03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

126. mál, lax- og silungsveiði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þá breyt., er gert er ráð fyrir á þskj. 325, en mér þykir rétt að minnast á, að í fyrra ræddi fjvn. við veiðimálastjóra og óskaði eftir að vita, hvort ekki væri hægt að gera breyt. á l., en kostnaðurinn við þau er síðan 1941 orðinn á annað hundrað þús. kr. til mannahalds og húsnæðis, og veiðimálastjóri hefur tjáð n., að mjög sé þörf á auknum fjárframlögum. Veiðimálastjóri var nýlega á fundi fjvn. til þess að ræða við n., og spurðum við hann þá, hvort ekki væru neinar till. um það að afla tekna til þess að mæta þessum kostnaði, sem í ár er 124.650.00 kr. — Ég vildi því minnast á það við hv. frsm., hvort hann vildi ekki fresta umr. nú og hafa samráð við fjvn. um að fá tekjur frá viðkomandi aðilum, eigendum ánna eða veiðimönnum, til þess að minnka kostnað ríkissjóðs og til þess að auka þetta starf. N. hefur því miður orðið að gera till. um að skera niður þessar 124 þús. kr., en veiðimálastjóri telur, að starfinu verði mjög hnekkt, ef ekki er aflað nægilegra tekna til þess. Ég mæli þetta af velvilja, en ef n. sér ekki ástæðu til þess, fer frv. náttúrlega í gegn, en mér þætti hitt eðlilegra.