23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

129. mál, fjárlög 1948

Pétur Magnússon:

Ég mun eigi nota ræðutímann, sem mér er ætlaður, til þess að taka þátt í þeim deilum, sem hér fara fram milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Ég get þó eigi stillt mig um að láta í ljós undrun mína yfir því, hvernig stjórnarandstaðan hagar ádeilum sínum. Þær hafa beinzt fyrst og fremst að því að vita utanríkismálastefnu stjórnarinnar og aðgerðir hennar í sambandi við utanríkisverzlunina. En flestir þeirra, sem eigi hafa fengið austrænt vagl á bæði augu, munu sammála um það, að einmitt í þessum málum hafi stj. bezt tekizt og fyrir afskipti sín af þeim eigi hún því sízt ámæli skilið.

Í þeim fáu orðum, sem ég segi hér, vildi ég lýsa frá mínu sjónarmiði þeirri þróun, sem átt hefur sér stað síðari árin í fjármála- og viðskiptalífi þjóðarinnar.

Það orkar einskis tvímælis, að þjóðin stóð mjög einhuga að þeirri tilraun, sem hófst við stjórnarmyndunina haustið 1944 til að reisa úr rústum og endurskapa atvinnulíf landsins. Þjóðin var enn þá minnug þess ástands, sem hér ríkti á árunum 1934–1939, og hún mátti ekki til þess hugsa, að það endurtæki sig. Hún krafðist nýrra tækja, hún krafðist vinnu handa öllum, sem unnið gætu, og hún gerði raunar einnig að ýmsu leyti meiri kröfur til lífsþæginda en áður hafði verið gert. Var það eðlileg afleiðing hinnar almennu velmegunar, sem fyrst og fremst stafaði af setuliðsvinnunni. Mikil kaupgeta leiðir jafnan til aukinnar eyðslu. Það er óbrigðul reynsla allra alda.

Andstaða þáverandi stjórnarandstöðu gegn nýsköpuninni var ákaflega hjáróma. Var jöfnum höndum deilt á stj. fyrir það, að geyst væri farið, og hitt, að of lítið væri að gert. Það má nú ef til vill segja, að enn þá sé of snemmt að byggja dóma um nýsköpun á þeirri reynslu, sem fengin er. Ýmislegt í sambandi við hana er enn þá í óvissu. Við vitum t.d. ekki, hvort við í framtíðinni getum fengið viðunanlegt verð erlendis fyrir allan þann fisk, sem auðið er að frysta í hinum mörgu og stóru frystihúsum, sem reist hafa verið á undanförnum árum. Og við getum jafnvel ekki fullyrt, að síldinni þóknist að koma í svo stórum torfum að Norðurlandinu, að not verði fyrir hinar stóru og fullkomnu síldarbræðslur, er risið hafa upp. En þannig er með svo margar ráðagerðir vor mannanna. Vér skyggnumst yfirleitt svo skammt inn í framtíðina, að framtíðarætlanir vorar verða yfirleitt að byggjast á líkum, en ekki á fullvissu um réttmæti þeirra. — En hvað sem allri þessari óvissu líður. þá held ég, að fáum skynbærum mönnum geti nú blandazt hugur um það, að í höfuðatriðum var rétt stefnt, þegar hafizt var handa um útvegun hinna nýju tækja. Hitt er svo annað mál, að auðvelt er eftir á að benda á ýmislegt, sem betur hefði mátt fara, og vafalaust einnig á yndislegt ofgert og ýmislegt vangert. En við skulum augnablik reyna að draga upp mynd fyrir hugskotssjónum vorum af því ástandi, sem hér ríkti nú, ef haldið hefði verið að sér höndum og beðið átekta. Það furðulega er, að nú heyrast ýmsar raddir, sem virðast hallast að því, að þessi leiðin hefði verið hin rétta. Þá hefðum vér, segja þessar raddir, átt gilda sjóði í erlendum gjaldeyri, sem vér hefðum nú getað lifað góðu lífi af. En ætli það væri nú alveg víst, að þessi sjóðir yrðu lengi gildir? Líklega er bezt að byggja dóma um það á reynslu sögunnar.

