv. Ég þykist hafa sýnt fram á, að Alþ. þurfi að horfast í augu við allt að 18 millj. kr. rekstrarhalla og 45 millj. kr. greiðsluhalla. — Einhver kann að segja: Jafnið rekstrarhallann með nýjum tollum og sköttum, og takið lán til að standa straum af greiðsluhallanum. — Um nýja tolla og skatta eða hækkun á þeim, sem fyrir eru, ætla ég að leiða hjá mér að ræða, enda vænti ég, að flestum þyki orðið nóg sem komið er, og ábyggilega þarf nokkra hugkvæmni til þess að finna viðunandi leiðir í því efni. Sannleikurinn mun líka vera sá, að menn munu nú senn fá ærið íhugunarefni að finna viðbótartekjur til að fylla í þau skörð, sem fljótlega er hætt við að komi í þá tekjustofna, sem nú er byggt á og sumir þegar farnir að rýrna, eins og t.d. vöru- og verðtollur.

Af þessu má sjá, að ekki er lengi úr þessu hægt að halda áfram á sömu braut, að bæta einlægt við nýjum og nýjum útgjaldapóstum og taka á móti tekjur með hækkandi tollum og sköttum, og verður því nú þegar að gera öflugar ráðstafanir til að lækka hin eiginlegu rekstrargjöld sjálfs ríkisins og fyrirtækja þess. — Þessa staðreynd verður nú Alþ. og ríkisstj. að horfast í augu við. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fyrrv. ríkisstj. sætti oft hörðum og réttmætum ádeilum fyrir það, hve henni var oft ótrúlega sýnt um að eyða stórum fjárfúlgum í einn og annan óþarfa, en sem betur fer, mun nú öllu slíku meira stillt í hóf. Sama er að seg,ja um aðgerðir fyrrv.ríkisstj., hvað viðkom fjölgun starfsmanna, og sérstaklega er hún fræg fyrir það fyrirkomulag, sem hún innleiddi með eftirvinnugreiðslum og óeðlilega stuttum daglegum starfstíma allra þeirra, sem eru í opinberri þjónustu. Hafa þessi tvö síðustu atriði orðið að fótakefli viðunandi rekstrarafkomu einnar stærstu ríkisstofnunarinnar. Hefur verið gripið til þess úrræðis að hækka öll gjöld, sem þessi stofnun tekur fyrir þjónustu sína, og almenningur þannig orðið að borga brúsann. Það er víða aðgerða þörf, þegar um það er að ræða að spara í ríkisrekstrinum. Ég veit, að það er léttara að koma á dýru og óheppilegu starfsfyrirkomulagi í hvaða stofnun sem er en að kippa því aftur í lag. Slíkt tekur oft lengri tíma en ætla mætti, bæði að finna heppilegustu breytingar til bóta og að framkvæma þær svo. Þessa og sennilega fleiri afsakanir hefur hæstv. ríkisstj., sem rétt er að hafa í huga, þegar ég eða aðrir finna að því, hve seint gangi með aðgerðir í sparnaðarátt.

Tvennt er þó það, sem mér virðist liggja ljóst fyrir, að hæstv. ríkisstj. verði að gera án frekari tafa, þ.e. afnám eftirvinnureglugerðar þeirrar, sem margar stofnanir greiða nú aukalaun eftir, og eins að setja lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þar sem þeim m.a. væri gert að hafa daglegan vinnutíma lengri en nú er. Hæstv. stjórn verður alvarlega að gæta þess að sýna ekki óeðlilegan drátt um raunhæfar aðgerðir í þessum málum, annars á hún á hættu að þurfa að liggja undir ámæli fyrir að bæta ekki úr því ráðleysi, sem fyrrv. ríkisstj. m.a. henti í þessum efnum, og því fremur sem fjárhagur ríkissjóðs þolir nú enn síður ýmiss konar ofrausn og eyðslu, sem minna var fengizt um, meðan alls staðar var til fjár að grípa.

