10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Ég held, að hv. 2. .þm. Reykv. hafi seilzt nokkuð langt til raka með þeirri ræðu, sem hann var að enda, því að rétt þegar ég settist niður, lagði ég á það áherzlu, að ef þjóðarhagsmunir krefðust þess, að þingið kæmi saman jafnvel fyrir 1. sept., þá væri sjálfsagt að fara eftir því og láta það koma saman þá. En ef það að öllu leyti væri meinfangalaust, að þingið kæmi saman tíu dögum síðar, en gert er ráð fyrir í frv., þá skildist mér, að menn gætu ekki haft á móti því, að þessi ákvörðun væri tekin samkv. brtt. Svona röksemdir, eins og komu fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv., eru ekki berandi á borð fyrir nokkurn mann. Hv. þm. hafa heyrt, hvað okkur hv. 2. þm. Reykv. og mín hefur farið á milli hér um þetta mál, og hvernig ég hef rökstutt mitt mál, og sömuleiðis hafa áheyrendur heyrt það. Þess vegna er það ekki rétt af hv. 2. þm. Reykv. að gera sig svona skyni skroppinn eins og kom nú fram í ræðu hans, að það komi fram, að hann viti ekki betur deili á málinu en svo, að hann skuli leyfa sér að bera það fram í ræðu, sem hann hefur nú gert. Og þegar við þekktumst í gamla daga og ég var að leggja grundvöllinn að menntun hans, minnist ég ekki þessa hæfileikaleysis þessa hv. þm. um að bera skyn á mál.