10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það voru nú um tuttugu dagar liðnir af þessu þingi, þegar hv. þm. fengu fjárlagafrv. það, sem liggur fyrir þessu þingi nú, í hendur, og ollu þó veikindi mín því, að það var ekki a.m.k. hálfri annarri viku fyrr lagt fram. Þá komu hljóð úr horni, því sama sem nú, þ.e.a.s. úr sama flokki, um það, að það væri eiginlega ónýtt verk að leggja fram fjárlagafrv. þannig, að það vantaði starfsmannaskrá ríkisins. Það er nú verið að vinna að henni. En þegar um það er að ræða, að fjárlagafrv. var ekki lagt fram fyrr en fyrstu daga nóvember fyrra árs, er það ekki eingöngu sök ríkisstj., að það varð ekki fyrr. Að hinu leytinu hlýtur mönnum að vera það augljóst, að eftir því sem ríkið vefst í fleiru og skiptir sér af fleiri málum, svo sem atvinnumálum, þá er erfiðara um ýmis mál og þar með undirbúning fjárlaga, en áður var. Fjárlfrv. getur mín vegna verið afgr. hvaða dag sem er. Till. mínar liggja fyrir í frv., eins og það liggur fyrir, og hv. þm. þurfa ekki að eyða fleiri vikum, en komnar eru til þess að koma með till. fram í þinginu. — Þetta vil ég taka fram, þegar talað er um það, hvaða óheillir stafi af því, hvað fjárlfrv. kemur seint fram. En það er ekki aðeins innan þingsins, sem orsakirnar er að finna til þess, hve fjárlög eru seint afgreidd, heldur eru stofnanir okkar orðnar svo margar, sem þarf að leita til um upplýsingar vegna fjárlfrv., að það er með herkjubrögðum, að hægt er að koma fjárlfrv. frá stjórnarráðinu á þann veg, sem forsvaranlegt þykir, tveim til þrem vikum eftir að þing kemur saman.