Meðal þess, sem mér virðist hæstv. stjórn verða að vinna að með eins miklum hraða og mögulegt er, enda víst að einhverju leyti þegar í athugun, er:

1. Fækka starfsmönnum, þar á meðal í utanríkisþjónustunni, og þá fyrst og fremst á Norðurlöndum.

2. Einfaldara starfskerfi ásamt aukinni tækni, sem um leið ætti að gera fært að fækka enn meir starfsmönnum í opinberum skrifstofum og hjá ríkisstofnunum.

3. Niðurlagning launaðra nefnda, og mun nú eitthvað vera byrjað á því.

4. Setja lög, sem óheimila öllum opinberum stofnunum að fjölga starfsmönnum nema með t.d. leyfi fjmrh.

Tillögur til sparnaðar í opinberum rekstri eru ekki nýtt mál. Fjvn. og einstakir þm. hafa oft á undanförnum árum vakið athygli á, að við hefðum ekki efni á að sóa þannig fé né mannafla, eins og gert hefur verið, en þrátt fyrir það hafa lög eftir lög verið samþykkt um stofnun nýrra embætta, sem í byrjun hafa oft að vísu ekki verið talin sérlega kostnaðarsöm, en margt hefur svo hjálpað til, að kostnaðurinn hefur ótrúlega fljótt aukizt og margfaldazt. Vill oft svo verða, að ýmsum finnist árangur af störfunum vera í öfugu hlutfalli við aukinn kostnað. — Þá eru talin dæmi til þess, að ríkisstofnanir hafi verið svo ákafar í að fjölga starfsliði sínu, að þess hafi ekki einlægt verið gætt jafnhliða, hvort hinn nýi starfsmaður eða menn gætu fengið viðunandi vinnuaðstöðu innan þeirra veggja, sem stofnunin hafði til umráða.

Það mun vera síendurtekin krafa allra fjárveitinganefnda, sem starfað hafa um mörg undanfarin ár, að hún fengi í sínar hendur launa- og starfmannaskrár, svo að nefndin gæti á hverjum tíma fylgzt með þróuninni í þeim málum. Núverandi fjvn. hefur margítrekað þessa sömu beiðni og jafnframt óskað þess, að skýrslan sýndi, hve mikill hluti launanna væn eftirvinnukaup. Þetta hefur ekki frekar venju borið árangur. Verður að segja, að það gengur hneyksli næst, að fyrir Alþ. ár eftir ár sé haldið svona löguðum upplýsingum, sem eru undirstaða þess, að heilbrigðu aðhaldi verði við komið í þessum málum. Fyrir stríð átti Alþ. aðgang að svona skýrslum og þótti nauðsynlegt. Eins og þróunin hefur síðan orðið í starfsmannahaldi og launagreiðslum, þá eru þær nú alveg óumflýjanlegar. Til þess að kippa þessum sjálfsagða hlut í lag er því ekki annað sjáanlegt en að setja verði lög um, að hverju fjárlfrv. skuli fylgja slík sundurliðuð skrá yfir starfsmannahald og launagreiðslur hjá öllum opinberum skrifstofum og ríkisfyrirtækjum.

Eins og komið er, geri ég mér ekki neinar vonir um, að hægt verði við samþykkt þessara fjárl. að reikna með teljandi sparnaði á ríkisrekstrinum í þeim greinum, sem ég hef hér gert að umtalsefni. Annað mál er það, að hæstv. ríkisstj. mun væntanlega eftir sem áður reyna að framkvæma á þessu ári allan hugsanlegan sparnað, m.a. með afnámi eftirvinnu og lengingu vinnutíma. Verður svo jafnframt að vænta þess, að rösklega verði unnið að athugun og undirbúningi frekari sparnaðar, sem ríkisstj. mun og hafa haft í huga með skipun svokallaðrar sparnaðarnefndar. Kann ég ekkert frá störfum hennar að segja, en allir nefndarmennirnir munu vera opinberir starfsmenn, sem viðbúið er að séu hlaðnir öðrum störfum. Hygg ég, að óumflýjanlegt sé fyrir hæstv. ríkisstj. að breyta að einhverju leyti til og setja í n. eitthvað af mönnum, sem ekki hafa öðru að sinna en þeim verkefnum, sem fyrir n. liggja.

