11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er mikið af því, að hv. þm. geri grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls, frv. um samkomudag Alþ., og byggjast þær á aths. um afgreiðslu fjárl., sem hefur verið með áður óvenjulegum hætti á undanförnum nokkrum árum, þar sem við nú t.d. erum að halda þingið fyrir 1948 á árinu 1949 og erum á þeirri sömu stundu, sem við erum að afgr. fjárlög fyrir árið, búnir að stjórna landinu fjárlagalaust nokkuð á annan mánuð. Þetta getur vitanlega komið fyrir af óviðráðanlegum ástæðum, að ekki sé hægt að afgr. fjárlög áður en það ár hefst, sem fjárl. eiga að gilda fyrir. En að það verði að venju, að slíkt ástand ríki í einu landi, er ekki ógeðfellt eða óeðlilegt, eins og hér hefur verið sagt; það er óþolandi. Og það er vegna þess, að fjárl. eru það atriði í löggjöf þingsins, sem langsamlega rammbyggilegast er búið um af stjórnarskrárgjafanum, og það er vegna þess, að stjórnarskrárgjafi sá, sem hefur sett þinginu reglur, telur, að setning þessara laga hafi mest gildi allra laga. Sama máli gegnir um það, að það eru sett ákvæði, sérstaklega ströng, um tekjuöflun fyrir ríkið. — Nú er það meira að segja svo, að þar, sem þingræðið hefur verið í miklum vanda statt, eins og t.d. í Frakklandi, þar ganga þeir svo langt, ef það munar nokkrum mínútum, að þeir geti ekki afgr. fjárlög á réttu ári, að þá stöðva þeir heldur klukkuna þær mínútur eða þá klukkutíma, sem þarf, til þess að láta það ekki koma fyrir, að klukka löggjafarþingsins sýni annan tíma en þann, að fjárlög hafi verið afgr. á réttu ári. Svo miklu þykir þeim þetta skipta, að þeir nota svo einfalda brellu, ef ekki er búið að afgr. fjárl. á réttum tíma, og vitum við þó, að á ýmsu, hefur gengið þar í landi um stjórn og stjórnleysi. — Ég segi þetta sem almennar hugleiðingar, án þess að ég ætli hér að fara að hefja neinar deilur, því að af ásetningi ætla ég undir þessum kringumstæðum að sneiða fram hjá þeim. En eins og ég sagði áðan, tel ég rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, og þá sérstaklega vegna þess, að við þessa umr. eru komnar fram brtt., sem ég vil gera grein fyrir afstöðu minni til. og mundi ég hafa gert það við seinni umr. þessa máls, ef till. hefðu ekki komið fram við þessa umr., og þá hefði ég sennilega borið fram brtt. í svipaða átt eða eins og þær, sem hér eru að koma fram frá tveimur hv. þm.

Í raun og veru er það svo, að þó að menn færi hér fram ýmsar ástæður fyrir því, hvernig fjárlagaafgreiðslan gengur, þá eru ástæðurnar, sem liggja til þess, hvernig fjárlagaafgreiðslan er, í raun og veru miklu einfaldari en hv. þm. vilja vera láta. Sums staðar er það svo á þingum, að menn mega ekki koma með till. um brtt. á útgjaldaliðum fjárl., nema þeir komi jafnframt með till. um það, hvernig eigi að afla tekna fyrir þeim hækkunum á útgjöldum, sem gerðar eru till. um. Svo mjög er fjárlagaafgreiðslan í þeim löndum bundin og það í þeim lögþingum, sem kannske að sumu leyti standa fremst. En þó að þetta sé ekki svona bundið hjá okkur, þá er eitt a.m.k., sem verður að telja lágmark, og það er, að þau fjárlög, sem koma frá ríkisstj. á hverjum tíma, séu þannig úr garði gerð og af svo mikilli einingu frá hennar hendi, eins og hv. þm. Barð. benti hér á, að útgjöld og tekjur séu ákveðin í fjárl. og þau tekjuaukafrv., sem kann að þurfa á hverjum tíma að flytja, séu lögð fram í byrjun þingsins í samræmi við þau útgjöld, sem fram koma till. um í frv.formi. Þetta hefur einatt verið regla hér, enda mönnum auðsætt, ef hv. þm. og aðrir hafa hugsað um það mál, að með öðru móti er ekki hægt að hafa sæmilega afgreiðslu á fjárl. Þetta leiðir svo