Á árunum næstu fyrir styrjöldina var unnið að því af heilum huga að halda verslunarjöfnuðinum í horfi. Til þess var beitt fyrst og fremst hinum ýtrustu innflutningshömlum. En annað vopn var þó —vafalaust miklu sterkara í þeim átökum en allar innflutningshömlur, og það var hin litla kaupgeta alls almennings. Atvinnuleysi og bláfátækt alls þorra þjóðarinnar, bæði til lands og sjávar, gerði það að verkum, að neyzlan hlaut að verða lítil og innflutningskröfurnar því ekki mjög háværar. En þrátt fyrir þetta hvort tveggja fór þó svo, að erlendar skuldir fóru vaxandi ár frá ári og voru 1939 orðnar alls nálega 100 millj. króna. — Togararnir voru þá, eins og nú, stórvirkustu atvinnutækin, að undanteknum máske síldarverksmiðjunum í góðum aflaárum. En togararnir höfðu gengið mjög úr sér á stríðsárunum. Margir lágu á hafsbotni, og engir nýir höfðu komið í hópinn. Með kaupunum á Svíþjóðarbátunum, sem utanþingsstjórnin hafði forgöngu um, mátti ef til vill segja, að séð væri fyrir viðhaldi — eða vel það — á mótorbátaflotanum, en meira var það naumast.

Hvernig mundi nú hafa farið, ef þessi gömlu og úr sér gengnu framleiðslutæki hefðu átt að sjá fyrir allri innflutningsþörf landsmanna til langframa, eftir að setuliðsvinnan hætti? Eins og kunnugt er, stafaði svo að segja öll gjaldeyrissöfnunin frá henni. Og nú var sú breyting á orðin. að þjóðin bjó yfirleitt við mjög góðan efnahag og gat af þeim ástæðum veitt sér miklu meiri lífsþægindi en áður. Að vísu má segja, að á því hefði fljótt orðið breyting, þegar atvinnuleysið hélt á ný innreið sína. Hitt er annað mál, hve æskileg sú breyting hefði verið. Þegar þessa alls er nú gætt ég það borið saman við aðstæður allar fyrir styrjöldina, sýnist mér eigi geta orkað tvímælis, að fljótt hefði gengið á gjaldeyrisforðann, auk þess sem augljóst er, að atvinnutækin hlutu áframhaldandi að ganga úr sér, ef engu var við bætt, og ástandið því hlotið að fara versnandi ár frá ári.

Nú að undanförnu er því iðulega haldið fram bæði í ræðu og riti, að sá óhagstæði verzlunarjöfnuður, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, stafaði af óhófsinnflutningi. og var seinast að því vikið í umræðunum í gær af hæstv. menntmrh. Ráðh. heggur nærri sinni eigin stjórn með þeim ásökunum, því að aldrei hefur verzlunarhallinn orðið eins mikill og á síðasta ári. En auk þess mætti ráðh. minnast þess, að ekki löngu áður en hann sjálfur fór í stj., réðst hann á fyrrv. stj. fyrir að gefa ekki verzlunina frjálsa. Getur hann athugað sín eigin ummæli um það í Alþt., ef minnið skyldi hafa svikið hann. En tæpast hefði óhófsinnflutningur minnkað við að gefa verzlunina frjálsa. Nei, sannleikurinn er sá, að rausið um óhófsinnflutninginn er að langmestu leyti staðlausir stafir, og að svo miklu leyti sem óþarfavara var innflutt, kom hún frá clearinglöndunum og var leyft einungis vegna stöðugra kvartana um of lítil kaup af okkar hálfu frá hlutaðeigandi löndum, en annað ekki að fá. Skal ég eigi ræða frekar um þetta efni, en leyfa mér aðeins að vísa til ummæla í ræðu, sem hæstv. viðskmrh. hélt 27. maí s.l. Hann mælti á þessa leið:

„En við athugun á því, í hverju hinn aukni innflutningur er fólginn, kemur í ljós, að aukningin er næstum einvörðungu á mjög fáum og nauðsynlegum vörutegundum, eins og eftirfarandi samanburður sýnir:

Innflutningsvörur

1946

1945

Timbur

39.1 millj.

