29.10.1948
Neðri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Sigfús Sigurhjartarson:

Aðeins örfá orð. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar, sem gefnar hafa verið. En ég vil taka fram, að ég hef enn ekki fengið neinar tæmandi ástæður færðar fram fyrir því, að hælið væri lagt niður í Kaldaðarnesi. Hæstv. menntmrh. nefndi eina ástæðu fyrir því, og ég veit, að hann ber hana fram af því, að honum er ekki betur um þetta kunnugt. En þessi ástæða er byggð á misskilningi. Hann segir, að fáir hafi leitað vistar á hælinu. Nú er honum vafalaust kunnugt um það, að þegar hælið var flutt frá Kumbaravogi, var starfandi fyrir það sérstök stjórn samkv. landslögum. Meðan þessi stjórn hafði með hælið að gera, var alltaf í því fullskipað hvert rúm og margföld eftirspurn eftir hverju rúmi. En við þá menn, sem þurfa á svona vist að halda, þarf þó nokkra lagni og fyrirhöfn til þess að fá þá til þess að fara á svona hæli, þó að þeir séu búnir að sækja um vist þar. Nú var að því ráði horfið að tengja þetta hæli við Kleppshælið, og mér fannst það út af fyrir sig eðlilegt. En það var gert að skilyrði af yfirlækninum á Kleppi, að stjórn hælisins hætti að skipta sér af málum þess. Á þetta var fallizt, þótt ekki væri lögum samkvæmt. Þegar svo yfirlæknirinn á Kleppi tók við hælinu fullskipuðu, þá var það hans fyrsta verk að fara þangað og setja reglur, sem þar skyldu gilda, — og ef þeir, sem þar voru, vildu ekki hlíta þeim reglum í einu og öllu, var til tekið, að þeir gætu farið og yrðu sóttir. Það hafði komið fyrir, að vistmenn þarna höfðu farið, en voru samkvæmt gildandi lögum sóttir aftur. Þetta leiddi til þess, að allir, sem á hælinu voru, fóru. Síðan tók læknirinn upp þá aðferð, að hann vildi fá 5–8 menn á hælið, og þeir áttu að koma á einum og sama degi, og þeir áttu líka að fara á einum og sama degi. Með þessu móti er ekki hægt að halda mönnum á drykkjumannahæli. Ég veit, að allir, sem um þetta hafa hugsað, vita, að það er rétt. Þannig atvikaðist það, að aðsókn að hælinu var lítil. Það má segja, að orsökin sé kannske sú, að yfirlæknirinn á Kleppi hafi litið svo á, að þetta ætti fyrst og fremst að vera lækningahæli. En mér hefur fundizt eðlilegt, að það væri fyrst og fremst gæzluheimili. Ég tel, að það hafi marga kosti til þess, m.a. að þar eru ótæmandi verkefni til starfs við að reisa þessa jörð úr rústum.

Sem sagt, þetta er á misskilningi byggt, að það hafi þurft að leggja hælið niður, af því að engin eftirspurn hafi verið eftir vist þar. Það var ekki aðsókn á þeim tíma, sem læknirinn vildi fá hana, og ekki á þann hátt, sem hann vildi hafa hana, því að hann vildi útiloka þá, sem verst voru farnir. Ég held, að það hefði verið skynsamlegt að hugsa sér að hafa þarna ekki aðra en þá, sem verst voru farnir, og stækka þann vísi, sem þarna var þegar kominn. Hefði það verið gert, hygg ég, að við værum nú betur staddir í þessum málum og að myndarlegt hæli væri komið fyrir þessa menn.

Hæstv. atvmrh. skýrði málið frá sinni hlið. Hann kom austur og fannst líkt og mér, þegar ég kom þangað, því að mér rann til rifja að sjá, hvernig farið hafði verið með eitt elzta höfuðból Íslands. Það var hörmung að sjá það. Braggarusl um gervallt túnið, sem áður hafði verið um 1.000 hesta tún, og engjarnar verulega skemmdar. Þá fór hann að svipast eftir, hvernig úr þessu mundi mega bæta. Og þá kom honum gott ráð í hug. Það var nefnilega til annað höfuðból enn þá frægara, Skálholt, eða Skálaholt, eins og það var áður nefnt. Ráðið var það, að hann tók ábúandann af Skálholti og lagði þetta merkasta höfuðból landsins í eyði. (Atvmrh.: Nei. — PO: Hver býr þar? Atvmrh.: Skálholtsskóli.) Hann tók það ráð að leggja merkasta höfuðbólið í eyði til að geta reist það næstmerkasta við. En með allri virðingu fyrir hv. 1. þm. Árn. finnst mér, að hann hafi ekki á sinni löngu búskapartíð reist Skálholt úr rústum sem skyldi, og ég hef því ekki mikla von um, að hann reisi Kaldaðarnes úr rústum, þar sem hann er nú líka heldur kominn á efri ár. Að vísu hefur hæstv. ríkisstj. fengið honum þarna nokkuð í hendur, þar sem hann hefur fengið byggingar, sem hafa kostað 750 þús. kr., sem hann getur flutt inn í, þegar hann hverfur frá hinu húsalitla Skálholti. Þetta er einkennileg saga, sem ég skal ekki gera meir að umræðuefni, en ég vona, að báðir hæstv. ráðh. gefi n., sem fær málið til meðferðar, ýtarlega skýrslu um þetta málefni allt.

Hæstv. landbrh. segir, að Kaldaðarnes sé ekki vel fallið til þessarar starfsemi. Mér þykir það kynlegt, því að landlæknir og sakadómari völdu þennan stað, og ég held, að hann sé skynsamlega valinn fyrir gæzluhæli, en ekki lækningastofnun.

Ég endurtek það, að ég held, að það hefði átt að halda áfram að efla þessa stofnun, sem var búið að verja svo miklu fé til. Þá ættu ýmsir nú athvarf, sem nú hrekjast í Hafnarstræti eða á Arnarhólstúni, ef ekki hefði verið farið út í þessi einkennilegu höfuðbólskaup hæstv. ráðh.