Ef það er rétt, að ekki sé að vænta teljandi sparnaðar í ríkisrekstrinum á þessu ári, er augljóst, að útgjöldin verða ekki þann veg færð niður, svo að fullnægjandi sé. Reynist það svo, að ekki verði hægt að afla nýrra tekna til að mæta fyrirsjáanlegum rekstrarhalla eða þá að slíkar tekjur hrökkvi ekki til, þá virðist ekki nema ein leið eftir og hún engan veginn góð, þ.e. að færa eitthvað niður kröfurnar um hækkun fjárveitinga til aðkallandi verklegra framkvæmda, jafnframt því að hlutfallsleg lækkun eigi sér stað á ýmsum öðrum gjaldaliðum fjárl., svo sem fjárframlögum samkv. ýmsum þeim lögum, sem leggja ríkissjóði gjaldabyrðar á herðar. Með öðrum orðum, að samþykkt væri takmörkuð frestun á framkvæmd þeirra laga.

Setjum nú svo, að á þennan hátt verði hægt að færa útgjöldin svo niður, að hægt verði að afgreiða rekstrarhallalaus fjárl., sem ekki verður heldur undan komizt, þá er eftir að sjá við þeim greiðsluhalla, sem ráðgerður er í fjárlfrv. Mér skilst, að þær greiðslur, sem valda þessum halla, verði ekki inntar af hendi nema með öðru af tvennu eða hvoru tveggja, rekstrarafgangi, sem kæmi fram við, að tekjur færu verulega fram úr áætlun, eða þá lántökum. Vonir um, að tekjur ársins fari fram úr þeirri áætlun, sem fyrir liggur, ætla ég ekki frekar að ræða, enda mun það svo, að þeirra mundi þá gjarnan þörf, því að fæstum fjármálaráðherrum mun hafa tekizt að halda útgjöldunum svo niðri, að ekki hafi þurft eitthvað að fara fram úr áætlun, og einlægt má búast við, að til falli óhjákvæmilegar greiðslur, sem ekki hefur verið ráð fyrir gert. Á þetta bendi ég, án þess að vilja þar með draga úr þeirri kröfu, að öllum slíkum umframgreiðslum verður að stilla miklu meira í hóf en gert var í tíð fyrrv. stjórnar. En hverfum aftur að greiðsluhallanum. Ef svo reynist, að Alþ. og ríkisstj. sýnist rétt að draga ekki úr greiðsluhallanum með því að lækka eitthvað framkvæmdaútgjöldin á 20. grein, þá er útlit fyrir allt að 28 millj. kr. halla, sem gera verður ráð fyrir að jafna með lánsfé. Er þá komið að skuldamálum ríkissjóðs og lántökumöguleikum.

Hæstv. fjmrh. hefur nú farið inn á það mál og vafalaust stuðzt þar við nýjustu upplýsingar. Hins vegar byggi ég á tölum frá því í byrjun desember s.l. Mismunur sá, sem kann að koma fram, sýnir þá breytingarnar, sem átt hafa sér stað frá þeim tíma til þessa dags. Í byrjun s.l. des. voru lausaskuldir ríkissjóðs við Landsbankann (ég tala hér ekki um föst umsamin lán) sem hér segir: Yfirdráttur á hlaupareikningi í eigin þarfir nálega 351/2 millj. Sams konar skuldir vegna ýmissa ríkisfyrirtækja nálega 11.3 millj. Skuldir vegna togarakaupa tæplega 16 millj., vegna byggingarframkvæmda síldarverksmiðja síðustu ár tæplega 14 millj. Samkvæmt þessu voru þá skuldirnar við Landsbankann í s.l. des. meira en 76.5 millj. kr. Af þessu er gert ráð fyrir, að skuldir vegna togarakaupa verði greiddar af togaraeigendum, jafnóðum og hin nýju skip koma til landsins, og virðist þá ríkissjóður þurfa að svara fyrir meir en 60 millj. kr.

