04.04.1949
Sameinað þing: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

42. mál, fjárlög 1949

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 3. landsk. nokkrar brtt. á þskj. 488 við fjárlagafrv. Fyrst eru brtt. um að veita fé til brúa og lendingarbóta í Norður-Ísafjarðarsýslu. Fjvn. hefur ekki treyst sér til þess að taka upp neina fjárveitingu til brúa í þessu héraði nema smávægilega viðbótargreiðslu til brúa, sem þegar er hafizt handa um að byggja, en hefur hins vegar ekki orðið við óskum okkar flm. þessarar till. um framlag til annarra brúa í héraðinu, ekki einu sinni til brúa, sem þegar hefur verið veitt fé til í fjárl. Við höfum því séð okkur til knúða að flytja brtt. um, að það verði teknar upp tvær brýr. Önnur þeirra er á Selá í Nauteyrarhreppi, sem er eitthvert versta vatnsfall á Vestfjörðum og þegar hefur verið veitt nokkurt fé til, og Múlaá í Ísafirði, sem ekki hefur verið veitt fé til áður. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa brtt. Það er mjög brýn nauðsyn, sem liggur til grundvallar fyrir þessari brtt., og ég tel það mjög illa farið, að fjvn. skuli ekki reyna að halda í horfinu um þær brýr, sem þegar er farið að veita fé til, því að í því felst raunverulega ákvörðun um, að fé sé veitt til brúarinnar, þar sem ekki er hægt að hefjast handa og leysa úr þeim vandræðum, sem af því leiðir, að þetta vatnsfall er óbrúað.

2. brtt. okkar hv. 3. landsk. er á þskj. 488, VIII, að í staðinn fyrir 40 þús. komi 100 þús. kr. til bryggjugerðar í Hnífsdal. Áætlun hefur verið gerð um framlengingu þessarar bryggju, og er kostnaðurinn við framlenginguna áætlaður 320 þús. kr. Á síðasta ári voru veittar 50 þús. kr., en af því voru dregin 35%, svo að greiddar voru úr ríkissjóði 32.500 kr., og fyrir það fé var unnið að því að steypa ker, sem átti að framlengja bryggjuna með. Það, sem á vantar frá ríkissjóðs hálfu, til þess að hægt sé að ljúka þessu verki á næsta sumri, eins og brýna nauðsyn ber til, er 127.500 kr. Við flm. biðjum hér um 100 þús. kr. Ég óttast, ef svo illa færi, að þetta framlag yrði ekki samþ., að það mundi stöðva framkvæmdir við þetta mannvirki á næsta ári, og þess vegna höfum við lagt til að hækka fjárveitinguna upp í 100 þús. kr. Ég vil geta þess, að þetta byggðarlag, Hnífsdalur, hefur sýnt sérstakan dugnað í því að koma upp þessu hafnarmannvirki, og jafnvel útgerðarmenn hafa lagt fram fé úr eigin vasa til þess að hreppnum yrði gert kleift að standa undir þeim útgjöldum, sem honum bar. Ég vil einnig geta þess, að útgerðin á þessum stað hefur vaxið. Þar eru ungir og dugmiklir sjómenn, sem mikils er um vert fyrir byggðarlagið, að geti haldizt þar við áfram. En ef svo á að vera áfram, að þetta hafnarmannvirki verði ófullgert, eru litlar líkur til, að svo geti orðið.

3. brtt., sem við hv. 3. landsk. höfum flutt á þessu sama þskj., er við 22. gr., að greiða Pétri Jónatanssyni í Engidal 12 þús. kr. skaðabætur vegna langvarandi sóttkvíar. Hv. þm. munu kannast við þetta mál. Á síðasta þingi var samþ. heimild til handa ríkisstj. að greiða öðrum bónda líkar bætur, en fyrir þessum manni stendur að öllu leyti eins á. Hv. þm. kann að finnast einkennilegt, að flutt skuli vera nú í annað sinn till. um sama efni, en það kemur til af því, að okkur flm. var ekki kunnugt um þetta, og okkur hafði engin ósk borizt frá þessum manni, sem við nú flytjum brtt. um, að þetta tjón verði bætt. Við sáum ekki annað fært en leggja til, að honum yrði gert jafnhátt undir höfði og hinum bóndanum, þar sem hann hefur beðið mjög tilfinnanlegt tjón, mjög svipað og sá bóndi, sem Alþingi samþ. í fyrra að greiða bætur. Við væntum því, að hv. þm. ljái þessu máli lið.

