11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Fjmrh:

(Jóhann Jósefsson): Þetta er falleg og gagnleg kenning, sem hv. þm. Str. hefur komið hér með, byggð á hans eigin reynslu náttúrlega. Væri allt þingið sammála um að létta undir með stj. að viðhalda heilbrigðu fjármálalífi, þá gegndi nokkuð öðru máli. En þegar formaður fjár- og kröfufrekasta flokksins talar þannig, ja, þá er létt fyrir hann að tala. Þegar á aðra hlið stjórninni er látið svo sem menn vilji spara og spara og hrópað á sparnað, en á hinn bóginn eru gerðar þrálátar kröfur um fjárveitingar úr ríkissjóði og lögfest og lögákveðin útgjöld æ ofan í æ, sem ekki er hægt undan að komast, þá er ég nú ekki svo skapi farinn að ég verði mjög hrifinn af kenningu hv. þm. Str. Það hefur sí og æ kveðið við í málgagni hans, að fjármál ríkisins væru í óreiðu og að ég bæri ábyrgð á því, en á hinn bóginn að kröfur bænda og landbúnaðarins væru helgur dómur. Ég man t.d. eftir ögrunarræðu þeirri, sem hv. þm. Str. hélt hér yfir ríkisstj. fyrir ári síðan eða svo, er eitthvað þótti dragast að framkvæma lög um landnám og ræktun, er höfðu í sér fólgnar 5 millj. kr. kröfur á ríkið. Það voru ekki lítil frýjunarorð sem stj, voru valin þá, ef hún stæði sig ekki og borgaði þetta ekki út. Henni var þá vísað sömu leið og nú, að fara, bara fara, ef hún gæti ekki innt þessar greiðslur af hendi. Sem sagt, það má segja um ræður hv. þm. Str. .eins og stendur í vísunni:

Eina heyrði ég vísu, Ari sat á steini, aðra heyrði ég vísu, Ari sat á steini.

Það er alltaf sami inngangurinn og útgangurinn hjá þessum hv. þm.: Ef stjórnin ræður ekki við þetta og þetta, ef hún getur ekki annað og hitt, þá á hún að fara, og búið. — En það er ekki verið að slá á þá strengi, að stéttir og flokkar færi niður kröfur sínar á hendum ríkinu, svo að auðveldara sé að koma fjármálalífinu á heilbrigðari grundvöll og flýta afgreiðslu, fjárl. Nei, það er komið fram með fullu prókúratoissjónarmiði, þegar ríkisfjárhirzlan er annars vegar, þrátt fyrir allar fallegar kenningar.

Hv. þm. Str. sakaði stj. um, að hún hefði enga stefnu í fjármálum. Það er rangt. Hinu skal ég þó ekki neia , að ágreiningur hefur verið um leiðir, en höfuðstefnan er þó sú, — og hún er glögg og enginn ágreiningur um hana, að fjárl. verði að afgreiðast greiðsluhallalaus, og ég hygg, að öllum hv. þm. beri skylda til að stuðla að því. Þegar svo er athugað, hvaða leiðir eigi að fara, þá hefur orðið ofan á að gera ráðstafanir til að fara niðurfærsluleiðina, heldur en að leggja á nýja skatta.

Ég minntist á það áður; að í fjmrn. hefði farið fram athugun og rannsókn í sambandi við sparnað og hefur n. gert ýmsar till. til sparnaðar. Ég vænti þess nú, að þeir, sem bera hag ríkisins mest fyrir brjósti, eins og t.d. hv. þm. Str., finni skylduhvöt hjá sér til að styðja þær till. og yfirleitt stuðla að því, hver eftir sinni getu, að fjárl. verði samþ. skammlaust. Ég vona þetta a.m.k. á meðan ég reyni ekki annað. En reynslan sýnir, að draga verður ályktanir af viðhorfinu á hverjum tíma. Það þarf engan að undra, þó að nokkur seinagangur verði og vandræði hljótist af, þegar horfa þarf á mikla erfiðleika um fjárhagsafkomu þjóðarinnar. En það þurfa allir að leggjast á eitt með að komast yfir þennan vanda. Ég fór ekki langt út í þetta við samningu fjárlagafrv., en ég benti á nauðsynina að draga úr útgjöldum ríkisins og að fundnar yrðu aðrar leiðir til viðreisnar, en að taka sífellt fé úr ríkissjóði. Enn sem komið er hefur Alþ. haldið áfram á sömu leið, en það verður áreiðanlega að hverfa frá þeim ráðum fyrr eða síðar. Verði ekki hægt að finna örugga tekjustofna fyrir ríkissjóð til að standast undir þeim miklu byrðum, sem á hann eru lagðar, þá verður ekki komizt áfram skaðlaust, þegar til lengdar lætur. Ég veit, að það hafa verið erfiðir tímar á Íslandi fyrr en nú, og ég skal ekkert draga úr þeim erfiðleikum, sem ríkissjóður átti vlð að stríða í ráðherratíð Hermanns Jónassonar, hv. þm. Str. En ég held, að það hljóti að vera nokkuð erfitt að bera þá tíma saman við þá tíma, sem nú eru. Margt af því, sem nú er krafizt greiðslu á úr ríkiskassanum, var ekki minnzt á á þeim tíma. Það datt engum í hug árið 1934. En nú skoða menn þetta sem sjálfsagða hluti, sem sjálfsagt og skylt sé að gera. Eitt gleggsta dæmið er frá því í vetur, að bátaútvegurinn neitaði að fara á sjó nema stórfé yrði greitt úr ríkissjóði vegna þeirrar starfsemi. Það hefði sjálfsagt verið reynt að afgreiða fjárl. fyrir jól, hefði slíkt verið unnt. Það er hefð að reyna það. En viðhorfið var nokkuð annað í þetta skiptið. Við reiknuðum með mikilli Hvalfjarðarsíld. Nú leið, og ekki varð neitt af veiði. Var því ekki að furða, þó að nokkuð yrði beðið og séð, hvernig fara mundi um þennan tekjustofn. Það skapaði mikla erfiðleika, og varla er nema von, að einhver bið verði á afgreiðslu fjárl., þegar svona horfir og svona fer. En að þessu öllu slepptu er ekki nema skynsamlegt að reyna að afgr. fjárlög í tæka tíð.