En með þessu er ekki allt búið. Á ríkissjóði hvíla auk þessa eftirtaldar kröfur:

Óloknar fiskábyrgðargreiðslur frá 1947 nálega 18–20 millj. Tillag til ræktunarsjóðs 10 millj., tillag til landnámssjóðs 5 millj., stofnlánadeildin 30–40 millj. og að síðustu kreppulán síldarútvegsins 1947 5 millj. Þessar upphæðir nema samtals 70–80 millj. kr. Það munu því vera nálega 130–140 millj., sem hvíla á ríkissjóði, ýmist sem lausaskuldir fallnar í gjalddaga, ógreiddar kröfur, sem einnig eru áfallnar, og ófullnægðar skuldbindingar um fjárframlög eða fjárútvegun í þarfir opinberra lánsstofnana. Og af þessari fúlgu eru yfir 80 millj., sem sennilega verða allar, eins og komið er, að teljast skuldir ríkissjóðs.

Það virðist því svo, að hæstv. ríkisstj. eigi erfitt verk fram undan, þar sem hún þarf að útvega ríkissjóði lán, sem nema nálega 80 millj. króna, til þess að hægt sé að koma lausaskuldum ríkisins fyrir á viðunandi hátt, og auk þess að útvega ýmsum lánsstofnunum 40–50 millj. Þar við bætist svo lánaþörf ýmissa fyrirhugaðra framkvæmda lögum samkvæmt. Ekki verður nú sagt, að glæsileikanum sé fyrir að fara í þessu efni, og samt leyfa sumir sér að halda því fram, að erfðasyndin sé ekki til.

„Loftarðu þessu, Pétur?“ var eitt sinn sagt í öðru tilefni. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því, hvort ríkisstj. tekst að útvega þessi lán, og svo ekki síður hinu, hvort ríkissjóður rís undir þessum böggum og ef svo þarf að bæta þar á ofan vænum skuldapinkli vegna þessara fjárl. Og svo koma lögboðnar ábyrgðir, sem geta valdið ófyrirsjáanlegum útgjöldum. Hvað sem öðru líður, virðist hér koma skýrt í ljós, að ekki sé hægt að ganga lengra á þeirri braut, að fleyta ríkissjóði sífellt áfram á þann hátt, sem orðið hefur að gera að undanförnu. Auðvitað verður að finna ráð til þess að skipuleggja lánamarkaðinn þann veg, að hægt sé að koma þessum hálfgerðu óreiðuskuldum svo fyrir í föstum lánum, að við megi una. Er þetta engan veginn létt verk, þar sem erfitt kann að vera að binda í löngum ríkislánum svo mikið af því fé, sem bankarnir hafa nú yfir að ráða. — Þessar skuldir ríkissjóðs eru meðan þeirra spora, sem í ljós eru komin eftir hrundans fyrrv. stjórnar, spor, sem lengi eiga eftir að hræða, spor, sem þessi kynslóð og þær næstu eiga eftir að bera margar drápsklyfjar í, áður en upp eru fyllt.

Ef til vill hugsar einhver sem svo: Fár bregður því betra, ef hann veit hið verra. — Það skiptir svo litlu máli í þessu sambandi, þótt fyrrv. stjórn hafi viljað eitthvað vel gera. —Stjórnarstefnan — hennar vöggugjöf og veganesti — var þann veg, að allt, jafnvel í eðli sinn góðir hlutir, hlaut að snúast í höndum hennar til verri vegar en til var ætlazt, og því fór sem fór.

