11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Í þeim umr., sem hér fara fram um þetta mál og ganga út á það öðrum þræði, að fjárlög séu það seint og illa undirbúin, að ekki sé við hlítandi o.s.frv., þá virðast hv. þm. gleyma því eða ekki kæra sig um að muna eftir því alveg óvenjulega ástandi, sem skapazt hefur hér síðustu árin vegna dýrtíðarinnar og þeirra ráðstafana, sem hún sérstaklega kallar á, ráðstafana, sem grípa óhjákvæmilega inn í afgreiðslu fjárl., og jafnvel undirbúning þeirra. Það eru, sem betur fer, ekki nema fá ár síðan stjórnarvöld landsins og Alþ. hafa átt að mæta slíkum kröfum á það opinbera, sem hafa verið hafðar í frammi, bæði frá hálfu landbúnaðarins og frá hálfu sjávarútvegsins nú undanfarið. Þessar kröfur hafa í för með sér svo stórfelld fjárútlát fyrir ríkið og þegnana í landinu, að það er ekki undarlegt, þó að einhvers staðar gæti þess mjög, að bollaleggingar og rannsóknir ríkisstj. og annarra til að komast fram úr því og finna lausn tefji nokkuð fyrir afgreiðslu og undirbúningi þessa máls. Meðan hér var ekki vandinn annar — eins og t.d. í stjórnartíð þess hv. þm., er síðast talaði — en að stilla upp greinum yfir æðstu stjórn ríkisins, samgöngumál, póstmál, símamál, menntamál og því um líkt, sem hafa legið frá öndverðu í nokkuð föstum formum, og ekkert sérstakt tillit þurfti að taka til óvenjulegra ástæðna í landinu, þá ætla ég, að það hafi verið ólíku hægurinn nær að hafa þessi fjárlög bæði tilbúin í tæka tíð samkv. kröfum stjskr. og líka að gera þau í því formi, að hvorki ríkisstj. né aðrir þyrftu að vera mjög á öndverðum meiði í nokkrum verulegum atriðum um slík fjárlagafrv., eða jafnvel fjárlög, þegar þau hafa verið afgreidd.

Nú hefur það að vísu alltaf verið talið sjálfsagt, að þingið hefði sitt orð að segja um fjárl., og menn hafa í ýmsum greinum flutt fram brtt. við þau á ýmsum stigum afgreiðslu þeirra, eins og vitað er. En ég held, ef hv. þm. vildu athuga þær aðstæður, sem núverandi ríkisstj. sérstaklega hefur átt við að búa í þessum efnum, þá mundu þeir geta séð, — hvort þeir vilja sjá það, skal ég ekki um segja, en mundu geta séð, að hér er ólíku meiri vandi á ferðinni og erfiðara að finna lausn, sem geti birzt í staðgóðum till. fjárl. frá Alþ. en áður hefur verið. Síðastliðið haust sátu útvegsmenn t.d. yfir Alþ. og ríkisstj. með kröfur um alls konar hluti, sem snerta fjárreiður þjóðarinnar, alla tíð fram að hátíðum. Og eins og kunnugt er, þá voru þau viðurlög af þeirra hendi, a.m.k. í orði kveðnu, að atvinnuvegurinn mundi stöðvast, ef ekki fengist sá grundvöllur eða sú lausn, sem þeir fóru fram á. Til þessa varð svo að taka tillit. Og þó að það gengi ekki allan veg þann, sem útvegsmenn óskuðu, þá fór það nú svo, að ríkisstj. og Alþ. komu sér saman um lausn. Ég er ekkert að leggja dóm á það, hvort sú lausn var heppilegust eða óheppilegust af öllum lausnum, sem til mála komu. Það þýðir ekkert héðan af, en það var komið sér saman um lausn, sem þessir menn undu við í bili. Og á annarri greininni var svo hitt, að finna leiðir til þess að dýrtíðarvístalan kæfði þetta ekki allt saman niður. Og þingið hefur ekki fundið enn annan veg en þann, að það snertir ákaflega mikið fjárreiður ríkisins. Allar þær milljónir, sem fara til þess að greiða fyrir landbúnaðarafurðir eða útflutt kjöt, verða ekki gripnar úr loftinu. Hv. þm. Str. hafði ekkert slíkt vandamál á sínum herðum, þegar hann var ráðh. og stýrði hér ríkisstj., og getur þess vegna kannske talað valdsmannslega um óviðunandi vinnubrögð eða stjórnarsamstarf, þó að hann byrjaði á því að segja, að hann ætlaði ekki að vekja deilur. Nei, það var það ekki, ekki að vekja deilur, heldur svona í leiðinni að láta þess getið, að vinnubrögð þingsins væru óviðunandi og stjórnarsamstarfið ófært o.s.frv. — Það eru þessi dýrtíðarmál, sem standa mest í vegi fyrir því, að hægt sé að koma sér saman um að finna leiðir til þess að hægt sé að hafa til frambærileg fjárlög í tæka tíð.