24.1 millj.

Veiðarfæri

7.0 –

3.0 –

Sement

11.7 –

8.0 –

Ódýrir málmar

29.1 –

16.0 –

Vélar og áhöld

36.7 –

20.2 –

Rafmagnstæki

31.8 –

16.6 –

Flutningstæki

33.6 –

14.4 –

Skip

35.7 –

7.7 –

Ýmsar fullunnar vörur

18.3 –

15.5 –

243.1 millj.

125.5 millj.

Innflutningsaukning þessara vörutegunda nemur um það bil mismuninum á innflutningi áranna 1945 og 1946, svo að ásakanir um gjaldeyrissónn í munaðar- og óhófsvörur eru úr lausu lofti gripnar, nema ef vera kynni, að sumir vilji telja bifreiðar í þeim flokki.“

Hygg ég, að þessum ummælum ráðherrans verði aldrei hnekkt með rökum.

Hitt er svo satt og rétt, að allt of mikill gjaldeyrir hefur farið í hinar hóflausu utanfarir Íslendinga á undanförnum árum, og má sjálfsagt með réttu víta fyrrv. stj. fyrir það að hafa verið of svifasein í þeim efnum. Um það má og deila. hvort fyrrv. stj. hefði eigi átt að taka upp skömmtun. Það gat að minnsta kosti vel komið til greina eftir að séð var, að síldarvertíð 1946 mundi bregðast. En um þær mundir var allt starf stj. tekið að snúast um utanríkismálin, og stuttu síðar baðst stjórnin lausnar. Og á það má minna, að núv. stj. tók eigi upp skömmtun fyrr en hún sá úrslit síldarvertíðar, og má því kannske virða fyrrv. stj. til vorkunnar, þótt hún væri ekki viðbragðsfljótari en raun varð á.

Það er þannig allt, sem bendir til þess, að gjaldeyrisinnstæðurnar hefðu fljótlega gengið til þurrðar, þótt dregið væri að afla nýrra atvinnutækja. Hverjar afleiðingar aðgerðaleysi í þessum efnum hefði haft á innanlandsástandið, skal eigi rætt hér. Getur hver sem er hugleitt það með sjálfum sér. Menn mála með dökkum litum það ástand, sem nú ríkir í gjaldeyrismálunum, og sumir láta sér jafnvel um munn fara svo furðuleg ummæli, að ástand í þeim efnum hafi aldrei verið jafnískyggilegt og nú. Hinar gömlu óreiðuskuldir eru allar upp greiddar, svo að segja hver eyrir. Þjóðin er skuldlaus út á við. Hún hefur aflað sér nýrra ágætra atvinnutækja í miklu ríkari mæli en nokkru sinni áður í sögu hennar. Hver verkfær maður hefur næga vinnu við arðbær störf, og jafnvel er skortur á vinnuafli. Ég spyr: Hve margar mundu vera þær þjóðir hérna megin Atlantshafs, sem hafa þó þessa aðstöðu? Hve margar þjóðir eru skuldlausar erlendis? Hve margar þjóðir hafa aukið og bætt framleiðslutæki sín síðan fyrir styrjöld? Hve margar þjóðir í Evrópu hafa aukið húsakost sinn, aukið iðnað sinn, reist sjúkrahús, skóla o.s.frv. í líkum mæli og Ísland? Ég hygg engin.

