10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er vitanlegt öllum þm., að ríkisstj. getur kvatt saman Alþ. hvenær sem er, ef hún telur þess þörf. Ég viðurkenni fúslega þau orð þm. Ísaf., að það kæmi sér betur fyrir þá, sem eiga að starfa að framkvæmd fyrir ríkið, að vita, hvað þeim er heimilt að gera, svo að þeir geti hafið undirbúning að þeim störfum. En þessi munur, sem hér um ræðir, breytir bara engu um það.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á, að Framsfl. hefði einu sinni verið þess hvetjandi, að þingið kæmi saman 1. eða 15. sept. Það er rétt. En þessum hv. þm. er það ekki ríkt í huga, af hverju Framsfl. kom með slíka till. Það var þá svo ástatt um mál bændastéttarinnar, að hún var gersamlega háð lögum frá Alþ. um ákvarðanir um kaup og kjör stéttarinnar, svo að ég viðhafi kaupstaðarmálið, ef ég mætti það, þannig að það var gersamlega háð ályktunum þingsins fyrir komandi ár, hvað gerðist í þeim málum. Það varðaði því miklu, að þingið, sem lét mjög til sin taka um þetta mál, kæmi saman, áður en það tímabil væri út runnið, á hverju gilti áður ákveðið verð á afurðum bændastéttarinnar. Ég ætla, að ég muni það rétt, að það tímabil hafi talizt til 15. sept. Og þó að þessi samkomudagur væri þeim mönnum, sem heima áttu úti á landi, óhentugur, af því að þeim var óþægilegt og undir mörgum kringumstæðum mjög óþægilegt að koma saman á þingi til starfa á þeim tíma, þá horfðum við framsóknarmenn ekki í það að leggja þau, óþægindi á nokkra menn, þar sem svo mikið var í húfi fyrir heila stétt og reyndar miklu fleiri, það fólk, sem átti afkomu sína undir því, hvernig búið var að þessari stétt. Og ég ætla, að hv. 2. þm. Reykv. hefði ekki farið að minnast á þetta, ef svo hefði staðið á fyrir þeirri stétt, sem hann telur sig fulltrúa fyrir, í sambandi við þennan samkomudag Alþ. á áminnztum tíma, eins og þá stóð á fyrir bændastétt landsins.

Ég vænti, að hv. þm. sýni þá sanngirni þessu máli, — því að það er ekki annað en sanngirnismál og varðar engu um afgreiðslu fjárl., þó að það muni þessum dögum, hvenær þingið kemur saman, — að þeir samþ. þessa brtt., hafandi það í huga, að ef ríkisstj. þykir þurfa að kalla þingið saman fyrr á árinu, en í brtt. er gert ráð fyrir, þá geri hún það, því að hún getur það alveg eins þótt þessi brtt. verði samþ., og þá verður ekki horft í það, þó að það kunni að verða eitthvað óþægilegt fyrir nokkra þm., því að sé um alþjóðar hagsmuni að ræða, mega ekki hagsmunir einstakra hv. þm. sitja þar í fyrirrúmi.