aftur af sér það, að þm. og fjvn. geta ekki gert breyt. á frv. eins og það liggur fyrir, eða ef þær eru gerðar, verða þær eðlilega innan mjög þröngra takmarka. En nú er þetta hins vegar komið í það horf, að fjárl. eru, þannig, þegar þau koma til Alþ., að útgjöldin eru nokkurn veginn ákveðin, þó að þau séu óákveðin um ýmsa liði, eins og t.d. um verklegar framkvæmdir, sem fjvn. er falið að ganga frá. Og það vantar enn fremur í fjárl., eins og gengið hefur verið frá þeim á síðustu árum, áður en þau hafa verið lögð fram, að gera grein fyrir því, hvernig á að afla tekna til þess að standast útgjöldin, sem ekki voru ákveðin í fyrstu á frv. Það hefur nú upp á siðkastið verið þessi mikli losarabragur á þessu, að fjárl. eru raunverulega samin af fjvn., en ekki ríkisstj. Og þetta hygg ég, að sé losaralegasta fyrirkomulag, sem til er í löggjafarsamkundu einnar þjóðar. Meðan svona er og eins og nú hefur átt sér stað t.d., að það er ekki búið að koma sér niður á það fyrr en nokkrum klukkustundum fyrir jól, hvernig eigi að afla stórkostlegra tekna, tekna, sem nema tugum milljóna kr., í stað þess að á venjulegum löggjafarsamkundum er þetta lagt fram í byrjun þingsins, — meðan svona fer fram, eins og á undanförnum þingum, er útilokað annað, en að það taki svo langan tíma að afgr. fjárlög, að það verði aldrei gert fyrr en á síðustu stundu og þegar komið er langt fram yfir þann tíma, er fjárl. eiga að taka gildi. Ef það er þannig, að ríkisstj. getur ekki komið sér saman um fjárlög, sem hún leggur fyrir Alþ., og í aðalatriðum þá tekjuöflun, sem þarf til þess að standa undir þeim framlögum, sem í fjárl. eru tiltekin, þá er sú stjórn óstarfhæf, og á erfiðum tímum er hún óstarfhæfust allra stjórna. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það, hvort svo er um þá ríkisstj., sem nú situr hér, að hún geti ekki komið sér saman um þessi atriði, eða aðrir ágallar eru á vinnubrögðum í þessu efni, það læt ég hér liggja á milli hluta. En til þess að gera langt mál stutt, mál, sem ástæða væri til að ræða ýtarlega hér á þessari samkundu, þá vil ég segja, að meðan þessi vinnubrögð verða viðhöfð, þá er 1. sept. sem samkomudagur þingsins vitanlega engin trygging fyrir því, að afgreiðslu fjárlaga verði lokið fyrir áramót hverju sinni. En það mætti þó hugsa sér þá breyt., að samkomudagurinn væri ákveðinn 1. sept., vegna þess að með því móti er þó meiri trygging fyrir því, að fjárlög verði þá afgr. á réttum tíma. Það mætti líka hugsa sér að gera þá breyt. á frv. að ákveða þar, að þingið skuli koma saman 11. okt. eða svo snemma, að ríkisstj. telji öruggt, að fjárlög verði afgr. fyrir áramót, sem yrði þá matsatriði ríkisstj., eftir því sem hún hefði komið sér vel saman um fjárlög yfirleitt, bæði gjaldaliði og tekjustofna. því að ef hún gæti gert það og lagt slíkt frv. fyrir Alþ. í byrjun þess, þá þykir mér sennilegt, að samkomudagurinn 11. okt. væri nægilega snemma á árinu. En með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, og vegna þess að ég geri varla ráð fyrir því, að fjárlög verði miklu betur undirbúin næst heldur en þau hafa verið til þessa, þá sé ég mér ekki fært annað, en að greiða atkv. með 1. sept. sem samkomudegi, vegna þess að ég tel meiri tryggingu í því til þess að fjárlög verði afgr. á réttum tíma, en tímaákvörðun frv. eins og það er. Og þeir, sem greiða atkv. með öðrum degi en 1. sept., þeir greiða atkv. að því leyti til samþykkis því, að það ástand haldi áfram, sem verið hefur um afgreiðslu fjárlaga, hve seint þau hafa verið afgr. Og ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með því, að það ástand haldi áfram. Ég mun því greiða atkv. með 1. sept.