Þrátt fyrir allt þetta vil ég alls ekki gera litið úr þeim erfiðleikum, sem við er að stríða í gjaldeyrismálunum. En þeir gefa ekki tilefni til örvæntingar. Örðugleikar okkar í gjaldeyrismálunum munu á næstu tímum aðallega liggja í tvennu. Annars vegar mun verða erfitt að fá dollara til þess að greiða þær nauðsynjavörur, sem flytja verður frá Ameríku. Við erum þar undir sömu sök seldir og flestar aðrar þjóðir. Bandaríkin — og raunar Ameríka — hafa að undanförnu verið forðabúr heimsins. En þau flytja lítið inn. Afleiðingin hlýtur að verða dollaraskortur hjá öllum þeim þjóðum, sem verða að sækja nauðsynjar sínar þangað. Er Bretland þar nærtækasta dæmið. Og jafnvel hina auðugu Svíþjóð skortir nú dollara. Úr þessu verður vitanlega ekki bætt á sæmilegan hátt nema oss takist annaðhvort að selja meira af framleiðsluvörum vorum í dollurum eða þá að oss takist að fá meira af nauðsynjavörum annars staðar frá. Skal engu um það spáð, hvort eða að hve miklu leyti það muni takast. Hinir erfiðleikarnir, sem við mun verða að stríða á næstunni, stafa af hinum geysilega mismun, sem er á verðlagi íslenzku krónunnar eftir því, hvort hún er notuð innanlands eða utan. Afleiðingar þess, hve verðgildi krónunnar er lítið inn á við, en tiltölulega mikið út á við. eru þær, að ásóknin í erlendan gjaldeyri verður hóflaus. Þótt reynt sé að reisa strangar skorður við misnotkun í þeim efnum, mun það aldrei takast til fullnustu.

Vér siglum nú hraðbyri inn í „svarta markaðinn“, ekki síður hvað gjaldeyrinn snertir en ýmis vörukaup innanlands. Og mjög þykir mér orka tvímælis sú regla, sem nýlega kvað hafa verið tekin upp að einhverju leyti, að veita innflutningsleyfi fyrir vörum án þess að veita gjaldeyrisleyfi samtímis. Með því er í raun réttri verið að gefa mönnum ávísun á svarta markaðinn, hvetja menn til að verzla á honum. Efast ég um, að það verði affarasælt til langframa. Sannleikurinn er sá, að það getur aldrei blessazt til lengdar að láta verðgildi gjaldeyrisins vera mjög misjafnt eftir því, hvort hann er notaður í landinu sjálfu eða erlendis. Í þessu efni eigum vér aðeins um tvö úrræði að velja. Annaðhvort að auka verðgildi gjaldeyrisins inn á við eða lækka það út á við. Á s.l. hausti var gerð tilraun til að hækka verðgildið nokkuð innanlands. Þótt sú tilraun sé spor í rétta átt og góðra gjalda verð, þá er hún hvergi nærri fullnægjandi. Hér er því mikið vandamál framundan, og skiptir miklu, hvernig úrlausn þess tekst.

En þegar þessi tvö vandamál eru frá tekin, get ég eigi betur séð en að réttmæt ástæða sé til að ætla, að gjaldeyrisástandið geti farið batnandi á næstu árum. Að sjálfsögðu þó því aðeins, að þau atvinnutæki, sem þjóðin hefur aflað sér á síðustu árum, verði notuð með eðlilegum hætti. Þess ber að gæta, að þau hafa langt fram á síðasta ár aðallega haft í för með sér gjaldeyriseyðslu. Það er ekki aðeins, að mikið fé hafi farið til að greiða andvirði þeirra sjálfra, heldur hefur og orðið að verja stórfé til að undirbúa rekstur þeirra. Togararnir útheimta í byrjun mikil veiðarfæri og ýmiss konar útbúnað, mótorbátarnir sömuleiðis og svo mætti lengi telja. En nú fara þessi tæki aftur að skila miklum gjaldeyri. Ef fiskverð helzt í Bretlandi svipað og verið hefur, ætti að mega gera sér vonir um, að hver hinna nýju togara gæti selt ísfisk fyrir allt að 4 millj. kr. á ári. Og þótt það sé mikill misskilningur, sem víða verður vart, að togararnir skili til bankanna svo að segja öllu söluandvirði fisksins, þá er hér þó um stórlega breytt viðhorf að ræða. Nokkuð líku máli gegnir um mörg önnur hinna nýju tækja, sem aflað hefur verið. Þau útheimta í byrjun mjög mikinn gjaldeyri, en eiga svo þegar frá líður ýmist að veifa aukinn útflutning eða spara innflutning, eins og t.d. rafmagnsveiturnar og mörg iðnaðartækin. Að sjálfsögðu kemur þetta ekki allt í einn, og vafalaust verða enn um stund gjaldeyrisörðugleikar. Lágmarksgjaldeyrisþörfin er nú áætluð 400 millj. kr. á ári, og mun reynast fullerfitt að halda henni innan þeirra takmarka. Þegar þessa er gætt, ætti hvert barn að geta séð, hvernig farið hefði, ef ekkert hefði verið aðhafzt um öflun nýrra atvinnutækja. Ég held því, að reynslan hafi þegar sýnt, að rétt var stefnt í þessu efni, þótt játað sé, að sumt hefði mátt betur fara.