Það yfirlæti og Börsonsbragur, ásamt barnalegri bjartsýni, sem einkenndi fyrrv. stjórnarstefnu, gat ekki góðri lukku stýrt. Það var ekki verið að gá til veðurs, þótt vitað væri, að margar blikur væru á lofti og allra veðra von, og varnaðarorð annarra voru að engu höfð. Verðbólgan og fylgifiskar hennar fengu óhindrað að grafa undan fjárhag þjóðarinnar. Þeirri villutrú var haldið að mönnum, að dýrtíðin væri harla góð og meðal annarra kosta hennar væri, að hún jafnaði þjóðartekjunum meðal þegnanna, eins og æfð hönd dreifir áburði á völl. — Afleiðingar þess, hvernig haldið var á fjármálum þjóðarinnar er nú að verða öllum hugsandi mönnum ljós. Allur erlendur gjaldeyrir er þrotinn og allt heilbrigt atvinnulíf í rústum. Með fjárframlögum úr ríkissjóði og alls konar skuldbindingum langt fram yfir raunverulega getu hefur verið og er reynt að halda öllu á floti. Hinn eiginlegi rekstrarkostnaður ríkisins og önnur útgjöld hafa hækkað ár frá ári og miklar umframtekjur hafa horfið jafnóðum að sumu leyti í útgjaldahít misheppnaðra fjármálaævintýra. Á veltiárunum gat ríkissjóður því aldrei safnað neinum varasjóðum til lakari ára, heldur skuldum, en „lifið“, eins og sumir mundu orða það, hefur sífellt kallað á meira og meira fé. Tollar hafa verið stórhækkaðir og á allan hátt reynt að seilast sem dýpst í vasa borgaranna. Áfengi og tóbak hefur verið gert að meiri og meiri féþúfu, en ekkert virðist ætla að hrökkva. Sú kvörn, sem með dýrtíðarskrúfunni var sett í gang, malar og malar yfir okkur fjármálavandræði og upplausn. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur varla haft við að taka á móti arfinum frá fyrrv. stjórn, meðal annars í mynd nýrra og nýrra skulda og fjárkrafna, sem nú hrúgast upp og ógna ríkissjóði með greiðsluþroti. — Það er óhjákvæmilegt að virða fyrir sér afleiðingar fyrrv. stjórnarstefnu og dæma hana hart. Það er ekki hægt að leiða hjá sér að reyna að finna skýringar á því, hvernig nú er komið, og til þess eru vítin að varast þau. Dýrkeypt reynsla liðinna ára verður að vera okkur til varnaðar í framtíðinni. — Dómurinn yfir fyrrv. stjórnarstefnu hlýtur líka að verða þeim mun þyngri sem vitað er, að engin íslenzk ríkisstj. hefur haft slíkt tækifæri til að marka varanleg heillaspor í atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar. Hún glataði þessum tækifærum og skildi eftir fjárhagsleg og bjóðfélagsleg vandamál, sem erfitt verður úr að leysa.

Á s.l. ári voru það margir farnir að sjá, hvert stefndi, et ekki væri breytt um stjórnarstefnu, að kleift reyndist að lokum að mynda núverandi ríkisstj. Verkefnin, sem hún hefur fengið til meðferðar, eru mörg og erfið og kalla á úrlausu sem fyrst, og allt þarf að leysa undir óvanalega erfiðum kringumstæðum, svo erfiðum, að um sókn gat tæplega orðið að ræða til að byrja með, heldur viðnám, viðnám, sem vonandi — með aðstoð allra ábyrgra afla í landinu — er nú að snúast í sókn gegn þeim öflum, sem voru búin að færa þjóðina á flugstigu og eru enn reiðubúin að færa hana fram af, ef tækifæri býðst. Það er hörð og tvísýn barátta fram undan. Framtíðin sýnir, hver leikslokin verða.