Þá leggjum við til, að ríkisstj. verði heimilað að verja 50 þús. kr. til bjargráðaráðstafana í Grunnavíkur- og Sléttuhreppum. Ég þarf ekki að rekja rök þessarar till. Hv. þm. er kunnugt, að í þessum tveimur hreppum, sérstaklega öðrum, Sléttuhreppi, eru mjög sérstakar ástæður. Þar hefur orðið á skömmum tíma svo að segja hrein landauðn, og þeim, sem eftir búa, skapast margháttaðir örðugleikar við þá breyt. Í Grunnavíkurhreppi hafa að vísu ekki gerzt svipaðir hlutir, og þar eru margir menn; sem vilja búa þar á sínum jörðum. Þar eru jafnvel ungir bændur, sem eru að hefja þar búskap. Og þegar á það er litið, að skilyrði til búskapar eru þar að mörgu leyti góð, þá höfum við flm. þessarar till. viljað reyna að stuðla að því að veita aðstoð þessu fólki, sem þarna vill búa og berjast við þá örðugleika og einangrun, sem þarna er um að ræða. Ég held, að það sé ekki skapað hættulegt fordæmi með því að samþ. brtt. eins og þessa. Á síðasta þingi fluttum við brtt. við sömu gr. um nokkurt framlag til úrbóta í þessu skyni. Hún var að vísu tekin aftur, og hæstv. fjmrh. gaf yfirlýsingu um það, að þegar ástæður hefðu verið rannsakaðar á þessum stað og till. gerðar um það af þar til kvöddum mönnum af sýslunefnd Ísafjarðar og ríkisstj., þá taldi hann mögulegt að leggja fram nokkurt fé í þessu skyni. Nú hefur þessi rannsókn farið fram af hálfu n., sem sýslunefndin skipaði og einn maður af hálfu fjmrn. Ég sé ekki ástæðu til að rekja álit þeirrar n. hér, en það hefur verið sent þinginu til álits, og hv. þm. eiga að því greiðan gang. Ég tel, að þessi lítilfjörlega fjárhæð, sem við leggjum til, að stj. verði heimilað að greiða, geti komið að gagni og sé ekki kastað í sjóinn, þar sem vitað er, að á þessum stöðum er rekinn þróttmikill búskapur og enn fremur sóttur sjór. Þar hafa verið gerðar framkvæmdir, sem leggja grundvöll að bættum afkomuskilyrðum og hafa bætt aðstöðu fólksins í baráttu þess fyrir afkomu sinni. Þar hefur verið lagður vegarspotti kringum Grunnavík. Þar hefur verið byggð bátabryggja og sæmileg aðstaða sköpuð til útræðis á smábátum. Ég tel því eðlilegt, að þessi fjárveiting verði veitt.

