12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

129. mál, fjárlög 1948

Jónas Jónsson:

Ég hef leyft mér að bera fram þrjár brtt., og þær eru einfaldar. Ein er um það að færa til innan þess ramma, sem hv. fjvn. hefur gert um vegi í Þingeyjarsýslu, þannig að framlag til Fnjóskadalsvegar, 15000 kr., fari í Kinnarbraut í Aðaldal, til þess að Húsavík geti fengið mjólk úr austurhluta sýslunnar. Þar að auki er þetta liður í framtíðarvegi til Austurlands, vetrarvegi, sem verður þessa leið, en ekki yfir Fljótsheiði. Ég hef talað um þetta við hv. þm. Barð., og hann segir, að fjvn. muni yfirleitt ekki sjá ástæðu til að blanda sér inn í þessa tilfærslu, ef þm. kjördæmanna vilji það þannig hafa.

Önnur brtt., sem ég flyt, er viðvíkjandi Flatey á Skjálfanda. Það hefur verið venja að láta í kringum 3000 kr. í ræktunarveg þar, en það er heldur lítið. Ríkið á þessa eyju, þar búa 80–90 menn, og fólkið lifir aðallega á sjónum, þótt ræktun sé nokkur. Nú er verið að gera þar bryggju, sem gerir mögulegt að stunda útgerð betur. En eyjan er veglaus, og það liggja á bak við þorpið 100 ha. af landi, sem er eitthvert bezta land til ræktunar, sem til er á Íslandi, það þarf ekki annað en setja á það ýtu og bera svo á það. En meiningin með ræktunarveginum er, að búendur geti flutt slorið á þetta ágæta land og notað það sem áburð.

Þriðju till. flyt ég með hv. þm. Árn., hún er viðvíkjandi Geir Sigurðssyni, sem var lögregluþjónn hér lengi, en missti heilsuna í átökunum 9. nóv. 1932. Hann er ekki vinnufær, en hefur fyrir fjölskyldu að sjá. Bærinn veitir honum nokkur eftirlaun, og ríkið veitti honum í fyrra nokkurn styrk í eitt ár, en við leggjum til, að hann fái 2000 kr. á 18. gr. Við lítum þannig á, að í þessu starfi, þar sem hann ekki ráðlagði baráttuna, heldur hlýddi skipun, hafi hann í rauninni komið fram sem ríkislögregla við sameiginlega þjónustu bæjar og ríkis og þess vegna sé sanngjarnt, að ríkið hjálpi honum í hans heilsuleysi eins og bærinn.