Þegar fjárlagafrv. það, sem fyrir þessu þingi liggur, var borið fram í haust, var það nú ekki nema 20 dögum eftir að þingið settist á rökstóla. Og hefði ég ekki sökum veikinda verið frá bagaður hér um bil í tvær vikur, hefði frv. verið sennilega þeim tíma fyrr fram borið. Og fjárlagafrv. var þá í haust lagt fram í því formi, sem ég taldi farsvaranlegt og rétt. Það var lagt fram með 27 millj. kr. tekjuafgangi og þar með reynt að fara inn á heilbrigðari brautir, að því er snertir uppsetningu frv., en áður hafði verið. Það var gert ráð fyrir að minnka stórlega niðurgreiðslurnar á kjöti og hverfa að því leyti frá því ófremdarástandi, sem er kannske mesta ófremdarástand af öllum niðurgreiðslum, þegar við erum að borga fólkinu úti um allar sveitir kjöt, sem það alls ekki étur, sem hefur leitt til þess, að sumir alþingiskjósendur á Ströndum og annars staðar hafa drepið sínar fáu rollur, til þess að verða aðnjótandi kjötstyrksins á manntalsþingi. Þetta vildi ég afnema. Og fjárlagafrv. er þannig fram sett að, að því er stefnt. Sömuleiðis lýsti ég yfir því í fjárlagaræðunni, að ég teldi, að úr fiskuppbótum mætti mikið draga, að því er snertir framlög úr ríkissjóði, með því að fara inn á aðrar leiðir, a.m.k. að nokkru leyti.

Ég tel þess vegna, að hvað fjmrn. áhrærir, þá hafi legið fyrir að þessu leyti algerlega heilbrigðar till. í þessu máli. Hv. form. fjvn, gat þess og, sem ég að vísu hef áður fengið staðfestingu á frá annarri hlið, en mér þykir mjög vænt um að fá um það yfirlýsingu þessa embættismanns þingsins hér, að fjárlagafrv. hefði nú verið ólikt vandaðra að frágangi öllum en átt hefði sér stað að undanförnu.

Hæstv. forseti þessarar d., 1. þm. Eyf. (BSt), gat þess, að það væri að vísu gott, að fjárlagafrv. væri til í tæka tíð, en mér skildist á orðum hans, að hann teldi það þó mest varða, að fjárl. yrðu skynsamlega afgr., bæði að frv. væri skynsamlega undirbúið og fjárlagaafgreiðslan færi vel úr hendi, en að hitt væri ekki höfuðatriðið, hvort það væri deginum fyrr eða seinna. Ég veit það vel, að þingið breytti mjög aðstöðunni í þessum málum, þegar frv. kom hér til meðferðar. Og það á eftir að sjást, hversu frv. lítur út þegar þingið endanlega gengur frá því, og hverjir þá fást til þess að taka að sér framkvæmd á því. En hitt er víst, að það hafa verið gerðar af hálfu rn. alveg óvenjulega miklar ráðstafanir til þess að fá fram komið niðurskurði á ýmsum útgjaldaliðum. Og það er undir hv. þm. og þar með hv. þm. Str. komið líka, hvort tekið verður þannig á sparnaðartill., sem ríkisstj., og fjmrn. fyrir þess hönd standa að, að þær verða látnar gilda, eða ekki verður tekið í þær. Ef þingið endilega vill halda áfram sömu stefnu, sem á undanförnum árum hefur gilt við afgreiðslu fjárl., og með því að kúga fram nýjar álögur á landsfólkið, þá verður vitaskuld þingviljinn að ráða.

Ég vildi sem sagt vekja athygli á því, að í þessu mikla umtali um afgreiðslu fjárl. og aðfinnslum um það, að þau hefðu verið seinna lögð fram og væru seinna afgr. en áður var, þá virðast allir hv. þm. hafa komið sér saman um að gleyma því, að í viðbót við þau venjulegu útgjöld og í viðbót við að reyna að finna jafnvægi í ríkisbúskapnum á hinu venjulega sviði hans, sem alveg fram að síðustu árum hefur verið breytingalítið í prinsipinu, þá hefur þetta nú á síðustu árum bætzt inn i, að það er verið með sligandi þungar byrðar á fjárhag ríkisins, til þess að bæta upp landbúnaðarafurðirnar, til þess að borga niður það, sem fólkið étur af þeim, til þess að bæta upp fiskinn, sem fluttur er úr landi. Og það eru ekki nein undur, að á meðan þessu er haldið áfram og siglt fullum seglum þá leið, að það vefjist fyrir ýmsum að finna bæði heppilegar leiðir til lausnar og að afgr. fjárlög, sem mæti þessum kröfum öllum að fullu og tryggi hag ríkissjóðs. — Þessar aths. vil ég láta koma hér fram, úr því að umr. eru nú farnar að snúast á þann veg, sem hv. þm. Str. sneri þeim, að ásaka ríkisstj. um undirbúningsleysi í þessum efnum. Fjárl. út af fyrir sig eru aðeins loftvogin, sem sýnir, hvernig veðráttan er hjá þinginu og þjóðinni í þessum efnum. Og þeir, sem fjalla um afgreiðslu þeirra, hvort sem það er heldur ríkisstj. eða fjvn., þeir eru alveg óhjákvæmilega settir í þann vanda, oft á tíðum móti vilja sínum, að finna oft aðrar lausnir á vandamálunum en þeir sjálfir vildu helzt kjósa.