Ég hef dvalizt svo lengi við viðskiptamálin, vegna þess hve blygðunarlaust hefur verið reynt að villa þjóðinni sýn í þeim. Það hefur þrotlaust verið reynt að telja þjóðinni trú um, að einmitt þær ráðstafanir, sem hún verður að byggja allar sínar framtíðarvonir á, hafi orðið henni að fótakefli. Eins og það er háskasamlegt að gylla ástandið og reyna að fá menn til að horfa fram hjá örðugleikunum, eins er hitt og óviturlegt, að reyna að telja mönnum trú um, að ástandið sé verra en það raunverulega er. Og sannfæring mín er sú, að það séu sjálfskaparvíti, ef gjaldeyrisskortur verður oss að fótakefli á næstu árum. Kem ég þá að hinu atriðinu, sem ég ætlaði að gera að umtalsefni, þótt ég tímans vegna hljóti að verða stuttorður um það.

Það er ómótmælanleg staðreynd, að atvinnurekstur landsmanna er að ýmsu leyti genginn úr skorðum. Það er orðið langt síðan sú röskun hófst. Fyrstu sjúkdómseinkennin komu í ljós, þegar tekið var að greiða niður verð á landbúnaðarafurðum á stríðsárunum í tíð utanþingsstjórnarinnar. Sú ráðstöfun var gerð engu síður fyrir aðra atvinnuvegi en landbúnaðinn sjálfan. Hún var gerð til þess, að atvinnuvegirnir þyrftu eigi að stöðvast vegna hækkaðrar vísitölu. En síðan gripið var til þessa óyndisúrræðis hefur allur atvinnurekstur landsins að vissu leyti verið rekinn á óheilbrigðum grundvelli. Niðurgreiðslan er og hefur aldrei verið annað en sjálfsblekking. Þjóðin hefur með henni reynt að fela fyrir sjálfri sér rekstrarhallann á atvinnuvegunum. Í meira en 5 ár hefur það verið sannfæring mín, að í stað niðurgreiðslnanna hefði átt að taka landbúnaðarafurðirnar út úr vísitölunni og greiða á þær sömu verðlagsuppbót og kaupið. Þessi aðferð hlaut að vinna gegn þeirri óeðlilegu samkeppni milli kaupgjaldsins og afurðaverðsins, sem átt hefur sér stað síðari árin. En ég hef verið svo að segja einn um þessa skoðun. Hún hefur engan byr fengið í neinum flokki. Samt sem áður er ég ekki fjarri að ætla, að til þessa ráðs verði að síðustu gripið. Í tíð fyrrv. stj. ávannst að vísu nokkuð í þessu efni. Þá var hætt að greiða niður nema nokkurn hluta af kjötverðinu, auk nokkurra smálagfæringa í sambandi við sumarverð o.fl. En á síðasta ári var aftur gripið til niðurgreiðslnanna í ríkari mæli en nokkru sinni áður. Var það gert í sambandi við tilraunir stj. til að halda vísitölunni í skefjum. Segja má, að takmarkinu væri náð með niðurgreiðslunum fram til ársloka 1946. En þegar fiskverðið féll á brezka markaðnum, kom að því, að niðurgreiðslurnar nægðu eigi til þess, að bátaútvegurinn gæti borið sig. Var þá gripið til þess ráðs að ábyrgjast bátunum tiltekið lágmarksverð fyrir fiskinn. Í annað sinn var reynt að fela fyrir sér, að annar stærsti atvinnuvegurinn var kominn út af heilbrigðum rekstrargrundvelli. Sú ábyrgð hefur þegar kostað ríkissjóðinn yfir 20 millj. króna, og enginn veit, hve mikið hún á eftir að kosta hann. Það er óbifanleg sannfæring mín, að í þessum málum báðum sé skakkt stefnt. Og ég held, að stefnan sé jafnskökk, hvort sem litið er á hana frá sjónarmiði atvinnuveganna eða ríkissjóðs.

