15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það var fyrir ekki löngu síðan, að um það var rætt meðal þm., að von væri á frv. sem þessu. Nefndu sumir þm. það „bandorminn“. Þegar samþ. var í fjvn. að fella niður 1 millj. kr. styrk samkv. l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, var sýnt, að frv. sem þetta mundi fram koma, til þess að sú ráðabreytni ætti sér stoð í l.

Frv. þetta fjallar um breyt. á þremur lögum. Í fyrsta lagi breyt. á l. nr. 44/1946. Aðaltilgangurinn með setningu þeirrar löggjafar var að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Var því og slegið föstu, hvers konar íbúðir skyldu teljast heilsuspillandi. Enn þá er mikið af bröggum, háaloftum og kjöllurum, sem eru heilsuspillandi og þörf er á að útrýma. Enn fremur var það sýnt, að einstaklingar gátu ekki alls staðar annazt þessar framkvæmdir, og voru því sveitarfélög skylduð til að leggja fram ákveðið fjármagn á móti ríkisframlagi til að standa straum af þessum framkvæmdum. Sveitarstjórnunum var og gert skylt að safna skýrslum um heilsuspillandi húsnæði, en síðan, er l. höfðu náð samþykki, skyldi hefjast handa með útrýmingu slíks húsnæðis. Hér í Reykjavík voru t.d. Skúlagötuhúsin byggð samkv. þessum l. Hversu mikið hefur verið byggt annars staðar, er mér ekki kunnugt um, en því verki að útrýma heilsuspillandi húsnæði er ábyggilega hvergi nærri lokið, hvorki í Rvík né annars staðar á landinu. Í Rvík blasa enn við braggar í tugatali. Hæstv. fjmrh. minntist á þá skyldu ríkissjóðs að lána 75% byggingarkostnað íbúðarhúsa og ræddi það atriði nokkuð. Á fjárlagafrv. eru í þessu augnamiði aðeins ætlaðar 400 þús. kr. Þetta er mjög lágt, þó að fellt sé úr l. ákvæðið um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Er litið er á málefnasamning núv. ríkisstj., finnst ákvæði um húsnæðismálin. Þar segir: „Húsnæðisskorti, hvar sem er á landinu, skal útrýma með byggingu íbúðarhúsa“. Nú er liðið á annað ár frá því hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og nú ætlar hún að nema ákvæðin úr l. um heilsuspillandi húsnæði, þó að enn sé ekki búið að útrýma helmingi þess heilsuspillandi húsnæðis, sem útrýma þarf. Í þessu sambandi má og benda á, að það er ýmislegt í fjárlagafrv., sem telja mætti, að ekki minni ástæða væri til að spara en þessa upphæð, og þess vegna er ekki að furða, þótt það megi teljast undarlegt, er farið er að bera fram hin svo kölluðu bandormsfrv., að þá skuli vera byrjað á þessu.

Um 2. lið frv. þessa skal ég ekki ræða, en hann á einna helzt rétt á sér af þessum þremur liðum, sem hér er um að ræða.

Um 3. liðinn ætla ég að ræða nokkuð. Það hefur verið allmikið um það rætt, að byggja skuli betri grundvöll fyrir framleiðslu á landbúnaðarvörum, sem miði í þá átt, að verð þeirra geti lækkað. Einmitt þessi l., um nýbyggðir og landnám, sem sett voru 1946, gera ráð fyrir meiri átökum í þessum efnum en nokkur önnur l. höfðu áður gert. Sú löggjöf, sem frv. ræðir um, er um nýbyggðir og samvinnubyggðir frá árinu 1936 og l. um byggðarhverfi eða samvinnubyggðir frá árinu 1931. L. um samvinnubyggðir urðu aldrei annað en pappírsgagn sökum þess, að ekki var veitt nægilegt fé til þeirra framkvæmda. Til nokkurs fróðleiks hef ég tekið niður nokkrar tölur úr fjárl. um það, hversu miklu fé hefur verið varið til nýbýla samkv. l. um samvinnubyggðir, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að væru ekki annað en pappírsgagn. Þær tölur eru ekki háar og eru sem hér segir:

1937

180

þús

1938

155

1939

155

1940

260

1941

260

1942

310

1943

300

1944

360

1945–'46 áætlað 360 þús. til. þessara hluta. Það er fyrst árið 1946, að gengið er til átaka í þessum efnum, og eru þá veittar 2.5 millj. kr. til þessa, en nú kemur stjórnarfrv., sem krefst þess, að þessi upphæð verði lækkuð niður í 1.5 millj. kr. Hæstv. fjmrh. tók fram í ræðu sinni, að ekki væri meiningin að praktísera þetta nema í eitt skipti. En er nú ekki nokkur hætta á því, ef þröngt yrði fyrir dyrum næsta ár, að gert yrði hið sama áfram. Þetta er mjög vafasöm fullyrðing hjá hæstv. ráðh., því að hér er um mjög vafasamt fordæmi að ræða, og þótt upphæðin væri hækkuð að mun, en ekki lækkuð, mundi hún í reyndinni reynast of lítil, en ekki of há. Ég get því ekki fylgt þessu frv. Það er meiri ástæða til að spara margt annað, og t.d. er áætlaður kostnaður vegna fjárhagsráðs ekki áætlaður minni en 4 millj. kr. Tveir ráðh. hafa nýlega klagað fjárhagsráð fyrir, hvernig það starfar. Það er ekki síður ástæða til að taka þar ýmislegt til athugunar en að draga úr áhrifum þessarar löggjafar með því að svipta hana fjárframlögum.