Þá er e-liður þessarar brtt., að heimila ríkisstj. að verja allt að 30 þús. kr. til kaupa á snjóbil til samgöngubóta fyrir byggðina norðan Skorarheiðar í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þessi byggð norðan Skorarheiðar mun vera ein einangraðasta byggð á Íslandi. Fólkið, sem þar býr, hefur við mjög mikla örðugleika að stríða um alla flutninga að sér og frá. Það er hugmynd okkar, sem við höfum einnig rætt við menn norður þar, að nota eitthvað af því fé, sem fengist samkvæmt b-lið brtt., til að ryðja veg yfir þessa heiði, sem er mjög stutt og ekki mjög há, og síðan leysa flutningaþörfina að vetrarlagi með því að hafa snjóbíl, sem gengi úr botni Jökulfjarða, frá Hrafnsfjarðareyri og yfir í Furufjörð, en þar er meginbyggðin. Ég held, að þetta væri tilraun, sem fyllilega væri þess verð, að væri gerð. Þarna fyrir norðan heiði eru einir átta búendur, sem hafa ágæt bú. Þeir framleiða talsvert mikið af landbúnaðarafurðum og hafa eitthvert vænsta sauðfé, sem til er á Íslandi, og sérstaklega góðan fjárstofn. Þetta er þrekmikið dugnaðarfólk, sem hefur ekki bugazt af þeim örðugleikum, sem einangrun og samgönguleysi hefur búið þeim á öllum tímum. Ég held, að þetta væri merkileg tilraun til að leysa vandamál einnar afskekktustu byggðar Íslands. Ég treysti því, að hv. þm. líti á þessa nauðsyn og samþ. þessa breyt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að gera þessar brtt. að umtalsefni. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég hef iðulega sagt við fjárlagaumr. hér á þingi í sambandi við Norður-Ísafjarðarsýslu, að þetta hérað hefur, að ég ætla, nokkra sérstöðu meðal héraða hér á landi, ef ekki algera sérstöðu. Þetta hérað er svo að segja algerlega vegalaust. Það hefur verið unnið að því nokkur undanfarin ár að skapa akvegasamband milli sjávarþorpanna við sunnanvert og utanvert Ísafjarðardjúp, og standa vonir til þess, að því verki verði komið svo langt á næsta sumri, að akvegasamband skapist frá Bolungavík um Ísafjörð og inn til Súðavíkur, en ekki er það þó með öllu víst. Þetta þýðir gífurlega breytingu til batnaðar í samgöngumálum, félagslífi og öllu starfi fólksins í þessum þorpum, sem eru allstórvirkir framleiðendur útflutningsarfurða. En þetta hefur sáralitla þýðingu fyrir sveitirnar í héraðinu. Þær eru eftir sem áður svo að segja vegalausar. Það hafði að vísu allmikla þýðingu fyrir héraðið í heild, þegar akvegur skapaðist yfir Þorskafjarðarheiði að Ísafjarðardjúpi. Sá vegur hefur verið framlengdur nokkuð um hreppinn, sem vegurinn kemur í, Nauteyrarhrepp, en sem framleiðsluvegur og afurðaflutningsvegur kemur hann samt sem áður að tiltölulega litlu gagni.