Fyrir atvinnuvegina er það áreiðanlega hollast, að þeir geti staðið að öllu leyti á eigin fótum. Það hlýtur óhjákvæmilega þegar til lengdar lætur að veikja ábyrgðartilfinningu atvinnurekandans og áhuga hans fyrir að ná góðri rekstrarafkomu, ef hann jafnan getur varpað áhyggjum sínum á ríkissjóðinn. Hitt er þó enn þá öruggara, að fjárreiðum ríkissjóðs verður aldrei haldið í góðu horfi. ef hann á að taka á sig öll töp á atvinnurekstrinum án þess að geta nokkurn tíma haft hagnað af honum. Þá er þó hreinn ríkisrekstur betri, þótt ekki sé góð sú reynsla, sem vér höfum af honum fengið. Hin mikla lausaskuldasöfnun ríkissjóðs á síðasta ári stafar einvörðungu frá þessum tveimur meinsemdum. Ef niðurgreiðslur ríkissjóðs hefðu verið hóflegar á síðasta ári, að maður nú ekki tali um, ef þær hefðu verið niður felldar, og ef ríkissjóður hefði ekki þurft að taka á sig fiskábyrgðirnar, stæði hagur hans enn þá með miklum blóma, þrátt fyrir gífurleg og mikil útgjöld til ýmissa verklegra framkvæmda.

Ég álít, að stærsta og erfiðasta viðfangsefni núv. stj. sé að ráða bót á vissum meinsemdum. Ég veit, að það kostar mikil átök og ef til vill miklar fórnir. En samt verður það að gerast, ef hin nýju tæki eiga að geta orðið oss til þeirrar hagsældar, sem til er ætlazt og vonir hafa staðið til.

Ég sé nú, að ræðutími minn er á þrotum. Áður en ég lýk máli mínu vil ég þá segja það, að það sem ég hef sagt hér síðast, er eigi sett fram í ádeiluskyni á núv. hæstv. ríkisstj. sem ég hef viljað styðja af heilum huga. Það má og segja, að það sæti illa á mér að deila á núv. stj. fyrir niðurgreiðslur og ábyrgðir, þar sem hvort tveggja er, að nokkru leyti að minnstu kosti, illur arfur frá fyrri stjórn eða stjórnum. En um leið og það er viðurkennt, skal á það minnt, að þegar við stjórnarmyndunina 1944 var á það lögð sterk áherzla af fyrrv. forsrh. í stefnuskrárræðu hans og margoft síðar, að ef það sýndi sig, að hin nýju tæki gætu ekki borið sig með því kaupi, sem greitt væri þegar þau væru tekin í notkun, yrði kaupið að laga sig eftir afrakstrinum. Þessi yfirlýsing var samþykkt af fulltrúum beggja verklýðsflokkanna, og ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir, geta þeir illa spyrnt á móti, að gert verði kleift að nota hin nýju tæki á heilbrigðan og eðlilegan hátt.