19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

129. mál, fjárlög 1948

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég get verið fáorður um þær brtt., sem ég flyt ásamt háttv. 3. landsk. sem hefur rætt þær nokkuð. Mun ég þá fyrst ræða 1. brtt. á þskj. 582, nm fjárveitingu til brúargerða á Selá í Nauteyrarhreppi og Múlaá. Brtt. varðandi Selá átti að hljóða upp á 50 þús., en hefur misprentazt 150 þús. Þetta mun vera með mestu ám á Vesturlandi, og liggja margir bæir að þessum vegi. Og auk þess styttir hann leiðina til Ísafjarðar. Óhjákvæmilegt er að brúa ána, og því fremur sem þegar hefur verið varið nokkru fé til þess. Sama máli gegnir með Múlaá, sem er á þjóðveginum út í Ögur. Höfum við því ekki talið okkur annað fært en flytja þessar brtt.

Þá er 6. brtt. á þskj. 582, um lendingarbætur í Hnífsdal, að framlagið hækki úr 50 þús. í 150 þús. kr. Ég gerði grein fyrir nauðsyn þessarar brtt. við 2. umr. Hugmyndin var að steypa kerin fyrra árið, en fylla þau upp síðara árið, en ef fjárveiting verður ekki hækkuð, er ekki hægt að fylgja þessari áætlun.

Þá flytjum við 10. brtt. á þskj. 582, um breytingu á 15. gr., um 1000 kr. framlag úr ríkissjóði til leikstarfsemi í Bolungavík gegn jafnmiklu framlagi annars staðar frá. Í fjárhagsáætlun Hólshrepps er varið 1000 kr. í því augnamiði að fá lærðan leikara til að æfa leikendur á staðnum. Áhugi á þessu sviði er mjög mikill á þessum stað, og sé ég enga ástæðu til, að þetta litla pláss, sem lagt hefur nokkuð af mörkum á þessu sviði, njóti ekki nokkurs styrks til jafns við aðra staði.

Næsta brtt. er á sama þskj. nr. 18. Á fjárl. 1947 var samþ. að greiða tryggingasjóði sjómanna í Bolungavík 33 þús. kr. Þessi upphæð hefur enn ekki verið notuð, þar eð ekki hefur náðst samkomulag um fyrirkomulag sjóðsins. En nú nýlega hefur náðst samkomulag um breytingu á sjóðnum, og verða því þessir peningar notaðir. Ef þessi samþykkt hefði verið gerð ári fyrr, hefði ríkissjóður orðið að greiða þessa upphæð sem mótframlag við sjómenn. Hér er því ekki farið fram á annað en lögheimild er fyrir. Alþ. hefur fallizt á að leggja fram 33 þús. kr. sem mótframlag við sjómenn og útgerðarmenn fyrir undanfarin ár. Og þessa upphæð verður að greiða. Tryggingasjóður sjómanna í Bolungavík er eini aflatryggingarsjóðurinn á landinu. Og nú fyrst á þessu Alþ. er farið að ræða um að stofna slíkan sjóð fyrir allt landið, og fyrirmyndin er þessi litli sjóður.

Þá er smávegis brtt., að greiða Jóni Magdal, bónda í Engidal í Skutulsfirði, smávegis skaðabót fyrir 12 ára sóttkví. Hefur oft verið leitað til fjárveitingavaldsins af minni ástæðum. Hugsum okkur bónda, sem í 12 ár er bannað að selja framleiðsluvörur sínar. Og væri ekki mikið, þótt honum væri veittur 12 þús. kr. styrkur.

Þá er komið að þeirri brtt., sem við flm. leggjum mesta áherzlu á, að veita 75 þús. kr. til bjargráðaráðstafana í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi. Fjvn. mun vera þessu máli nokkuð kunnug. Séra Jónmundur Halldórsson prestur að Stað í Grunnavík mætti í haust á fundi hjá fjmrh. og skýrði þá þetta mál. Við hv. 3. landsk. höfum nú sýnt fram á það með rökum, að þetta er svo einstakt tilvik, að ekki er hætta á, að það skapi hættulegt fordæmi, þó að þessi fjárveiting sé samþ.

Á þessum stöðum er að gerast saga, sem gerist raunar viðar, en hvergi sem þarna, að heill hreppur þurrkist svo að segja út á J-5 árum, og hið opinbera hlýtur að láta sig það skipta, leitast við að leysa hin félagslegu vandræði, sem af þessu leiðir. Við flm. höfum haft samráð við hæstv. félmrh. og fleiri ráðh. og fundið þar skilning á málinu, og hversu fast sem á að standa saman um till. fjvn., þá vona ég, að þessi bjargráðatill. verði ekki skorin niður við það trog, sem till. einstakra þm. eru oftast nær leiddar að við afgreiðslu fjárlaga.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um till. okkar, en vil þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu hennar á því máli, sem ég lagði aðaláherzlu á við 2. umr., að hafnarsjóði Bolungavíkur yrði gert kleift að standa undir kostnaði þeim, sem hlauzt af skemmdunum á brimbrjótnum, og enda þótt fjvn. orði sína till. sem lán, þá þykist ég þess viss, að við nánari athugun og rannsókn þess máls muni þau atvik koma í ljós, að þetta verði greitt beint úr ríkissjóði, en ekki af fámennu hreppsfélagi, sem hefur lagt í mikinn kostnað vegna útgerðar sinnar. Ég er sem sagt þakklátur n. fyrir þetta og vænti hins sama skilnings af hennar hálfu, þegar aðstæður og atvík verða endanlega rannsökuð.

Ég vil rétt aðeins minnast á XIII. lið á þskj. 582, en ég er meðflm. að þeirri till., það er 15 þús. króna byggingarstyrkur til Nínu Tryggvadóttur listmálara. Ég er hreint hissa á því, hvernig það mál hefur snúizt. Hér á Alþ. hélt ég, að hefði verið orðið fullt samkomulag um þetta í fjvn. Þá birtist hér eitt málverk eftir listakonuna frammí í lestrarsal, en síðan er till. um byggingarstyrkinn tekin aftur og óbyrlegar blæs í málinu. Ég skal ekki leggja neinn dóm á list þessa málara, tel mig ekki fyllilega dómbæran um það, en hitt veit ég, að meðal þjóðarinnar er mikill fjöldi fólks, sem kann að meta list Nínu Tryggvadóttur, þó að hún fari nokkuð ótroðnar slóðir, og einmitt kannske vegna þess. Slíkt gerist í mörgum öðrum löndum og er síður en svo til vansa talið, að fara ekki troðnar brautir. Sumir listmálarar, sem nú ber hæst, eru ekki fjarri því að aðhyllast þá stefnu, sem hún málar eftir, það er mér óhætt að segja. Ég vona, að þm. láti nú ekki draga sig í dilk og snúist ekki gegn þessari fyrirgreiðslu af allt of litlu tilefni. Annars vil ég segja það, að það er talsvert talað um, að listamenn okkar séu nokkuð frekir til fjárins. Það er satt, að hér er töluvert fé veitt til lista, það er hróður þjóðar og þings, og hér er ekki eins mikið um hleypidóma gegn nýjum stefnum og sums staðar annars staðar. Þetta ber vott um frjálslyndi Alþingis og þjóðarinnar, því að í þessu efni býr það inni fyrir hjá þjóðinni, sem Alþ. endurspeglar með stuðningi sínum við listamennina, og því er þess að vænta, að í þessu tilfelli sem öðrum sé vel tekið hér hóflegum beiðnum íslenzkra listamanna.