Það, sem nú er fram undan í vegamálum þessa héraðs, er að skapa samfellt akvegasamband út með Ísafjarðardjúpinu að norðvestanverðu, fá vegasamband milli landbúnaðarbyggðanna inn með Djúpinu að vestan og norðan og markaðssvæðisins í þorpunum. Þetta er það verkefni, sem fram undan er og óumflýjanlegt að leysa á næstu árum. Ég veit, að ég þarf ekki að fjölyrða um það við hv. þm., hvaða þýðingu samgöngur yfirleitt hafa fyrir sveitir landsins og ekki einu sinni sveitir landsins, heldur einnig sjávarsíðuna, því að framleiðsluvegir um sveitirnar og afurðaflutningsvegir eru jafnnauðsynlegir fyrir þorpin sem sveitirnar. Þörfin við Ísafjarðardjúp er hér mikil. Oft er þar mikill skortur á landbúnaðarvörum, einkum mjólk. Jafnvel á Ísafirði, sem er höfuðstaður Vestfjarða, er oft mjög mikill mjólkurskortur. Þess vegna er það lífsnauðsyn fyrir þessi byggðarlög, ekki síður en sveitirnar sjálfar, að fá sem bezt akvegasamband. Ég vildi láta þetta koma fram enn á ný. Þó að mér sé ekki geðþekkur samanburður á fjárframlögum eftir till. fjvn. til einstakra héraða, þá kemst ég ekki hjá að vekja athygli á því, að sérstaða þessa héraðs virðist ekki hafa verið mjög ljós nm. í fjvn., því að ef henni hefði verið sú sérstaða ljós, hefði mátt vænta þess, að þær fjárhæðir væru hærri, sem veittar væru til vegamála í héraðinu. En að við hv. 3. landsk. höfum ekki viljað flytja brtt. til hækkunar við till. fjvn., bendir engan veginn til þess, að við teljum, að þær séu fullnægjandi eða hlutfallslega réttlátar, miðað við það, sem veitt er til annarra héraða, heldur er það af hinu, að okkur er kunnugt, að n. hefur orðið að skera nokkuð meir við nögl fjárveitingar, en hún hefði viljað til þessara framkvæmda, og enn fremur er það nú einu sinni þannig, að það er hér á Alþingi staðreynd, sem við þekkjum, að skipting fjárveitinga til ýmissa framkvæmda fer ekki alltaf eftir því, hvar nauðsynin er brýnust og mest aðkallandi, heldur er það gamalt og úrelt hrossakaupasjónarmið og píringssjónarmið, sem ríkir í n., sjónarmið, sem enginn skynsamlegur grundvöllur er fyrir. Þetta er ekki hægt að komast hjá að segja. Það sjá allir heilvita menn bæði á Alþingi og annars staðar, að þegar farið er að skipta fjárveitingum til vegaframkvæmda eftir héruðum þannig, að reynt er að hafa svipaða fjárhæð til einstakra kjördæma í landinu án tillits til þess, hvernig aðstaðan í vegamálum héraðsins er, þá sjá það allir heilvita menn, að niðurstaða slíkra vinnubragða getur ekki orðið skynsamleg. Þegar vegalaust hérað svo að segja er lagt undir sama mælikvarða og hérað, sem bókstaflega hefur um sig akveganet, þá er það helber vitleysa. Þetta sér náttúrlega hv. fjvn., en úthlutunarsystem hennar er orðið gamalt og erfitt að hrófla við því, og því gengur þetta svona ár eftir ár.

Skal ég ekki fleiri orðum um þetta fara, en vildi aðeins geta einnar brtt., sem ég flyt ásamt fleiri hv. þm., en hún er um það að veita Örlygi Sigurðssyni listmálara 15 þús. kr. byggingarstyrk. Alþingi hefur gert nokkuð að því undanfarið að veita efnilegum, en efnalitlum listamönnum aðstoð til þess að koma upp varanlegum bústöðum fyrir sig og sína, og má segja, að fé, sem varið er í því skyni, sé vel varið. Sá maður, sem hér er lagt til, að fái slíkan styrk, er, eins og ég gat um áðan, Örlygur Sigurðsson listmálari. Hann er sonur hins ágæta og merka skólamanns, Sigurðar Guðmundssonar fyrrv. skólameistara á Akureyri. Hann hefur haft nokkrar sýningar og hlotið góða dóma. Erlendis hefur hann stundað nám og varið til þess miklu fé, og er því fjárhagur hans mjög þröngur og erfitt fyrir hann að fá varanlegt húsnæði. Þess vegna höfum við flutt þessa till., og væntum við þess, að hv. þm. styðji hana og sýni þessum unga, efnilega listamanni sama sóma og svo mörgum öðrum.

Þá vil ég ekki ljúka svo máli mínu, að ég ekki minnist á þá brtt. hv. fjvn., að styrkur til menningarsjóðs blaðamanna verði felldur niður. Ég held þetta sé í þriðja skiptið, sem hv. n. leggur svo til, en að vísu hafa þm. haft vit fyrir henni og fellt það. Ég skal nú upplýsa það, að þessi sjóður er stofnaður fyrir nokkrum árum, og hlutverk hans er að stuðla að aukinni menningu og menntun íslenzkra blaðamanna meðal annars og einkum með því að styrkja þá til utanferða, svo að þeir gætu víkkað sjóndeildarhring sinn og gegnt betur því hlutverki sínu að vera augu og eyru þjóðarinnar og svo að þeir gætu flutt þjóðinni tíðindi og skrifað um hin ýmsu efni, svo sem bezt fullnægði þörf þjóðarinnar á góðum blöðum og aukinni menningu í útgáfu blaða og tímarita. Sjóðurinn hefur þegar veitt nokkrum styrki og býr sig undir að veita fleirum, en það er venja að veita þriggja mánaða utanfararstyrk, þegar viðkomandi hefur unnið hjá blaði sínu í 5 ár. Þetta vildi ég segja hv. þm. og það með, að mér finnst það vægast sagt leiðinlegur blær, þegar hv. fjvn. reynir árlega að fella styrkinn til þessa sjóðs niður. Hún sýnir hin óviðkunnanlegustu músarholusjónarmið með því að leggja þennan sjóð þannig í einelti, og því skora ég á hv. þm. að fella þessa ómenningartill. hv. fjvn.