Að því leyti svo, sem snertir samkomudag Alþ., þá verð ég nú að segja, að ég hef ekki trú á því, að það flýti í raun og veru neitt fyrir afgreiðslu fjárl., þó þingið komi saman 1. september. Ég ætla, að það munu flestir þekkja það, hvernig skrifstofuvinnubrögð ganga nú orðið hér að sumri til, bæði á opinberum skrifstofum og öðrum, og ekki hvað sízt á opinberum skrifstofum. Það getur verið, að það komi svo duglegur húsbóndi á það heimili, –og væri það mjög æskilegt, — sem gæti breytt því. En mér er sem ég sjái það, að hinar ýmsu deildir og stofnanir, sem eiga að leggja efnivið í fjárlagafrv., taki nú þann fjörkipp frá því, að yfir þeim hefur orðið að liggja vikum saman fram á harða haust, oft með hótunum, til þess að fá út frá þeim áætlanir og gögn önnur til ríkisstj., — mér er sem ég sjái, að þessar stofnanir fyrir einn pennadrátt hér á Alþ. taki þann fjörkipp og leggist það fast á sveifina í störfum, að þær skili svo fljótt frá sér því, sem þær þurfa að gera, til þess að hægt verði að leggja fram fjárlagafrv. svo að sæmilegt sé, 1. sept. eða um það leyti. Ég verð að segja, að ég hef ekki trú á þessu, og byggi það á þeirri persónulegu reynslu, sem ég hef fengið af þessum efnum þann stutta tíma, sem ég hef fylgzt með því, hvernig þetta gengur, af því að ég hef þurft að fá þetta upplýst, sem rn. verður að fá til þess að undirbúa fjárlagafrv., en getur hins vegar ekki gleypt alveg hrátt, heldur verður líka að leggja vinnu í að vinna úr þessum upplýsingum.

Þegar fjárlagafrv. var lagt hér fram nú síðast, þá var, sérstaklega af hálfu. Framsfl. og þá hv. þm. Str., talið alveg óhæfilegt, að frv. fylgdi ekki starfsmannaskrá ríkisins. En það var þá ekki á það minnzt, þó að þetta fjárlagafrv. væri óvenjulega undirbúið hvað aths. snertir, sem hv. form. fjvn. hefur nú staðfest. En hitt var aftur á móti minnzt mikið á, að það væri ógurlega mikil forsómun af fjmrh. að hafa ekki látið starfsmannaskrá fylgja því. Ég tók þetta til athugunar þann veg, að þessa sömu daga bað ég starfsmenn fjmrn. að ganga nú strax að því að heimta frá öllum stöðum og öðrum rn. starfsskrárupplýsingar, þannig að þessari kröfu gæti nú orðið fullnægt. Og ég held, að mér sé óhætt að segja, að ég hafi í hverri viku síðan tekið þá menn tali, sem hafa það með höndum í fjmrn. að draga þetta saman, og ýtt á þá að kalla saman þessar upplýsingar, og það virðist a.m.k. ekki vera neitt létt verk, því að það eru nú liðnar þessar vikur síðan. Og það er unnið að þessu verki, og mér er sagt, að það sé von á þessari skrá nú um helgina, eða ég setti það upp, og svo geta hv. þm. séð, hversu létt það verk er fyrir þá, sem standa á hverjum tíma í forsvari og draga þarna saman efnivið í starfsmannaskrá ríkisins og í annað, sem snertir afgreiðslu. þessara mála, hversu létt verk er að gera það á skömmum tíma. Sem sagt, á meðan fjárl. voru í sínu gamla formi og pósturinn „vegna dýrtíðar“ var ekki til, heldur aðeins „administrativir“ póstar, svo sem hafnargerðir, vegabætur, menntamál, landbúnaður o.s.frv., þá var öldin öll önnur. Þá þurfti ekki að vera að grúska í tekjuöflunarleiðum til að mæta þeim geipilegu útgjöldum, sem verðbólgan hefur í för með sér.

Þetta sjónarmið vildi ég láta koma fram, úr því að þessi mál hafa verið dregin hér inn í umr. af öðrum. Og ég vildi láta í ljós þá ósk, að þeir, sem eiga að fara með fjármál ríkisins í framtíðinni, losnuðu við að þurfa að leita að tekjustofnum til að láta í dýrtíðarhítina. Það mundi áreiðanlega flýta fyrir æskilegri afgreiðslu fjárlaga.