Aðra brtt. hv. fjvn. vildi ég einnig minnast á, en hún er þess efnis að draga mjög úr dagskrárfé útvarpsins. Ég skal nú viðurkenna sparnaðarviðleitni hv. n. í heild og að hún hefur unnið merkilegt starf, og styð ég stefnu hennar í heild. En ég undrast, hversu erfiðlega hv. n. gengur stundum að greina milli kjarna og hismis, og það er hættuleg braut, sem hv. n. leggur út á, þegar hún leggur þetta til. Þeir, sem til þekkja, vita mætavel, að féð til dagskrárstarfa er hlægilega lítið, miðað við heildarútgjöld ríkisútvarpsins, en til útvarpsins eru hins vegar gerðar stöðugt hærri kröfur um aukinn íburð og fjölbreytni í dagskrá. Menn verða og að gera sér ljóst, að útvarpið er ein þýðingarmesta menningarstofnun þjóðarinnar, og ef mikið er dregið úr dagskrárfé, þá sé ég ekki annað en það þýði stórfelldan samdrátt á allri dagskrárstarfsemi. Ég sé t.d. ekki betur en þá yrði að leggja niður útvarpskórinn draga stórlega úr leikritaflutningi og jafnvel fella niður barnatímana auk ýmislegs annars. Þetta yrðu afleiðingarnar, ef till. hv. n. væri fylgt. Þarna er hv. n. einnig að fara út fyrir verksvið sitt, því að útvarpið stendur undir sér sjálft, og segi ég þetta vegna ummæla hv. þm. Barð., form. fjvn., sem talaði um nauðsyn þess að taka tekjur viðtækjaverzlunarinnar af útvarpinu og leggja þær til ríkissjóðs, en þá óttast ég, að útvarpið yrði baggi á ríkissjóði, og hvað hefði þá áunnizt? En það er eins og hv. n. þoli ekki að sjá sæmilega afkomu hjá nokkurri stofnun án þess að vilja taka tekjurnar af henni og gera hana að nauðleytaaðila hjá ríkissjóði. Þetta er óskynsamlegt, því að ríkissjóður hefur í mörg horn að lita. Eins og ég hef þegar bent á, þýðir samþykkt þessarar till. hv. n. stórfelldan samdrátt á starfsemi ríkisútvarpsins. Þetta vil ég, að hv. þm. viti, enda augljóst, að ekki er hægt að lækka framlagið til dagskrárstarfa um 160 þús. krónur án þess að áhrif þess sjáist eftir. Ég vil og benda á, að útvarpið hefur algera sérstöðu sem menningartæki, og það verður hv. fjvn. að gera sér ljóst. Tilgangur hv. n. með þessari till. er náttúrlega að spara, en það er hægt að spara á ýmsa vegu, og að sjálfsögðu hlýtur þess sjónarmiðs að gæta, að mönnum þyki fráleitt að byrja að spara við þá stofnun, sem maður sjálfur er við riðinn, en ég endurtek það og undirstrika, að ríkisútvarpið hefur algera sérstöðu sem menningarstofnun þessarar þjóðar. Því bið ég hv. þm. að gjalda varhug við þessari till. hv. fjvn. Ég mun ekki hafa hér öllu fleiri orð að sinni, en tilskil mér rétt til að flytja brtt. við 3. umr., bæði um hagsmunamál þess héraðs, sem ég hef umboð fyrir, svo og ýmis önnur mál, ef mér þykir ástæða til.